27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

194. mál, kaupstaður í Kópavogi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er fyrst spurt, hversu hárri fjárhæð mundu nema launagreiðslur ríkissjóðs til bæjarfógeta, skattstjóra og annarra opinberra starfsmanna, ef Kópavogshreppur yrði gerður að kaupstað.

Bæjarfógetar taka laun samkv. 6. fl. launalaga, og laun í þeim flokki nema nú 53877.60 kr., en þess ber að gæta, að umdæmi bæjarfógetans í Hafnarfirði minnkar við stofnun kaupstaðar í Kópavogi, ef til kemur, og dregur því að sjálfsögðu úr útgjöldum þar frá því, sem þau ella verða, og kemur þá á móti þessum kostnaði, sem ég hef nefnt. Skrifstofukostnaðinn treysti ég mér ekki til að áætla, en hann mundi náttúrlega ekki verða mikill í þessu embætti. Ekkert hefur verið ákveðið um það, hvort heimild skattalaga um skipun sérstaks skattstjóra verður notuð, þótt stofnaður yrði kaupstaður í Kópavogi, en geta má þess, að reynslan sýnir, að það er sízt dýrara að hafa skattstjóra en skattanefndir, þegar umdæmin eru orðin stór.

Þá er spurt: Yrði ekki óhjákvæmilegt að reisa eða kaupa embættisbústað bæjarfógeta í kaupstaðnum?

Um þetta efni höfum við í fjmrn. spurt dómsmrn. um þess álit, og því hefur verið svarað með svo hljóðandi bréfi:

„Þetta ráðuneyti skírskotar til bréfs fjmrn., dags. 23. þ. m., þar sem óskað er umsagnar um 2. og 3. lið fyrirspurnar til fjmrh. á þskj. 615 um kostnað ríkissjóðs vegna stofnunar kaupstaðar í Kópavogi.“ En 2. og 3. liður eru um það, hvort ekki yrði óhjákvæmilegt að reisa embættisbústað, og ef svo væri, hvað mikið hann mundi kosta.

„Skal hér með skýrt frá því, að ætla verður, að til þess kæmi, að reisa þyrfti eða kaupa embættisbústað bæjarfógeta, ef stofnaður yrði kaupstaður í Kópavogi. Gera yrði ráð fyrir venjulegri stærð embættisbústaðar, þar sem jafnframt væru embættisskrifstofur. og má ætla hússtærð 126 m2 eða 990 m3, svo sem er í Vík í Mýrdal t. d. Byggingarkostnaður færi eftir almennum byggingarkostnaði á þeim tíma, er bústaðurinn yrði reistur.“

Ég skal geta þess, eins og hv. þingmenn þó væntanlega muna, að það er ákveðið í lögum um embættisbústaði, að þeir skuli byggðir, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum, og það er árlega veitt nokkur fjárhæð á fjárlögum til þess að reisa embættisbústaði.

Loks er spurt: Hversu háum upphæðum næmi annar óhjákvæmilegur kostnaður ríkissjóðs, er leiddi af stofnun kaupstaðar í Kópavogi?

Ég bað skrifstofustjórann í fjmrn. að hafa samband við önnur rn. um þetta, en það er náttúrlega erfitt að bera ábyrgð á því, að svör við þessu séu algerlega tæmandi, því að til þess þyrfti að fara í gegnum svo og svo marga lagabálka. En ég hygg þó, að þeir embættismenn, sem hér eiga hlut að máli, fari nokkuð nærri um þetta. M. a. leituðum við til félmrn., sem er þessum málum kunnugt, sérstaklega félagsmálalöggjöfinni, og svar félmrn. var, að varðandi þau mál, sem undir það rn. heyra og snerta 4. fyrirspurnaratriðið, fái rn. ekki séð að neinar breytingar, er máli skipta, mundu verða við stofnun kaupstaðar í Kópavogi frá því, sem nú er.

Þá skal loks tekið fram, að kaupstaðir eiga rétt á, að ríkið greiði 1/6 lögreglukostnaðar, þó eigi fyrr en einn lögregluþjónn kemur á hverja 700 íbúa.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég, eftir að hafa talað við embættismennina, get frekast veitt um þetta mál.