27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

194. mál, kaupstaður í Kópavogi

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf. Þær voru að vísu ekki tæmandi og kannske varla við því að búast á þessu stigi málsins. Þó verður séð á þeim, að einhverjum smápinklum verður að bæta á Skjónu, ef kaupstaður verður stofnaður þarna. Ég sé nú ekki betur en embættisbústaðurinn einn, sem telja verður nauðsynlegt að reisa þarna, þar sem ekkert er fyrir af slíku tagi, embættisbústaður bæjarfógetaembættisins muni kosta ekki minna en hálfa milljón. Annars ætla ég ekki að fara að ræða frekar um þessi atriði að sinni, en vil endurtaka þakklæti mitt til ráðherrans fyrir veittar upplýsingar.