27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

194. mál, kaupstaður í Kópavogi

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að nota einu sinni þær fimm mínútur, sem mér mundi vera heimilt, til þess að ræða um þessa hlið þessa máls. En ég vil aðeins segja hæstv. fjmrh. og öðrum, að hvað sem sagt kann að vera þessa dagana um vilja íbúanna í Kópavogshreppi um stofnun kaupstaðar þar nú, þá er það víst, að það er vilji meiri hluta íbúanna í Kópavogshreppi, að byggðin þar verði sameinuð Reykjavík og það fyrr en seinna. Það er leið heilbrigðrar skynsemi í þessu máli, og hún verður farin fyrr en seinna. Baráttu fyrir svo augljósri leið verður haldið áfram, og hún verður framkvæmd, svo að öllum kostnaði, sem ríkissjóður kann að leggja í vegna stofnunar sérstakra embætta, bæjarfógeta, skattstjóra o. s. frv., í Kópavogi og bygginga yfir þá, verður kastað á glæ. Og ríkissjóður má reikna með því fullkomlega, að þá embættismenn, sem þar verða búnir til og stofnað embætti fyrir, verði að leysa frá störfum innan fárra ára með fullum launum ævilangt. — Ég vil aðeins segja hæstv. ráðherrum og hv. þingheimi öllum það, að baráttunni fyrir því augljósa sanngirnismáli, sem öll heilbrigð skynsemi mælir með, að Kópavogur verði sameinaður Reykjavík, verður haldið áfram og hún mun verða farin fyrr en seinna.