09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

Almennar stjórnmálaumræður

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Hv. 5. landsk. þm., Emil Jónsson, hefur rætt nokkuð það smámál, sem Alþ. var látið sitja aðgerðalítið og bíða eftír í nær sjö mánuði, þ.e. húsnæðismálafrv. ríkisstjórnarinnar. Þar sem við þjóðvarnarmenn erum í flestum atriðum sammála því, sem þessi hv. þm. sagði um það mál, vil ég ekki þreyta hlustendur á því að endurtaka þau ummæli. Ég vil aðeins geta þess, að við þingmenn Þjóðvarnarflokks Íslands reyndum eins og aðrir þm. stjórnarandstöðunnar að fá fram leiðréttingar og breytingar til bóta á frv. En þó að engar breytingar fengjust gerðar á frv. fyrir óskiljanlegu og óskynsamlegu ofríki stjórnarflokkanna, tókum við þó þann kost að greiða frv. atkv., þegar ekki var um annað að ræða en að samþykkja það óbreytt eða fella það alveg. Gerðum við það af þeirri ástæðu, að í því fólst nokkur von um örlítið hækkuð lán til íbúðarhúsabygginga, sem sannarlega er ekki vanþörf á. Að öðru leyti teljum við frv. bæði lítilfjörlegt og meingallað og ýmis atriði í því stórlega varhugaverð. Skal ég svo láta útrætt um það mál, en mun í þess stað ræða nokkuð þróun og ástand íslenzkra efnahagsmála frá sjónarmiði íslenzks alþýðumanns svo og það, hvort nokkrar leiðir væru þar til breytinga eða bóta.

Það er staðreynd, sem enginn reynir nú orðið að mótmæla, að gífurleg verðbólga, sem stafar af hernaðarframkvæmdum, óhófseyðslu valdhafanna, óeðlilegri verzlunarálagningu og okurstarfsemi, hefur farið vaxandi hér á landi hin síðari ár og er enn í örum vexti. Það er einnig ómótmælanleg staðreynd, að verðgildi gjaldmiðilsins fer af þessum sökum hraðminnkandi, svo að þeir, sem leggja á sig það þjóðnytjaverk að safna sparifé, vakna jafnan fátækari hvern morgun en þeir sofnuðu að kvöldi. Af þessum sökum er þá einnig trausti gjaldmiðilsins og sparnaðarvilja þjóðarinnar stefnt í vísan voða. Það er í þriðja lagi augljós staðreynd, að þessi þróun, sem enginn getur mótmælt að núverandi stjórnarflokkar eru höfundar að og bera ábyrgð á, stefnir að nýrri verðfellingu krónunnar í einhverri mynd á næstu mánuðum, annaðhvort beinni gengisfellingu eða illa dulbúinni með aukningu báta- og togaragjaldeyris. Endalok slíkrar þróunar, fái hún útrás í endurteknum gengisfellingum, þekkjum við frá Þýzkalandi eftir styrjöldina 1914–18, en fyrir smáþjóð, sem er undir járnhæl erlends herveldis, sem vakað hefur eins og gammur yfir landi hennar og beðið eftir hentugu tækifæri og afsökun til að leggja það undir sig að fullu, hefði hún þó enn þá örlagaþrungnari afleiðingar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Fátt mundi íslenzkum almenningi gagnlegra til að átta sig á því, hvort sú mynd, sem ég hef hér brugðið upp af efnahagsmálum okkar, sé okkur sköpuð af æðri máttarvöldum og því óumflýjanleg, en að hafa það til samanburðar, hvernig t.d. heilbrigðir lýðræðissinnaðir vinstri flokkar annarra landa stjórna eða hyggjast stjórna sínum löndum. Sérstaklega væri þetta nytsamlegt, ef sú þjóð og sá flokkur, sem við hefðum til samanburðar, bæri að allra dómi ekki minna skyn á efnahagsmál almennt en þeir flokkar, sem með völd fara hér, og vildi hag og velferð sinnar þjóðar ekki minni né afkomu alþýðustétta síns lands lakari en okkar stjórnarflokkar hag íslenzkrar alþýðu og velferð íslenzkrar þjóðar.

Nú vill svo vel til, að einmitt þessa samanburðar eigum við kost og það á þann veg, að allir ættu að geta verið sammála um, að það væri nokkurt metnaðarmál fyrir íslenzka valdhafa að geta mælt sig við. Verkamannaflokkurinn brezki, sem hyggst berjast til sigurs yfir íhaldsflokknum í kosningunum, sem fram fara þar í landi 26. maí n.k., hefur þegar birt stefnuyfirlýsingu sína og hefur hennar verið getið hér í fréttum. Verkamannaflokkurinn lýsir því sem höfuðverketni sínu, fái hann valdataumana í hendur, að berjast gegn verðbólgu og lækka dýrtíð. Nú vita það allir, að verðbólga og dýrtíð er ekkert viðlíka í Bretlandi og hér. Íslenzka ríkisstj. hefur þegar fengið heimsmet sitt í þeim efnum staðfest á alþjóðavettvangi. Í Bretlandi er engin gengisfelling yfirvofandi, enginn bátagjaldeyrir eða togaragjaldeyrir. Þar búa menn ekki við það skáldlega efnahagsástand, að aðalatvinnuvegum þjóðarinnar sé haldið uppí með ríkisstyrkjum, sem fyrst og fremst eru teknir úr vasa fátækustu stétta þjóðfélagsins. Í Bretlandi annast bankar lánastarfsemi, en ekki okurkarlar, og brezka þingið hefur mér vitanlega ekki enn neyðzt til að skipa neina okurnefnd. Þar í landi lána menn ekki gjaldþrota tuskubúðum milljónir af því fé, sem heilbrigða framleiðslu og framþróun atvinnulífsins skortir umfram allt annað. Í Bretlandi er ekki heldur um það að ræða, að eðlilegir atvinnuvegir þjóðarinnar séu að dragast saman og stöðvast vegna þess, að valdhafarnir séu að auðga sjálfa sig eða flokk sinn á hernámsbraski annarrar þjóðar í landi sínu.

Brezkur alþýðumaður er ekki heldur skattpíndur til þess, að valdhafarnir geti ausið út ríkisfé í atkvæðaveiðar í þeirri von, að það tryggi völd þeirra áfram. Sá er þroski brezku þjóðarinnar, að slíkt mundi hafa öfug áhrif þar í landi. Gjaldmiðill Breta er ekki heldur á góðri leið með að verða verðlaus, svo að sparnaður og sparnaðarvilji þar í landi er ekki drepinn niður með opinberum aðgerðum. En þó að efnahagsástandið í Bretlandi sé svona gerólíkt því, sem hér er, þá hefur Verkamannaflokkurinn brezki samt talið sér það sigurvænlegast að gera baráttuna gegn verðbólgu og dýrtíð að höfuðmáli sínu í kosningunum, sem fram undan eru. Hvað mundi þá, ef hann væri hér á landi? Gæti nú ekki þessi ljósi og umbúðalausi samanburður auðveldað íslenzkum almenningi að gera sér grein fyrir heilbrigði og ábyrgðartilfinningu íslenzkra stjórnmálaflokka? En til að auðvelda þann samanburð enn frekar, skulum við athuga, á hvern hátt Verkamannaflokkurinn brezki telur vænlegast og hagfelldast fyrir alþýðu og framleiðslu Bretlands að berjast gegn verðbólgu og dýrtíð. Tvær höfuðleiðir hefur hann boðað í því efni: Í fyrsta lagi: Að lækka álagningu og afla alþýðustéttum landsins þannig raunhæfra kjarabóta. Í öðru lagi: Að hækka skatta gróðafélaga.

Hefur ríkisstj. Íslands og flokkar hennar reynt þessar leiðir til þess að berjast gegn þeirri geigvænlegu verðbólguþróun og dýrtíð, sem hér er og allir þekkja af eigin reynslu og hlaut óhjákvæmilega að leiða til þess, að fátækustu stéttir þjóðfélagsins gerðu tilraun til að bægja að einhverju leyti frá dyrum sínum, ef stjórnarvöldin veittu þeim enga aðstoð í því efni? Hinar miklu fórnir og sú geigvænlega eldraun, sem sjómenn í Vestmannaeyjum og verkafólk í Rvík og Hafnarfirði hefur orðið að þola síðustu mánuði til að reyna að létta sér ok dýrtíðar og verðbólgu, ber því miður ekki vitni um það, að íslenzka ríkisstj. hafi reynzt sinni þjóð jafnráðholl og Verkamannaflokkur Bretlands sinni þjóð. Hvort íslenzk alþýða hefur í þeirri baráttu, sem ég áðan nefndi, haft erindi sem erfiði, mun ég síðar taka til meðferðar. Hitt er ljóst og ómótmælt af öllum, að um nauðvörn var að ræða vegna sívaxandi verðbólgu og dýrtíðar.

Áður en til verkfalla kom, gerðum við þjóðvarnarmenn okkur ljósa grein fyrir kjarna þess vandamáls, sem íslenzk þjóð á við að stríða, jafnframt því sem við áttuðum okkur á þeim einföldu og augljósu staðreyndum, að með völd í landinu fóru flokkar, sem alþýðustéttirnar gátu ekki treyst, þar sem ráðamenn þessara flokka eru í opinberri pólitískri og efnahagslegri andstöðu við verkamenn, sjómenn, bændur, iðnaðarmenn og aðra launþega. Allir vita, að kostnaðurinn við flokksstarfsemi Sjálfstfl. og Framsfl. er og hefur að verulegu leyti verið borinn uppi af gróða, sem óheilbrigðir verzlunarhættir gáfu í aðra hönd. Ber nýfallinn hæstaréttardómur í svonefndu olíumáli hliðarfyrirtækis SÍS undir yfirstjórn verzlunar- og hermangssérfræðinga Framsóknarflokksins, þeirra Vilhjálms Þórs og Sigurðar Jónassonar, þeim verzlunaraðferðum gleggst vitni. Engan þarf því að undra það, þó að stjórnarflokkunum hér sé ekki hugstætt úrræði Verkamannaflokksins brezka að berjast gegn verðbólgunni með því að lækka álagningu, enda hafa þeir farið þveröfugt að, því að eins og kunnugt er, hafa þeir gefið álagningu alfrjálsa.

Við Þjóðvarnarmenn höfum það einnig hugfast, að í síðustu áramótaræðu sinni hótaði hæstv. forsrh., Ólafur Thors, því umbúðalaust, að tækist alþýðustéttunum að hækka kaup sitt að krónutölu, yrðu slíkar kjarabætur umsvifalaust að engu gerðar með gengisfellingu og samsvarandi ráðstöfunum. Loks er svo öllum, sem nokkuð fylgjast með þjóðmálum, ljóst, að aukin dýrtíð og verðbólga, sem fyrst og fremst gerir þá ríku ríkari, er sízt af öllu alþýðu landsins og framleiðslu til hagsbóta.

Að þessum staðreyndum athuguðum og áður en ein langvinnasta kjarabarátta í sögu þjóðarinnar hófst, lýstum við þjóðvarnarmenn yfir þeirri stefnu okkar, að alþýða landsins ætti aðeins um eina leið að velja til að afla sér raunhæfra kjarabóta, þá leið að beita því feikilega afli, sem samtakamáttur hennar er orðinn, að kröfunni um lækkun dýrtíðar og verðbólgu, lækkun söluskatts, lækkun álagningar og milliliðakostnaðar. Við bentum á þá staðreynd, sem hverjum manni mátti ljós vera, að meðan núverandi ríkisstj. færi með völd í landinu, mundi þeim aðilum, sem borga herkostnað stjórnarflokkanna, leyfast að gera að engu allar kauphækkanir að krónutölu, sem verkalýðnum tækist að afla sér, með hækkunum á milliliðakostnaði og álagningu. Í þessu fólst þó enginn dómur um það, að kauphækkanir að krónutölu gætu ekki verið æskilegar eða nauðsynlegar lægst launuðu starfshópunum, heldur aðeins sú sannfæring, að meðan ekki væri unnt að tryggja varanleika slíkra hækkana með löggjöf og alþýðustéttunum framkvæmd þeirrar löggjafar, yrði engum árangri náð í þessu efni til frambúðar.

Þegar við þjóðvarnarmenn birtum þessa stefnu okkar opinberlega, gerðist það, sem suma sízt grunaði, að Moskvukommúnistar ærðust og kölluðu svík við verkalýðinn. Slíkt er að vísu ekkert nýmæli úr þeirri átt, og má í því sambandi minna á, að Moskvukommúnistar kölluðu núverandi forseta Alþýðusambands Íslands, Hannibal Valdimarsson, verkalýðssvikara eftir desemberverkföllin 1952, en hann beitti sér þá fyrir því, að hin svokallaða lækkunarleið var upp tekin í fyrsta skipti í verkfalli, sú sama leið og við þjóðvarnarmenn héldum fram nú, þó að við útfærðum hana samkvæmt fenginni reynslu.

Í rökréttu framhaldi af þessari stefnu okkar þjóðvarnarmanna bárum við þingmenn Þjóðvfl. fram frv. til laga um lækkun verðlags. Þetta frv. lögðum við fram á Alþingi mánuði áður en þau verkföll hófust, sem nú er nýlega lokið. Meginatriði þessa frv. okkar um lækkun verðlags voru þrjú og þýddu alger stefnuskipti í efnahagsmálum, miðað við núverandi ástand.

Fyrsta atriði frv. var, að söluskattur skyldi falla niður af öllum vörum í smásölu og þjónustu, en lækka auk þess í heildsölu og falla alveg niður af nokkrum lífsnauðsynjum og framleiðsluvörum. Þau augljósu rök studdu þessa till., að ríkissjóður hefur sízt af öllu til langframa hag af verðbólguþróun, almennu vantrausti á gjaldmiðlinum og efnahagsöngþveiti. Eigi að stöðva þá þróun og koma í veg fyrir gengisfellingu, þá getur það ekki gerzt eingöngu á kostnað fátækustu stétta þjóðfélagsins, heldur verða bæði ríkissjóður og auðstéttirnar að fórna af sínum hlut til að tryggja heilbrigða efnahagsþróun. Einnig má benda á það, að síðustu árin hefur ríkissjóður haft um og yfir 100 millj. kr. tekjur árlega umfram fjárlög og gæti því sannarlega lækkað tekjur sínar af söluskatti um 50–60 millj. kr. árlega til að tryggja heilbrigða efnahagsþróun í þjóðfélaginu og ber auk þess rík skylda til að gera það. Þá er það og staðreynd, að hagnaður ríkissjóðs af almennum verðlækkunum mundi að verulegu leyti bæta upp missi á hluta af söluskattinum. Það er einnig veigamikið atriði í þessu sambandi, að raunverulegar kjarabætur almennings af þessum ráðstöfunum mundu verða til muna meiri en þær 50–60 millj. kr., sem ríkissjóður tapaði, vegna þess að þeir, sem innheimta söluskattinn, gera hann sumir hverjir að tekjulind fyrir sjálfa sig í stað þess að skila skattinum í ríkissjóð.

Annað meginatriði frv. okkar þm. Þjóðvfl. var það, að álagning skyldi lækka og tekið upp verðlagseftirlit á öllum innfluttum vörum og innlendum iðnaðarvörum, en auk þess skyldi heimilt að ákveða hvers konar verðlag, sem ekki væri bundið samningum eða öðrum lögum. Við sýndum fram á það með dæmum úr skýrslu verðgæzlustjóra, hversu gífurlega álagning hefði hækkað frá því hún var gefin frjáls. Með því að lækka þessa óhófsálagningu aftur, gætu allar alþýðustéttir landsins til sjávar og sveita öðlazt meiri raunhæfar kjarabætur, meiri raunverulegar kauphækkanir en með nokkru öðru móti án þess að fórna nokkru af sínum allt of rýra hlut, ef Alþingi hefði viljað á frv. okkar fallast.

Hvað sem um nytsemi verðlagseftirlits má segja á þeim tímum, þegar um vöruskort og svartan markað er að ræða, verður þó ekki um það deilt, að á tímum, þegar vöruframboð er nægilegt, en verðlagi haldið uppi af skipulögðum heildarsamtökum þeirra, sem verzlun stunda, þá hefur verðlagseftirlit tilætluð áhrif. Þá hefur reynslan af því verzlunarokri, sem hér hefur átt sér stað síðan álagning var gefin frjáls, þar sem það er jafnvel ekki mjög sjaldgæft, að verzlanir taki okurlán með 40–60% ársvöxtum og bæti ofan á vöruverðið auk alls annars, leitt það í ljós, að óhjákvæmilegt hefði verið að taka upp verðlagseftirlit, ef lækka átti söluskattinn, til þess að tryggja það, að vörurnar lækkuðu í verði sem skattalækkuninni nam, en verzlanir hækkuðu ekki aðeins hina frjálsu álagningu og héldu verðinu óbreyttu. Einnig má á það henda, að ef núverandi stjórnarflokkar meina nokkuð með tali sínu um að gefa innflutning frjálsan, verður ekki hjá því komizt að fara að dæmi Norðmanna og Svía, en þeir hafa að undanförnu hert mjög á verðlagseftirliti og lækkað álagningu til þess að draga úr verðbólguáhrifum og til þess að geta gefið innflutning frjálsan.

Þriðja meginatriðið í frv. okkar þjóðvarnarmanna og algert nýmæli var það, að Alþýðusambandi Íslands yrði fengið verðlagseftirlitið og verðlagsákvarðanir í hendur, en ríkisstj. tilnefndi aðeins einn mann af þremur í verðlagsnefnd. Þessi till. okkar byggðist á því, að við töldum ekki nægilegt að setja lög um raunhæfar kjarabætur til handa alþýðustéttum landsins, meðan núverandi ríkisstj. færi með völd í landinu, heldur yrði einnig að fá heildarsamtökum alþýðunnar framkvæmd þeirrar löggjafar í hendur. Ríkisstjórn þeirra aðila, sem græða á hernáminu, upplýstum og óupplýstum olíumálum, óheilbrigðu verzlunarokri og skattalækkunum gróðafélaga, getur íslenzk alþýða ekki treyst.

Þá er það staðreynd, að alþýðu landsins er það brýnni lífsnauðsyn en öðrum, að vörur séu fluttar til landsins og dreift gegnum verzlanir til almennings með heilbrigðum hætti. Af þeim sökum hlytu verkalýðssamtökin að ákveða verðlag á þann hátt, að einhverjir fengjust til að annast það þjóðnytjastarf að reka heilbrigða verzlun og heilbrigð viðskipti og teldu það ekki lakari atvinnuveg né verri lífsbjargarmöguleika en önnur þau störf, sem í boði væru. Það er því vandséð, að annar aðili en verkalýðssamtökin teldi sér skyldara og nauðsynlegra að koma verðlagsmálunum í það horf, að hagur alls þorra þjóðarinnar yrði sem bezt tryggður.

Með því að samþ. þetta frv. okkar þm. Þjóðvfl. gátu stjórnarflokkarnir forðað því tugmilljónatapi, sem af verkföllunum leiddi, og aflétt þeim sáru fórnum, er þeir, sem í verkfallinu stóðu, lögðu á sig og sína til að reyna að létta á herðum sér ok dýrtíðarinnar. Öllum er ljóst, að stjórnmálaflokkar eins og t.d. Verkamannaflokkurinn brezki eða heilbrigð stjórnarvöld hefðu tekið svona frv. fegins hendi til að forða þjóð sinni frá óbætanlegu tjóni langvinnra verkfalla. En við höfum því miður ekki heilbrigð stjórnarvöld í þessu landi. Með því að samþykkja þetta frv. gátu stjórnarflokkarnir sýnt, að þeir mætu meira hag almennings en gróðamöguleika braskaranna, að þeir mætu meira að draga úr verðbólgunni og skapa traustan og heilbrigðan gjaldmiðil en að stefna efnahagsmálum þjóðarinnar í vísa ófæru. Og stjórnarflokkarnir sýndu það einnig, svo að enginn getur um villzt, hvorn kostinn þeir mátu meira.

Frv. var vísað til nefndar og hefur legið þar á þriðja mánuð án þess að fá afgreiðslu þrátt fyrir ítrekaðar kröfur okkar flm. um, að það yrði tekið til 2. umr. Skylt er að geta þess, að hér eru stjórnarflokkarnir ekki einir um sök, þó að þeirra sé höfuðsökin. Einhverjir skyldu ætla, að flokkar þeir, sem sífellt reyna að kenna sig við verkamenn, hefðu léð því máli lið að lækka söluskatt og okurálagningu og fá Alþýðusambandi Íslands verðlagsákvarðanir og eftirlit í hendur.

Staðreynd er það þó, sem vert er að velta athygli, að bæði Sósfl. og Alþfl. áttu fulltrúa í n. þeirri, sem verðlækkunarfrv. var vísað til. Þeir höfðu ótal tækifæri til að skila séráliti um málið og mæla með samþykkt þess, en Moskvukommúnistar hindruðu það, að fulltrúi Sósfl. skilaði áliti um málið, og hægri kratar, sem að venju höfðu enga stefnu í málinu, en vöguðu frá einni skoðun til annarrar eins og nokkurs konar pólitískir rugguhestar, komu einnig í veg fyrir það, að fulltrúi Alþfl. skilaði áliti um frv. Slík var þá afstaða þessara aðila til þeirra einu raunhæfu kjarabóta, sem alþýða landsins átti kost á að fá, miðað við skipan hins pólitíska valds í landinu nú.

Reynslan varð því sú, að Íslands óhamingja átti enn næg vopn til að hindra það, að snúið yrði að þessu sinni á heilbrigðan veg í íslenzkri efnahagsþróun, en því hef ég rætt þetta mál allýtarlega, að ef takast á að forða algeru efnahagsöngþveiti og glötun efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar, verður fyrr en síðar að fara inn á þá braut, sem frv. okkar þm. Þjóðvfl. miðaði að. Það mál er því og verður mál málanna í íslenzkum innanlandsmálum, lykillinn að heilbrigðri efnahagsþróun og grundvöllur traustrar framleiðslu. Fyrir ofríki Moskvukommúnista bar verkalýðshreyfingin ekki gæfu til að beita samtakamætti sínum til að knýja fram þessa lausn með hinum miklu verkföllum, sem nú eru nýafstaðin. Sú Morgunblaðsfullyrðing kommúnista, að það væri ekki á valdi verkalýðshreyfingarinnar að knýja þessa lausn fram, vegna þess að það væri á valdi Alþingis, en ekki atvinnurekenda að samþykkja hana, var fyrir fram afsönnuð með verkföllunum 1952, þar sem þessi leið var þá að nokkru farin, en afsannaðist einnig í verkfallinu nú, þar sem ríkisstj. var neydd til að auka atvinnuleysistryggingum við almannatryggingarnar, sem er löggjafaratriði, og lofa löggjöf um þær tryggingar á næsta þingi, svo ógeðfelld sem slík vinnubrögð eru þó að lofa fyrir fram afgreiðslu þingmála.

Niðurstaða sex vikna verkfalla, sex vikna óbærilegra fórna verkamanna, varð því sú, að verkamenn fengu 10% kauphækkun að krónutölu, 3 virka daga til viðbótar orlofi, 1% sjúkrabætur, ef þeir verða veikir, og vísitölubinding var afnumin. Síðan lofaði ríkisstj. löggjöf um atvinnuleysistryggingar, og skyldu ríki, bæjar- og sveitarfélög og atvinnurekendur greiða 4% af kaupi verkamanna til þeirra trygginga.

Hinn raunverulegi árangur þessara kjarasamninga er atvinnuleysistryggingarnar. En sárt er til þess að vita, að svo sjálfsagðan hlut skyldi þurfa að knýja fram með sex vikna verkfalli. Nú hafa kommúnistar í túlkun þessara samninga sýnt þá einstöku reikningskúnst að leggja saman allt það, sem um var samið, og reynt að telja mönnum trú um, að kjarabæturnar næmu samtals 17.1%. Það skilja þó allir, að til þess að öðlast 10% kauphækkun yfir árið, þarf verkamaðurinn að hafa atvinnu allt árið, en til þess að fá til viðbótar sem svarar 4% kauphækkun úr atvinnuleysissjóði, þarf hann að vera atvinnulaus nokkurn tíma ársins, en veikur til þess að fá sjúkrabætur. Nú getur einn og sami maður naumast bæði haft atvinnu allt árið og jafnframt verið atvinnulaus, en auk þess veikur. Þó virðast kommúnistar fyllilega gera ráð fyrir þeim möguleika. Hér við bætist svo það, að peningar í atvinnuleysissjóðinn falla ekki af himnum ofan, og er sá sjóður þó góður. Kommúnistar ættu að vita, að bæjar- og sveitarfélög hafa ekki af gildum sjóðum að taka, svo oft hafa þeir borið fram till. um að festa söluskattinn í sessi um langa framtíð með því að gera hann að tekjustofni þessara aðila. Enginn trúir því, að hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, greiði miklar fjárfúlgur úr ríkissjóði án þess að hækka álögur á almenningi. Sannleikurinn er einfaldlega sá, að almenningur, þ. á m. verkamenn sjálfir, verður látinn borga það fé, sem rennur í atvinnuleysissjóðinn, því að atvinnurekendur, aðrir en útflytjendur, munu leggja þann hlut, sem þeir eiga að greiða, ofan á framleiðslu sína, en útflytjendur fá aukinn bátagjaldeyri, sem lagður er á almenning. Það fé, sem rennur í atvinnuleysistryggingarnar, kemur því að nokkru til frádráttar á þeim 10% kauphækkunum, sem verkamenn fengu, en ekki til viðbótar, og hefur nákvæmlega sömu áhrif og samsvarandi skyldusparnaður. Kosturinn við gjaldið til atvinnuleysistrygginganna er sá, að það er lagt á alla eftir framtöldum tekjum, en ekki tekið sem nefskattur eins og gjaldið til almannatrygginganna og væri ástæða til að breyta skatti til almannatrygginganna í sama horf.

Það er svo einnig ljóst nú, sem áður var vitað, að kauphækkun sú, sem verkamenn fengju með þessu móti, yrði aftur tekin. Hækkunin hefur þegar haldið innreið sína og er í engu hlutfalli við 10% kauphækkun verkamanna.

Fyrst reið á vaðið einkaskjólstæðingur ríkisstj., olíuauðvaldið, sem mestan fjandskap sýndi verkamönnum í verkföllunum. Það hefur þegar hækkað vinnu við smurningu bíla um hvorki meira né minna en 40%. Vitað er, að allar vörur, sem lágu við hafnarbakkann meðan á verkfallinu stóð, munu valda stórfelldum verðhækkunum í verzlunum næstu daga. Og þá munu engir ráðherrar stíga í ræðustól á Alþingi með langa útreikninga hagfræðilegra vísindamanna til að lýsa því, hve skaðleg áhrif slíkar hækkanir hafi á efnahagsþróun þjóðarinnar. Þá eru það máttarstoðir núverandi stjórnarflokka, sem eru að græða með því að leggja sömu eða hækkaða álagsprósentu á hærri grundvöll og fá þannig fleiri krónur í sinn vasa. Og ríkisstj. óskar jafnvel ekki eftir því, að einkahagfræðingar hennar lýsi þeim verknaði of nákvæmlega með hagfræðilegum útreikningum.

Nú þarf enginn að hafa mín orð fyrir þessum hækkunum fremur en hann vill. Til er önnur heimild frá aðilum, sem meira ráða um þau efni en ég. Þá heimild er að finna í Morgunblaðinu 3. maí s.l. í forustugrein, þar sem lagt er út af ræðu, sem Bjarni Benediktsson flutti á pólitískum Hvatarfundi að loknum verkföllum. Þar segir svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Í sambandi við þá kauphækkun, sem orðið hefði, væri rangt að tala um kjarabætur,“ sagði ráðherrann. Hækkun á verði landbúnaðarafurða, iðnaðarvara og ýmiss konar þjónustu hlyti að fylgja í kjölfar samninganna, útgjöld ríkisins að vaxa og skattar að hækka. Og enn segir Morgunblaðið orðrétt: „Kommúnistar vissu fyrir fram, að launahækkun nú mundi fyrst og fremst hafa í för með sér aukna hættu á gengisfellingu. Sú hætta blasir nú við.“ — Þetta eru orð Morgunblaðsins.

Af því, sem ég hef hér sagt, er ljóst, að rík var ástæðan fyrir verkföllin til að fara inn á þá braut, sem við þjóðvarnarmenn lögðum til með frv. okkar um lækkun verðlags, en nú er það þjóðinni lífsnauðsyn, eigi hún ekki að tortíma sjálfstæði sínu og sjálfri sér undir erlendu valdi, því að smáþjóð, sem ekki kann að stjórna sjálfri sér, verður ekki látin gera það til langframa; nema önnur tortíming íslenzkrar þjóðar komi fyrr til.