09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

Almennar stjórnmálaumræður

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Alþingi er nú að ljúka störfum. Hefur það átt langa setu að þessu sinni, og liggja til þess eðlilegar orsakir. Fyrir þinginu hafa legið mörg mál, sem ríkisstj. hefur flutt og ýmsir þingmenn. Afgreidd hafa verið á þessu þingi mikilsverð mál og löggjöf samin, sem hefur mikla þýðingu í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar. Er óþarfi að rekja þessi mál hér víð umr., þar sem þau eru kunn af blaðaskrifum og þingfréttum. Önnur orsök til þess, að þingið hefur verið í lengra lagi, er nýafstaðið verkfall, sem eins og kunnugt er stóð í sex vikur. Er augljóst, að þingið gat ekki hætt störfum meðan á verkfallinu stóð og allt var í óvissu um lausn þess og afleiðingar.

Sagt hefur verið, að með verkfallinu væri hafin kjarabarátta fyrir verkamenn og fleiri launþega, en jafnframt mátti lesa um það og heyra frá stjórnarandstæðingum, að verkfallið væri aðallega gert í því skyni að koma ríkisstj. frá völdum. Má segja, að reitt hafi verið hátt til höggs af hendi stjórnarandstöðunnar og stjórn Alþýðusambandsins undir forustu Hannibals Valdimarssonar hafi hugsað sér að vinna að nýju verkefni með því að beita sér fyrir myndun svokallaðrar vinstri stjórnar.

Eðlilegt er, að verkfallið yrði langt, þegar þannig var til þess stofnað. Það var ekki heldur hægt að búast við skjótri lausn verkfallsins, vegna þess að gerð var krafa um jafnmikla hækkun, jafnháan hundraðshluta á launum þeirra hæst launuðu og lægst launuðu verkamanna. Mun verkfall aldrei áður hafa verið háð á slíkum forsendum, og má ætla, að lægst launuðu verkamenn hafi nú fengið nauðsynlega reynslu af forustu þeirra manna, sem stóðu fyrir verkfallinu. Munu verkamenn naumast framar trúa slíkum mönnum fyrir málefnum sínum, þegar þeir telja sig þurfa að fá kjörin bætt.

Í sambandi við verkfallið ræddi stjórnarandstaðan nokkuð um verðlagsmálin. Þeir heimtuðu verðlækkun á ýmsum vörum, verðlagseftirlit og lækkaða dýrtíð, eins og þeir orðuðu það. Þetta hjal stjórnarandstæðinga um lækkað verðlag fer illa í þeirra munni, vegna þess að þeir hafa ætíð unnið að því að auka dýrtíðina með yfirboðum, ábyrgðarlausum tillögum, sem bera vitni um fullkomið ráðdeildarleysi, bæði við samningu fjárlaga og við önnur tækifæri. Er það fyrir löngu vitað, að ef till þeirra í fjármálum, viðskiptamálum og atvinnumálum hefðu verið teknar til greina, væri dýrtíðin í landinu með öllu óviðráðanleg. Hér væri þá atvinnuleysi, fátækt og upplausn ríkjandi vegna stöðvunar og kyrrstöðu í atvinnulífinu.

Við lausn verkfallsins 1952 var gert samkomulag um ákveðna álagningu á flestum nauðsynjavörum. Það samkomulag er enn í gildi og því ekki hægt að búast við, að aftur væri vegið í þann knérunn og álagning lækkuð fram yfir það, sem gert var 1952. Er það sameiginlegt álit innflytjenda, kaupmanna og kaupfélaga, að ekki sé unnt að hafa álagninguna lægri á nauðsynjavörunni heldur en um var samið, enda mun kaup verzlunarfólks og kostnaður við verzlunarrekstur hafa hækkað, síðan hið samningsbundna verðlag var ákveðið. Þetta vita stjórnarandstæðingar. Eru kröfur þeirra gerðar með það eitt fyrir augum að sýnast og slá ryki í augu fólksins.

Það er ekki heldur að sjá, að þessir menn vilji nokkuð gera til þess, að verðlagið geti lækkað. Þeir hafa oft verið að tala um hátt olíuverð, og óneitanlega væri æskilegt, að olían gæti lækkað í verði, en þrátt fyrir þetta neituðu forsprakkar verkfallsins um það að losa 3 olíuskip, sem komu hér á meðan á verkfallinu stóð, enda þótt fyrir lægi yfirlýsing um það, að olían úr

þessum skipum yrði ekki notuð fyrr en að verkfallinu loknu, og enda þótt enginn verkamaður þyrfti að vinna við losun skipanna. Þótt skipin hefðu fengið losun, hefði það engin áhrif á gang verkfallsins, en olíufélögin hefðu losnað við að greiða stórar fjárfúlgur í biðpeninga vegna þess, að skipunum var haldið hér. Það er því sök þeirra, sem neituðu nefndum skipum um afgreiðslu, ef olíuverðið getur ekki lækkað.

Þess ber að geta, að verðlagseftirlit er enn starfandi í landinu. Verðlagseftirlitið fylgist með verðlaginu, ekki aðeins á þeim vörum, sem hámarksverð er á, heldur einnig á öðrum vörum. Enda þótt verðlagseftirlit út af fyrir sig tryggi fólki á engan hátt hagstæð verzlunarkjör, þykir eigi að síður rétt og sjálfsagt að fylgjast með verðlagi í landinu, til þess að almenningur viti á hverjum tíma, hvernig verðmynduninni og álagningunni er hagað hverju sinni, ef upplýsinga er óskað í þeim efnum.

Efalaust munu flestir muna þá tíma, þegar hámarksverð var á öllum vörum í landinu. Það getur ekki verið, að fólk hafi gleymt því, hvernig verzlunarkjörin voru á þeim árum. Þá seldi engin verzlun vörur undir hinn lögákveðna verði. Samkeppni var engin á milli verzlana. Eftirspurnin eftir vörunum var miklu meiri en framboðið. Í skjóli verðlagsákvæðanna blómguðust verzlanirnar á þessum tímum, þar sem samkeppni var útilokuð, enda minnist ég þess ekki, að nokkur verzlun hallaðist eða ætti í miklum fjárhagsörðugleikum á þeim tímum. Verðlagseftirlitið, hámarksákvæðin og mikil eftirspurn almennings eftir hinum skammtaða vöruforða sá fyrir því og verndaði kaupsýslumenn gegn flestum fjárhagsáhyggjum á þeim tímum. Þá var vöruvöndun ekki nauðsynleg. Þá var verðlagið ákveðið ofan frá, og verzlanirnar voru öruggar um að selja allt, sem þær höfðu, á hinu lögverndaða verði. Almenningur varð að sæta því að kaupa oft lélegar vörur á háu verði. Verzlunarmálin á þessum tímum voru í mesta ólagi, eins og alltaf þegar höft, vöruskortur og of mikil afskipti hins opinbera eru á þeim málum.

Einstakir haftapostular hafa ósjálfrátt játað, að verðlagseftirlit og hámarksálagning sé ekki nægileg til að tryggja fólkinu góð kjör. Hannibal Valdimarsson segir í grg. í einu þskj. á þessu þingi, að það sé ekki nóg til þess að halda húsaleigunni niðri að ákveða hámarkshúsaleigu, ekkert nægi til þess, að húsaleigan verði lækkuð, annað en að auka húsnæðið. Er einkennilegt, ef þessi þm. og skoðanabræður hans skilja ekki, að sama lögmál gildir um verðlag á vörum og húsnæði. Væri mannlegt af þeim að viðurkenna hreinskilnislega, að ekkert nægi til þess að skapa fólki góð verzlunarkjör annað en hæfileg samkeppni og nægilegt framboð á þeim varningi, sem fólkið þarf að kaupa.

Hin síðari árin hefur verið létt verulega á verzlunarhöftunum. Nóg framboð er nú af neyzluvörum, og fólkið getur valið það bezta og ódýrasta. Nú er komin samkeppni í verðlagi og vörugæðum í staðinn fyrir lögverndað hámarksverð, sem áður gilti. Verzlunarkjörin nú hafa þess vegna stórum batnað. Kaupsýslumennirnir hafa ekki lengur eins rólega daga og þeir höfðu, á meðan verðlagið var ákveðið ofan frá og lítið þurfti fyrir því að hafa að selja vöruna, vegna þess að eftirspurnin eftir hinu takmarkaða vörumagni var meiri en framboðið. Ef kaupsýslumenn vilja undir núverandi kringumstæðum láta verzlunina þrifast, verða þeir að reka hana á samkeppnisfærum grundvelli. Það verður að vanda gæði vörunnar og stilla álagningu í hóf, til þess að viðskiptamaðurinn leiti ekki annað, þar sem verð og vörugæði eru betri.

Staðreyndirnar tala sínu máli. Vitað er, að ýmsar verzlanir eiga nú í fjárhagskröggum, að ein verzlun við beztu verzlunargötu í Reykjavík hefur verið gerð upp, vegna þess að hún þoldi ekki samkeppnina. Útsölurnar, sem fjöldi verzlana hefur haft undanfarið, sanna einnig, að hér er mikil samkeppni í verðlagi og að almenningur hefur vegna þessarar samkeppni átt þess kost oft og tíðum að kaupa með innkaupsverði vörur eða jafnvel fyrir neðan það.

Þá er rétt að minnast lítils háttar á iðnaðarvörur, framleiddar í landinn. Á því sviði nýtur samkeppnin sín og gerir fólki greiðara fyrir að velja og hafna. Áður var öll iðnaðarframleiðsla undir hámarksákvæðum, en nú er aðeins nokkur hluti iðnaðarins háður hámarksverði. Ég tel ástæðu til að nefna hér eitt dæmi af mörgum, sem unnt væri að tilgreina, ef tími væri til. Ein iðnaðarvara var ákveðin með 18% hámarksálagningu. Eftir að álagningin var gefin laus á þessari vörutegund, kom hún á markaðinn með 14.4% álagningu og fékkst einnig á öðrum stað úr annarri verksmiðju með 20% álagningu. Vegna þess að hámarksálagningin er ekki lengur fyrir hendi, gefst fólki nú tækifæri til þess að kaupa þessa vöru með 14.4% álagningu, en meðan hámarksákvæðin voru í gildi, fékkst hún aldrei með minni álagningu en 18%, eins og ákveðið hafði verið af verðlagsyfirvöldunum. Þetta eina dæmi af mörgum sýnir, að verðlagsákvæðin tryggja ekki hagsmuni fólksins, heldur það, að vöruframboðið sé nægilegt og að verðmyndunin eigi sér stað eftir hinu eiginlega lögmáli framboðs og eftirspurnar, sem skapar nauðsynlega samkeppni.

Eðlilegt er, að verzlunar- og verðlagsmál séu rædd og athuguð rækilega af öllum almenningi. Sjálfsagt er fyrir hverja ríkisstj. að stuðla að því eftir fremsta megni að halda dýrtiðinni niðri og tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Nauðsynlegt er að gera allt, sem unnt er til þess að tryggja gengi krónunnar og skapa traust almennings á gjaldmiðlinum. Sé það kappkostað, er unnið að því að efla heilbrigða efnahagsafkomu í landinu.

Enda þótt Alþ. og ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur til þess að vinna gegn verðbólgunni, er hætt við því, að lausn verkfallsins leiði af sér verðhækkanir á ýmsum vörum. Vitað er, að landbúnaðarvörurnar muni hækka af þessari ástæðu. Einnig er hætt við því, að ýmiss konar þjónusta verði einnig að hækka nokkuð af sömu ástæðum. Þannig mun vísitalan hækka, ef niðurgreiðslur ríkissjóðs verða ekki auknar.

Kauphækkanir, sem ákveðnar eru án þess, að útflutningsframleiðslan hafi hækkað í verði, án þess að hagnaður þjóðarbúsins hafi aukizt, verða ekki kjarabót fyrir fólkíð í landinu, heldur tál, sem enginn hefur gagn af og getur leitt til stórtjóns fyrir efnahag þjóðarinnar og atvinnulífið í heild. Það er vissulega æskilegt að bæta kjör þeirra, sem lægst eru launaðir og vinna vel og trúlega að þeim verkum, sem þeim er falið að leysa. Það er einnig athyglisvert og mjög til eftirbreytni að veita verðlaun fyrir mikil vinnuafköst og góða vinnu. Sú nýjung, sem upp hefur verið tekin á tveim vestfirzkum togurum að veita gæðaverðlaun til skipshafnar fyrir góða verkun aflans, miðar að aukinni vöruvöndun og skapar aukin verðmæti, sem þegar til lengdar lætur verður tryggasta og bezta kjarabótin. Þjóðfélag okkar er lítið, og má segja, að hér þekki hver annan. Þess vegna er það, að kjör manna eru jafnari hér en í nokkru öðru landi, og er vissulega ástæða til að fagna því. Menn munu vera sammála um, hvar í flokki sem þeir standa, að stefna beri að því að bæta lífskjörin, þótt menn greini á um leiðir í þeim efnum.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, var gerður stjórnarsamningur um margháttaðar framkvæmdir í landinn, sem miða að því að auka framleiðsluna, efla atvinnulífið og tryggja undirstöðu að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Fjárhagsráð var lagt niður og mönnum gefnir möguleikar til margs konar framkvæmda, sem áður voru háðar leyfi stjórnarvaldanna.

Framkvæmdir hafa verið miklar undanfarin missiri og uppbyggingin til sjávar og sveita verið mikil og ánægjuleg. Allir hafa haft atvinnu, eftir því sem orka og vilji hefur verið til að starfa. Afkoma fólksins hefur því verið og er í samræmi við þetta. Til þess að mögulegt sé að halda slíkum framkvæmdum uppi, þarf ekki einungis mikið fjármagn innanlands, heldur einnig mikið af erlendum gjaldeyri til þess að greiða hinn mikla innflutning, sem af framkvæmdunum leiðir. Þannig hefur byggingarefnisinnflutningur nærri tvöfaldazt síðastliðið ár. Innflutningur véla hefur einnig stórlega aukizt, bæði til landbúnaðar, iðnaðar og annarra atvinnugreina. Bændur hafa fengið innfluttar dráttarvélar í samræmi við eftirspurnina. Vörubifreiðar og aðrar bifreiðar voru einnig fluttar inn á síðastliðnu ári fyrir tugi millj. kr., en undanfarin ár hefur bifreiðainnflutningur verið sáralítill og bifreiðaeign landsmanna þess vegna að verða úrelt og úr sér gengin, miðað við það, að bifreiðin er eina samgöngutækið til almenningsnota í landinu. Það getur ekki talizt „lúxus“ að eiga bifreið fremur en áður að eiga hest til þess að komast ferða sinna. Það er ekki gjaldeyrissparnaður í því að gera út gamlar og slitnar bifreiðar. Gjaldeyriseyðsla fyrir varahluti til slíkra bifreiða er geysimikil. Eins og það borgar sig ekki fyrir einstakling að nota mjög slitinn og gamlan bíl, eins væri það óhagstætt fyrir þjóðarbúið, að allt of mikið af slíkum tækjum sé í rekstri.

Á síðastliðnu ári var hagur togaraútgerðarinnar þannig að áliti nefndar, sem skipuð var mönnum úr öllum flokkum nema Þjóðvfl., að nauðsynlegt væri að styrkja togara með minnst 2 þús. kr. framlagi fyrir hvern úthaldsdag togarans. Þegar rætt var um tekjuöflun í þessu skyni, kom enginn auga á aðra leið heppilegri en þá að leggja sérstakan skatt á innflutta fólksbíla og sendiferðabíla, sem renna skyldi í sérstakan sjóð, sem notaður skyldi til styrktar togurunum. Voru á síðastliðnu ári gefin út innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir nokkrum hundruðum bifreiða til þess að afla fjár í togarasjóðinn, um leið og nauðsynleg endurnýjun bifreiðanna fór fram.

Á yfirstandandi ári munu verða fluttar inn fólks- og sendiferðabílar í sama skyni. Á s.l. ári voru gefin út gjaldeyrisleyfi fyrir hátt á fjórða hundrað vörubifreiðum. Einnig voru gefin út innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir jeppum, en það var ekki nema litill hluti af því, sem bændur óskuðu eftir að kaupa. Á þessu ári munu einnig verða fluttir inn jeppar, og mun úthlutun á þeim verða mun ríflegri en áður. Væri æskilegt að geta gefið innflutning á jeppum frjálsan, eins og innflutningur dráttarvéla er nú, en því miður er ekki unnt að uppfylla óskir bænda um innflutning jeppabifreiða á einu ári. Það var undir forustu sjálfstæðismanna á árunum 1945–1946, sem byrjað var að flytja inn jeppabifreiðar. Ef haldið hefði verið áfram að flytja inn jeppa, eins og sjálfstæðismenn byrjuðu á, væri eftirspurnin eftir þeim minni í dag en nú er.

Þegar bifreiðainnflutningurinn er reiknaður með öðrum innflutningi, sem leiðir af hinum miklu framkvæmdum í landinu, þá skyldi engan undra, þótt innflutningsskýrslurnar sýni háar tölur.

Það hefur einnig verið nauðsynlegt, að því viðbættu, sem áður er talið, að veita innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir nær 60 vélbátum siðan núverandi ríkisstj. tók við völdum. Innflutningur vélbáta undanfarin ár hefur verið sama og enginn, og vélbátafloti landsmanna hafði þess vegna gengið saman og ekki fengið eðlilega aukningu, þar sem bátasmíðar innanlands lágu einnig niðri á þeim tíma. Ríkisstj. hefur unnið að aukningu bátaflotans, eins og sjálfsagt er, og hefur sjútvmrh., Ólafur Thors, beitt sér fyrir ríflegu framlagi til fiskveiðasjóðs í því skyni. Ríkisstj. hefur í huga að auka framleiðsluna með því að bæta við framleiðslutækjum, gera lífsbaráttuna léttari, skapa meiri möguleika og tryggari afkomu þjóðarbúsins.

Í landbúnaðarmálum beitir ríkisstj. sér fyrir því, að ræktun landsins geti aukizt og sú uppbygging og þróun á sviði landbúnaðarmála, sem þegar er hafin, geti haldið áfram. Sjálfstæðismenn á þessu þingi og undanförnum þingum hafa jafnan beitt sér fyrir umbóta- og framfaramálum landhúnaðarins. Frv. og till. hafa sjálfstæðismenn flutt um aukið framlag til ræktunarsjóðs, byggingarsjóðs, veðdeildar Búnaðarbankans og stofnlánasjóðs til frumbýlinga, sem mikil nauðsyn er á að koma á fót fyrir þá, sem byrja búskap í sveitum landsins.

Með húsnæðismálafrv. ríkisstj. er gert ráð fyrir, að byggingarsjóður sveitanna fái ríflegt framlag, svo að auðið verði að halda áfram að byggja íbúðarhús í sveitum á sama hátt og undanfarið. Það vakti athygli við umr. á Alþingi fyrir stuttu, að Alþýðuflokksmenn deildu hart á ríkisstj. fyrir það, að of miklu fé væri varið til uppbyggingar og framfara í sveitum landsins. Það er að vísu ekki nýtt að heyra slíkan þröngsýnissöng úr þeirri átt. Þess vegna undrast ég og margir fleiri, þegar formaður Framsfl. ræðir um það sem óskadraum að mynda stjórn með Alþfl. Það er ástæða til að spyrja: Er það til þess að fá bætta aðstöðu til þess að vinna að málefnum bænda, eða er það ekki aðalatriðið frá sjónarmiði formanns Framsfl.? Ég hef heyrt marga bændur segja sem svo: Hvað meinar maðurinn með vinstristjórnartalinu?

Meðal annarra framfaramála, sem nú er unnið að, eru hinar miklu fyrirætlanir ríkisstj. í raforkumálum. Alþjóð fylgist af áhuga með því, hvernig þeim miðar áfram, og það að vonum, svo mikla þýðingu sem það hefur fyrir allan almenning í landinu, að raforkuframkvæmdum verði hraðað sem mest.

Allar þær miklu framkvæmdir, sem nú er unnið að, hafa það í för með sér, að innflutningurinn og eftirspurnin eftir erlendum gjaldeyri verður mjög mikil. Á árinu 1953 féll Marshallaðstoðin niður, en árin á undan var verzlunarhallinn jafnaður með Marshallframlaginu, lánum frá greiðslubandalagi Evrópu og öðrum duldum gjaldeyristekjum. Á árinu 1954 var útflutningurinn meiri en nokkru sinni fyrr, og batnaði hagur bankanna þess vegna við útlönd þrátt fyrir hinn mikla innflutning á árinu.

Það er stundum rætt um óþarfainnflutning, en ég vil í sambandi við það fullyrða, að það, sem kallaður er óþarfainnflutningur, er óverulegt brot af heildarinnflutningnum. Um þetta geta menn sannfærzt með því að lesa innflutningsskýrslurnar, sem birtast í Hagtíðindunum.

Fjárhagsafkoma ríkisins byggist á því, að gjaldeyris sé aflað og innflutningsmagnið fari ekki minnkandi og allra sízt þær vörur, sem hæst eru tollaðar og stundum eru kallaðar ónauðsynlegar.

Síðan stefna sjálfstæðismanna var upp tekin árið 1950 í fjárhags- og viðskiptamálum, hefur afkoma ríkissjóðs verið góð. Fjárlög hafa verið afgreidd greiðsluhallalaus, og tekjuafgangur hefur verið öll árin síðan. Greiðsluafgangur þessi hefur verið notaður til nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Við sjálfstæðismenn höfum stutt núverandi fjmrh. við afgreiðslu fjárlaga og stuðlað að því, að fjárlögin væru greiðsluhallalaus á hverjum tíma.

Það verður ekki annað sagt en að árferði sé nú gott, ef vinnufriður væri og ekki væri spillt fyrir því, að unnt væri að nota þá möguleika, sem fyrir hendi eru. Aflabrögðin á þeirri vertíð, sem nú er að ljúka, hafa verið góð, en hefðu þó orðið mun betri, ef verkfallið hefði ekki truflað sjósóknina. Það verður að teljast glæpur að hefja verkfall í byrjun vertíðar, og það er ekki þeim, sem fyrir verkfallinu stóðu, að þakka, að ekki varð meiri skaði af því en varð, heldur hinum ýmsu verkalýðsfélögum, sem ekki hlýddu kalli verkfallsstjórnarinnar og neituðu að gera samúðarverkföll, eins og ætlazt var til. Nauðsynlegt er að tryggja það, að verkföllum verði ekki skellt á, nema meiri hlutinn í hverju verkalýðsfélagi sé því meðmæltur. Þess vegna þarf að endurskoða vinnulöggjöfina, ekki til þess að taka réttinn af fólkinu, heldur til þess að tryggja það, að vilji meiri hlutans verði ráðandi.

Á síðustu vertíð hefði orðið metafli, hefðu allir fengið að vinna í friði. Aðstaða landsins út á við hefði stórum batnað og möguleikarnir orðið miklir fyrir því að safna gjaldeyrisvarasjóði fyrir framtíðina. Þrátt fyrir truflanir verkfallsins mun slysi verða forðað, ef sala afurðanna gengur sæmilega að þessu sinni, eins og vonir standa til. Má þá gera ráð fyrir, að gjaldeyristekjurnar verði nægilegar til þess að standa straum af þeim innflutningi, sem ákveðinn er á þessu ári.

Stjórnarandstæðingar tala um verzlunarhalla við útlönd. Vitanlega er sjálfsagt að hafa alla varúð í því efni. En verzlunarhalli er ekki hættulegur, ef unnt er að standa í skilum og jafna hann með duldum gjaldeyristekjum, eins og gert hefur verið fram að þessu.

Í landi, sem verið er að byggja upp eins og Ísland, er ekki óeðlilegt, að nokkur verzlunarhalli sé. En stefna verður að því að gera framleiðsluna það mikla, atvinnulífið það fjölbreytt, að útflutningsverðmæti framleiðslunnar og aðrar eðlilegar gjaldeyristekjur standi undir gjaldeyriseyðslunni. Þetta hefur núverandi ríkisstj. gert sér fyllilega ljóst. Það er þess vegna, sem hún stuðlar að því að auka framleiðsluna í landinu og gera atvinnulífið fjölbreyttara og afkastameira. Þess vegna beita stjórnarflokkarnir sér fyrir rafmagnsframkvæmdum í landinu. Þess vegna er hafin bygging sementsverksmiðju. Þess vegna er fyrirhuguð stækkun áburðarverksmiðjunnar. Þess vegna er aukinn fiskiskipaflotinn. Þess vegna eru byggð frystihús og fiskiðjuver. Þess vegna er unnið að aukinni ræktun landsins og alhliða aukningu framleiðslunnar í landbúnaði, iðnaði, sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum.

Ríkisstj. hefur verið sammála um framkvæmd hinna mörgu og mikilvægu mála, sem nú er unnið að, og er það mikils virði. Er því óeðlilegt, ef annar stjórnarflokkurinn eignar sér flest góðu málin, eins og stundum hefur mátt lesa í Tímanum. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er, að málin komist fram, að alþjóð geti sem fyrst notið góðs af uppbyggingunni og framkvæmdunum.

Meðan stjórnarflokkarnir vinna að alhliða framfaramálum í þjóðfélaginu, vinnur stjórnarandstaðan að því að rýra möguleikana til skjótra framkvæmda hinna mikilsverðu hagsmunamála. Stjórnarandstaðan óttast, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir verði vinsælir, ef þeir koma hinum mikilsverðu málum í framkvæmd. Þess vegna er þeim umhugað um, að málin tefjist, til þess að geta svo haldið því fram, að meiru hafi verið lofað en unnt var að efna. Láti stjórnarflokkarnir stjórnarandstöðuna ekki trufla sig og vinni áfram með festu að lausn málanna, held ég, að tilraunir stjórnarandstöðunnar verði að engu og hin góðu og mörgu mál komist í höfn.

Sjálfstfl. er flokkur allra stétta þjóðfélagsins. Hann er alhliða umbótaflokkur, sem allir frjálslyndir menn geta skipað sér í fylkingu með. Sjálfstæðismenn gera sér grein fyrir því, hversu mikla þýðingu það hefur fyrir framtíð þjóðarinnar, að atvinnutækin verði fullkomin og dreifist þannig um landið, að fólkið úti á landsbyggðinni geti unað við sitt og lifað við ekki lakari lífskjör en fólkið í höfuðstað landsins. Sjálfstæðismenn hafa flutt till. og frumvörp á þessu þingi og öðrum þingum, sem miða að þessu. Till. Sigurðar Bjarnasonar og fleiri um nauðsynina á því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins hefur leitt til þess, að nú starfar mþn. til þess að athuga, á hvern hátt það verði hagkvæmast. Jónas Rafnar og fleiri hafa flutt till. um uppbyggingu iðnaðar víðs vegar um land til þess að tryggja atvinnulífið og koma í veg fyrir, að fólkið flytji burt. Magnús Jónsson og fleiri hafa flutt frv. um atvinnujöfnunarsjóð, sem vert er að gefa gaum og líklega kemst í framkvæmd, áður en langur tími líður.

Það er ekki tími til í þessum umræðum að rekja þingmálin, en þetta, sem hér hefur verið nefnt, er aðeins sýnishorn af áhuga sjálfstæðismanna fyrir framförum og uppbyggingu atvinnulífsins um land allt. Vegna þess að fólkið fylgist nú betur með þingmálum en áður vegna fréttaflutnings útvarps og blaða og hefur reynslu af störfum flokksins, er fullvist, að Sjálfstfl. á vaxandi fylgi með þjóðinni og þá ekki sízt meðal unga fólksins, sem erfir landið og nýtur þess, sem vel er gert til tryggingar fyrir framtíðina. — Góða nótt.