08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

1. mál, fjárlög 1955

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð, sem ég vildi segja, aðallega í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. Hann hefur nú flutt sitt innlegg í þessar fjármálaumr., af hálfu síns flokks væntanlega og af sinni hálfu sem fjmrh. Ég verð að segja það, að í mínum augum var innlegg hans harla lítils virði.

Hæstv. ráðherra reyndi hér enn á ný að neita þeirri staðreynd, að fjármálastefna núverandi ríkisstjórnar og þeirrar ríkisstjórnar, sem hér fór með völd næst á undan þessari, hefði einkennzt af því að leggja sífellt hærri og hærri skatta á landsmenn og auka eftir ýmsum leiðum þannig tekjur ríkissjóðs. Það er alkunna, að hæstv. ráðherra ætlar sér oft æði mikið í þeim efnum að halda því fram, að rétt sé rangt og rangt sé rétt. Þó að tölur liggi fyrir úr hans eigin bókhaldi, sem sanna það, að tekjur ríkissjóðs hafa farið stórum hækkandi á undanförnum árum, þá neitar hann þeim alveg hiklaust. Hann nefnir að vísu ekki oft þær staðreyndir, að ríkisbókhaldið segir, að tekjur ríkissjóðs hafi verið fyrsta árið eftir gengisbreytinguna, árið 1950, 306 millj. kr. og núna fimmta árið eftir gengisbreytinguna, árið 1954, muni ríkistekjurnar verða 550 millj. kr. Hann nefnir ekki oft þessar tölur. En hann skirrist hins vegar ekki við því að segja, að álögur ríkisins á þegna landsins hafi farið lækkandi. Og svo kemur hann með þennan einkennilega prósentureikning sinn, sem hann viðhefur í þessum efnum æ ofan í æ, og ætlar að reyna að telja mönnum trú um það, að raunverulega séu álögurnar á landsmönnum alltaf að lækka.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þær tölur, sem ég legg hér til grundvallar, eru allt saman tölur, sem fram koma í ríkisreikningi eftir að gengisbreytingin var gerð. Munurinn yrði að sjálfsögðu miklum mun meiri, ef teknar yrðu tölur úr reikningi áður en gengisbreytingin var gerð, enda væru þær þá ekki að öllu sambærilegar.

Ef litið er á nokkrar fleiri tölur úr ríkisreikningi, elns og t.d. viðvíkjandi verðtolli, þá segir ríkisreikningurinn 1950, að verðtollur hafi verið innheimtur 58.8 millj. kr. En hvað verður verðtollurinn mikill á þessu ári? Verður hann 58 millj. eins og árið 1950? Nei, hann verður 155 millj. kr. eða þar um bil. Hæstv. fjmrh. er hvergi hræddur að koma fram og segja á eftir ofan í þessar tölur: Auðvitað höfum við verið að lækka tollana. Höfum við ekki afnumið sykurtollinn? Höfum við ekki lækkað kaffitollinn? Og hefur ekki tollskránni verið breytt í nokkrum efnum? Hvernig sem reynt verður að halda á því með slíkum loddarabrögðum sem hæstv. fjmrh. hefur haft hér í frammi, sanna þessar tölur það alveg ótvírætt, að tollaálögurnar á landsmönnum hafa farið hækkandi. Þær hafa farið hækkandi af ýmsum ástæðum, m.a. af þeirri, að nú í seinni tíð hefur stórum aukizt innflutningur á þeim vörutegundum, sem eru í hærri tollflokki. Áður fyrr var þröngt um innflutning á ýmsum vörum og sérstaklega bitnuðu innflutningshömlur á ýmsum tollháum vöruflokkum. Nú hafa hins vegar þessir vöruflokkar verið fluttir inn í stórum stíl, og hefur það vitanlega þýtt í framkvæmd, að tekjur ríkissjóðs hafa stórum hækkað og þær fjárfúlgur, sem landsmenn hafa greitt í ríkissjóðinn, hafa farið hækkandi. Auðvitað hefði þetta, ef eðlilega hefði verið á haldið, veitt ríkissjóði aðstöðu til þess að lina á skattaálögum sínum á skattþegnunum í ýmsum öðrum efnum, ef ekki hefði verið haldið áfram á þeirri braut að hækka í sífellu tekjurnar og auka útgjöldin að sama hlutfalli.

Árið 1950 var söluskatturinn, sem raunverulega verkar alveg eins og tollur, 54 millj. kr., en nú í ár mun söluskatturinn verða 126 millj. kr. Hann hefur meira en tvöfaldazt.

Tilburðir hæstv. ráðherra í þeim einkennilega leik að reyna að halda því fram, að álögur hafi verið lækkaðar á landsmönnum, eru æði skringilegir. Það hefur nokkuð verið vikið að því hér af öðrum ræðumönnum, að hann er að tilnefna ýmsar eftirgjafir, sem eru vægast sagt ákaflega hlægilegar og vega ekki nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Eitt af því, sem hann taldi upp og ekki hefur verið minnzt hér á af öðrum, hygg ég, var það, að ríkissjóður hefði gefið eftir fasteignaskattinn. Þetta lítur sæmilega út, þegar það er sagt svona eins og hæstv. ráðherra sagði. En ef menn virða fyrir sér þessar tölur, sem hér er um að ræða, hvað segir þetta þá mikið? Ég fletti upp á því í ríkisreikningi, strax eftir að ráðherra hafði nefnt þetta, hvað þessi skattur hefði numið miklu á undanförnum árum, og seinustu ríkisreikningar segja þetta: Árið 1950 nam þessi upphæð hvorki meira né minna yfir allt landið en 767 þús., árið 1951 724 þús., heldur minna, og árið 1952, siðasta reikningsárið, sem liggur fyrir, 755 þús. kr., rétt þrem fjórðu úr einni millj. af 551 millj. eða þar um bil, sem innheimt er af landsmönnum. Það getur litið nógu laglega út að segja: Gaf ég ekki eftir „treikvart“ millj., þó að ég hafi hækkað hins vegar innheimtuna af landsmönnum um meira en eitt hundrað millj. á ári? — En sannindin eru ekki mikil, sem á bak við þetta standa.

Þá nefndi hæstv. ráðherra, að hann hefði einnig gefið meira en þetta; hann hefði líka gefið eftir núna alveg nýlega veitingaskattinn. Hann nam árið 1952 2.8 millj. Því var lýst yfir hér á Alþingi, og hygg ég, að allir fari nokkuð nærri um, hvað það þýðir í framkvæmd, að þetta væri gert til þess að bæta nokkuð hag þeirra manna, sem reka hér veitingastaði í Reykjavik fyrst og fremst. Auðvitað hefur það verið vel meint af hæstv. ríkisstj. að gefa þeim eftir þennan skatt. Ég hygg, að aðrir hafi ekki heldur grætt á því, að þessi veitingaskattur var gefinn eftir, en þessir tiltölulega fáu aðilar. Almenningur í landinu hefur ekki notið mikils góðs af því. Það er áreiðanlegt.

Í þessu efni vildi hæstv. fjmrh. gera grín að því, að ég hafði minnzt á það, að réttlátara væri að afla ríkissjóði tekna á annan hátt en þann, sem gert hefði verið að undanförnu, aðallega í formi tolla og söluskatts. Og ég minntist þá á, að þeir, sem breiðust hafa bökin, ættu að taka ríkulegri þátt í því að greiða til ríkisins en nú hefur verið.

Það var engu líkara en hæstv. ráðherra teldi það hreina fjarstæðu að láta þá, sem breið hafa bökin, borga nokkuð í ríkissjóð. Það var eins og hann vildi halda því fram, að þetta væri með öllu ógerlegt, á engan hátt hægt að koma þessu við. Og svo minntist hann á tekjuskattinn í þessu efni. Hæstv. ráðherra veit það manna bezt, að tekjuskatturinn hefur þannig verið framkvæmdur á undanförnum árum og um alllangan tíma, að hann er fyrst og fremst að verða í framkvæmd skattur á launafólk. Það er að fara svo, að skattaframtölin virðast ekki ná til annarra en þeirra, sem taka launatekjur í einu eða öðru formi. Hinir, sem almenningur í landinu veit að breiðust hafa bökin, þeir, sem raka að sér gróða eftir ýmsum löglegum og ólöglegum leiðum, sleppa jafnan við tekjuskattinn til ríkissjóðs að mestu leyti. Og það er sannarlega ekki okkur, sem erum í stjórnarandstöðu, að kenna, að þannig hefur verið haldið á framkvæmd skattamálanna, að þessu hefur farið svona fram. Auðvitað eru leiðir til þess að handsama gróðamennina og láta þá greiða í ríkissjóð; það eru margar leiðir til þess, og hæstv. ráðherra þekkir þær.

Það eru líka auðveldar leiðir til þess að taka ýmislegt af þeim gróðalindum, sem þessir gróðabrallsmenn hafa, að taka þær af þeim og fá ríkissjóði þær tekjur. Við sósíalistar höfum flutt hér á Alþingi till. um það, að ríkið tæki í sínar hendur verzlun með ýmsan glysvarning, sem annars er verzlað með í landinu, verzlun með gosdrykki o.þ.h., og gæti haft af því álitlegan hagnað. Hæstv. fjmrh. hefur ekki komið auga á þennan möguleika eða aldrei viljað hlýða á neinar till. um þetta efni. En hitt er svo aftur vitað, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa eftir þessum leiðum rakað að sér stórgróða.

Í stíl við þetta var svo sú beina rangfærsla hæstv. ráðherra, þegar hann greip til þess að reyna að halda því hér fram í sinni ræðu, að ég hefði verið að gera hér kröfu um, að áfengi yrði selt á sérstaklega lágu verði og helzt gætu menn fengið það næstum fyrir ekki neitt. Það hæfði öllum hans málflutningi að grípa svo til þessa í lokin. Ég hafði sem sagt lýst því yfir, að við sósíallstar værum í meginatriðum andvígir þeim tekjuöflunarleiðum, sem ríkissjóður byggir nú tekjur sínar á, sem sagt því að innheimta meginhlutann af sínum tekjum eftir tollaleiðum og eftir söluskattsleið, og svo hafði ég minnzt á það, að þriðja leiðin í tekjuöflun ríkissjóðs væru tekjur af sölu á áfengi og tóbaki.

Ég skal að vísu játa, að ég er einn þeirra, sem eru þeirrar skoðunar, að þó að ríkissjóður græði drjúgt á áfengi á ríkisreikningi, þá sé sá gróði ekki heillavænlegur fyrir þjóðfélagið, þegar til lengdar lætur, og það sé ekki allt talið sem hreinn gróði, sem þannig er bókfært, og sá gróði mætti gjarnan minnka. Og ég vil minna hæstv. ráðh. í þessu efni á það, þegar hann reynir að skjóta sér undan eðlilegum umr. á þennan hátt, að það var ég og það var minn flokkur, Sósfl., sem stóð alveg samstilltur um það, þegar áfengismálin voru hér til afgreiðslu á Alþingi, að vilja loka sem mest fyrir sölu á öllu áfengi, þegar hann og ríkisstj. voru að berjast hér um á hæl og hnakka og reyna að koma fram lagaákvæðum í þá átt að greiða enn meira en áður hefur verið fyrir sölu á áfengi, fyrir því að veita ýmsum samkomustöðum aukið svigrúm til þess að selja mönnum áfengi á uppsprengdu verði, til þess að þeir gætu grætt meira en þeir gerðu áður. Það situr því sízt á hæstv. ráðh. að drótta nokkru að mér og mínum flokki í þessu efni, að við séum að gera kröfur um það, að áfengi verði selt á innkaupsverði eða framleiðsluverði, eins og hann sagði hér, og það væri sú stefna, sem við túlkuðum. — Hitt stendur hins vegar eftir, að tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs eru síður en svo giftusamlegar eða réttlátar. Tollaleiðin verður aldrei talin réttlát, söluskattsleiðin ekki heldur, og áfengisgróðinn er ekki giftusamlegur.

Þá vék hæstv. ráðh. að því með allmiklum þjósti, hvers vegna við í stjórnarandstöðunni töluðum um vaxandi ríkisbákn, útþenslu í starfsmannakerfi ríkisins, en flyttum hins vegar ekki frv. um það, að dregið yrði úr þessum kostnaði, og þar þóttist hann hafa komið hníf sínum í feitt, þegar hann gat bent á þetta, og margendurtók þetta. Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, til þess aðeins að gera honum nokkuð til góðs í þessu efni: Minnist hann þess ekki, að við sósíalistar höfum flutt hér við afgreiðslu fjárlaga till. um það, bæði í fjvn. og hér á Alþingi, að ríkisstj. yrði gert að skyldu á því fjárlagaári, sem þá hefur verið fram undan, að lækka launin í embættiskerfinu sem næmi um 15%? Og ég minnist þess a.m.k., að hæstv. fjmrh. var ekki að hika við að drepa þessa till. Það er nefnilega hægara sagt en gert og ósköp auðvelt að snúa sér þannig út úr málum og segja við stjórnarandstöðuna: Af hverju flytjið þið ekki till. um það að breyta yfirleitt öllu embættismannakerfinu í landinu ? — Til þess þyrftum við að flytja sennilega fjöldamörg frv. til þess að grípa þar inn í hvert fyrir sig og gera þar á nauðsynlegar breytingar. Þetta er yfirleitt starfssvið, sem minni hl., stjórnarandstaðan, hefur ekki tækifæri til á Alþingi. Það eina, sem hún getur gert í þessum efnum, er það, sem við höfum gert og ekki hefur borið árangur, að leggja til, að að vissu marki verði ríkisstjórninni falið að draga úr þeim kostnaði, sem er af embættiskerfinu, og svo verður það vitanlega að vera framkvæmdaratriði ríkisstj. sjálfrar að vinna að því að framkvæma þennan sparnað að þessu marki, sem þingið vill setja. En þingið hefur bara ekki viljað samþ. slíka leið sem þessa. — Það er ekki heldur mikið örvandi fyrir alþm. að flytja frv. í þessa átt, á meðan þau dæmi liggja fyrir til sönnunar, að ríkisstj. er alltaf að bæta við, er alltaf að þenja út embættiskerfið, er alltaf að fjölga starfsmönnum. Þá virðist sú stefna vera ríkjandi, sem fer í aðra átt en þá að draga úr þessu mikla bákni.

Ég vil svo í sambandi við þessar athugasemdir mínar við ræðu hæstv. fjmrh. að lokum benda á það, að þau stóru atriði, sem ég minntist hér á í minni ræðu fyrr í þessum umr. sem afleiðingar af fjármálastefnu ríkisstj., standa hér öll alveg óhögguð. Því hefur ekki verið mótmælt, ekki einu sinni af hæstv. ráðherra, að afleiðingar af fjármálastjórninni hafa m.a. komið fram í því, að aðalatvinnuvegir landsmanna hafa ekki getað starfað á eðlilegum grunni. Strax eftir gengisbreytinguna 1950, sem átti að bjarga vélbátaútveginum, varð að grípa til bátagjaldeyrisálags. Þá varð að grípa til þess að leggja á landsmenn nýjan skatt til þess að halda uppi bátaútveginum, en nú í ár nemur þessi aukaskattur, sem ekki er talinn með í skattlagningu til ríkissjóðs, 100 millj. kr. Það varð að grípa til þessa vegna þess, að fjármálastefna ríkisstj. hafði leitt til þess, að annars lá allur fiskibátafloti landsmanna stöðvaður. Og fjármálastefna ríkisstj. hefur einnig leitt til þess, að togararnir geta ekki heldur gengið án þess að fá einhvern hliðstæðan stuðning. Á síðastliðnu ári lá togaraflotinn óstarfræktur 2–4 mánuði, og það er óhætt að segja, að það skipti orðið tugum millj. kr., sem þjóðarheildin tapaði á því í framleiðsluverðmætum. Þessar staðreyndir liggja allar fyrir, þær hafa allar komið í dagsins ljós, þeim verður ekki í móti mælt. Þetta hefur ekki gerzt vegna þess, að það hafi verið ríkjandi í landinu svo sérstaklega heillavænleg fjármálastefna, heldur einmitt af hinu, að fjármálastefnan hefur verið svona ómild, svona óþæg atvinnuvegum landsmanna.

Ég held því, að það sé full ástæða til þess, að við afgreiðslu fjárlaga sé bent á þau sannindi, að fjármálastefna ríkisstj. er ekki sú, sem við þurfum að hafa. Það þarf að breyta henni í grundvallaratriðum, og væri það miklu líklegra til vænlegs árangurs heldur en þurfa að viðhalda öllu því styrkja- og skattakerfi, sem nú er haldið uppi og bitnar aftur óhjákvæmilega á framleiðsluatvinnuvegunum.