10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

Almennar stjórnmálaumræður

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Af hinni löngu og fremur leiðinlegu ræðu Bjarna Benediktssonar var það ljóst, að það, sem Sjálfstfl. óttast nú mest, er það, að vinstra sinnað fólk í þessu landi kunni að knýja fastar á en verið hefur um myndun vinstri stjórnar. Er það að vonum, að Sjálfstfl. óttist slíkt, því að þá mundi brátt skipta sköpum í íslenzkum stjórnmálum, ef tækist að mynda vinstri stjórn á Íslandi.

Að öðru leyti notaði Bjarni Benediktsson ræðutíma sinn til að verja sjálfan sig og stjórnarathafnir sínar með löngu máli og þarf engan að undra, því að til þess munu naumast aðrir verða.

Þau ummæli mín í umr. hér í gærkvöld, að stórfelldar verðhækkanir, skatta- og tollahækkanir, ásamt gengisfellingu í einhverri mynd, mundu dynja yfir almenning á næstunni, fengu skjótari staðfestingu af ráðherrunum en ég hafði jafnvel búizt við. Þeir voru ekkert myrkir í máli um það, Ólafur Thors og Eysteinn Jónsson, að vöruverð mundi stórhækka á næstunni og að skattar og tollar hlytu að hækka, eins og þeir orðuðu það. En um gengisfellingu í einhverri mynd komst Ólafur Thors svo að orði, að það væri óráðin gáta, hvað útgerðin gerði til þess að forða stöðvun. Hver skyldi það nú vera, sem á erfitt með að ráða þá gátu, þegar ríkisstj. bátagjaldeyrisbraskaranna fer með völd í landinu? Það er eftirtektarvert, að svo ljós og skýr hafa rök okkar þjóðvarnarmanna verið um stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, að jafnvel Ólafur Thors þorir ekki að fara með blekkingar í þeim efnum, heldur sér sig tilneyddan til að játa það opinberlega, hvert stefnt sé.

Íslenzk alþýða veit því nú, hvað biður hennar á næstunni, og getur þess vegna gert það upp við samvizku sína, hvort hún vill áfram fylgja hækkunar- og verðbólgustefnunni, gengisfellingarstefnu og rýrnunar gjaldmiðils eða ekki. Treysti ég því, að hún framkvæmi það uppgjör af manndómi og drengskap.

Það var auðheyrt á ræðum þeirra ráðh. Framsfl., hvaða verk sín þeir skelfast nú mest sjálfir gagnvart kjörfylgi í sveitum landsins. Að tilefnislausu í umr. í gærkvöld vörðu þeir mestum hluta ræðutíma sins til að reyna að verja þær skattaeftirgjafir gróðafélaga og hækkanir á vöxtum framkvæmdasjóða alþýðustéttanna, sem Framsfl. hefur mest beitt sér fyrir að undanförnu.

Að gefnu þessu tilefni mun ég nú ræða þessi mál nokkuð og skýra frá ýmsum atriðum, sem framsóknarráðherrarnir kjósa að þegja um og vilja, að aðrir þegi yfir.

Fyrir nokkru bar ríkisstj. fram frv. um að framlengja á ný þá 20% skattaeftirgjöf handa öllum fjölskyldu- og gróðafélögum landsins, sem hún lét þinglið sitt lögfesta á siðasta þingi. Eysteinn Jónsson sagði í umr. í gær, að þetta hefði stafað af því, að skattstigar gróðafélaganna hefðu verið orðnir allt of háir og að þau hefðu af þeim sökum verið að kikna undan skattaálögum. En í næstu andrá lýsti svo þessi sami Eysteinn Jónsson yfir því, að skattheimta hjá gróðafélögunum hefði alls ekki borið tilætlaðan árangur, vegna þess að þau hefðu skotið sér undan skattinum með því að „skipta sér upp í mörg smáfélög“, eins og hann orðaði það.

En hvernig getur það nú farið saman, að gróðafélögin séu bæði að kikna undan of háum skattgreiðslum, en skjóti sér samtímis undan sömu skattgreiðslum með því að skipta sér upp í mörg smáfélög?

En þegar frv. um 20% skattaeftirgjöf gróðafélaganna var til umr. hér á Alþ., gaf sami greiðsluhallalausi Eysteinn Jónsson í nafni fjármálastjórnarinnar þó enn þá athyglisverðari yfirlýsingu. Hann lýsti því þá yfir, að hin eiginlega orsök þessarar 20% skattaeftirgjafar handa gróðafélögunum væri sú, að af þeim nær 600 millj. kr., sem ríkissjóður innheimtir árlega með alls konar sköttum, væri svo lítill hluti frá gróðafélögunum, að ríkissjóð munaði ekkert um að gefa eftir 20% af þeim skatti.

En hvernig er nú hið rökræna samhengi og heilbrigða skynsemi í þessum þrem yfirlýsingum Eysteins Jónssonar? Hvernig getur það þrennt gerzt samtímis, að gróðafélögin séu að kikna undan of háum sköttum, skjóti sér þó undan að greiða þessa skatta með því að skipta sér upp í smáfélög og að tekjur ríkissjóðs af skattgreiðslum gróðafélaga séu svo litlar, að ríkissjóð muni ekkert um að gefa eftir 1/5 hluta þeirra?

Eysteinn Jónsson varði nokkru af ræðutíma sínum í gærkvöld til að bregða upp mynd af baráttuaðferðum og markmiðum Moskvukommúnista. Heilindi hans í því efni voru þó ekki meiri en það, að hann notaði sjálfur í sambandi við skattgreiðslu gróðafélaganna þá reikningslist kommúnista, sem ég gerði grein fyrir í umr. í gær. Í því ljósi skoðað er það e.t.v. ekki undarlegt, þó að Eysteinn Jónsson hafi hingað til talið sig eina mann aldarinnar, sem gæti verið fjmrh. á Íslandi, fyrst hann kann reikningskúnstir kommúnista svona rækilega utanbókar.

En hvernig skyldi standa á því, að tekjur ríkissjóðs af sköttum gróðafélaga eru svo litlar, að ríkissjóð munar ekkert um að gefa eftir 1/5 hluta þeirra? Öllum landsmönnum er ljóst, að gróði þessara félaga hefur aldrei verið meiri í sögu landsins en einmitt nú hin síðari ár. Enginn gerir tilraun til að mótmæla því. Skýringin á þessu er ofur einföld. Gróðafélögin njóta þeirra sérréttinda umfram aðra skattgreiðendur að ákveða það sjálf og eftirlitslaust, hve mikinn hluta af tekjum sínum þau telja fram til skatts, og geta á þann hátt ákveðið það sjálf, hve mikinn skatt þau greiða til sameiginlegra sjóða þjóðarinnar. Það mikla traust, sem ríkisvaldið hefur með þessari skipan skattamála sýnt gróðafélögunum, nota þau eða öllu heldur misnota á þann hátt, sem yfirlýsing Eysteins Jónssonar ber með sér. En þegar gróðafélögin hafa þannig sjálf ákveðið að greiða ekki meiri skatta til ríkissjóðs af ofsagróða sínum en svo, að ríkissjóð muni ekkert um að gefa eftir 20% af þeirri upphæð, setur ríkisstj. samt lög um að skila aftur 1/5 hluta af þeirri hungurlús. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur meðal-vitiborinn maður geti komið auga á skynsemina í þeirri ráðstöfun, enda er skynsemi ekki til að dreifa í þessu efni, heldur hinu, að gróðafélögin leggja þessa 20% skattaeftirgjöf í kosningasjóði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins með meiru.

Ég gat þess í umræðunum í gærkvöld, að önnur höfuðleiðin, sem Verkamannaflokkurinn brezki hygðist beita til að draga úr verðbólguþróun og dýrtíð, væri að hækka skatta gróðafélaga. Þessar umræður hafa leitt í ljós, að íslenzka ríkisstj. hefur auðvitað farið þveröfugt að. Hún hefur að ástæðulausu lækkað skatta gróðafélaganna. Þannig notar hún tækifærið til að draga úr verðbólgu og dýrtið á kostnað hinna ríku. Niðurstöðurnar af þeim samanburði, sem ég hef hér gert og í gærkvöld á viðurkenndum vinstri flokki annars lands og íslenzku stjórnarsamsteypunni, eru þá þessar:

Verkamannaflokkurinn brezki segir: Við lækkum álagningu til að draga úr verðbólgu og dýrtíð. Íslenzku stjórnarflokkarnir segja: Við gefum álagningu frjálsa til að auka verðbólguna. Verkamannaflokkurinn brezki segir: Við hækkum skatta gróðafélaga til að draga úr verðbólguþróun.

Íslenzku stjórnarflokkarnir segja: Við lækkum skatta gróðafélaga til að auka verðbólguna. Engan þarf að furða á því hyldýpi, sem þessi samanburður leiðir í ljós, þar sem annars vegar er vinstri flokkur þjóðar, sem metur ekki heiður sinn til peninga, en hins vegar stjórnarsamsteypan íslenzka, sem enga hliðstæðu á aðra en íhaldsflokka Mið- og Suður-Ameríku.

Eins og kórónu á sköpunarverkið um skattalækkun gróðafélaganna bar svo forsrh., Ólafur Thors, fram frv., einn sér, um að framlengja ennþá algert skattfrelsi til handa Eimskipafélagi Íslands, sennilega sem þakklætisvott fyrir það, að Eimskip keypti fyrir tveim árum gamlar og úr sér gengnar Kveldúlfseignir fyrir 12 millj. kr. Öllum er ljóst, að Eimskipafélagið hefur nú lokið uppbyggingu öflugs farskipaflota eftir stríðslok og notið til þess algers skattfrelsis og margs konar fríðinda af opinberri hálfu, en auk þess safnað gildum sjóði. Þetta var ekki óeðlileg ráðstöfun af hálfu hins opinbera, því að upphaflega var Eimskipafélagið slíkt „óskabarn þjóðarinnar“ og rak svo þjóðnauðsynlega starfsemi, að sjálfsagt var að veita því þau fríðindi, sem frekast var unnt. Hins vegar hefur Eimskipafélagið nú svo góða samkeppnisaðstöðu samkvæmt því, sem frá var greint, og hefur um margt verið mislagðar hendur í seinni tíð, en er auk þess ekki eini aðili, sem annast siglingar og flutninga hér á landi, að það má teljast fullkomlega óeðlilegt, að það njóti betri kjara um skattgreiðslur en allir aðrir aðilar, sem hafa sams konar starfsemi með höndum. Enginn hefur heldur treyst sér til þess að mæla því bót, að Eimskip nyti algers skattfrelsis, né að rökstyðja nauðsyn þess. Af þessum sökum bárum við þm. Þjóðvarnarflokks Íslands fyrst fram þá brtt. við frv. um skattfrelsi Eimskips, að félaginu skyldi þó gert að greiða ríkissjóði í skatta 8% af skattskyldum tekjum ársins 1954. Þessi smátæka brtt. var þó felld við 2. umr. frv. af öllum viðstöddum þm. stjórnarsamsteypunnar að undanskildum hv. þm. N-Þ., Gísla Guðmundssyni, og hv. 2. þm. Rang., Helga Jónassyni. Hægri kratar sátu hjá. Þá bárum við enn fram við 3. umr. frv. þá brtt., að Eimskipafélagið skyldi greiða skatta eftir sömu reglum og nú eru í gildi um samvinnufélög. Buðum við hv. þm. V-Húnv., Skúla Guðmundssyni, að vera meðflutningsmaður að þeirri till., en hann hafnaði því góða boði. Og svo undarlega brá enn við, að jafnvel till. um það, að Eimskip skyldi greiða skatta eftir sömu reglum og skipadeild S.Í.S. greiðir af sínum rekstri, var felld, m.a. af öllum viðstöddum þm. og ráðherrum Framsfl., að undanteknum þeim tveim hv. þm., sem ég gat um áðan. Hægri kratar sátu hjá. Við þm. Þjóðvfl. höfðum þó vænzt nokkurs stuðnings frá Framsfl. í því efni, að Eimskip greiddi skatta ettir sömu reglum og samvinnufélag, þ. á m. skipadeild S. Í. S. Byggðum við þá skoðun m.a. á því, að fyrir kosningarnar 1953 létu framsóknarmenn í ljós opinberlega skoðun sína á skattfrelsi Eimskipafélagsins.

Hinn 22. maí 1953 skýrir dagblaðið Tíminn frá því, að hið skattfrjálsa „óskabarn þjóðarinnar“ hafi þá grætt 51.5 millj. kr., og segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Þjóðin borgaði ofsahá farmgjöld, en Eimskip notaði féð til kaupa á gömlum og úr sér gengnum eignum Thorsaranna.“ 27. maí 1953 segir Tíminn, að Eimskip hafi rænt 125 þús. kr. af bændum landsins í sambandi við einn áburðarfarm, en alls sé gróði þess af áburðarflutningum það vorið 720 þús. kr. Lýsir Tíminn þeirri ljótu sök á hendur Eimskip, að það hafi komið úr landi 600 þús. kr. í sambandi við þessa áburðarflutninga umfram leigukostnaðinn við skipin, sem áburðinn fluttu. Og sama dag kemst Tíminn þannig að orði um skattfrelsi Eimskips, með leyfi hæstv. forseta: „Þá finnst mönnum það lítt skiljanlegt, að Bjarni (Benediktsson) skuli telja það alveg sjálfsagt, að S.Í.S. og Eimskip sæti ekki sömu reglum (um skattgreiðslur).“ Og eins og til bragðbætis hnýtir svo Tíminn við með feitu letri þessum gullvægu orðum: „Framsfl. er eini flokkurinn, sem alltaf tekur ábyrga afstöðu til mála.“ Samvinnumenn og bændur geta svo velt því fyrir sér í rólegheitum, hvað muni hafa valdið því, að þm. Framsfl. felldu till. okkar þm. Þjóðvfl. um það, að Eimskipafélag Íslands skyldi greiða skatta eftir sömu reglum og gilda um samvinnufélög.

Þegar ráðh. höfðu lagt þessi skattaeftirgjafafrv. fram á Alþ., bar ríkisstj. fram 3 önnur frv. í réttri númeraröð sakir skipulegrar nákvæmni, og kvað þar nokkuð við annan tón. Þar var ekki aldeilis um lækkanir að ræða eða eftirgjafir né fríðindi, enda áttu engin gróðafélög þar hlut að máli, engir hermangarar né auðstéttir. Þetta voru frv., sem snerta fátækustu stéttir þjóðfélagsins, verkamenn og bændur. Og þá var hæstv. ríkisstj. ekki aldeilis á þeim buxunum að lækka og gefa eftir, ekki einu sinni að láta það óbreytt standa. Þá var talið sjálfsagt, skylt og nauðsynlegt að hækka án tafar og án miskunnar. Þessi 3 stjórnarfrv. voru um það að hækka vexti af lánum þeim, sem veitt eru úr byggingarsjóði verkamanna, ræktunarsjóði Íslands og byggingarsjóði sveitanna, um 60–75% miðað við fyrri vaxtakjör. Vextir af þessum lánum hafa undanfarið verið mjög lágir, enda ákveðnir svo af Alþ. í því skyni að auðvelda verkamönnum og bændum að byggja upp og rækta landið, ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur miklu fremur fyrir komandi kynslóðir. Af þeim sökum hefur Alþ. alltaf litið svo á, að ekki ætti að nauðsynjalausu að refsa þeim aðilum, sem þessi þjóðnýtu störf vinna, með óhóflegum vaxtagreiðslum, heldur láta þá njóta hinna beztu vaxtakjara, sem hugsanleg væru.

Þegar húsnæðismálafrv. ríkisstj. var til umr., var það viðurkennt af talsmönnum stjórnarflokkanna, að vaxta- og greiðslukjör þeirra lána, sem samkvæmt því frv. yrði um að ræða, væru með þeim hætti, að verkamenn mundu ekki geta hagnýtt sér þau lán, enda væri ekki til þess ætlazt. Og þegar þau frv., er ég gat um áðan, voru til 1. umr., lýsti Steingrímur Steinþórsson félmrh. og landbrh. yfir, að þau væru liður í samkomulagi, sem náðst hefði innan ríkisstj. í húsbyggingarmálum þjóðarinnar. Samkvæmt því er það þá yfirlýst stefna ríkisstj. í byggingarmálum að hækka vexti af byggingarlánum og auka þannig á erfiðleika fátæks fólks að byggja og rækta landið. Það hlýtur þá einnig að vera stefna ríkisstj. samkvæmt þessu að draga úr lánsfjárskortinum til byggingarframkvæmda með því að gera slík lán svo óhagkvæm, að verkamenn og bændur geti ekki notfært sér þau, heldur verði það aðeins hinir ríku, sem hafi efni á því að gleypa lánsféð til að komast yfir fasteignir og húsnæði í enn ríkari mæli en verið hefur. Er það í fullu samræmi við þá benjamínsku hagfræðikenningu, að þeir, sem ekki geta borgað okurvexti af lánum, hafi enga raunverulega þörf fyrir lánsfé. Eru ekki vandséðar afleiðingar slíkra ráðstafana, eins og leiguliðafyrirkomulag í sveitum, húsaleiguokur í kaupstöðum o.s.frv.

Nú er rétt að hafa það vandlega hugfast, að að því er snertir lán til bygginga og ræktunar í sveitum, er um framkvæmdalán að ræða. Það er af núverandi valdhöfum talið eðlilegt, að allar framleiðslugreinar svo og verzlun fái að bæta lánsfjárvöxtum og vöxtum af eigin fé ofan á verð framleiðslu sinnar og þess, sem selt er, allar nema landbúnaðurinn. Árið 1948 fengu bændur teknar 900 kr. fyrir vaxtakostnað á vísitölubúinu inn í verðlagsgrundvöll afurða sinna. Sú upphæð stendur óbreytt enn. En árið 1948 rökstuddu fulltrúar bænda það skilmerkilega, að þessar 900 kr. svöruðu aðeins til hluta af þeim vöxtum, sem bændur greiddu að meðaltali fyrir lánsfé. Það, sem vaxtakostnaðurinn var umfram þessar 900 kr., urðu bændur því að greiða af persónulegum tekjum sínum, en var ekki viðurkennt sem framleiðslukostnaður. Nú hafa skuldir bænda aukizt um milljónatugi síðan 1948. Alla vexti af þeirri súpu hafa þeir því orðið að greiða af persónulegum tekjum sínum, en tekjur bænda á vísitölubúinu eru, eins og allir vita, miðaðar við kaup Dagsbrúnarverkamanns, sem vinnur 300 daga á ári, 8 stundir á dag. Slíkar tekjur þola ekki miklar vaxtagreiðslur auk alls annars. Þó telur hæstv. ríkisstj. réttlátt, skylt og nauðsynlegt að hækka þessar vaxtagreiðslur. Á hverjum skyldu nú þessar hækkanir koma harðast niður? Það er staðreynd, að af rúmlega 6400 bændum á Íslandi búa um 2000 þeirra við mjög litla ræktun og algerlega óviðunandi húsa- og vélakost. Bústofn þeirra er einnig miklum mun minni en á vísitölubúinu og tekjur þeirra þar af leiðandi mínni en tekjur Dagsbrúnarverkamanns, eða 12–18 þús. kr. á ári. Engir hafa jafnmikla þörf fyrir lán til aukinnar ræktunar, bygginga, vélakaupa og bústofnsaukningar eins og einmitt þessir bændur, fyrir utan frumbýlinga, ungt fólk með tvær hendur tómar, sem hyggst byrja búskap. Að þessu fólki er nú sérstaklega vegið með vaxtahækkun Frams.- og Sjálfstfl. og það svo harkalega, að héraðsbrest mun víða af leiða, ef ekki landsbrest.

Þegar þessi vaxtahækkunarfrv. voru lögð fram, bárum við þm. Þjóðvfl. fram þá brtt. við frv. ríkisstj. um 20% skatteftirgjöf handa gróðafélögunum, að sú skatteftirgjöf skyldi felld niður, en skattinum varið til að greiða niður vaxtatöp byggingarsjóðs verkamanna, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitanna. Þessar till. felldu allir viðstaddir þm. stjórnarflokkanna að viðhöfðu nafnakalli, og meira að segja ráðh. lögðu það á sig, sem sjaldan ber við, að mæta í þingsölunum til að sjá um, að svona hættuleg till. yrði felld.

Vaxtahækkanir þær, sem ég hef gert hér að umtalsefni, reyndi Steingrímur Steinþórsson að verja hér í gærkvöld með því, að vaxtatöp þessara sjóða væru svo gífurleg, að þeir mundu eyðast á örskömmum tíma þeirra vegna. Það er þó enn ósannað mál, að um nein raunveruleg vaxtatöp sé að ræða hjá þessum sjóðum, nema þá ræktunarsjóði. Steingrímur Steinþórsson sagði í gærkvöld, að vaxtatöp þessara sjóða væru árlega 40 þús. kr. af hverri milljón, en játaði jafnframt, að vaxtatöp þeirra yrðu enn þá 25 þús. kr. af hverri milljón þrátt fyrir vaxtahækkanir ríkisstjórnarinnar, svo að enn þá er því opinn sá möguleiki, að þessir sjóðir eyðist á skömmum tíma þrátt fyrir aðgerðirnar. En með því að samþ. till. okkar þjóðvarnarmanna var þessum möguleika alveg lokið, ef hann var þá nokkurn tíma fyrir hendi, því að við lögðum til, að vaxtatöpin yrðu bætt að fullu. Vaxtahækkun ríkisstj. hefur því enga aðra breytingu í för með sér en að auka á byrðar fátækasta fólksins í landinu og gera því ókleift að verða bjargálna. Þetta er sannleikurinn í þessu máli, Steingrímur Steinþórsson, hvað sem öllum tilburðum ráðherranna til að reyna að verja óverjandi málstað líður. Hér má svo bæta því við, að til að kóróna árásir sínar á landbúnaðinn hefur Framsfl. beitt sér fyrir stórhækkuðu skattmati búfjár í landbúnaðinum, einum allra framleiðslugreina, til að geta skattpínt þá framleiðslugrein meira hér á eftir en hingað til.

En það eru til aðilar í þessu landi, sem fá lán með lágum vöxtum og öðrum vildarkjörum. Má þar til nefna fjölskyldufyrirtæki Thorsaranna, Faxaverksmiðjuna, sem ríkið lánaði 678 þús. dollara af Marshallfé, eða rúmar 11 millj. kr., miðað við núverandi gengi, til 30 ára með 21/2% vöxtum og afborganalaust fyrstu 5 árin, en gerði auk þess sérslaka samninga um að gefa þessu fyrirtæki 6 millj. 658 þús. kr. af þessari upphæð, ef Marshalllánið yrði ekki endurgreitt, en ætlun ríkisstj. er að endurgreiða það ekki. Er ekki vitað, að nokkurt annað fyrirtæki hafi fengið slík lánskjör hér í þessu landi. En þá er unnt að lána með lágum vöxtum, og þá er unnt að gefa stórar fúlgur, þegar slíkir eiga í hlut eins og Thorsararnir. — Menn minnast þess svo, að tveir finnskir ráðh. voru dregnir fyrir landsdóm og urðu að hrökklast frá völdum fyrir nokkrum árum fyrir þá sök að hafa lánað gjaldþrota fyrirtæki, sem þeir áttu hlut f, smáupphæð af ríkisfé.