10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Málflutningur ríkisstj. í þessum umr. hefur allur mótazt af því annars vegar að hella úr skálum reiðinnar yfir verkfallsmenn, verkalýðssamtökin og kommúnista, sem þeir virðast oftast telja einn og sama aðilann. Sökin er auðvitað sú, að knúðar hafa verið fram kjarabætur til handa vinnandi fólki þvert ofan í vilja stjórnarinnar, sem vönust er því að undanförnu að hafa verkalýðshreyfinguna í hafti og njóta næðis til að mata gæðinga sína á gróða þeim, sem framleiðslustéttirnar skapa.

Það er ekkert óskiljanlegt við það, þótt þeir, sem vanir eru að stjórna með tilskipunum, vakni við vondan draum, þegar þeir finna, að til er í landinu afl, sem er þeim margfalt sterkara, auk þess sem það er þjóðinni þarfara.

Þótt Eysteinn Jónsson og Bjarni Benediktsson færu í 6 vikna frí, — þeir mættu hafa alla hina ráðherrana með sér, — þá mundu engin skip safnast fyrir í höfninni, það mundi ekkert rýra framleiðsluna, það mundi ekkert ske og fáir veita því athygli. En þegar verkalýðurinn leggur niður vinnu, þá fer það ekki fram hjá neinum, því að allt byggist á hans starfi, og það væri eðlilegra, að verkalýðurinn eða fulltrúar hans gæfu út lög og reglugerðir en þeir þjónar auðvaldsstéttarinnar, sem nú sitja á ráðherrastólum.

Þetta óttast þeir líka að geti orðið og reyna að fara hrakyrðum um viðleitni Alþýðusambandsins til þess að koma á stjórnarsamstarfi, sem ætti rót sína í verkalýðshreyfingunni. Auk froðufellingar hæstv. dómsmrh. reyndi hæstv. forsrh., Ólafur Thors, í gær að telja það fjarstæðu, að hin vinstri sinnuðu öfl í landinu gætu átt samstöðu um stjórn, svo skiptar skoðanir sem í þeim herbúðum séu. Sjálfur hefur þessi ráðh. eitt sinn myndað stjórn með tveimur flokkum, er hafa sósíalistíska stefnuskrá, og mun þar sízt hafa skort ágreiningsefni. Það var þó langsamlega giftudrýgsta ríkisstjórn, sem með völd hefur farið á Íslandi á síðustu tímum.

Tilraunum Alþýðusambandsins til þess að kanna grundvöll fyrir verkalýðssinnaða ríkisstj. hefur verið ágætlega tekið, og hafa mörg verkalýðsfélög sent Alþýðusambandinu þakkir sínar fyrir þetta frumkvæði. Ekki eru það sízt verkalýðsfélögin í sveitum landsins, sem hvetja Alþýðusambandsstjórnina til að láta einskis ófreistað um það að sameina vinstri öflin.

Það verður ekki á milli séð, hvorir framar standa í ósæmilegri framkomu, flokksmenn forseta Alþýðusambands Íslands, sem varna honum máls í þessum umr., eða íhaldsmennirnir, sem hrakyrða hann fyrir stéttvísa afstöðu í heildarsamtökum alþýðunnar, vitandi það, að hann á þess ekki kost að svara fyrir sig eða samtök þau, sem hann veitir forstöðu. Þetta ber þó ekki svo að skilja, að verkalýðshreyfingin standi ekki jafnrétt fyrir ámælum ráðherranna.

Einn þm. stjórnarandstöðunnar, hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, hefur að vísu gefið ríkisstj. dálítið blóð á tönnina í stríði hennar gegn verkalýðshreyfingunni. Sá hv. þm. stóð fyrir þeirri stefnu, sem flokkur hans tók upp á byrjunarstigi hinnar nýleystu vinnudeilu, að mótmæla kröfum verkamanna og reyna að gera þær tortryggilegar. Héldu þá margir, að fremur væri þar um að ræða flumbruhátt þessa hv. þm. en beina flugumennsku á vegum fjandmanna verkalýðsstéttarinnar, en þegar það bætist nú við, að hann túlkar árangur verkfallsins með hreinum fölsunum, þá sleppur hann ekki undan þeim grun, að aðrir og alvarlegri hlutir liggi að baki hegðun hans en fljótfærnin ein.

Þm. sagði, að til þess að njóta allra kjarabótanna, sem verkalýðsfélögin unnu, þyrftu menn allt í senn, að vinna fulla vinnu, vera atvinnulausir og veikir. Það skal til leiðréttingar fram tekið, að sjóður atvinnuleysistrygginganna verður eign verkalýðsfélaganna og 1% greiðslan til að mæta hugsanlegum sjúkrakostnaði greiðist án tillits til þess, hvort um veikindi er að ræða eða ekki. Læt ég svo útmælt um liðveizlu þessa þm. við stjórnina.

Hins vegar reynir stjórnin að afsaka gerðir sínar með því, að afkoma manna sé betri nú en nokkru sinni áður og atvinna sé yfirdrifin. Að svo miklu leyti sem í þessu felst sannleikur, þá er það stjórninni að þakkarlausu.

Nýsköpunarstjórnin, sem sumir ráðh. þessarar stjórnar telja ekki til þakkarskuldar við, lagði grundvöllinn að því, sem nú er blómlegast í atvinnulífinu, með því að láta að mestu smíða landsmönnum nýjan skipastól og leggja grundvöll margra iðjuvera. Á hinn bóginn hafa Bretar, samstarfsþjóð íslenzku ríkisstj. í Atlantshafsbandalaginu og efnahagssamvinnu Evrópu, með löndunarbanninu þrýst okkur til þess að leita með stóran hluta afurðanna á ágætan markað í Austur-Evrópulöndum, og við tilkomu þeirra viðskipta lifnaði allt efnahagslíf hér úr dái. Þetta er vissulega kaldhæðin staðreynd fyrir ríkisstj., sem hefur léð land okkar til árásarundirbúnings gegn beztu viðskiptavinunum, og er nú augljóst mál, að þann dag, sem viðskiptatengsl okkar við löndin austan tjalds rofna, þá er runnið hér upp geigvænlegt kreppuástand.

Velgengni og góðæri er því ekkert, sem ríkisstj. hefur skapað. Lán okkar er í því fólgið, að vinir stjórnarinnar hafa óvart komið fyrir hana vitinu með því að reka í hana hornin.

Tilvera íslenzku þjóðarinnar, framtíð hennar, vöxtur og viðgangur byggist á starfi þegnanna, vinnu þeirra með huga og hönd í þjónustu framleiðslu og framfara. Þetta eru svo augljós sannindi, að næsta ólíklegt má telja, að nokkur mótmæli þeim í orði, en íslenzkir valdhafar mótmæla þeim þó í verki með stjórnarathöfnum sínum og löggjöf. Íslenzka ríkisstj. og sá þingmeirihluti, sem hana styður, sanna það, að hugðarefni þeirra eru allt önnur en þau að meta maklega störf íslenzkra þegna eða efla framleiðslu íslenzkra verðmæta. Það er engu líkara en að ríkisstj. telji heill þjóðarinnar og búsæld í landinu helzt byggjast á því, að goldnir séu háir vextir af skuldum, stórverzlunin sé bundin einkarétti og afhent vildarvinum ráðh.; skattar og tollar séu hóflausir á vinnandi fólki, en gróðafélög landsins séu ýmist alveg undanþegin skatti eða þeim gefinn ríflegur greiðsluafsláttur frá því, sem skattreglur í lögum ákveða.

Þau atriði, sem hér hafa verið nefnd úr þeirri ávirðingaskrá, sem hæstv. ríkisstj. lætur sögunni eftir sig, eru aðeins örfá óveruleg brot úr heildarregistrinu. En því eru hér ekki fleiri rakin, að tími mun vart til endast, því að dæmi skulu til nefnd um hvert eitt, svo að ljósara verði, að í engu er máli hallað, enda væri það illt verk að bæta ósönnum illmælum ofan á ríkisstj., sem til svo margra hefur unnið með sannindum.

Sem dæmi þess, hve óralangt ríkisstj. er frá því að virða heiðarleg störf þegnanna, er vert að athuga þær aðstæður, sem sjómenn búa við í dag. Frá fornri tíð hefur sá háttur verið á hafður, að sjómenn bátaflotans hafa tekið kaup sitt sem ákveðinn og fyrir fram umsaminn hlut af afla. Svo er enn, og samkv. kjarasamningum þeim, er gilda á vélbátaflotanum, eru sjómennirnir eigendur 40–50% alls þess afla, sem vélbátarnir skila á land.

Ríkisstj. lætur sem hún viti ekki af þessari staðreynd. Hún telur sig stundum gera ráðstafanir til að styðja hag fiskeigenda, en þess gætir hún jafnan, að þær hagsbætur taki ekki til sjómanna, heldur einungis til annarra fiskeigenda.

Gleggsta dæmi um þetta er bátagjaldeyrisreglugerð stjórnarinnar. Þar er vissum stjórnargæðingum, þ.e. stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, fenginn réttur til að selja hluta af gjaldeyri þeim, sem inn kemur fyrir fisk og fiskafurðir bátaflotans, með verulegu álagi. Ágóðinn af þessu á svo að verða til að hækka fiskverð, og hefði nú mátt ætla, að slík verðhækkun ætti að koma öllum fiskeigendum til hagræðis að jöfnu. En sú er ekki raunin á.

Gjaldeyrissalarnir og einkavinir stjórnarinnar neita að viðurkenna rétt sjómanna til síns hluta af þessum ágóða og telja sig eina og sína skjólstæðinga eiga hann. En þótt sá kunni að hafa verið tilgangur stjórnarinnar í ráðabrugginu að setja lægra verð á þann fisk, sem goldinn er sjómönnum í kaup, en greitt er fyrir fisk annarra, þá var svo ótryggilega frá ráninu gengið, að dómstólar þeir, sem um það hafa fjallað, hafa á einn veg dæmt, að full hlutdeild sjómanna í bátagjaldeyriságóða sé samkv. kjarasamningum sjómanna í Vestmannaeyjum óyggjandi. Þeir samningar voru í gildi fyrir árin 1951, 1952 og 1953, án þess að sjómenn næðu hlut sínum, og enn hafa þeir ekki fengið uppgjör samkv. rétti sínum, þótt staðfestur sé af hæstarétti. Er nú ekki annað sýnna en að til vinnudeilu muni enn koma vegna þessara samningsrofa, því að vart getur það talizt fær leið að sækja til dóms mál hvers einstaks sjómanns fyrir hvert ár um sig, og þá fyrst í héraði og síðan í hæstarétti.

Til að freista þess að forða framleiðslutruflunum, sem af þessu geti leitt, hef ég á tveim þingum flutt þáltill. um, að ríkissjóður taki að sér að inna vangreiðslurnar af hendi til sjómanna og innheimti þær síðan hjá viðkomandi útgerðarmönnum eða útgerðarfélögum. En liðsmenn stjórnarinnar hafa ekki getað á þetta fallizt. Í fyrra töldu þeir rétt að bíða eftir hæstaréttardómi um málið, en nú lá sá dómur fyrir, og varð afsökun þeirra nú sú ein, að þetta mundi valda ríkissjóði nokkrum útgjöldum. Þar með hafa þeir sýnt, hver réttlætiskennd þeirra er, þegar íslenzkir sjómenn eiga hlut að máli.

Ef einhverjir aðrir aðilar verða fyrir tjóni, sem að einhverju má rekja til samskipta þeirra við ríkissjóð, þá er þeim yfirleitt bættur sá skaði. T.d. þegar einhverjum braskara mistekst að græða á Súðinni, eftir að hafa keypt hana af ríkissjóði, þá er samþykkt að greiða honum meðlag með því skipi ár eftir ár, og er ein slík meðlagsgreiðsla á fjárlögum yfirstandandi árs, þótt skipið sé löngu komið til fjarlægrar heimsálfu og snúi kjölnum að okkar landi á siglingu sinni.

En þótt níðzt sé árum saman á íslenzkri sjómannastétt þvert ofan í lög og rétt og sannað sé, að ríkisstj. hafi sjálf lagt grundvöllinn að rangsleitninni, þá þykir ekki vert að valda ríkissjóði neinum útgjöldum til að bæta sjómönnum þeirra tap. Þar á móti setur stjórnin upp friðarásjónu og fyllist vandlætingu yfir illsku mannanna og þrætugirni, ef sjómenn reyna sjálfir í krafti stéttarsamtaka sinna að ná samningum um sölu á aflahlut sínum þannig, að verðmæti hans nálgist það, sem aðrir fiskeigendur bera úr býtum.

Þótt ráðherrar tali fagurlega um sjómannastéttina úr ræðustóli sjómannadagsins, þá sýnir þetta dæmi um ráðstöfun bátagjaldeyriságóðans, hvers stjórnin metur hin þörfustu störf, sem framkvæmd eru í þjóðfélaginu.

Hvað gerir svo ríkisstj. til að örva framleiðsluna og búa í haginn fyrir heilbrigða þróun atvinnuveganna?

Til þess að fá svör við þessu er vert að skyggnast örlítið frekar um í málefnum sjávarútvegsins. Þótt þegar hafi verið rakið, hvernig gengið er frá því með sérstökum hætti af hálfu stjórnarvaldanna, að verstum kjörum um afurðasölu skuli sjómenn sæta, þá er þó fullkomin ástæða til að ætla, að óbreyttir útvegsmenn fái ekki heldur nema hluta þess verðs fyrir sínar afurðir, sem þeir gætu fengið, ef öll kurl kæmu til grafar. Þetta sést m.a. á því, að Norðmenn borga jafnan hærra fiskverð til sinna framleiðenda en hér er gert, og er þeirra fiskur þó smærri og lélegri en fiskurinn á Íslandsmiðum.

Verðmunurinn í Noregi og hér nemur oft mjög miklu, en er dálitið breytilegur frá ári til árs. Í vetur komst fiskverð í Noregi í kr. 2.05 kg fyrir slægðan og hausaðan fisk. Tilsvarandi verð hér til útvegsmanna mun vera kr. 1.70 til kr. 1.80, en kr. 1.59 til kr. 1.63 til sjómanna.

Lægra fiskverð hér en í Noregi getur vart stafað af öðru en því, að þeir, sem hafa á hendi útflutning og sölu okkar fiskafurða, en það eru að mestu sérstakir, útvaldir einokunarkaupmenn ríkisstjórnarinnar, eru annað tveggja ekki vandanum vaxnir, þannig að þeir gera lakari sölusamninga en Norðmenn ná, eða hitt, að þá skortir ráðvendni til að koma réttum hluta andvirðisins til framleiðenda, nema hvort tveggja sé.

Það er eitt dæmi um vinnubrögð Sambands ísl. fiskframleiðenda, en svo nefnist einokunarhringur sá, sem ríkisstj. hefur falið saltfiskssöluna, að á yfirstandandi ári greiðir hann ítölskum fiskkaupmönnum 37 þús. sterlingspund eða um það bil 7 millj. ísl. króna í skaðabætur fyrir að hafa látið falan til Ítalíu meiri fisk en til reyndist í landinu á s.l. ári, og telja stjórnendur þessa fyrirtækis þetta borga sig betur en að láta fisk af þessa árs framleiðslu upp í það, sem á samninga vantaði í fyrra. Svo mikla verðhækkun telja þeir á saltfiski í ár. En á sama tíma og verið er að greiða þessar skaðabætur til þess að komast hjá því að selja Ítölum nema takmarkað fiskmagn, þá liggur S.Í.F. svo mikið á að láta velja stærsta og bezta fiskinn úr saltfisksframleiðslu s.l. marzmánaðar hér heima handa Norðmönnum, að í aflahrotunni í s.l. mánuði var unnið að því dag og nótt á tímabili að pakka hinum íslenzka úrvalsfiski, sem nú var seldur til Noregs, þar sem Norðmenn fullverka hann og bæta sína framleiðslu með honum, flytja hann síðan út sem norskan fisk og keppa þannig við íslenzka fiskframleiðendur um saltfisksmarkaðina.

Ekki hefur annars orðið vart en að ríkisstj. láti sér þessi vinnubrögð vel líka. En sú stjórn, sem hefur þessar staðreyndir fyrir augum og horfir auk þess upp á það, að mestur hluti íslenzkrar útgerðar skilar reikningum, sem sýna mikinn taprekstur, og hefst samt ekkert að, meira að segja telur enga aðra en nefndan einokunarhring koma til mála sem aðila að saltfisksútflutningi, hefur ekki mikinn áhuga á að efla framleiðslu íslenzkra verðmæta.

Þetta tvennt, vanmatið á rétti hins íslenzka vinnandi fólks og tillitsleysið við málefni þess atvinnuvegar, sem skapar mestöll gjaldeyrisverðmæti þjóðarinnar, eru atriði, sem ríkisstj. finnast harla góð þann veg, sem þau nú eru. Um þau þarf engin ný lög og engar nýjar reglugerðir að hennar dómi.

Hvað er það þá, sem stjórnin gerir um þessar mundir, og að hverju miða athafnir hennar? Til þess að ekki sé nú valið til athugunar af þeim endanum, sem stjórninni kynni að finnast verr gegna, er vert að líta á tvö óskabörn hennar, þ.e. löggjöf yfirstandandi þings í húsnæðismálum og skattamálum.

Húsnæðismálin hefur stjórnin haft í burðarliðnum, síðan hún var mynduð fyrir rúmu hálfu öðru ári, en fæðingin var svo erfið og seingeng, að það eru einungis tvær eða þrjár vikur siðan Alþ. gat séð svipmótið á þessu afkvæmi stjórnarinnar, og það þurfti ekki lengi að virða það fyrir sér til að finna á því svipmót foreldrisins. Meginefni þess er sem sagt ekki fyrst og fremst að tryggja hæfilegar byggingarframkvæmdir í landinu, heldur hitt, að tryggja þeim, sem lána fé til bygginga, hærri vexti af fé sínu en áður hafa tíðkazt.

Lánadeild smáíbúðarhúsa hefur að undanförnu lánað fé til bygginga með 6% útlánsvöxtum, og lífeyrissjóðir ýmissa starfsmanna hafa einnig lánað út á þeim kjörum. En nú, þegar ríkisstj. Íslands freistar þess að koma upp veðlánakerfi til húsbygginga, þá er það höfuðboðorð þess kerfis að hækka hina almennu vexti lánanna í 7 eða 71/4%. Húsnæðislög stjórnarinnar gera ráð fyrir því, að byggingarlán séu greidd upp á 25 árum í jafngreiðslum. Sá, sem byggir sér meðalstóra nútímaíbúð, þ.e. 350 m3 íbúð, og fær til þess öll lán á þeim kjörum, sem stjórnarlögin móta, hlýtur að horfast í augu við þetta reikningsdæmi: Íbúðin kostar samkv. reykvískum byggingarkostnaði 262 þús. kr., mánaðarleg greiðsla vaxta og afborgana af þeirri upphæð er 1860 kr., rafmagn, hitunarkostnað, opinber gjöld og viðhald er vart hægt að reikna minna en 640 kr. á mánuði, eða húsnæðiskostnað samtals kr. 2500 á mánuði. 2500 kr. mánaðarlegur húsnæðiskostnaður var till. ríkisstj., lögð fram á sama tíma og mánaðarlaun verkamanns fyrir 8 stunda vinnu voru 2976 kr., og fyrir þá íbúð, sem kostar 262 þús. kr., ber á 25 árum að greiða 558 þús. kr., eða með öðrum orðum: Með stjórnarkjörunum á ekki einasta að borga húsnæðisverðið einu sinni og ekki bara tvisvar, heldur nokkuð á þriðja húsverð, þ.e. húsverðið með 112–113% álagi, og er þó miðað við, að ekki verði nein vísitöluhækkun. En með því að nokkur hluti lánanna á að vera með vísitölutryggingu til handa lánveitanda, þá gæti svo farið, að gjöld lántakanda yrðu miklum mun meiri en hér er gert ráð fyrir.

Það hlýtur að þurfa mjög harðsoðna stjórnarliða til að kalla það lausn á húsnæðisvandamálunum að gera þeirri kynslóð, sem byggir íbúð, sem standa á í öld eða máske í margar aldir, að borga hana tvisvar og meira en það á aldarfjórðungi.

Það, að ríkisstj. skuli leyfa sér að líta á húsnæðislöggjöf sína sem lausn á húsnæðisvandamálunum, sýnir bezt, hvað hún telur sér skylt að leysa. Henni er sama, þótt það fólk, sem skapar verðmæti þjóðarinnar, hafi ekki efni á að búa í húsum. Slíkt er ekki hennar vandamál, heldur aðeins hitt, að eigendur fjármagnsins, sem byggt er fyrir, séu tryggir með að hafa vel upp úr fé sínu.

Þegar arður lánveitenda hefur þannig verið hækkaður, gerir stjórnin sér von um, að nokkuð muni rýmka um á lánamarkaðinum og fleiri geti átt þess kost að fá byggingarlán en verið hefur. Þó er stjórnin ekki öruggari en svo um, að þörfinni verði fullnægt, að hún þorir með engu móti að sleppa af þeirri harðpólitísku einokun, sem komið var á um úthlutun smáibúðalánanna, þar sem einungis fulltrúar frá stjórnarflokkunum úthluta lánunum. Hin nýju lán eru því öðrum þræði greinilega hugsuð sem eins konar vinargreiði af hálfu valdhafanna, þótt þau í rauninni séu afarkostir og þeir húsbyggjendur bezt komnir, sem ekki þurfa á stjórnarvináttunni að halda.

Í hinu nýja lánakerfi er líka dyggilega fylgt þeirri meginreglu nútímalöggjafar að ætla þeim mönnum, sem búsettir eru utan höfuðborgarinnar, ekki meira en svo sem hálfan þegnrétt. Þeir geta að vísu sótt um lán og sent pappíra sína til Reykjavíkur. En ef að líkum lætur, þá tekst hinum reykvísku skrifstofum að finna einhverja formgalla á fyrstu, annarri og máske þriðju umsókn, svo að afgreiðsla hennar getur dregizt og beðið, meðan þeir aðilar, sem sjálfir hafa aðstöðu til þess að fylgja sínum málum eftir, knýja fram afgreiðslu þeirra. Þegar svo loks fást fram úrslít um aðsenda umsókn, þá verður viðkomandi lántakandi að verða sér úti um umboðsmann í höfuðstaðnum, senda honum umboð og margþætt skilríki til þess að veita lánsfénu viðtöku, eða axla sjálfur skinn sín á heimahlaði og takast ferð á hendur til að nálgast lánið, því að þrátt fyrir öll bankakerfi landsins, póstþjónustu og hvað eina, sem landsmönnum á að vera til hagræðis, þá hefur ríkisstj. ekki uppgötvað möguleika til þess að koma lánsfénu í hendur manna utan Reykjavíkur annan en að láta þá sjálfa sækja það í Landsbankann við Austurstræti.

Ríkisstj. hóf bein afskipti af byggingarmálum árið 1947. Siðan hefur sama stjórnarstefna ríkt, en hefur aðeins tekið nokkrum myndbreytingum. Hún byrjaði með því að banna mönnum blátt áfram að byggja. Síðan hefur hún guggnað á því, en torveldar þar á móti byggingar með ýmsu móti og nú síðast með því að færa byggingarlánakjörin til hins mesta óhagræðis. Á hinn bóginn kemst stjórnin ekki hjá að viðurkenna það öngþveiti, sem húsnæðismálin eru nú komin í víða. N. sú, sem rannsakaði þessi mál á vegum stjórnarinnar, telur, að byggja þurfi 900 íbúðir árlega næstu árin. Í öllum blómlegri byggðum landsins er nú húsnæðisskortur, nema þar sem samtök fólksins hafa haft lög stjórnarvaldanna að engu. Þar eru húsnæðisvandamálin næst lausn sinni.

Öll reynsla byggingarmálanna á liðnum árum hnígur að því, að Alþ. hefði átt að reka pappíra eins og húsnæðisfrv. ríkisstj. aftur til föðurhúsanna og semja sjálft l., sem miðuðust við húsnæðisþörf fólksins í landinu, en ekki við hagnað peningaeigenda af lánum.

Í skattamálum raupar stjórnin stundum af því að hafa lækkað skatta. Ekki verða það talin fullkomlega tilhæfulaus ósannindi, heldur mætti kalla það stjórnarsannleika, en það er nánar til tekið frásagnarmáti, þar sem korn af sannleika er notað til að pretta auðtrúa fólk til að leggja trúnað á miklar fjarstæður.

Á síðari árum hafa skattamál stöðugt færzt í það horf, að óbeinu skattarnir, þ.e. tollar, vörugjöld og gjöld af alls konar þjónustu, hafa sífellt orðið meiri og stærri liður í heildarþegnskyldu landsmanna, en tekjuskattur og eignarskattur um leið stöðugt minni hluti gjaldanna.

Á síðasta þingi var gjaldstigi hins beina tekjuskatts lækkaður svolítið, en sú lækkun nemur mjög óverulegri upphæð: Þar á móti voru stórlega hækkaðir ýmsir aðrir tekjustofnar ríkisins, sem innheimtast sem skattar af þegnunum, svo sem gjöld fyrir hvers konar leyfisbréf, stimpilgjöld o.fl. En hin raunverulega skattalækkun stjórnarinnar er fólgin í því að sleppa gróðafélögum undan ákvæðum skattalaganna.

Á þessu þingi hefur ríkisstjórnarliðið samþ. að undanþiggja Eimskipafélagið alveg frá skattgreiðslum og gefa öllum öðrum gróðafélögum eftir fimmta part af skatti þeim, sem lög gera þó ráð fyrir að þau beri. Skerðir þetta auðvitað tekjur ríkissjóðs um nokkrar millj. kr., sem hinir óbreyttu þegar fá að borga í óbeinum sköttum og hækkuðum vöxtum af skuldum sínum og eftir ýmsum leiðum, sem stjórnarvöldin finna til að draga vinnuarð alþýðunnar til sín.

Þau mál, sem ég hér hef drepið á, eru aðeins fá af mörgum, sem vert væri að rekja. En það er næstum sama, hvar á stjórnarathafnir núverandi stjórnar er litið. Alls staðar blasir við sama staðreyndin: Hún miðar gerðir sínar við hag auðstéttarinnar og virðir að engu hin þjóðnýtu störf þegnanna, og þjónusta hennar við framleiðsluna er harla bágborin.

Slík stjórn er í hrópandi ósamræmi við hag þjóðarinnar. Hún er þjóðinni fjötur um fót. Hún er óþrifnaður á þjóðarlíkamanum.

Það er svo sagt, að um skeið hafi Íslendingar lítt um það fengizt, þótt óværð væri á kroppi þeirra. Þá var gullöld fyrir blóðsugur. Þeir tímar eru nú sem betur fer að baki. En á stjórnmálasviðinu hefur íslenzka þjóðin nú um skeið vanrækt að taka sér þrifabað. En tímabil stjórnmálalegra óþrifa á sér líka takmörk, og nú sjást þess vissulega nokkur merki, að því fari að ljúka.

Íslenzk alþýða gerir þá kröfu að fá að njóta þess, sem hún aflar, og það er hennar réttur. En til þess að svo geti orðið, verður yfirdrottnun auðstéttarinnar að ljúka og við að taka stjórn, sem virðir störf þegnanna, virðir vinnu þeirra með huga og hönd í þjónustu framleiðslu og framfara. — Góða nótt.