10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristinn Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun fyrst að gefnu tilefni víkja nokkuð að þjóðvarnarmönnum eða hv. fulltrúum þeirra, sem hér hafa tekið til máls í þessum umræðum.

Það er nú svo, að fulltrúar Þjóðvfl. og ræðumenn hans hér á þingi og annars staðar eiga nokkuð erfitt með að skýra hlutverk sitt í íslenzkum stjórnmálum. Af ræðu hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssonar, mátti helzt skilja það, að ef tveir tilteknir þm. Alþ. hefðu talað hér í kvöld, þá hefði sennilega ekki verið þörf á að stofna þennan flokk fyrir tveimur árum.

Báðir hv. þm. Þjóðvfl. hér á Alþingi flytja langar ræður, sem í orði eru taldar vera á móti íhaldinu og íhaldsöflunum í landinu, og sverja og sárt við leggja, að þeir ætli aldrei að verða íhaldshækjur. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er Þjóðvfl. og hans forustulið öflugustu og sterkustu stuðningsmenn íhaldsaflanna í landinu og þeir menn, sem íhaldið treystir mest á í dag að muni halda áfram að sundra íslenzkri alþýðu. Þess vegna fær maður að heyra, hvað sjálfstæðismenn eru óhræddir við og tala í miklum háðungartón um þann möguleika, sem vafalaust er þrá og ósk mikils meiri hluta íslenzkrar alþýðu, að hér verði mynduð vinstri stjórn, sem berbreyti þeim stjórnarháttum, sem við höfum átt að búa við að undanförnu. En í dag eru sjálfstæðismenn ekki hræddir við það, að þessi stjórn komi bráðlega, af því að þeir eiga öfluga bandamenn innan raða þeirra, sem ættu að standa sameinaðir, og þeir bandamenn komu einmitt fram á sjónarsviðið, þegar öfgaflokkurinn, sem hefur hindrað eðlilegt samstarf og samvinnu alþýðunnar í landinu um langan tíma, var að hníga og falla. Þá komu þeir fram á sjónarsviðið og studdu og styðja í dag að áframhaldandi klofningsstarfi meðal íslenzkrar alþýðu, því miður.

Þessir menn hafa í ræðu og riti ekki átt nógu sterk orð til að lýsa því, hvernig forustumenn Alþfl. hafi svikið sínar fyrri hugsjónir og horfið frá upphaflegum baráttumálum flokksins, og séu þeir þess vegna allsendis ófærir um það í dag að veita lýðræðislegum, sósíaldemókratískum flokki forustu.

Það er nú eitthvað annað með forustumenn Þjóðvfl.

Alþfl. hefur í hartnær 40 ár barizt fyrir flestum, ef ekki öllum þeim umbótamálum, sem hafa verið íslenzkri alþýðu fyrir beztu og lyft hennar kjörum og tryggt gegnum erfiðleika undanfarandi ára og skapað henni þau lífsskilyrði, sem hún hefur í dag. Þegar þeir menn, sem hafa leitt þann flokk, Alþfl., öll þessi ár, eru svo í dag sakaðir um það að vera horfnir frá fyrri hugsjónum og stefnu sinni, sakaðir um það af mönnum eins og ýmsum forustumönnum Þjóðvfl., þá mætti maður kannske spyrja: Hvaðan kemur þessum mönnum sú djörfung að saka aðra um stefnuleysi, þegar vitað er, að í forustuhóp þessa flokks, Þjóðvfl. Íslands, eru menn, sem verið hafa í flestum, ef ekki öllum flokkum á Íslandi, á örfáum árum, sem þeir hafa komið nálægt afskiptum af opinberum málum? Þessa forustumenn á íslenzk alþýða svo að velja, einmitt vegna þess, að aðrir forustumenn, sem reynzt hafa henni vel í 40 ár, eru ekki lengur til þess hæfir.

Sannleikurinn er sá um stofnun Þjóðvfl., að hann er stofnsettur af mönnum, sem voru búnir að villast og þvælast milli flokka og eru allra manna sízt stefnufastir og ósveigjanlegir í starfi sínu og stefnu. En þeir inna af hendi í dag það hlutverk í íslenzkum stjórnmálum, sem þeir segjast alls ekki vinna, það hlutverk, sem þeir segja, að aðrir vinni, og það hlutverk er að koma í veg fyrir heilbrigt og nauðsynlegt samstarf vinstri aflanna í landinu til þess að gerbreyta þeim stjórnarháttum, sem við búum við í dag.

Við heyrðum hér í gærkvöld og aftur í kvöld, svo að tekið sé eitt dæmi um þau mál, sem þeir eru að berjast fyrir, langar ræður um tillögur þjóðvarnarmanna í verðlagsmálum. Þeir vilja halda verðlaginu niðri, eins og gott og blessað er, tryggja kaupmátt launanna og koma í veg fyrir okur og dýrtíð. Þessi flokkur, sem stofnaður var fyrir þremur árum, talar um það sem algera nýjung og sem sérstakt sitt mál að halda þessu fram fyrir íslenzka alþýðu, en það eru mörg ár, það eru a. m. k. fimm ár síðan bæði Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja lýstu opinberlega þeirri stefnu sinni, að þeir teldu það ekki vænlega leið til varanlegra kjarabóta að hækka kaup í krónutali, heldur að halda verðlaginu stöðugu og lækka verðlagið, ef mögulegt væri. Þetta er þess vegna ekki neitt nýtt baráttumál, sem þingmenn Þjóðvfl. koma með hingað inn á Alþingi eða flytja annars staðar. En af hverju er í dag svo mikið rætt um þessi mál? Það er vegna þess, að íhaldsöflin í landinu eru svo sterk, að þau telja sig geta farið gálauslega með þessi mál og gefið okrurunum tækifæri og öðrum gróðamönnum, sem vilja þau nota, til þess að hækka verðlag og græða á íslenzkri alþýðu. En ef Þjóðvfl. hefði ekki klofið íslenzka alþýðu í einn fleiri flokk en hún hafði áður verið í, þá hefðu íhaldsöflin ekki verið eins sterk í landinu og þau eru í dag.

Það er svo annað mál, hvernig á að fara að við það að sameina íslenzka alþýðu í traust samtök til þess að vinna að gerbættum stjórnarháttum hér á landi. En eitt það skref, sem íslenzk alþýða verður að taka og það fyrr en síðar, er að snúa baki við þeim ævintýramönnum og flokkaflökkurum, sem veita Þjóðvarnarflokki Íslands forustu í dag.

Eins og eðlilegt er í þessum umræðum, hefur verið mikið deilt um það, hversu ágæt stjórnarstefnan hefur verið undanfarin ár. Og þegar rætt er um stjórnarstefnuna í dag, þá er langeðlilegast að taka síðustu fimm ár, sem stuðningsflokkar núverandi ríkisstj. hafa farið með völd og framkvæmd hefur verið heilsteypt og óslitið sama stefnan í meginatriðum. Stjórnarliðar telja árangurinn glæstan og mikinn og framtíðina bjarta. En þegar litið er á þær staðreyndir, sem blasa við í dag, þá eru þær allt aðrar en stjórnarliðar vilja vera láta. Eitt aðalmálið, sem átti að koma í framkvæmd, þegar gengisfellingin var gerð fyrir röskum fimm árum, var að koma á frjálsri verzlun á Íslandi. Ég vil leyfa mér að nefna hér eitt lítið dæmi, sem sýnir, að þrátt fyrir það að nokkuð hafi miðað áleiðis að þessu marki, enda ekki að furða við þær aðstæður, sem stjórnarliðar hafa haft á undanförnum fimm árum, þá er það sorglega skammt, sem komið er að þessu marki, og af sorglega litlu að státa fyrir stjórnarliðið í því efni að koma á frjálsri verzlun á Íslandi. Eða hvort mundu menn kalla það frjálsa verzlun hér eða annars staðar, ef þannig væri málum háttað, að maður keypti hlut, greiddi hann fullu verði, en þyrfti þó að kaupa hann með þeim skilyrðum, að hann mætti ekki leigja, lána eða selja hann um margra ára bil, þó að hann greiddi hann fullu verði og væri löglegur eigandi hlutarins samkv. íslenzkum lögum? En í landi hinnar frjálsu verzlunar, svokallaðrar, sem við búum við í dag, eftir að ¾ hlutar Alþ. undir forustu ágætra manna hafa verið að berjast við að koma á frjálsri verzlun á Íslandi, er ástandið þannig, að hér á Alþ. á morgun verða greidd atkvæði um tillögu um innflutning á vissri tegund bíla, þ. e. a. s. jeppa, sem gert er ráð fyrir, ef samþ. verður, að sala á fari fram með þeim hætti, að sá, sem kaupir, má ekki leigja, ekki lána og ekki selja jeppa um margra ára bil, þó að hann eigi hann. Ég held, að af þessu eina litla dæmi megi sjá, hversu sorglega skammt og hversu mjög svo ótraustum fótum það hagkerfi stendur, sem núverandi stjórnarflokkar hafa verið að reyna að byggja s. l. fimm ár, enda ekki að furða, þegar gerð er tilraun til þess við íslenzkar aðstæður að koma á frjálsri verzlun á þann hátt, að aldrei séu til og aldrei myndist neinir gjaldeyrissjóðir, sem einir geta verið öruggur grundvöllur undir frjálsa verzlun. Og það er athyglisvert, að einmitt í verzlunarstétt eru og hafa verið glöggir menn, sem hafa ekki lagt hinn allra minnsta trúnað á það, að hér mundi verða frjáls verzlun, og hafa lagt þess vegna út í stórkostlegar „spekúlasjónir“ með þann gjaldeyri, sem þeir hafa fengið í gegnum frjálsa gjaldeyrisverzlun, og hrúgað upp birgðum til dæmis af vefnaðarvöru, og vafalaust ýmsum öðrum vörum líka beinlínis í þeim tilgangi að „spekúlera“ með hann og „spekúlera“ í gengisbreytingu, sem þeir töldu líklegt að mundi koma, vegna þess að hinn öruggi grundvöllur, sem þarf að vera undir frjálsri verzlun, hefur aldrei verið settur á Íslandi s. l. fimm ár.

Á þessu stigi málsins er ekki tími til, því miður, að nefna fleiri dæmi, en væri það gert, væri auðvelt að sýna, að það hagkerfi, sem ¾ hlutar þings hafa verið að byggja upp á Íslandi undanfarin fimm ár við ágætar aðstæður, gott árferði til lands og sjávar, yfirleitt gott verzlunarárferði, þ. e. a. s. gott hlutfall milli verðs á útflutningi og innflutningi, mikið erlent lánsfé, gjafafé og framlög, stórkostlegar aukatekjur af hernaðarframkvæmdum, — þrátt fyrir allar þessar aðstæður riðar það hagkerfi, sem reynt hefur verið að byggja á Íslandi undanfarin fimm ár. Það riðar mjög völtum fótum í dag, og það er allsendis óséð um það enn þá, hvort hægt er að telja nema í mánuðum þann tíma, sem líður þangað til það verður að gera einhverjar sérstakar meiri háttar ráðstafanir til að bjarga því, sem bjargað verður eftir þessa stefnu.