08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

1. mál, fjárlög 1955

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 253 nokkrar till., sem ég vildi leyfa mér að reyna að gera grein fyrir. Ég skal taka það strax fram, að það eru ekki sérstaklega háar upphæðir, sem þær hljóða um, miðað við þær stóru tölur, sem þetta frv. sjálft felur í sér, og þær háu upphæðir, sem hér hefur nú sérstaklega verið deilt um í þeim umr., sem þegar hafa farið fram.

Fyrsta till., sem ég flyt þarna ásamt tveim öðrum hv. þm., er till. um að verja á 14. gr. til vísindarannsókna í íslenzkri sögu, bókmenntum og tungu svo og íslenzkri jarðfræði 200 þús. kr. Ég held, að við verðum að reyna að gera okkur það ljóst, að þegar okkar fjárlög eru komin upp í 500 millj. kr., þá er ekki hægt fyrir okkur að koma með neinar afsakanir um það viðvíkjandi menningarlegu starfi, að við höfum ekki fé til þess að láta vinna það. Ég held, að við verðum að gera okkur það ljóst um allar þær mótbárur, sem verið hafa á undanförnum árum og áratugum hjá okkar þjóð í sambandi við veitingu fjár til alls konar mennta og vísinda, að það er ekki hægt að bera því lengur við, að við séum svo fátækir og við séum svo tekjulitlir. Það, sem þarna er farið fram á, er, að háskólaráð, að nokkru leyti í samráði við rannsóknaráð ríkisins, geti haft til umráða 200 þús. kr. til þess að veita mönnum til rannsókna, hreinvísindalegra rannsókna í sambandi við Ísland og sögu þess og tungumál.

Nú vitum við, hvernig er um þessa hluti. Ekki sízt eftir að menn hafa útskrifazt úr háskólum, eru þeir oft fullir af brennandi áhuga á að rannsaka hin og þessi viðfangsefni, sem augu þeirra hafa opnazt fyrir. Það er nauðsynlegt, að háskólinn hafi möguleika til þess að geta veitt ungum, efnilegum menntamönnum tækifæri til slíkra rannsókna. Oft er það líka svo, að seinna á ævinni, þegar menn eru orðnir þroskaðri og reyndari, opnast augu þeirra fyrir ýmsu slíku, en þá er venjulega komið svo, að þeir hinir sömu eru sokknir á kaf í kennslu og annað slíkt, jafnvel stundum meira eða minna forpokaðir, ef til vill einhvers staðar og einhvers staðar í erfiðum embættum, og fé til vísindastarfsemi vili oft verða lítið. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt, að Háskóli Íslands geti haft til umráða verulega fjárfúlgu, ef okkur á að takast að vinna þau störf, sem við þurfum að vinna og samboðin eru menningarþjóð.

Það er ekki til neins fyrir okkur að halda áfram að tala eins og við gerum, tala um okkur sjálfa sem söguþjóð, tala um okkur sem eina menntuðustu þjóð veraldarinnar og taka ekkert tillit til þess, hvernig aðrar þjóðir haga sér í þessum efnum og hvaða kröfur nútíminn gerir til okkar sem söguþjóðar og sem menningarþjóðar.

Öll Norðurlandaríkin láta sína háskóla hafa stórfé til þess að rannsaka þeirra eigin sögu og sögu Norðurlanda. Í Svíþjóð einni saman veit ég t.d. af nokkrum styrkjum, sem þar hafa verið veittir, að upphæð 200 þús. sænskar kr. á árí, aðeins til sögurannsókna viðvíkjandi norrænni sögu. Það er raunverulega svo, að ef fram kemur dugandi vísindamaður, sem kemur — við skulum segja t.d. til danska háskólans og segir við hann: Ég vil fá að athuga hér og undirbúa ljósprentun viðvíkjandi útgáfu á þessu og þessu riti, hvort það er nú t.d. viðvíkjandi Heimskringlu eða öðru slíku, — hann setur sinn reikning upp yfir þetta, og hann fær þetta fé. Við verðum að gá að því, að okkar háskóli getur ekki til lengdar staðið jafnfætis öðrum háskólum, svo framarlega sem eins er búið að honum og búið er að honum núna. Og ég vil segja það við hv. þingmenn, að það er rúið að venja embættismennina, jafnt við Háskóla Íslands sem allar aðrar menningarstofnanir, við þannig sparsemi, að þeir gera ekki þær kröfur til Alþingis, sem þeim ber að gera. Það er búið að prédika svo mikið yfir þeim, að Álþingi hafi svo lítil peningaráð og þjóðin sé svo fátæk, að þeir gera alls ekki þær kröfur til fjár, sem eru alveg nauðsynlegar, og ég álít, að við þingmenn þurfum að hjálpa í þessum efnum. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að hæstv. menntmrh. hafi sjálfur mikinn áhuga í þessum efnum og að það, sem fyrst og fremst standi á í þessu sambandi, sé, að hæstv. fjmrh. heldur svo aftur af hvað þetta snertir, að það er til vansa fyrir Alþingi. Og ég vil alvarlega biðja hæstv. fjvn. um að athuga það, að svona geta hlutirnir ekki gengið áfram. Svo framarlega sem það sýnir sig, að sá ráðherra, sem hefur t.d. með okkar menningarmál að gera, fer fram á fjárveitingar í þessum efnum og fjmrh. sker þær niður, ekki sízt þegar um smáupphæðir er að ræða, þá verður Alþingi að taka í taumana. Það getur ekki gengið, að hlutirnir gangi þannig fyrir sig. Erlendis er það svo, að við hvern einasta háskóla og yfirleitt allar menningar- og vísindastofnanir eru til milljónasjóðir, sem einstaklingar hafa gefið, einstakir auðmenu, einstakir aðalsmenn, einstakir yfirstéttarmenn, jafnvel fyrir mörgum áratugum eða jafnvel fyrir öldum. Það eru til gömul „legöt“ þannig, sem hægt er að treysta á. Hér höfum við svo að segja ekki neitt í þessum efnum. Við höfum ekki annað til þess að spila þarna úr og nota heldur en það, sem þjóðin ákveður að láta sjálf; hún verður sjálf að sjá sóma sinn. Það er ekkert að treysta hér á neina forríka yfirstéttarmenn, hvorki lifandi né dauða til slíks. Og þjóð, sem alltaf er að tala um sjálfa sig sem menningarog söguþjóð, á að finna til þess og við, sem hennar fulltrúar hér á Alþ., eigum að finna til þeirrar skyldu, sem hvílir á herðum okkar í þessu sambandi.

Ég held þess vegna, að það, sem hér er lagt til, þessar 200 þús. kr. í sambandi við vísindarannsóknir á íslenzkri sögu, bókmenntum og tungu og íslenzkri jarðfræði, sé það minnsta, sem þarna megi vera. Ég veit, að hv. fjvn. hefur lagt til 50 þús. kr. þarna fyrir utan, og ég álít, að það veiti ekki af að hafa það þá til annarrar þeirrar vísindastarfsemi, sem liggur utan við þetta og undir háskólann mundi heyra.

Þá leggjum við enn fremur til, sömu þm., í þessari III. brtt. á þskj. 253, að styrkurinn til íslenzkra námsmanna erlendis sé hækkaður úr 875 þús. upp í 1 millj. og 200 þús.

Ég býst við, að allir hv. þm. þekki, hvað mikið hefur komið fram af kröfum frá íslenzkum námsmönnum erlendis um, hve erfiðlega væri að þeim búið, og kannist þess vegna a.m.k. flestir við það, hve rík þörf sé á því, að þessi upphæð sé hækkuð, og vildi ég og við þessir þrír freista þess að fá komið henni upp í 1 millj. og 200 þúsund.

Þá flyt ég ásamt tveim öðrum þm. sósíalista á þessu sama þskj. brtt., sem er merkt með V, og enn fremur brtt., sem er merkt með VH. Önnur þeirra er viðvíkjandi landsbókasafninu, að veita til þess að míkrófilma handrit, heima og erlendis, 100 þús. kr., og hin er viðvíkjandi þjóðskjalasafninu, til þess að míkrófilma frumrit í safninu og skjöl erlendis, 100 þús. kr.

Eitt af því, sem við Íslendingar nú gerum alveg sérstakar kröfur til, er að fá handritin heim. Og við tölum ákaflega mikið um rétt okkar í sambandi við þau handrit og stöndum óvenjuvel saman í því máli. En ég veit ekki, hvort allir hv. þm. hafa gert sér það ljóst, að hér heima liggjum við með fjöldann allan af handritum, sumpart sem engir menn rannsaka, vegna þess að það vantar mannkraft og vantar fé handa þeim vísindamönnum og áhugamönnum, sem vildu rannsaka þau, og sumpart handritin, sem við erum sjálfir að eyðileggja með því að nota þau svo mikið, að þau slitna upp, í staðinn fyrir að míkrófilma þau og nota þau þannig. Enn fremur er til mikið af handritum og frumritum erlendis, sem við gerum ekki neinar kröfur og getum ekki gert neinar kröfur til þess að fá hingað heim. Það er óhjákvæmilegt fyrir íslenzka sögu, ef við eigum að rannsaka hana af nokkru viti og rannsaka hana hér heima á Íslandi, ef miðstöð að hálfu leyti fyrir íslenzka rannsókn á ekki að vera áfram í Kaupmannahöfn, að við eignumst filmur af þessum handritum. Ég skal nefna sem dæmi heil bréfasöfn íslenzkra manna, t.d. í Konunglega bókasafninu í Höfn, íslenzkra skálda og annarra slíkra, og meginið af öllum þeim opinberum skjölum, sem liggja í dönskum ráðuneytum frá þeim tímum, þegar Íslandi var stjórnað þaðan, ýmis þýðingarmestu skjöl í sambandi við stærstu atburði Íslandssögunnar. Það er svo að segja ómögulegt að ætla að rannsaka íslenzka sögu, hvorki gamla né nýja, nú sem stendur án þess að fara til Hafnar. En það mundi ekki kosta nema hverfandi lítið að láta míkrófilma þetta og flytja þetta hingað heim. Og sú upphæð, sem við leggjum þarna til, 100 þús. kr. handa hvoru safninu um sig, mundi fara ákaflega langt í að eignast myndir af megininu af þessu.

Nú vil ég vekja athygli hv. fjvn. og ríkisstj., að svo miklu leyti sem nokkur ráðh. heyrir til mín, á því, hvernig ástandið er með þetta núna. Það er þannig, að bláfátækir einstaklingar á Íslandi eru að reyna að komast til Kaupmannahafnar til þess að kosta upp á það sjálfir að taka míkrófilmur í söfnunum þar, af skjölunum, sem liggja þar. Og það eru í einstakra manna eign núna stórkostlega þýðingarmikil skjöl viðvíkjandi þjóðfundinum, viðvíkjandi stærstu atburðum í Íslandssögunni, sem ekki eru til hérna heima og engir menn hafa hugmynd um að séu til yfirleitt.

Við höfum ekki aðstöðu sem stendur til þess að geta skrifað einu sinni almennilega og haft þau skjöl, sem þarf, sjálfsögðustu skjöl um stærstu atburði Íslandssögunnar, vegna þess að við verðum að fara til Kaupmannahafnar til þess að hafa aðgang að frumritunum í þessu sambandi, og það eru frumrit, sem koma til með að verða áfram í Kaupmannahöfn, þó að öll okkar handrit, sem við gerum kröfur til, verði flutt hingað, — svo að ég tali ekki um það, að það geti komið fyrir, að við séum svo að segja að týna hér heima eða eyðileggja ýmis sögulega dýrmætustu plöggin, eins og hv. þingmenn kannske sumir þekkja dæmi um út af því, hvernig búið er að þessu öllu saman.

Ég vil vekja athygli á því, að áhugasamir fræðimenn okkar hafa sjálfir farið út til borga í Englandi og Þýzkalandi til þess að míkrófilma þar sjálfir eða láta míkrófilma dýrmæt skjöl viðvíkjandi Íslandssögunni, — að útlendir menn eru núna að koma til okkar og eru að gefa okkur míkrófilmur af slíkum skjölum erlendis frá. En við gerum sjálfir ekkert til þess að afla þess. Þetta getur ekki gengið. Og 100 þús. kr. handa landsbókasafninu og 100 þús. kr. handa þjóðskjalasafninu til þess að eignast þessa hluti er smávægileg upphæð á 500 millj. kr. fjárlögum frá Alþ., sem er að heimta handrit, sem segist vilja hafa handritin hér og ekki niðri í Kaupmannahöfn. Við eigum að sýna þann áhuga á þessu máli, að við ekki bara blásum okkur út og blásum sterkt og blásum saman út af málum eins og handritamálinu. Við eigum að sýna það, að við höfum áhuga á rannsóknum í þessu efni, fyrir vísindastarfsemi í þessu efni og fyrir því að beita vísindalegum aðferðum og fyrir að færa alla þessa hluti hingað heim til okkar. Ég vil alvarlega vara menn við. Sinnuleysið í svona málum verður notað á móti okkur, ef við ekki breytum þarna um. Um leið og við tökum með þökkum á móti því, sem okkur er gefið í þessum efnum, þá eigum við sannarlega að hafa manndáð í okkur til þess að útvega okkur eitthvað af þessu sjálfir.

Þá leggjum við tveir þm. sósíalista til í IX. lið á þessu sama þskj., að breytt sé liðnum hvað orðalag snertir viðvíkjandi þjóðminjasafninu. Hann hljóðar núna svo: Til hljómplötusafns, 5 þús. kr. — Þar sé sett: Til hljómplötusafns og upptöku á varanlegt efni á ýmiss konar alþýðlegum fróðleik, frásagnarlist og kveðskap, 100 þús. kr.

Ég skal strax taka það fram, að ég var þarna í vandræðum með orðið, sem ég set þarna fyrir varanlegt efni. Eins og allir hv. þm. vita, höfum við nú bæði stálþráð og alls konar hljómbönd og annað slíkt til þess að tala hluti inn á. Þetta eru svo nýir hlutir — svo að segja frá siðasta áratug — að við vitum ekki, hvað þeir endast. En við vitum hins vegar, að það er hægt að taka upp á þessa stálþræði ýmislegt, sem sagt er, og það er hægt að taka það af stálþræðinum yfir á plötur úr varanlegu efni, sem vissa er fyrir að geymist von úr viti. Og nú vildi ég mega skjóta því til hv. þingmanna, og ekki sízt fjvn.-manna, hvað í húfi er í sambandi við þetta. Kynslóð okkar er sjálf búin að gera sér ljóst, að hún sé mesta tímamótakynslóð, sem uppi hefur verið á landinu, — hún sé sú kynslóð, sem lifir mestu tímamót, sem orðið hafa í okkar sögu. Ísland, íslenzkir búskaparhættir og íslenzkar venjur, eins og þær hafa verið upp undir þúsund ár, eru að deyja út allt í kringum okkur. Og spurningin, sem liggur fyrir okkur, er, að hve miklu leyti okkar kynslóð, sem enn þá stendur á þessum tímamótum, tekst að gera afkomendunum ljóst, hvernig okkar forfeður hafa lifað hérna.

Nú skal ég nefna eitt dæmi um það, sem ég á við í sambandi við þetta. Það er deilt um það, hvernig Íslendingasögurnar hafi orðið til, hvort þær séu skáldaðar svo að segja á 13. öldinni eða hvort þær hafi verið sagðar mann fram af manni. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, að Íslendingasögurnar hafi verið sagðar kynslóð fram af kynslóð, en ég veit, að það eru fjölmargir af okkar samtíðarmönnum, sem ekki trúa því, að það sé hugsanlegt, að heilar, langar sögur og heil, löng ljóð séu sögð orðrétt kynslóð fram af kynslóð og öld eftir öld, og ég veit, af hverju menn ekki trúa þessu. Menn trúa því ekki vegna þess, að menn skilja ekki, hvernig minni þeirra kynslóða, sem lifði á undan okkur, var. Við erum að verða minnissljóir. Vegna allra þeirra áhrifa, sem við verðum fyrir af öllu því, sem við sjáum og lesum, getur okkar heili ekki geymt þetta. Minni þeirra manna, sem lifðu á undan okkur, var ótrúlegt í þessum efnum. Þeir menn, sem kunnu sögur og kunnu kvæði, gátu þulið þessi kvæði utan að, — menn, sem aldrei kunnu að lesa eða skrifa. Það t.d. er staðreynd, að árið 1887 var í Serbíu, þáverandi Serbíu, gerð tilraun með slíkt. Einn slíkur — ja, skáld mundum við kannske hafa kallað það — hafði yfir hetjuljóð, sem voru tvöfalt lengri en Illonskviðan og Ódysseifskviðan saman lagðar, án þess að kunna að lesa eða skrifa eða án þess að hafa staf fyrir sér. Ég veit, að flestallir hv. þm. hafa sjálfir, ef ekki sem fullorðnir menn, þá a.m.k. sem börn, hlustað á rímur, ekki kveðnar með þeim listræna hætti, sem sumir menn kunna enn, heldur máske rímur, sem gamlar konur hafa þulið við rúmstokkinn hjá þeim, þegar þeir voru ungir, rímu eftir rímu, ekki aðeins rímuflokk eftir rímuflokk, heldur heilar rímur hverja á fætur annarri, og hafa þekkt menn, sem hafa kunnað utan að heilar rímur og það margar. Ég býst við, að hv. þm. hafi máske líka lifað það, að gamlar konur, ömmurnar eða aðrar, hafa sagt þeim sögur sem börnum, og barnið heimtar gjarnan, að sagan sé sögð aftur, og það er staðreynd, að barnið ætlast til þess, að sagan sé sögð nákvæmlega eins aftur, og ég veit, að þegar saga hefur verið sögð þannig aftur og hefur skeikað einu orði, þá hefur barnið leiðrétt. Svona gekk þetta til öld fram af öld og kynslóð fram af kynslóð hjá okkur hérna áður. Þetta hefur verið til fram á okkar daga, og það er enn þá til fólk, sem kann utan að heilar rímur og segir heilar sögur, segir þær hvað eftir annað og segir þær orðrétt. Og ég held, að við þurfum að taka þetta á stálþráð, og flytja það af stálþráð á varanlegar plötur. Við þurfum að eiga þetta með vottorðum góðra manna um, að svona hafi verið lesið upp og svona hafi verið þulið og svona hafi verið sagt, án þess að menn hafi litið í bók, menn hafi kunnað þetta utan að, því að ég skal alveg segja ykkur hreinskilnislega, að eftir eitt, tvö eða þrjú hundruð ár verða menn, sem bera brigður á það, að það hafi nokkurn tíma verið til fólk, sem hafi kunnað svona mikið utan að.

Ég held þess vegna, að það sé nauðsyn fyrir okkar menningu, að þjóðminjasafninu sé gefið tækifæri til þess að taka upp það, sem enn þá kann að lifa af slíkri frásagnarlist, af slíkum kveðskap, ekki endilega með þeim hætti, sem gert er af ýmsum, sem kunna vel og með miklum hrynjanda að kveða rímurnar, eins og hérna er gert, heldur einmitt eins og þetta hefur gerzt hjá alþýðu manna. Ég meina ekki bara eins og menn kunna það kannske enn þá, með öllum tilheyrandi stemmum, heldur eins og það hefur tíðkazt alveg blátt áfram. Enn fremur að taka upp frásagnir, sem gamlir menn segja enn þá um ýmsa staði, frásagnir af ýmsum atburðum og annað slíkt, til þess að eiga það, þann máta, sem sagt hefur verið frá á. Það eru menn, sem nú eru komnir um sjötugt og áttrætt, bændur og sveitamenn hér og hvar á Íslandi, sem eru ekki bara listamenn, heldur líka svo fullir fróðleiks í þessum efnum, að við þurfum að geyma þetta á þennan hátt. Og ég vil segja eitt einmitt vegna þess, hve mikið er að því gert að skrifa núna upp eftir mönnum. Það er ekki svipur hjá sjón hjá því að heyra þá sjálfa segja frá, þegar frásögn eins bónda kemur útfærð, jafnvel þó að það sé af mjög vel pennafærum mönnum, eins og nú tíðkast; þeirra ævisögur koma út, eins og góðir stílistar hér í Reykjavík hafa fært í stílinn. Hins vegar eru þeir sjálfir margir hverjir ónýtir að skrifa þetta, en þeir kunna að tala það; þeir kunna að segja það. Það var nefnilega svo um tíma, þegar verið var að byrja á því að reyna að skrifa upp hjá þeim mönnum, sem sögðu og kváðu hetjuljóðin, að það fipaðist allt, þegar átti að fara að skrifa upp eftir þeim, vegna þess að þeir voru vanir að tala hratt og bera hratt fram og með áherzlum, og þá náðist það ekki til að láta skrifa. Það er ekki fyrr en stálþráðurinn kom til, að menn hafa náð slíku, t.d. hjá hirðingjaþjóðum, sem fyrir 25 árum höfðu hvorki lært að lesa né skrifa, en höfðu öll sín hetjuljóð og kunnu þau. Það er ekki fyrr en stálþráðurinn kemur til, að menn hafa getað náð þessum hetjuljóðum óbrengluðum. Það var ekki hægt að skrifa þau.

Ég held þess vegna, að það væri ákaflega æskilegt, að við gætum komið okkur saman um að verja fé í þessu efni núna, og ég vil vekja athygli á því, að það er hver seinastur með þetta. Það eru með hverju árinu að deyja út þeir menn, sem enn þá kunna þessa hluti, sem við þurfum að ná þarna á stálþráð. Sú bylting, sú gífurlega umbreyting, sem orðið hefur í öllum okkar háttum hér, er svo mikil, að hvert árið er okkur dýrmætt í þessum efnum. Ég veit, að við mundum allir sjá mikið eftir því seinna, ef við áttum okkur ekki á þessu í tíma.

Þá leggjum við tveir þm. Sósfl. enn fremur til með X. brtt. á sama þskj., að varið sé 50 þús. kr. til að taka upp og setja á varanlegt efni, sem sé á varanlegar hljómplötur, nokkur af beztu kvæðum Davíðs Stefánssonar og Jóhannesar úr Kötlum, lesnum upp af skáldunum sjálfum. Ég býst við, að flestir þeir, sem hafa heyrt bæði þessi skáld lesa upp kvæði, með þeim sérkennilega hætti og eftirtektarverða, sem þeir hafa, mundu gjarnan vilja, fyrst við nú höfum ekki lengur möguleika til þess að hafa neitt af okkar eldri skáldum, þeim sem nú eru fallin frá, geta varðveitt til seinni tímans eitthvað af þeirra kvæðum, upplesnum af þeim sjálfum, og ég vil enn fremur benda á menningarsögulegt gildi þess að eiga þetta upplesið af skáldunum, með þeirri tilfinningu, sem þau leggja í þetta, líka hvað snertir rannsókn á þessum kvæðum seinna meir. Við skulum hugsa til þess, að þegar við fáum upp í hendurnar alla þessa tækni, sem við hérna erum með, þá fylgir því ábyrgð. Okkar afkomendur gera þær kröfur til okkar, að við varðveitum allt öðruvísi handa þeim hlutina heldur en hlutirnir voru varðveittir handa okkur. Við erum að álasa þeim, sem fóru á undan okkur, að þeir hafi ekki kunnað að varðveita gömul skinn og notað þau í skinnbætur. En við, sem höfum möguleika til að varðveita raddir manna og láta geymast í þúsund ár, heil kvæði ágætra skálda, eins og þeir lesa þau upp, hirðum ekki um að gera þetta. Við, sem gætum látið þau ágætu skáld, sem nú eru til, lesa upp heilar sögur fyrir okkur og átt það, hirðum ekki um að gera það. Jú, við tökum þetta kannske einu sinni á stálþráð, spilum það í útvarpinu og eyðileggjum stálþráðinn á eftir. Það verður einhvern tíma sagt við okkur, að við séum ekkert betri en þeir, sem notuðu handrit í skóbætur.

Þá leggjum við til með XIII. liðnum, að til samningar íslenzkrar orðabókar sé varið 200 þús. kr. Till. fjvn. er 100 þús. kr. gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Nú er það vissa, að sáttmálasjóðurinn við háskólann getur ekki látið meira en 75 þús. kr. í þetta, og það er ekki hægt að ætlast til meira framlags af honum. Hins vegar leggjum við þarna til, að þær 100 þús., sem ríkið leggur fram, séu hækkaðar upp í 200 þús. — Það gildir alveg sama með þetta spursmál um orðin eins og er um það, sem ég var að minnast á áðan í sambandi við kveðskapinn og frásagnarmátann. Það eru að hverfa orð úr íslenzkunni árlega núna. Ég skal nefna dæmi. Nýlega skrifuðu þeir, sem vinna við orðabókina, út til nokkurra manna á Íslandi til þess að biðja menn um orð viðvíkjandi heyvinnu og heyvinnutækjum og báðu sveitamenn um allt land, sem þeir skrifuðu, að segja sér um ýmis orð. Ýmsir menn svara þessu, svara greiðlega og nefna ýmis orð, og það kom fram, að 30% af orðunum, sem þeim er skrifað um, eru orð, sem ekki eru til í orðabók Sigfúsar Blöndals. Auðvitað er meginið af þessum orðum í sambandi við tæki og búskaparhætti, sem nú eru að hverfa, og við vítum, hvað það gengur hratt með, að þetta hverfi núna. Það gengur svo hratt, að tæki, sem voru algeng í okkar æsku í sveit, eru jafnvel ekki til til þess að setja á safn núna. Eyðileggingin gengur svo fljótt, að það verður jafnvel eftir fróðra manna fyrirsögn að fara að smíða núna tæki til þess að setja á safn. Við getum ekki sett þangað gamla muni. Og orðin í íslenzkunni eru líka að þjóta burt frá okkur. Það þýðir, að hvert árið, sem núna líður, með þeirri tæknibyltingu, sem fer fram í sveitunum, er okkur dýrmætt hvað þetta snertir. Það er þess vegna nauðsyn fyrir okkur að geta sett meiri kraft í þetta, og við höfum orðið varir við það, einmitt frá hálfu þeirra tveggja síðustu menntmrh., að það hefur verið áhugi á að auka fjárframlögin í þessum efnum. Ég held, að við þurfum að taka undir þetta, þingmenn, við þurfum að taka betur undir það en gert hefur verið, og við þurfum að sýna, að við höfum vilja til þess að leggja þarna fram meira en gert hefur verið hingað til.

Þá leggjum við til með brtt. XV, að styrkurinn til skálda og rithöfunda sé hækkaður úr 630 þús. upp í 1.2 millj. Ég sé, að fjvn. hefur lagt til að hækka það upp í 800 þús., og er það góðra gjalda vert, en með því að vera 1.2 millj. yrði hann rétt helmingi hærri en hann var, þegar fjárlögin voru helmingi lægri en þau eru núna, svo að ég held, að það sé nú rétt að reyna að láta þetta fylgjast með.

Þá leggjum við til með XVII. brtt., að styrkurinn til vísindamanna og fræðimanna sé hækkaður úr 90 þús. upp í 200 þús. Þessi styrkur hefur verið mjög nytsamur, en yfirleitt þannig, að hann hefur verið svo smár, kannske nokkur þús. kr., en aldrei eiginlega svo, að það væri hægt t.d. að láta nokkurn mann vinna heilt ár að einhverju starfi í sambandi við það. Ég held þess vegna, að það væri mjög æskilegt að geta fengið þennan styrk tvöfaldaðan.

Þá gleymdi ég að minnast á áðan, í sambandi við X. lið, till., sem við erum með um að kvikmynda daglegt líf á afskekktum kotbæjum. Ég skal taka fram, af hverju við orðum þetta svona einkennilega. Kotbæirnir á Íslandi eru að hverfa úr sögunni, eins og við vitum allir, og flestir munu vafalaust segja: til allrar hamingju. Það eru gerðar ráðstafanir á Alþingi og af áhugasömum sveitar- og sýslufélögum til þess að varðveita nokkra beztu bæina, nokkur svo að segja næstum höfðingjasetur. Eftir 20–30 ár, ef allt gengur vel, verður máske ekkert kot lengur til á Íslandi, þ.e.a.s. það, sem íslenzk alþýða hefur lifað við um árþúsundir, og okkar afkomendur munu yfirleitt eiga erfitt með að gera sér í hugarlund, hvernig lifið hefur verið í þessum kotum. Við skulum muna eftir, að æskan, sem vex upp, gerir yfirleitt þær kröfur að vilja sjá alla hluti. Það er verið að koma henni upp á það, að hún fær myndir um allt, kvikmyndir eða myndir. Það er næstum því eins og hún venjist af því að lesa; hún vill sjá allt í myndum. Og ég held, að við eigum að sjá til þess, að það sé til mynd af, hvernig íslenzkt kot er og hvernig aðbúnaðurinn og daglega lifið og vinnan í slíku koti er. Ég veit, að mörg áhugasöm byggðafélög eru að láta kvikmynda núna í sínum byggðarlögum, en mér er nú ekki grunlaust um, að það sé meðfram til þess að taka það bezta, sem til er, og það er ekkert undarlegt. En við þurfum að eiga menningarsögulega séð alveg raunhæfa mynd af, hvernig menn klæddust daglega án þess að fara í sparifötin, hvernig kotbændurnir lifðu á Íslandi, hvernig kotbæirnir voru á Íslandi. Meira að segja Salka Valka og Sjálfstætt fólk, það verður litið á það sem skáldsögur, sem ekkert sé satt í, — það er sannasta myndin, sem við eigum samt af þessu, — fyrir utan svo hitt, að fjöldinn allur af fólki, sem kemur til með að lifa eftir okkur, mun ekki fást til þess að lesa sögur, því miður, heldur heimta að sjá þessa hluti fyrir sér. Við munum kannske reyna að fara að leika Sölku Völku og Sjálfstætt fólk einhvern tíma seinna og leika það betur en aðrir mundu gera. En það er ekki það, sem ég á við. Ég á við að taka upp lífið, eins og það er, alveg óbrenglað, án þess að láta leika nokkurn skapaðan hlut, rétt eins og það kemur fyrir. Núna eru aðrar þjóðir að reyna að láta leika þessi tímabil og eiga erfitt með það. Við getum enn þá tekið þau svo að segja eins og þau voru, en það verður dáið út eftir nokkur ár, og flestir munu segja: til allrar hamingju.

Þá erum við með þá till., nr. XXII, 3 þm., að veita til þess að steypa í eir Útilegumanninn, höggmynd Einars Jónssonar, 250 þús. kr. Útilegumaðurinn er, eins og allir hv. þm. vita, rammíslenzkasta listaverk Einars Jónssonar, og ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég sé ákaflega mikið eftir því, að þetta listaverk skuli yfirleitt ekki vera lengur fyrir almenningssjónum. Þegar ég var barn hér í Reykjavík, þá man ég eftir, að þetta listaverk stóð í fordyrinu að gamla Íslandsbanka. Þó að það væri því miður síður en svo heppilegur staður og er nú ekki góður staður til að geyma listaverk á, þá þýddi það samt, að fólkið sá þetta. Fólkið er ekki eins duglegt, því miður, að fara á söfn eins og ætti að vera. Listaverk eins og Útilegumaðurinn er, ég held að öllum öðrum listaverkum ólöstuðum, sem við höfum hér í Reykjavík nú mundi prýða mest. Og ég held, að við eigum ekki á svo háum fjárlögum sem við nú samþykkjum að sjá eftir þeirri upphæð, sem þyrfti til þess að steypa það listaverk í eir.

XXIV. brtt. á þskj. 253 fjallar hjá okkur um að hækka styrkinn til sumardvalarheimila úr um 100 þús. upp í 300 þús. kr. til þess að gera mögulegt fyrir börn að geta verið í sveit eða svo að segja í sveit að sumrinu.

Þá leggjum við enn fremur til í síðari liðnum þar, að tekinn sé upp nýr liður á 17. gr. Það hefur verið svo undanfarið, að sérstaklega mæðrastyrksnefnd hefur gengizt fyrir því að gera nokkrum húsmæðrum frá barnmörgum heimilum í Reykjavík mögulegt að geta dvalizt hálfsmánaðarskeið eða svo á Laugarvatni. Og það er engum efa bundið, að á þessum tímum, þegar svona mikið er nú um, að starfsmenn og verkamenn fái orlof, og þær kröfur fara sífellt vaxandi, þá þurfum við að gera nokkuð að því að veita þeim þegnum þjóðfélagsins, sem minnst hafa máske réttindin, oft lengstan vinnutímann og oft lélegust launin, þ.e. húsmæðrunum, mögulegt að njóta einhvers af slíkum réttindum. Það er ekki þægilegt viðureignar að setja löggjöf um þetta efni. En ég held, að það væri hægt að hjálpa þessu nokkuð með því að hafa það svo, að þau samtök, eins og mæðrafélögin, mæðrastyrksnefndirnar eða önnur slík samtök, sem hafa áhuga fyrir því að gera húsmæðrum mögulegt að fá svona sumardvöl, hljóti nokkurn styrk til sinnar starfsemi. Þess vegna leggjum við þarna til, að félmrn. sé heimilað að úthluta til slíkra samtaka 200 þús. kr. Það held ég sé mjög þarft mál.

Þá leggjum við til á sama þskj., brtt. XXVI, að til almennra slysavarna og til umferðarslysavarna sé styrkurinn hækkaður nokkuð, um 100 þús. í fyrra tilfellínu og 50 þús. í því síðara. Það þarf vart að rökstyðja, svo mjög sem þannig er nú komið hjá okkur, að slysin, ekki sízt í sambandi við umferð, eru að verða almennari dauðaorsök en jafnvel sjóslysin í sambandi við vinnuna.

Þá eru svo till. í sambandi við 20. gr., XXX og XXXl. Er lagt til, að byrjað sé að leggja til hliðar fé til að undirbúa byggingu þjóðskjalasafns og enn fremur til byggingar listasafns ríkisins. Fyrir 10 árum, þegar lýðveldið var stofnað, komum við okkur saman um að veita ríflegt fé til að koma upp þjóðminjasafni. Og ég býst við, að allir gleðjist yfir því nú að sjá, hve vel verði þar búið til frambúðar um okkar þjóðminjar, það er að segja þær þeirra, sem ber að varðveita á slíkum stað. En eins og menn taka eftir, er þetta hús svo að segja strax orðið of lítið. Þar sem málverkasafnið er nú, veitir okkur ekki af að fara að hafa fyrir ýmislegt, sem snertir nútímann, og þegar ég tala um nútímann í því efni, þá á ég líka við 19. öldina. Ég er hræddur um, að það séu daglega að glatast hjá okkur minjar og munir eftir þá menn, sem við komum þó til með í okkar meðvitund og jafnvel sögu að setja við hliðina á öllum þeim, sem í fornöldinni settu mestan frægðarljóma á okkar land. Það fer að verða svo, að ýmsu úr heimilum manna eins og Matthíasar Jochumssonar, Stephans G. Stephanssonar og annarra slíkra verður erfitt að ná eða eignast eða varðveita, ef ekki er farið að hugsa um það tiltölulega snemma, og ríkið hefur enn sem komið er ekki litið þetta sömu augum og fornminjarnar. Einstaklingar hafa haft þarna mikinn áhuga og elnstök samtök, en ríkið þarf að koma þarna til. Ef við hins vegar ætlum að fara að taka fyrir safn þann hluta af þjóðminjasafninu, þar sem málverkin nú eru geymd, þá fer okkur að vanta stað fyrir málverkin, og þess vegna þurfum við að fara að safna í byggingu fyrir listasafnið nú þegar. Hvað þjóðskjalasafnið snertir, þá þarf landsbókasafnið alveg nauðsynlega á því húsrúmi að halda. Og í þjóðskjalasafninu er allt of þröngt, svo þröngt, að það liggur við, að dýrmæt skjöl tapist bara út af þrengslunum, hvernig öllu er hrúgað saman.

Þetta eru hinir einu stóru liðir, sem við gerum till. um, þm. Sósfl., á þessu þskj., og það má náttúrlega vel vera, að það sé ekki hægt að fá það í gegn í flýti. Allar hinar till., sem ég hef gert grein fyrir og mælt með, eru sjálfar til samans ekki nema rúm millj. kr., eitthvað milli 1 millj. og 11/2 millj.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar viðvíkjandi þessum málum og ekki sérstaklega fara inn á þær umr., sem hér hafa verið. Það var aðeins eitt, sem ég hjó eftir hjá hv. frsm. fjvn. Hann talaði um það, að því er mér skildist sem röksemd um, að við mættum ekki búast við of miklum tekjum á næsta ári, að kaupmenn kvörtuðu um, að eftirspurn eftir vörum væri farin að minnka, væri orðin of lítil. Og það er vitanlegt, af hverju hún er orðin of litil. Það er vegna þess, að kaupgeta almennings er orðin of lítil til þess, að almenningur geti veitt sér það, sem þjóðin hefur efni á að flytja inn.

Ég held, að það sé engin ástæða til þess að kviða því, að svo verði á komandi ári. Ég held, að við getum verið vissir um, að eftirspurnin muni aukast. Það er svo auðveld lækningin á því. Það er aðeins að hækka kaup verkalýðsins, og það held ég megi fullvissa hv. frsm. fjvn. um að verkalýðurinn sé alveg ráðinn í að gera, þannig að við þurfum ekkert að kvíða því, að það verði ekki aukin eftirspurnin eftir vörunum á næsta ári. Það þýðir, að innflutningurinn getur haldið áfram að vaxa, almenningur að njóta þeirrar velmegunar, sem þjóðin þar með býr við og eins og við vitum byggist á því, að við getum aukið okkar framleiðslu og getum verið öruggir með okkar markaði. Ég held þess vegna, að það sé engin ástæða til þess að óttast, að við getum ekki á næsta ári haldið áfram að tryggja öllum vinnu — og það betur en á því síðasta — og tryggja vaxandi velmegun í landinu. En um leið, þá held ég líka, að við megum vera öruggir um það, að á okkar 500 millj. kr. fjárlögum höfum við áreiðanlega fé afgangs til að veita m.a. þá litlu hluti, en mikilvægu, sem ég hef nú reynt að gera nokkra grein fyrir að rétt væri af okkur að veita nú á þessum fjárlögum.

Ég vil svo vona, að þessar brtt. okkar finni náð fyrir augum hv. þm. og þeir taki vel undir þær, þegar að því kemur, að þeir eiga að greiða um þær atkvæði.