10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Alþm. og aðrir þeir, sem hlýtt hafa á þessar umræður, hafa nú heyrt hinn mikla mun, sem er á málflutningi stjórnarandstæðinga og ríkisstj. og málsvara hennar. Við sjálfstæðismenn höfum nú sem fyrr vitnað til staðreyndanna, skýrt þær og stutt mál okkar með þeim. Almenningur treystir okkur betur en öðrum, m. a. vegna þess, að menn hafa reynt, að það stenzt, sem við segjum og lofum. Andstæðingarnir virða staðreyndirnar lítils, í mesta lagi að þeir bölvi þeim, eins og Vilmundur landlæknir forðum. Í stað þess, sem er raunverulegt og satt, tildra andstæðingarnir upp blekkingum og útúrsnúningum í þeirri von, að slíkt veiti þeim brautargengi. Hvernig halda menn, að þessum herrum mundi takast að stjórna landinu í sameiningu, þegar allt rekst svo á annars horn sem raun ber vitni um, meðan þeir þó eru aðeins í andstöðu og þurfa enga ákvörðun að taka á Alþ., sem máli skiptir?

Þeir eru t. d. að vísu allir sammála um, að sjálfsagt hafi verið að gera stórkostlegt verkfall. Um hitt rífast þeir, hverju hafi átt að ná með verkfallinu og hvort það hafi orðið til ills eða góðs. Um varnir landsins segja sumir, að þær eyði atvinnuvegunum og heilum landshlutum; aðrir, að þjóðinni sé haldið uppi með varnarliðsvinnunni. Sannleikurinn er sá, að Íslendingar láta hlutfallslega miklu færri menn til slíkra starfa en nokkur önnur þjóð, og er það í hendi íslenzkra stjórnvalda að láta ekki einum manni fleira til þeirra en þau ákveða og telja atvinnuvegina þola.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson lætur nú svo, að þeir, sem báru fram kröfur um kauphækkanir, sem námu a. m. k. 37–50%, hafi raunverulega viljað lækkun á verðlagi. Þannig er samræmið í rökunum. Það er ekki aðeins, að þessir menn séu ósammála hver við annan, heldur stangast allt hjá hverjum og einum.

Hv. þm. Einar Olgeirsson vill t. d., að við tökum Dani og Norðmenn til fyrirmyndar í því að fá ekki erlenda menn til varnar landinu. En vill hann lúta fordæmi þeirra um það, að við sjálfir tækjum að okkur hlutfallslega jafnmiklar varnir og þessar þjóðir gera? Ef svo væri, mundi skjótlega óhætt að láta hið erlenda varnarlið hverfa héðan. En svo illa sem Einari er við varnir hinna erlendu manna, er honum þó enn verr við, að Íslendingar komi sér sjálfir upp vörnum. Engum dylst, af hverju þessar mótsagnir spretta. Hv. þm. Einar Olgeirsson þjónar þarna öðrum hagsmunum en íslenzkum.

Um varnarmálin læt ég mér annars nægja að vitna til traustsyfirlýsingar þeirrar, sem þjóðin hefur veitt stefnu stjórnarinnar með því að taka jafnfálega undir undirskriftasöfnunina, sem hafin var s. l. vetur eða haust, og raun ber vitni um. Til þeirrar undirskriftasöfnunar var efnt með miklu brambolti. Nú heyrist ekki á hana minnzt, og byrjað er á annarri undirskriftaherferð til að láta hina fyrri hverfa í gleymskunnar dá.

Hermanni Jónassyni geðjaðist ekki að því, að við sjálfstæðismenn skyldum skýra nokkuð eðli vinstri samvinnunnar, og reyndi að gefa nýjar skýringar á fyrra tali sínu um þetta. Enn var þó glöggt, hvað hann vildi, — jafngreinilegt og ekki geðjast öllum flokksmönnum hans þær ráðagerðir. Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson kom strax á eftir Hermanni og lýsti nokkuð því liði, sem Hermann vill ólmur ná samvinnu við. Var það ófögur lýsing, en því miður sönn. Horfir sannarlega ekki vænlega um þá samvinnu, sem efnt væri til af slíkum hug, fremur en gera virðist um sameininguna t. d. innan Alþfl., ef það er rétt, sem hér hefur komið fram, að orka hans fari nú mest í það að útiloka hver annan frá því að halda ræður.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Hermanni Jónassyni, að Íslendingar hafi aldrei reynt samvinnuútgerð. Hún hefur verið reynd og því miður ekki gefizt vel. Eins er það alger misskilningur, að verkföll mundu ekki verða við slíka starfrækslu. Ekkert land hefur þroskaðri samvinnu í landbúnaði en Danir, og varð þó með sérstökum ráðstöfunum að hindra, að stórfellt verkbann eða verkfall skylli þar á fyrir fáum vikum. Í Bretlandi hefur ekki orðið minna um verkföll í þjóðnýttum atvinnugreinum en öðrum. Mestur er þó misskilningurinn, ef Hermann Jónasson og aðrir láta sér til hugar koma, að unnt sé að vinna bug á völdum kommúnista í verkalýðshreyfingunni án atbeina sjálfstæðismanna. Sú trú, sem virtist hjá honum koma, að sjálfstæðismenn væru andstæðir verkalýðssamtökunum, er alger staðleysa. Við sjálfstæðismenn skiljum til hlítar nauðsyn frjálsra og voldugra verkalýðssamtaka, en við gleymum því ekki, að blómlegir atvinnuvegir eru undirstaða velmegunar allra, ekki aðeins atvinnurekendanna sjálfra, heldur ekki siður verkamanna og alls almennings. Um leið og allir þessir aðilar, verkamenn, atvinnurekendur og ríkið, eiga að vera hver öðrum óháðir, þá þurfa þeir og að hafa góða samvinnu sín á milli. Við teljum það þjóðarvoða, þegar svo fer, eins og í þjóðfélögum kommúnista, að verkalýðsfélögin eru gerð að tæki í höndum ríkisins, sem um leið er allsherjaratvinnurekandinn, — tæki, sem notað er til áþjánar verkalýðsins, en ekki honum til heilla. Á meðan við höldum frjálsu þjóðfélagi hér á landi, er ekki hætta á þessu. En við sjáum nú þegar, hvað verða vill með þeirri misnotkun kommúnista á verkalýðshreyfingunni, sem þegar er hafin og öll miðar að misbeitingu félaganna í flokksþágu kommúnista. Baráttan gegn þeirri þjóðarhættu, sem stafar af valdráni kommúnista innan verkalýðsfélaganna, mun halda áfram, þangað til henni lýkur með sigri lýðræðismanna, og hún verður vitanlega fyrst og fremst háð innan félaganna sjálfra sem sjálfstæðisbarátta allra frelsisunnandi verkamanna gegn misnotkun kommúnista á þessum nauðsynjafélagsskap. Á þeim vettvangi verður úrslitabaráttan háð. En atvinnurekendur verða og að minnast þess, að stundarsigrar kommúnista innan félaganna eru einnig að nokkru leyti þeirra sök. Völd slíkra skemmdarvarga í verkalýðshreyfingunni eru ekki síður skaðsamleg en mæðiveiki, aflabrestur eða stjórnleysi atvinnufyrirtækja. Atvinnurekendur verða þess vegna sjálfra sín vegna, þó að öllu öðru sé sleppt, að gæta þess að haga ætíð störfum sínum svo, að þeir ýti ekki undir ófögnuðinn eða hvetji verkamenn til að trúa flugumönnum hins alþjóðlega kommúnisma fyrir fjöreggi sínu.

Tvískinnungur Alþfl. um samvinnu allra lýðræðisaflanna leiddi beint til þess, að kommúnistar fengu yfirráðin í verkalýðshreyfingunni í haust. Ósigur kommúnista er viss, ef lýðræðisöflin sameinast á móti kommúnistum, og til þess er atbeini sjálfstæðismanna ómissandi. Á þessa staðreynd megnar ekkert skraf um vinstri samvinnu að skyggja. Ég votta að vísu þeim hv. þm. Hermanni Jónassyni og Haraldi Guðmundssyni innilega samúð mína yfir sorg þeirra út af því, að stjórn, sem þeir þrá að ríki hér, skuli vera farin frá völdum fyrir meira en 17 árum, enda var hún mynduð fyrir meira en 20 árum, þ. e. a. s. 1934. Þessir menn eru sem sé 20 árum á eftir tímanum, þeim 20 árum, sem hafa leitt mestar breytingar yfir íslenzku þjóðina. Þessir menn þrá ástand, sem þjóðin er fyrir löngu vaxin frá og hugsar nú til með ömurleika þess ástands, þegar atvinnuleysið þjáði verkalýðinn og kyrrstaðan lá eins og mara á öllu þjóðlífinu. Svo ömurlega tíma vill þjóðin ekki leiða yfir sig aftur.

Íslendingar eru fæstir sammála hv. þm. Bergi Sigurbjörnssyni, sem sagði, að Eimskipafélag Íslands hefði lokið uppbyggingu kaupskipaflota síns. Þjóðin lítur ekki svona á. Hún kýs áframhaldandi uppbyggingu; hún kýs framfarir og bjartsýni, stjórn, sem hefur hag allrar þjóðarinnar fyrir augum.

Við sjálfstæðismenn erum því vanir, að sundrungaröflin í þjóðfélaginu reyni öll að níða okkur. Slíkt er eðlilegt. Flokkur okkar er einn þeirra meginása, er halda uppi hinni íslenzku þjóðfélagsbyggingu, og er því að vonum, að þeir níðhöggvar, er naga þjóðarmeiðinn að neðan, beiti tönnum sínum einkum gegn okkur. Þeir hafa og lengi sagt fyrir feigð flokksins eða a. m. k. skjóta hrörnun hans. Þær hrakspár hafa ekki rætzt. Sjálfstfl. er öflugasti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi, sá flokkurinn, sem staðfastast hefur fylgið, og hinn eini, sem möguleika hefur til að fá stuðning meiri hluta þjóðarinnar. Allur almenningur veit, að Sjálfstfl. er hans öruggasta skjól, og áróðurinn um íhald og sérhagsmunagæzlu flokksins er staðlausir stafir. Enginn efast um, að framfarir hafi aldrei orðið meiri hér á landi en síðustu 10 árin. Allan þann tíma hefur Sjálfstfl. átt fulltrúa í ríkisstj. og er eini flokkurinn, sem það hefur átt öll þessi ár. Hann hefur því ráðið meiru um stjórnarstefnuna en nokkur annar, þó að því sé miður, að hann hefur ekki ráðið nógu miklu. En það er fyrst og fremst Sjálfstfl. að þakka, að þessi tími hefur verið mesti framfaratíminn í sögu Íslands. Á sama stendur, hvert litið er. Alls staðar blasa framfarir og umbætur við. Auðvitað er mörgu ábótavant hér eins og í öllum mannlegum félagsskap, en eðlilegt er, að þeim, sem mestu hefur hrundið fram á liðnum tíma, sé bezt treyst til framkvæmda nú og í framtíðinni. Menn vita, hvað er sterkasta aflið í íslenzkum stjórnmálum. Þeir, sem góðum málum vilja koma fram, leita því eðlilega til Sjálfstfl. Með því styrkja þeir sjálfa sig og greiða fyrir framgangi hinna góðu mála sinna, um leið og þeir efla enn öflugasta flokk landsins og gera honum þar með kleift að hafa heillaríkari áhrif en nokkru sinni fyrr.

Þjóðin á um tvennt að velja: Annars vegar vaxandi sundrung, hins vegar vaxandi velmegun undir forustu Sjálfstfl. Það eru fleiri og fleiri, sem gera sér þetta ljóst. Þess vegna eru það ætíð fleiri og fleiri, sem fylkja sér um Sjálfstfl., sjálfum sér og þjóðinni allri til heilla.

Að lokum býð ég öllum þeim, er á mál mitt hlýða, góða nótt og árna þeim árs og friðar.