10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, sem var að fara hér úr ræðustólnum, gerði varnarmálin ofur lítið að umtalsefni.

Hvernig sem þessi hv. þm. ber höfðinu við steininn, þá er það staðreynd, að með breytingum þeim, sem gerðar hafa verið á varnarmálunum, hefur sambúðarvandamálið tekið þeim breytingum, að það er ekki lengur til í þeirri mynd, sem það áður var. Um þetta getur enginn málefnalegur ágreiningur orðið, þótt hv. 8. landsk., Bergur Sigurbjörnsson, og 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, og þeir þjóðvarnarmenn berji höfðinu við steininn og vilji ekki viðurkenna þetta. Á þessu sjáum við það í raun og veru, hversu mikið þeir hafa meint með tali sínu um þjóðernisvandamálið. Þeir vilja einskis meta þær endurbætur, sem gerðar hafa verið í þessu efni. Annars minnir tal og afstaða þessara hv. þm. í sambandi við framkvæmd varnarmálanna mest á hesta í hafti. Þeir hoppa stundum, eftir að haftið hefur verið tekið af.

Hv. 8. þm. Reykv. gerði hér eina merkilega játningu. Hann játaði hér áðan, að allt það, sem Þjóðvfl. og kommúnistar hafa haldið fram um sérstöðu Keflavíkurflugvallar, að hann væri því sem næst eini flugvöllurinn í heiminum, sem gæti komið til mála sem árásarflugvöllur, væri úr lausu lofti gripið. Hann tók aftur allt það, sem þeir hafa sagt um Keflavíkurflugvöll að þessu leyti. Hann viðurkenndi, að það væru til tugir flugvalla á borð við Keflavíkurflugvöll um alla Evrópu. Með þessu er fallinn áróður sá, sem þessi hv. þm. og aðrir slíkir hafa haldið uppi undanfarið í varnarmálinu. Hann hefur bókstaflega byggzt á þeirri fullyrðingu, sem þeir hafa nú orðið að taka til baka, eða hv. þm. fyrir þeirra hönd.

Hv. þm. gerði ekki minnstu tilraun til þess að sýna fram á, hvernig það mætti bægja háskanum frá landinu að hafa Keflavíkurflugvöllinn óvarinn. Ég gaf honum þó gott tilefni til þess að rökræða þetta atriði, en það tækifæri vildi hann ekki nota.

Hv. 8. landsk. þm., Bergur Sigurbjörnsson, minntist á það í ræðu sinni í kvöld, að það væru lítilfjörlegar skattalækkanir, sem átt hefðu sér stað. Samt sem áður hefur það gerzt, að einhleypur maður, sem hefur 36 þús. kr. tekjur, borgar aðeins 1160 kr. í skatt. Ekki meira.

Í sambandi við tal þeirra þjóðvarnarmanna um skattlagningu á stórgróða, er rétt að upplýsa, að í fyrra, þegar skattalöggjöfin var til meðferðar, lögðu þeir til, að hátekjumenn borguðu minna en stjórnarflokkarnir samþykktu. Menn hafa líka heyrt, hvernig þeir hafa talað hér í þessum umr. um þá till. stj. að lækka um 20% skatt á félögum. Það er rétt að upplýsa, að í fyrra lögðu þeir sjálfir til að lækka skatta á félögum um 10%. Það munar þá sem sé aðeins um 10% á afstöðu þeirra og á afstöðu stjórnarflokkanna eins og hún var í fyrra og eins og hún er í ár, en samt hafa þeir talað um þetta mál eins og stórmál.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson minntist aðeins á byggingarnar á nýsköpunarárunum. Hann sagði, að það hefði verið mikið byggt á „nýsköpunarárunum“, sem þeir kalla. Það var talsvert mikið byggt á nýsköpunarárunum, en það voru aðallega „villur“ og „lúxusíbúðir“: Á þeim árum fékk byggingarsjóður verkamanna ekkert fé nema fastastyrkinn á fjárl. Það var ekki fyrr en Framsóknarflokksmenn tóku við félagsmálunum, að verkamannabústöðunum var veitt aukaframlag af greiðsluafgangi. Menn áttu ekki á þessum árum kost á neinum lánum út á íbúðir, nema örfáir menn lánum úr verkamannabústaðasjóðnum af því fasta framlagi. Það var að vísu sett löggjöf á pappírinn um húsnæðismál, en þeir hlupu frá henni, áður en hún komst til framkvæmda, og sú löggjöf reyndist óframkvæmanleg, komst aldrei nema á pappírinn, af því að þeir öfluðu aldrei þess fjármagns, sem þurfti til þess að framkvæma löggjöfina.

Kommúnistum gengur illa að viðurkenna, hvernig þeir fóru að í síðasta verkfalli, sem auðvitað var haldið svona lengi áfram til þess að reyna að sýna fram á það, að hér yrði engum skipulegum þjóðarbúskap uppi haldið, nema kommúnistar fengju að ráða, en ekki vegna þess, að upp úr því gæti hafzt fyrir verkamenn að halda verkfallinu áfram umfram það, sem til boða stóð í byrjun. Talsmaður kommúnista spurði hér áðan: Hvar var tilboðið um verðlækkunina, sem hefði getað komið í staðinn fyrir kauphækkunina? — Það tilboð fékkst ekki, vegna þess að því var lýst yfir af fulltrúa verkamanna, kommúnistanum, í viðtali við ríkisstj., að það kæmi ekki annað til mála en að fara hækkunarleiðina. Þess vegna gat verðlækkunin ekki komið til. Það var sem sé ekki hægt að fara upp og niður í senn.

Hv. 11. landsk. vildi segja, að það hefðu verið félagsmennirnir í verkamannafélögunum, sem hefðu ráðið því, að verkfallinu var haldið áfram í 6 vikur til þess að ná 2% meiri kauphækkunum. Þetta er alls ekki rétt. Það vita allir, að það var hin kommúnistíska forusta, sem tók að sér að halda verkfallinu fram þrátt fyrir þau boð, sem fyrir lágu.

Það er óhugsandi, að kommúnistar geti borið á móti því með rökum, að með örstuttu verkfalli hefði verið hægt að fá litlu minni kauphækkun en þá, sem varð. Ég vil benda mönnum á, að í þessum umr. hefur því ekki verið mótmælt, sem ég hélt fram í gær, að upp úr þessu 6 vikna verkfalli hafðist ekki annað en 3% meiri kauphækkun en ella hefði orðið.

En kommúnistar reyna nú að breiða út þá skoðun, að þeir hafi haldið áfram verkfallinu til þess að fá atvinnuleysistryggingarnar. Ekki voru þó atvinnuleysistryggingarnar með í kröfum þeim, sem gerðar voru í verkfallinu. Upp á atvinnuleysistryggingunum var stungið af velviljuðum mönnum, þegar kommúnistar höfðu komið þessum málum þannig með málsmeðferð sinni, teflt þeim svo gersamlega í strand, að engar útgöngudyr voru sjáanlegar eftir þeirra leiðum. Þá voru það aðrir menn, sem stungu upp á því að leysa málið með atvinnuleysistryggingum, og atvinnuleysistryggingar var hægt að fá án verkfalls, ef rannsóknarleiðin hefði verið farin.

Annars getum við nokkuð séð málefnalegan áhuga þeirra kommúnista á því, að þeir létu Alþýðusambandið skrifa Framsfl. í vetur um stjórnarmyndun og stungu upp á umræðum um áhugamál verkalýðssamtakanna. Framsfl. tjáði sig reiðubúinn að taka upp viðræður við Alþýðusambandið um áhugamál verkalýðssamtakanna, en varðandi stjórnarmyndunarboðin leyfði Framsfl. sér að spyrja, hvaða þingfylgi stæði að baki uppástungunni um stjórnarmyndunarviðræður. En fyrir þessum umræðum um málefni verkalýðssamtakanna hafði Alþýðusambandið engan áhuga. Það kærði sig ekkert um þessar umræður, og hefur ekkert heyrzt frá þeim um það síðan. Ef ætlunin hefði verið að vinna málefnalega að framgangi áhugamála verkalýðssamtakanna, hví var þá ekki þetta tilboð framsóknarmanna um að taka upp umræður um málefni verkalýðssamtakanna notað til þess t. d. að afla atvinnuleysistryggingunum fylgis? En það var auðvitað ekki gert, því að ætlunin var allt önnur. Það átti aðeins að slá í pólitíska refskák. Á því var áhuginn og engu öðru.

Hefðu kommúnistar hér engu ráðið um málefni verkalýðsins, þá hefðu áreiðanlega fundizt leiðir til þess að bæta kjör a. m. k. þeirra, sem lakast voru settir. En kommúnistar þurfa að hafa sínar aðferðir, og því fór sem fór. En nú eru þeir hræddir við það, sem gerzt hefur, og það er áreiðanlega ekki að ástæðulausu.

Neyðaróp hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, hér í gærkvöld voru því líkust, að hann væri staddur á lekabyttu í reginhafi. Sem betur fer er nú ekki þannig ástatt fyrir honum bókstaflega talað, en pólitískt séð mundi sú samlíking ekki vera fjarri lagi.

Ég sýndi fram á það í gærkvöld, að öll verkföll kommúnista væru í raun og veru pólitísk verkföll. Nú vilja kommúnistar ekki viðurkenna þetta. En hvað stendur um þetta í þeirra fræðum? M. a. stendur þetta, að „vinnudeilurnar mega ekki vera neinn leikur með eldinn, heldur alvarleg átök, aflraunir milli stéttanna, sem hafa sín áhrif á alla stéttabaráttuna og alla stjórnmálabaráttuna sem heild“. Og á öðrum stað stendur þetta, að „samband ungra kommúnista eigi að leggja áherzlu á að koma af stað smáverkföllum meðal einstakra hluta verkalýðsæskunnar, til þess þar með að geta dregið aðra hluta hennar með, og leggja áherzlu á að leiða þessa baráttu yfir í pólitíska baráttu og þar með undirbúa hin pólitísku múgverkföll“. Þetta eru forskriftirnar. Og enn stendur í þessum fræðum, að „allsherjarverkföll án nokkurrar vægðar eða tillits til þjóðarbúskapar auðvaldsins, það eru vopnin, sem verkalýðurinn verður að beita nú“.

Svo eru þessir hv. þm. eða kommúnistarnir hissa á því, að menn skuli leyfa sér að tala um pólitísk verkföll í sambandi við þær vinnudeilur, sem þeir stjórna.

Hér í þessum umr. hefur framsóknarmönnum hvað eftir annað verið legið á hálsi fyrir, að þeir hafa nú alllengi myndað og stutt samsteypustjórnir með sjálfstæðismönnum. Framsóknarmenn hafa aldrei farið dult með þá skoðun, að þeir telja það ástand bæði óeðlilegt og óhagstætt þjóðinni, að ekki sé hægt að mynda meirihlutastjórn án þátttöku sjálfstæðismanna, eins og verið hefur nú allar götur síðan 1939.

Það er fjarstæða, sem sjálfstæðismenn hafa haldið fram í þessum umr., að vegna landbúnaðarins geti ekki verið hagfellt að mynda stjórn með lýðræðissinnuðum umbótaflokki eins og t. d. Alþfl., ef bolmagn væri til þess.

Það er ekki landbúnaðarstefna Sjálfstfl., sem fylgt er nú og bændur hafa svo mikinn hag af í framkvæmdinni, heldur landbúnaðarstefna framsóknarmanna. Landbúnaðarstefnu sjálfstæðismanna sáu menn og reyndu á árunum 1944–46, svokölluðum nýsköpunarárum, sem menn hafa nú raunar allir orðið í gæsalöppum. Enn fremur sást þessi stefna Sjálfstfl. í algleymingi á árunum 1934–37, þegar framsóknarmenn björguðu landbúnaðinum með afurðasölulöggjöfinni í samvinnu við Alþfl., en íhaldið barðist á móti.

Framsfl. mun aldrei taka þátt í neinni stjórn, nema hann ráði stefnunni í landbúnaðarmálum, eins og hann hefur gert, þegar bann hefur tekið þátt í stjórn. Þau mál eru því tryggð, landbúnaðarmálin, með eflingu Framsfl., en ekki með neinu öðru móti, og það þarf ekki á samvinnu við Sjálfstfl. að halda til þess.

En hvað veldur því, að íslenzk stjórnmál hafa óneitanlega komizt í hættulega sjálfheldu? Því valda þeir Kolur og Kroppinskeggi. Því veldur sundrungarstarf kommúnista og þjóðvarnarmanna. Þeir halda mönnum þúsundum saman utan við allt jákvætt starf í þjóðmálum, kommúnistar með þjónustu sinni við alþjóðakommúnismann, en Þjóðvfl. er hreinn klofningsflokkur um eitt mál aðeins og í því tengdur kommúnistum. Þeir eru því eins konar lóuþrælar í íslenzkri pólitík. Gætu þeir einhverju til vegar komið, yrði það ekki annað en að efla þá, sem þeir þykjast vera mest á móti, þ. e. a. s. Sjálfstfl. Alþfl. hefur á hinn bóginn einangrazt vegna þess, að kommúnistar hafa veikt hann með undirróðri sínum og klofningsstarfsemi. Undirrót að þessari sundrung allri saman er moldvörpustarfsemi kommúnista. Henni þarf fyrst og fremst að hnekkja.

Framsfl. er sterkasti andstöðuflokkur íhaldsins, langöflugasti umbótaflokkur landsins, sá eini þeirra, sem úrslitaáhrif hefur á stjórnmál landsins. Einfaldasta ráðið til þess að styrkja umbótastefnuna í íslenzkri pólitík er að efla og styrkja Framsfl., umbótaflokkinn, sem ekki er smeykur við að taka á sig ábyrgð, sem hefur unnið stórvirki og það jafnvel oft við örðug skilyrði, flokkinn, sem með vaxandi brautargengi er reiðubúinn til þess að vinna enn ný stórvirki í þágu alþýðu manna til sjávar og sveita. — Góða nótt.