28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er ljóst af ræðu hæstv. fjmrh., að ríkistekjurnar hafa farið mjög verulega fram úr áætlun á árinu 1954 samkvæmt því bráðabirgðayfirliti, sem hann las hér. Tekjurnar voru áætlaðar 443 millj. kr. í fjárlögum, en hæstv. fjmrh. gat þess, að þær mundu samkvæmt bráðabirgðayfirlitinu verða 537 millj. rúmlega, eða fara 21% fram úr áætlun.

Ég minnist þess í þessu sambandi, að við þm. Þjóðvarnarflokksins fluttum till um það á síðasta þingi, að tekjurnar yrðu ekki áætlaðar 443 millj., heldur um 470–480 millj. kr., ef mig minnir rétt, og yrði þessum mismun á áætlun stjórnarflokkanna og okkar áætlun varið til að reisa sementsverksmiðju og til að efla nýjar atvinnugreinar í þjóðfélaginu, einmitt þær sömu nýju atvinnugreinar og hv. þm. Framsfl. virðast nú vera að koma auga á að sé nauðsynlegt að efla, ef höfð er í huga till. þeirra, sem ekki er þó um að veita fé til þessara nýju atvinnugreina, heldur að stofna nefnd til að rannsaka, hverjar þessar atvinnugreinar ættu að vera.

Þá var það á síðasta þingi af hæstv. fjmrh. og öðrum hv. talsmönnum stjórnarflokkanna talin hin mesta firra að láta sér detta í hug, að ríkistekjurnar gætu orðið nokkuð verulega hærri en 443 millj. kr., eins og þeir vildu áætla, og þeir höfðu um það mörg orð og stór, hve stjórnarandstaðan væri ábyrgðarlaus í sínum málflutningi, að hún skyldi leyfa sér að bera fram þvílíkar tillögur á Alþingi Íslendinga. Á hinn bóginn sögðum við, að áætlun okkar væri mjög varleg, og við gerðum það af ásettu ráði að hafa hana ekki hærri en þetta, enda þótt við vissum, að tekjurnar mundu verða mun meiri, en þar sem okkur þætti sýnt, að afstaða stjórnarflokkanna til málsins væri á þann veg, að það væri öruggara að hafa vaðið fyrir neðan sig, þá lögðum við sem sagt ekki til, að tekjurnar væru áætlaðar hærri en 470–480 millj. kr.

Nú hefur hins vegar komið í ljós, eins og allir hv. þm. vissu þegar á síðasta þingi, að okkar áætlun var miklu nær sannleikanum en áætlun hæstv. fjmrh., enda þótt þeir létu hafa sig til þess að ljá hans málstað lið. Og hæstv. fjmrh. segir nú eins og endranær, að þetta komi sér algerlega á óvart, hvað ríkistekjurnar hafa orðið miklar, og að það stafi af óvenjulega góðu árferði, eins og hann orðaði það hér í ræðu sinni áðan og hefur orðað það öll þau ár, sem ríkistekjurnar hafa farið um 100 millj. kr., eða sem næst því, fram úr áætlun á ári hverju.

Nú er ástæða til fyrir hv. þm. að velta því nokkuð fyrir sér, hvernig það er með þetta óvenjulega góða árferði. Hefur það verið? Var árið 1954 óvenjulegt góðæri í sögu þjóðarinnar? Bendir það til þess, hvað bændur neyðast nú til þess að auglýsa jarðir sínar mikið til sölu, að það hafi verið óvenjulegt góðæri? Var togarastöðvunin vottur um það, að þetta ár væri óvenjulegt góðæri? Var sú niðurstaða, sem nefndin komst að, sem rannsakaði það mál, að togararnir þyrftu um Í millj. á ári til þess að bera sig, merki um óvenjulegt góðæri í þjóðfélaginu? Svona mætti lengi telja. Engin dæmi, sem maður fær úr sjálfum atvinnuvegunum, benda til þess, að það hafi verið óvenjulegt góðæri árið 1954. En er það þá rangt hjá hæstv. fjmrh. að komast þannig að orði, að það hafi verið óvenjulegt góðæri? Nei. Í einum skilningi málsins var óvenjulegt góðæri. Það var góðæri fjárglæfranna. Það var góðæri hernámsins. Það var góðæri skattkúgunarinnar. Það er þetta, sem hæstv. fjmrh. á við, þegar hann talar um óvenjulegt góðæri í þessu sambandi.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þrátt fyrir óvenjulegt góðæri hefði afkoma ríkissjóðs ekki orðið nógu góð, og þó hafði ríkissjóður, eftir því sem hann sagði sjálfur, um 96 millj. kr. tekjur umfram fjárlög. Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh., hvað ríkissjóður þyrfti miklar umframtekjur umfram áætlanir Alþ., til þess að von væri um það, að afkoma ríkissjóðs gæti orðið nógu góð að dómi hæstv. fjmrh. Mig langar mjög mikið til að fá upplýsingar um þetta mál. Mig langar sem sagt til að fá upplýsingar um það, hvað vitlaus fjárlagaáætlun Alþ. þyrfti að vera, til þess að hæstv. fjmrh. gæti talað um nógu góða afkomu ríkissjóðs, þegar það nægir ekki, að skekkjan á tekjuáætluninni er 21%.

Það væri auðvitað ástæða til þess að ræða þetta mál hér mjög ýtarlega í öllum atriðum, um umframgreiðslur ríkissjóðs umfram fjárlög o. fl. Það atriði í sjálfu sér er í flestum tilfellum hreint lögbrot, þar sem fjárl. eru afgreidd í lagaformi. En um þessi atriði öll hefur verið rætt hér margt og mikið og umræður um þau því orðnar dálítið þreytandi við hæstv. fjmrh., þar sem hans svör eru alltaf á sama veg.

Þá sagði hæstv. fjmrh. í lok ræðu sinnar, að það væru til öfl í þjóðfélaginu, sem vildu grafa undan traustinu á gjaldmiðlinum og koma verðbólguhjólinu af stað. Og ég verð að segja það eins og er, að mig furðaði á því, að sjálfur fjmrh. landsins skyldi leyfa sér að hafa um hönd önnur eins ummæli og þetta í ræðu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1954. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur verið mikið traust á íslenzkum gjaldmiðli að undanförnu? Hefur engin verðbólga verið í landinu síðustu árin? Hvers vegna lætur maðurinn sér þau orð um munn fara, að það sé verið að grafa undan traustinu á gjaldmiðlinum og koma verðbólguhjólinu af stað, að það séu hér sérstök öfl í þjóðfélaginu, sem vilji þetta? Það fór enginn í grafgötur um það, hvaða öfl þetta væru. Þar átti hann við íslenzka verkamenn. Þeir voru öflin, sem vildu grafa undan traustinu á gjaldmiðlinum og koma verðbólguhjólinu af stað, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það. Ég ætla ekki að fella neinn dóm sjálfur í þessu máli, en til er dómur, sem hæstv. fjmrh. neyðist kannske til að taka meira mark á en mínum dómi, og þann dóm ætla ég að leyfa mér að lesa hér upp. Hann birtist í okt.—des.-hefti Fjármálatíðinda Landsbankans 1954, eftir hagfræðing bankans, dr. Jóhannes Nordal, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gífurleg þensla hefur verið í efnahagskerfinu síðustu tvö árin. Er þegar að sjá alvarleg merki þess, að sparifjársöfnun sé farin að minnka, en í nóvember lækkuðu spariinnlán í bönkum í fyrsta sinn í tvö ár og þá um fullar 12 millj. kr. Nauðsynlegt er, að sem fyrst sé gripið til ráðstafana, sem dregið gætu úr þenslunni, til þess að Íslendingar einangrist ekki sem eina haftaþjóðin í hinum lýðræðissinnaða heimi.“

Og enn segir: „Mikil hækkun ríkistekna getur verið merki um dulda verðbólgu, og þegar þannig er ástatt, er nauðsynlegt, að útgjöldum ríkissjóðs sé stillt mjög í hóf og rekstrarafgangur notaður til að draga úr peningaþenslunni.“

Og enn segir: „Mikilvægasti lærdómurinn, sem menn hafa dregið af reynslu síðustu ára, er, að fjármálastefnan innanlands ræður mestu um það, hver gjaldeyrisafkoman verður.“

Og hér segir loks, „að Íslendingar verði að gera það að höfuðmarkmiði fjármálastefnu sinnar á næstunni að draga úr þenslunni í efnahagskerfinu og skapa sér traustan og heilbrigðan gjaldmiðil.“

Bera þessi ummæli, sem ég hef hér lesið, vitni um, að það hafi verið hér traustur og öruggur gjaldmiðill, að það hafi ekkert verðbólguhjól verið í gangi, verið að snúast, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það? Eru þessi ummæli, sem ég hef lesið hér upp úr Fjármálatíðindum, í þá átt, að menn geti dregið af þeim þá ályktun, að íslenzkur verkalýður hafi komið af stað verðbólguhjóli síðustu tveggja ára eða stofnað til þessarar gífurlegu þenslu, sem verið hefur í efnahagskerfinu síðustu tvö árin, eins og hér stendur, og að það sé íslenzkur verkalýður, sem hafi stuðlað að því, að sparifjáröflunin hafi lækkað, og að það verði að gera það að höfuðmarkmiði að draga úr þenslunni og skapa hér traustan og öruggan gjaldmiðil? Hverjir eru það, sem hafa haldið þannig á málum, að sérfræðingur Landsbankans neyðist til þess að viðhafa þessi ummæli? Það eru hv. núverandi stjórnarflokkar, hæstv. núverandi ríkisstj. Og í því sambandi vil ég á það benda, að fyrir síðustu gengisfellingu munu ríkistekjurnar hafa verið um eða innan við 300 millj. kr., en eru nú, árið 1954, komnar á sjötta hundrað millj. kr.

Þessi aukning á ríkistekjunum leggst að sjálfsögðu á almenning, alþýðu landsins. Til viðbótar hefur svo komið gengisfellingin sjálf, bátagjaldeyrir, togaragjaldeyrir o. s. frv., o. s. frv. Og hvernig hefur íslenzkur verkalýður brugðizt við þessu? Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að nefna mér dæmi þess, ef hann kann, að nokkur skipulögð verkalýðshreyfing hafi nokkurn tíma brugðizt við annarri eins álöguaukningu eins og hér um ræðir frá 1950 á þann veg, sem íslenzk verkalýðshreyfing hefur gert. Hún hefur enn til þessa dags, allar götur frá gengisbreytingunni 1950, ekki gert eina einustu skipulagða tilraun til þess að létta þessum álögum af sér með því að krefjast hækkunar á kaupi í krónutölu. Íslenzk verkalýðshreyfing hefur sýnt það einstæða siðferðisþrek og þá ríku ábyrgðartilfinningu á velmegun og hagsæld þessarar þjóðar að gera ekkert til þess að auka á verðbólguskrúfu í landinu, heldur þvert á móti. Sú eina skipulagða tilraun, sem gerð var til þess að bæta kjör alþýðunnar 1952, var á þann veg að lækka dýrtíðina og verðbólguskrúfuna, og þrátt fyrir það. sem þá vannst á til að lækka þessa verðbólguskrúfu og skapa gjaldmiðli þjóðarinnar aukið traust, er nú svo komið fyrir aðgerðir hæstv. ríkisstj., að þetta er allt að gliðna; að hagfræðingur Landsbankans neyðist til þess í skýrslu sinni að tala um vantraust gjaldmiðilsins og gífurlega þenslu og dulda verðbólgu í þjóðfélaginu og benda á það mjög rækilega og mjög ýtarlega, að það þurfi að snúa við frá þessari stefnu, stefnu ríkisstj., en ekki verkalýðsins, ef það eigi ekki að valda voða í þessu þjóðfélagi.