28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins út af einu atriði í ræðu hæstv. dómsmrh. Ég minntist á það hér áðan, að umframgreiðslur stöfuðu að talsverðu leyti af því, að lögboðin útgjöld væru stundum áætluð af of lítilli framsýni af þeim, sem ættu að vera þeim hnútum kunnugastir. Hæstv. ráðh. hefur misskilið þetta nokkuð og taldi þetta vera í ósamræmi við það, að fjmrn. hefur lækkað stundum nokkuð tillögur hinna rn. um starfskostnað við ýmis embætti. Það er alveg óskylt þessu, sem ég átti við, því að það hefur verið gert til þess að reyna að veita aðhald, þegar um útgjöld er að ræða, sem gátu verið nokkuð á reiki. En það, sem ég átti við, voru lögboðin útgjöld, sem verður að inna af hendi, hvernig sem áætlunin er.