04.03.1955
Sameinað þing: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að hlusta á alla ræðu hv. 3. landsk. þm. (HV), en í seinni hluta ræðunnar hélt hann fram skoðunum, sem mér þóttu nokkuð fjarstæðukenndar og ég tel ástæðu til að gera örstutta athugasemd við, og getur hún þó verið styttri fyrir það, að sumt af því, sem mér hefði þótt rétt að tilgreina, kom fram í ræðu hæstv. fjmrh.

Þessi hv. þm. staðhæfði það, að hin mesta kjaraskerðing, sem alþýða manna eða launþegar hefðu orðið fyrir hér á landi á undanförnum árum, væri gengislækkunin, sem framkvæmd hefði verið 1950.

Ég hygg, að þetta sé byggt á grundvallarmisskilningi. Ég leyfi mér að minna þennan hv. þm. á, að haustið 1949 var svo komið, að ef átti að fullnægja þeim lágmarkskröfum, sem sjávarútvegurinn gerði og taldi sig færa rök að að fullnægja yrði, til þess að auðið yrði að halda áfram útgerðinni á sómasamlegum grundvelli, kostaði það árleg útgjöld úr ríkissjóði, sem námu áreiðanlega nokkuð á annað hundrað milljónum og sennilega 150 millj. kr. Enginn vafi er á því, að þó að Alþingi hefði þá viljað leitast við að verða við þessum kröfum, en ekki gert neinar aðrar ráðstafanir, þá hefði þingið neyðzt til nokkru síðar vegna nýrra viðhorfa í atvinnulífi þjóðarinnar að hækka þessa upphæð mjög verulega. Það er örðugt að staðhæfa, þannig að óyggjandi rök verði færð fyrir, hversu há sú upphæð væri nú orðin, sem þurft hefði til að fullnægja lágmarksþörf útvegsins, ef genginu hefði ekki verið breytt og ekki gripið til bátagjaldeyrisráðstafananna. Ég hygg ekki fjarri sanni, að sú upphæð mundi án efa vera milli 200 og 300 millj. kr. á ári.

Þessu fé gátum við því miður ekki búizt við að rigndi af himnum ofan. Ríkið átti ekki annars úrkosta, ef í þessum efnum átti að fara troðnar slóðir, en að leggja nýja skatta á þjóðina til þess að standast þau gjöld, sem leiddi af fullnægingu þessara þarfa útvegsins, ef gengisbreytingin hefði ekki verið framkvæmd. Þessir skattar, þessi gjöld í ríkissjóðinn, urðu auðvitað að takast úr vasa almennings. Yrði það ekki gert og ef ekki var horfið að gengisbreytingunni, þá var ekki neinn þriðji úrkostur fyrir hendi annar en sá, að atvinnuvegirnir hefðu stöðvazt, þar til fólkið í landinu hefði sætt sig við þá kauplækkun, sem nauðsynleg var, til þess að auðið yrði að reka þá, ég vil ekki segja hallalaust, en a. m. k. ekki hallameiri en svo, að hægt væri að halda þeim áfram.

Ef sú leið hefði verið farin að leggja þessa nýju skatta á almenning, þá staðhæfi ég, að kjör almennings í landinu hefðu verið önnur og miklu verri en þau urðu eftir að gengislækkunin var framkvæmd, en langverst þó, ef hvorug leiðin hefði verið farin og sjálfar þrengingarnar, sjálft atvinnuleysið, sjálfar hörmungarnar hefðu kennt hinni nöktu konu að spinna.

Gengisfellingin var eina skynsamlega úrræðið, svo bágt og bölvað sem það úrræði ævinlega er. Það var eina skynsamlega úrræðið, sem þá var fyrir hendi, eins og komið var atvinnumálum Íslendinga, til að bægja hinu gamla böli atvinnuleysisins frá dyrum almennings í landinu. Og manni, sem sjálfur er gerkunnugur sjávarútveginum og veit vel, hvernig hans hag var komið, og auk þess skipar þann virðulega sess að vera forseti í Alþýðusambandi Íslands, ber skylda til að gera sér grein fyrir þessum grundvallaratriðum í þróuninni í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.

Það er svo aðeins ein önnur athugasemd, sem ég vil gera út af því, að hv. þm. sagði, að getuleysi atvinnuveganna til kauphækkunar — eins og hann orðaði það — geti ekki stafað af öðru en milliliðagróðanum. Hér gætir einnig mjög mikils misskilnings. Ég treysti mér ekki í dag til að kveða upp um það úrskurð, hvort ekki sé óeðlilegur gróði í einhverjum atvinnurekstri þjóðarinnar, hvort milliliðagróðinn, sem kallaður er, sé ekki of mikill. En ég minni á það, að um áramótin 1952 og 1953 var gert samkomulag, sem þáverandi ríkisstj. beitti sér fyrir, um vissar niðurfærslur á kostnaði við dreifingu og aðra þjónustu, sem svokallaðir milliliðir láta í té. Ég býst ekki við, að Alþýðusambandið hefði þá sætzt á þær niðurstöður, sem raun bar vitni um, ef það hefði ekki talið, að eftir atvikum væri þá hæfilega skertur gróði þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Nú skal ég þó ekki staðhæfa, að nægilega vel hafi verið leitað í þessum efnum, né hitt, að einhverjar breytingar eða aukningar á gróða þessara milliliða kunni ekki að hafa á orðið frá þessari sáttagerð og fram á þennan dag. Ég hygg þó, að líkur bendi til, að ekki sé um verulegar breytingar að ræða í þessum efnum. Mér er t. d. tjáð, að afnám verðlagseftirlitsins á vissum vörum hafi ekki að verulegu leyti aukið gróða milliliðanna. Eftir þeim lauslegu upplýsingum, sem ég hef í dag og vil þó ekki bera fram sem endanlegar, þá virðast líkur benda til, að álagning sé á sumum vörum minni nú en hún var þá, á öðrum svipuð og enn öðrum nokkru hærri. Um þetta er verið að afla skýrslna, og þær verða auðvitað að liggja fyrir, svo að menn geti gert sér grein fyrir, hvað mögulegt er að gera í sambandi við þær deilur, sem nú standa yfir og geta leitt böl og bölvun yfir alla þjóðina.

En þetta er ekki eina atriðið, sem við þurfum að horfa á. Meginatriði þessa máls — og það verða menn að skilja — er, að undirstöðuatvinnuvegi íslendinga, útveginum, er þannig háttað, að leita verður teknanna annars vegar í aflabrögðunum, hvað þau eru mikil á hverjum tíma, og hins vegar í verðlaginu, sem fæst fyrir þennan afla. Við hljótum allir að gera okkur grein fyrir því, að hvorugu þessu ráðum við nema að litlu leyti. Við erum að sjálfsögðu ekki að öðru leyti herrar yfir aflabrögðunum en því að reyna að taka á hverjum tíma í okkar þjónustu þá tækni, sem við teljum fullkomnasta. Íslendingar hafa að mörgu leyti verið til fordæmis í þessum efnum. Við þorðum t. d. að láta af okkar litlu getu byggja 30 nýja togara fyrir allmikið fé, áður en nokkur enskur útgerðarmaður þorði að ráðast í sams konar byggingar í eigin landi. Við höfum kannske verið of stórtækir á öðrum sviðum, þegar við vorum að byggja síldarverksmiðjurnar, vegna þess að við gátum þá ekki séð fyrir 10 ára aflabrest á síldinni. Hitt sáum við aftur fyrir, að ef yrði sæmilegur afli, þá mundu þær framkvæmdir bera tífaldan árangur á stuttum tíma.

Ég segi þess vegna, að varðandi aflabrögðin verðum við að gera okkur ljóst, sem auðvitað hver heilvita maður líka auðveldlega getur, að við ráðum ekki nema að takmörkuðu leyti yfir, hver þau eru, og höfum eftir atvikum gert okkar skyldur vel í þeim efnum, fyrst með fullkomnum tækjum og nú með stöðugum rannsóknum, þar sem ég hygg, að íslenzka þjóðin leggi meira af mörkum hlutfallslega heldur en nokkur önnur þjóð í veröldinni.

Þetta er annar tekjustofninn, sem grundvallaratvinnuvegur Íslendinga stendur á. Hinn er svo aftur á móti, eins og ég segi, verðlagið, og verðlagið ráðum við í raun og veru sáralitlu um. Við ráðum náttúrlega því að reyna að viðhafa þau vinnubrögð um sölu afurðanna, sem eru líklegust til að skila sem hæstu verðlagi á hverjum tíma, eftir því sem heimsmarkaðurinn leyfir.

Okkur kann að greina á um það, hvort sé rétt að láta síldarútvegsnefnd fara með sölu á síld. Útvegsmenn hafa ákveðið það sjálfir, það er árlegur fundur þeirra á meðal, og þeir vilja hafa þessa skipan. Okkur kann að greina á, hvort rétt sé að láta einn aðila selja saltfiskinn. Útvegsmenn ráða því sjálfir. Þeir hafa sinn árlega fund, og þeir ákveða alltaf að bera fram óskir um þetta.

Þannig er það um meginframleiðsluvöru okkar. Sú skipan ríkir, sem útvegsmenn sjálfir hafa kosið sér. Ég tel þess vegna út af fyrir sig ekki ástæðu til að vefengja, að sú hlið málsins sé eftir atvikum í lagi.

Hitt er svo allt annað mál, að neyzluþjóðin spyr ekki um það: Hvað kostar það Íslendinga að framleiða t. d. þorskinn eða síldina? Þeir spyrja um hitt: Hver eru gæði hinnar íslenzku vöru í hlutfalli við aðra vöru, sem aðrar þjóðir framleiða, og hvert verð heimta Íslendingar í hlutfalli við aðrar þjóðir? Með þessu er okkur stakkur skorinn. Við erum sem sagt varðandi meginatvinnuveginn, undirstöðuatvinnuveginn, þannig settir, að annars vegar eru það aflabrögðin, hins vegar verðlagið, og yfir hvorugu ráðum við nema að litlu leyti.

Varðandi tilkostnaðinn aftur á móti er þessi atvinnurekstur háður í mjög ríkum mæli kaupgjaldinu í landinu. Nú dregur það enginn í efa, að íslenzkir launþegar ala í brjósti þær óskir að bera sem mest úr býtum og fá sem hæsta krónutölu fyrir vinnu sína, meðan þeir gera sér ekki ljóst, að hækkun krónutölunnar leiðir til versnandi kjara. En við komumst aldrei fram hjá þeirri staðreynd, að ef við förum lengra í þessum efnum en gjaldgeta þessa meginatvinnurekstrar leyfir, þá erum við komnir út á hættulegar brautir. Ég hef leyft mér að benda á þessa staðreynd í áramótaræðu, sem ég flutti, og ég hef í engu andstöðublaða minna séð um þetta talað öðruvísi en sem hótun af minni hendi um gengisfellingu. Fyrir mér vakti ekki annað en að biðja þjóðina að slá skjaldborg um krónuna, að vekja athygli sem flestra á því, að okkar króna, alveg eins og gjaldmiðill annarra þjóða, lýtur vissum, föstum og órjúfanlegum lögmálum. Ef einhver getur fært mér heim líkur fyrir því, að okkar króna lúti öðru lögmáli en gjaldmiðill annarra þjóða, skal ég vera reiðubúinn að taka afleiðingunum af því að tefla djarfar í þessum efnum án þess að telja mig tefla krónunni í hættu. En ég hef bara engan heyrt gera það, og ég held ekki heldur, að það sé hægt. Og náttúrlega er ekki gaman að fást við þessi efni fyrir menn, sem út af fyrir sig vilja koma sem beztu til leiðar, og við skulum ekki vera að væna hver annan of mikið um illa þanka í þessum efnum, meðan stjórnmálaumræður eru á svo lágu þroskastigi í þessu þjóðfélagi, að slík aðvörun af hendi manns, sem — óverðskuldað að sönnu — hefur þó hlotið þá virðingu að vera stjórnarformaður, er tekin sem alger þvættingur, ógnun eða illvilji. Ég er án efa í hópi skuldugustu manna landsins, og ég hef þess vegna vissa ástæðu, eins og ég sagði við formann Alþýðusambandsins, til þess að taka í höndina á honum og segja: Góði, heimtaðu sem mest og gerðu allt sem vitlausast, þá borgarðu fyrir mig skuldirnar. — En ég sagði líka við hann: Ég er ekki kosinn á þing né settur í forsæti ríkisstjórnarinnar af skuldum þess fyrirtækis, sem ég á hluta í, heldur af almenningi í landinu. Hann hefur trúað mér til að fara eftir samvizku minni og þeirri litlu skynsemi, sem ég kann að vera gæddur. Þessu trausti vil ég ekki bregðast. — Og ég segi nú við formann Alþýðusambandsins, að vilji hann á sama hátt gera sér ljós þau lögmál, sem við eigum við að glíma, eins og ég hef reynt að gera og taka sömu afleiðingum af því og ég hef reynt að gera, þá er ég alveg ánægður með hann sem formann Alþýðusambandsins.

Ég viðurkenni, að um aðra atvinnuvegi þjóðarinnar kann að gegna nokkuð öðru máli. Það má segja, að nokkur hluti iðnaðarins eða kannske mikill hluti iðnaðarins í landinu hafi aðstöðu til þess að segja: Ja, ef þið hækkið kaupið, drepur það mig ekki, því að ég innheimti það bara frá ykkur, sem fáið kauphækkun. Ég hækka mínar vörur að sama skapi og minn tilkostnaður hækkar. Ég velti því yfir á aðra.

Verzlunin kann að mega segja alveg það sama. Ef verzlunarfólkið hækkar sitt kaup, þá hækkar okkar rekstrarkostnaður, og við hækkum vörubirgðir að sama skapi, og gjaldþegninn, sem fær kauphækkunina, borgar þetta.

Það má að vissu leyti segja sama um landbúnaðinn í dag, vegna þess að hann þarf ekki að flytja sína framleiðsluvöru úr landi og fær þess vegna hækkun á sinni tekjuhlið um leið og hann fær hækkun á sínum tilkostnaði. M. ö. o.: Það má segja það um iðnaðinn, verzlunina og landbúnaðinn, að það sé kannske ekki aðalatriði fyrir þá, hvort kaupið er eilítið hærra eða lægra, af því að þeir geta velt því yfir á skattþegnana, á launþegana. En útgerðin, sem er grundvöllurinn undir þessu öllu, verður að segja: Afsakið, herrar mínir, ég get þetta ekki, ég get ekki milliliðalaust farið í vasa þess almennings, sem er að heimta hærra kaup, ég verð að hafa millilið, og milliliðurinn er þið, herrar mínir, hér á þingi, ríkisstj. og Alþingi. Í gegnum þessa aðila verður útgerðin að fá það, sem á skortir, til þess að hún geti haldið áfram starfsemi sinni, án þess að hallareksturinn verði svo mikill, að hún stöðvist, hvað sem öðru líður.

Ástandið í okkar þjóðfélagi er það frá mínu sjónarmiði, að fara verður mjög varlega og það verður að athugast mjög gaumgæfilega, hvað hægt er að gera, þannig að svokallaðar kjarabætur snúist ekki launþegunum til bölvunar.

Hitt tek ég svo undir með glöðu geði, að ef við rannsókn þessa máls kemur í ljós óeðlilegur milliliðagróði einhvers staðar, óeðlileg skipting á þjóðartekjunum, sem mjög er um talað, þá er fyrir hendi möguleiki til þess að taka af þessum og láta til hins. En það er aldrei hægt að skipta meiru en inn kemur, og ég er mjög á því máli og mundi þakka fyrir, ef þingið vildi taka undir það, að við létum rannsaka þetta mál ofan í kjölinn, og þó án þess að það þyrfti að taka allt of langan tíma.

Hér veltur ekki á frómum óskum, heldur getu, og sú geta er byggð á óbifanlegum lögmálum, sem standa eins föst og sjálft þyngdarlögmálið, og það er óbifanlegt lögmál, að við getum og megum aldrei hugsa okkur að geta deilt öðru en því, sem fyrir hendi er, annað stefnir til bölvunar.

Við vitum sjálfir, að það er nokkur siður með öðrum þjóðum, þegar slíkar örlagaríkar deilur eru í uppsiglingu eins og nú virðist vera á Íslandi, að hlutlausir menn eru skipaðir til rannsókna. Tveir ráðherrar hafa hér áður sagt, hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh., að þeir séu mjög eindregið því fylgjandi, að við gerum hið sama. Ég tek undir það og segi fyrir mitt leyti, að ég mundi þakksamlega þiggja það og vildi eiga mikinn hlut að því, að slíkar rannsóknir væru ekki aðeins málamyndarannsóknir og ekki gerðar aðeins til að tefja málið, heldur til þess í bróðerni að leita að sannleikanum. Ég segi, að með öðrum þjóðum er þetta háttur víða og góður háttur, og það hefur mér skilizt, að launþeginn taki ekkert síður undir slíka málsmeðferð heldur en atvinnurekendur, og mætti vera, að margur atvinnurekandi vildi síður fara inn á brautina en launþegi. Færi slík rannsókn fram, verður væntanlega ekki allt tekið gilt, sem frá er skýrt af sjálfum aðilunum, heldur rannsókn hlutlausra aðila og dómur.

Ég tel því, að þessar umr., sem farið hafa hér fram út af skýrslugerð hæstv. fjmrh., væru blessunarríkar fyrir þessa þjóð, ef þær mættu leiða til þess, að við, sem berum ríka ábyrgð á málefnum þjóðarinnar, vildum taka þessi mál föstum tökum og reyna að sameinast um það, sem er kjarni málsins, en kjarni málsins er sá að gera okkur ljóst, að við getum ekki skipt öðru en því, sem við öflum, og hinn, að sú skipting á að fara fram með réttlæti, og loks það, að sá, sem engu hefur að farga í dag, eins og verkalýðurinn, á þar von á bótum, ef möguleiki er til bóta, en verður að sætta sig við sitt, ef enginn möguleiki er til bóta, vegna þess að þá er hækkuð krónutala kaupsins ekki bætur, heldur bölvun.

Ég lýk svo þessu aðeins með því að láta í ljós þá einlægu ósk, að við, sem getum um þetta miklu ráðið, ef við sameinum kraftana, leggjumst á eitt um að leysa þetta mál af skilningi og velvilja á þessum grundvelli.