07.03.1955
Sameinað þing: 43. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fáein orð út af þeim langa kafla, sem hv. 2. þm. Reykv. helgaði mér í langloku þeirri, sem hann flutti hér í dag.

Hv. 2. þm. Reykv. flutti langt mál um þann fjandskap, sem hefði komið fram af minni hendi um kauphækkunarkröfur þær, sem nú væru fluttar af hálfu verkalýðsins. Allt tal hv. 2. þm. Reykv. í þessa stefnu er hreinn skáldskapur. Ég hef ekkert um þessar kröfur sagt hér á hv. Alþ. annað en það, að rétt mundi að viðhafa þá aðferð að láta fara fram rannsókn á því, hvort nú mundi vera hægt að hækka kaupið á þá lund, að gróði yrði að því fyrir launastéttirnar. Þetta er allt og sumt, sem ég hef sagt um þessi mál. Það er þessu algerlega óskylt, að ég í framsöguræðu minni um bráðabirgðayfirlitið minnti á það vald, sem kommúnistarnir telja sig hafa til þess að koma af stað glundroða og upplausn í atvinnu- og fjárhagsmálum. En barátta kommúnista í þessa átt á ekkert skylt við hagsmunabaráttu verkalýðsins, eins og ég hef áður lagt áherzlu á í þessum umræðum.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að ég hefði jafnan verið andstæðingur verkamanna í þessum efnum og beitt mér mjög einhliða gegn kauphækkunum. Ég hef oft varað við því að trúa um of á kauphækkanir einar.

Ég hef þráfaldlega bent á, að til þess að kauphækkanir geti orðið að liði, þurfi að vera fyrir hendi vissar aðstæður. Þá þurfi að vera fyrir hendi möguleikar til þess að koma þessum kauphækkunum í framkvæmd, án þess að þær skelli aftur á launastéttunum í verðhækkunum svo að segja tafarlaust. Ég ætla ekki að ræða hér mikið almennt um þetta við hv. 2. þm. Reykv. En vegna þess að hann talaði digurbarkalega um þessi efni og um það, hve fjandsamlegt væri að benda á þau atriði í sambandi við kaupgjaldsmálin, sem ég hef stundum gert og ég drap á áðan, þá ætla ég að minna hv. þm. á tvennt eða þrennt, sem komið hefur fram á undanförnum árum um þetta mál, einmitt um það, hvernig tekizt hafi að afla verkalýðnum kjarabóta með kauphækkunum.

Ég vil þá fyrst vísa til þess, að í ársbyrjun 1946 ályktar trúnaðarráð Dagsbrúnar í Reykjavík á þessa lund: „Samt sem áður hefur það komið í ljós, að þrátt fyrir þessa grunnkaupshækkun veitist verkamönnum, sem eiga við lægsta grunnkaupið að búa, æ erfiðara að framfæra fjölskyldur sínar.“

Ef það væri rétt, að það væri alveg öruggt úrræði fyrir verkalýðinn að hækka kaupið, að kauphækkun hlyti ævinlega að vera honum í hag, hvernig sem á stendur, hvernig gæti þá á því staðið, að trúnaðarráð Dagsbrúnar í Reykjavík gefur þessari kjarabaráttu stríðsáranna, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði svo digurt um, þennan vitnisburð, að sú starfsemi hafi raunverulega ekki leitt til neinna kjarabóta fyrir verkalýðinn?

Ég vil einnig minna hv. 2. þm. Reykv. á, að um sama leyti segir þáverandi forseti Alþýðusambandsins sitt álit um þetta mál. Hann segir svo í sérstöku ávarpi í tímariti Alþýðusambandsins:

„Fyrir vanmátt og úrræðaleysi valdhafanna hefur ósamræmið milli verðlags og kaupgjalds verið svo launþegunum í óhag vegna falskrar vísitölu og svikins verðlagseftirlits, að kauphækkanir þær, sem verkalýðurinn náði 1942 og síðan 1944, eru að engu orðnar.“

Ef það er algerlega einhlítt að hækka kaupið til þess að bæta lífskjörin, hvernig getur þá á því staðið, að forseti Alþýðusambandsins gefur slíka yfirlýsingu á þessum tíma?

Og um sama leyti segir annað málgagn þáverandi ríkisstjórnar, nýsköpunarstjórnarinnar sællar minningar, Þjóðviljinn, blað hv. 2. þm. Reykv., þegar það blað vill líka segja sitt álit um, hvernig tekizt hafi til með kjarabaráttu verkalýðsins, sem stýrt var af hv. 2. þm. Reykv. o. fl.:

„Sannleikurinn er sá, að hlutur verkamanna er mun lakari nú en hann var fyrir nokkrum árum.“

Og það er auk þess eftirtektarvert, að þessir vitnisburðir ganga árið 1946, eftir að fulltrúar frá kommúnistum eru búnir að sitja í ríkisstjórn nokkur missiri. Það þarf því ekki að fara í neinar grafgötur um þetta allt. Hv. 2. þm. Reykv. gæti sparað sér þennan hávaða og líka talað styttra. Málið liggur ekki eins fyrir og hann vill vera láta. Fyrir liggur ekki aðeins mitt álit um, að kauphækkanir séu ekki alltaf einhlítar, heldur einnig álit ýmissa þeirra manna, sem hv. 2. þm. Reykv. vill vafalaust taka miklu meira tillit til en mín.

Þá vil ég minnast á annað atriði í sambandi við þessi mál. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að 1944 hefði Framsfl. viljað lækka kaupgjaldið. Hann sleit þetta algerlega úr samhengi. Á þessum tíma var leitað til bændastéttarinnar um að lækka verðlag á afurðum, og bændastéttin varð vel við því. Þá álitum við í Framsfl. og skömmumst okkar ekkert fyrir, að þegar bændur slökuðu til og lækkuðu af sinni hendi, þá ættu aðrar stéttir að gera slíkt hið sama, til þess að jafnvægi héldist. Það var okkar afstaða, og hún var fullkomlega réttmæt. Ef allir hefðu þá tekizt í hendur um að lækka, þá hefði verið hægt að lækka, án þess að verkamenn hefðu skaðazt á því.

Ég álít þetta alveg nóg til þess að koma gati á þann vindbelg, sem hv. 2. þm. Reykv. blés út áðan hér í deildinni.