09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hafa, eins og við mátti búast, orðið miklar umr. um bráðabirgðayfirlit hæstv. fjmrh. um rekstrarafkomu ríkissjóðs á árinu 1954. En ræða hans var tvíþætt, var í fyrsta lagi skýrsla og greinargerð um fjárhagsafkomu ríkissjóðs á árinu 1954 og svo útrás nokkur — árás raunar — á verkalýðssamtökin, sem nú ætluðu að ráðast gegn þeim mikla og góða árangri, sem orðið hefði af starfi ríkisstj. á undanförnum árum, og að manni skildist eyðileggja þetta allt saman. Það er því ekki að undra, þó að umr. hafi orðið tvíþættar eins og ræða hæstv. ráðh. og menn hafi haldið sér við þetta tvennt.

Í fyrri hluta ræðu minnar í öndverðum þessum umr. vék ég að því, eins og raunar kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að hæstv. ríkisstj. hefði haldizt illa á fé, en sú játning stóð einmitt í ræðu ráðh. og var orðuð á þessa leið: Hélzt hæstv. ríkisstj. því ekki vel á fé, þótt þörf hefði verið á öðru til þess að styrkja afkomu þjóðarinnar út á við og trúna á fjármálakerfi landsins inn á við. — Þetta er hverju orði sannara og var í raun og veru það, sem ég vék nokkru nánar að. Ég hélt því fram, að árásir hæstv. ráðh. á Alþfl. út af því, að hann hefði borið fram ábyrgðarlausar till. á undanförnum árum í sambandi við afgreiðslu fjárl., sem leitt hefði af, ef samþ. hefðu verið, að rekstrarafgangur hefði ekki orðið á fjárl., væru alls ekki á rökum reistar, væru ósannar og að hæstv. ráðh. vissi betur. Hann upplýsti í sinni skýrslu, að rekstrarafgangurinn 1953 hefði orðið 86 millj. Allar hækkunartill. Alþfl. á fjárl. 1953 námu 29 millj. Þá hefði afgangurinn getað orðið 57 millj. kr. Allar brtt. Alþfl. til hækkunar á tekjubálki fjárl. árið 1954 námu 32.2 millj. kr., og þó að þær hefðu allar verið samþ. og útgjaldatill. allar verið samþ., þá hefði á því ári, sem nú skilaði 97.7 millj. kr., orðið 65 millj. kr. afgangur til umframeyðslu, og hefði þá ekki verið gerð sú krafa til hæstv. ráðh., að hann hætti í miðri framkvæmd að greiða til sjúkrahúsa eða til annars slíks, sem hann nefndi og sagði að ekki væri hægt að hætta á þeim punkti, þar sem fjárlögin settu stopp við. Það hefði þess vegna alls ekki þurft að gera slíka kröfu til hæstv. ráðh. Eins og ég sagði, hefði getað orðið tugmilljóna rekstrarafgangur á fjárl. fyrir það, þótt allar till. Alþfl. á þessum nefndu árum hefðu verið samþ. Þær brtt. voru aðgengilegar fyrir hvern þann þm., sem hirðir um að vilja heldur hafa það, sem sannleikanum er samkvæmt í þessu efni.

Hæstv. ráðh. spurði svo nokkuð rogginn í framhaldi af þessu: Hefði verið hægt að komast af með minni álögur? Ég svara því hiklaust játandi. Það hefði verið hægt að komast af með minni álögur á landslýðinn til þess að standa undir öllum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs á þeim árum, sem hér er um að ræða. Hann spurði enn fremur: Hefði verið hægt að fella niður álögur? Já, vissulega hefði verið hægt að fella niður álögur. Útkoma seinasta árs sýnir, að það hefði verið hægt að feila niður nálega allan söluskattinn, sem nemur um 100 millj. kr. Hefur gjaldþegnunum verið íþyngt að óþörfu? spurði hæstv. ráðh. Já, þeim hefur verið íþyngt að óþörfu. En það, sem ég var þungorðastur um í minni fyrri ræðu, var það, að hæstv. ráðh. hefði blygðunarlaust játað það hér á Alþingi, að 16 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1954 hefði nú þegar verið ráðstafað til ákveðinna hluta með samþykki þeirra þm., sem styddu stjórnarflokkana, sem styddu ríkisstj. Ég benti á, að þm. stjórnarflokkanna væru engin stofnun, sem hefði fjárveitingavald, það væri Alþingi eitt, sem hefði fjárveitingavald og ákvörðunarrétt um slík mál á þingfundum. Hvað gerist þá, þegar ríkisstj. er að afgreiða tugi millj. kr. í útgjöldum með samráði stjórnarflokkanna — þingmannanna í stjórnarflokkunum — jafnvel kannske meðan Alþingi situr? Þá er horfið af þingræðislegum grundvelli um afgreiðslu fjármála í þjóðfélaginu, og það er spor, sem ég skil ekki í að hv. þm. séu ekki allir sammála um að beri að vita. Ég sagði í þessu sambandi, að fyrirmyndin væri svo sem til í sögu þjóðþinganna, Hitler hefði gert þetta, þegar hann var upp á sitt bezta og var og hét, að afgreiða mál utan þingsins og kalla þingið síðan saman eftir á til að samþ. þau, — og það hefði verið þessi aðferð, sem hér væri viðhöfð. Hæstv. ráðh. féll þetta mjög fyrir brjóst og sagði, að hér væru nú ekki rétt hlutföll á milli. En það er nákvæmlega þetta, sem hefur gerzt. Það var í hvoru tveggja tilfellinu farið út fyrir hinn þingræðislega grundvöll og afgreidd mál utan þings og leitað samþykkis þings á eftir, og það er skrípaleikur í þingræðislöndum. Það kann að vera, að landslýðurinn hafi tekið þetta svo, að samþykki þingflokkanna — þm., sem styðja ríkisstj. — sé jafngott og gilt og samþykki Alþingis, því að í ríkisútvarpinu í fréttayfirliti til útlanda s. l. sunnudag var sagt, að fjmrh. hefði upplýst, að 16 millj. kr. hefði m. a. verið varið til þessara tveggja sjóða, sem hér er um að ræða, með samþykki Alþingis, sem er algerlega ósatt. Það er ekki enn þá farið að leita eftir samþykki Alþingis fyrir þessari smávægilegu fjárveitingu, 16 millj. kr., og hefur fjmrh. sagt, að það verði leitað samþykkis Alþingis síðar fyrir þessu. Ég held, að ríkisútvarpið ætti að sjá sóma sinn í því að leiðrétta þennan misskilning, þessa röngu frétt, því að Alþingi hefur ekki samþ. þessi útgjöld enn þá.

Hinn þátturinn í ræðu hæstv. ráðh. var um það, að nú væru ill öfl að verki í þjóðfélaginu, sem ætluðu að eyðileggja hinn góða árangur af stjórnarstefnunni. Sagði hæstv. ráðh. í svarræðu, að hann hefði nú ekki meint, að það væru verkalýðssamtökin í heild, því síður, að það væri alþýða landsins, það væru kommúnistar, sem hann hefði átt við. Orð hans voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „En það eru til öfl í þjóðfélaginu, sem telja sig geta sett verðbólguhjólið af stað aftur þrátt fyrir greiðsluhallalausan ríkisbúskap, eyðilagt allt það, sem áunnizt hefur síðustu árin í þá átt að auka traust á fjármálakerfi landsins, grafið undan verðgildi peninganna og trú manna á því að leggja fyrir fé.“ Þetta voru óbreytt orð hæstv. ráðh. Hvaða öfl eru það að verki, sem hæstv. ráðh. hefur hér fyrir sökum? Það vita allir, að hann stílar þarna til þeirra samningsuppsagna, sem hafa átt sér stað, og að því verki standa 24 verkalýðsfélög a. m. k., sem öll hafa gert þetta, tekið þessa ákvörðun ágreiningslaust, þ. e. a. s. fólkið í öllum flokkum í þessum verkalýðsfélögum hefur verið sammála um að gera þessa ráðstöfun. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að allt þetta, sem hann þarna upp taldi, mundi fara úr skorðum, ef þessar kröfur næðu fram að ganga. Það eru kröfur verkalýðsfélaganna, sem eru ágreiningslaust fram bornar alveg án tillits til skoðana manna í stjórnmálaflokkum. Ég er á allt annarri skoðun en hæstv. ráðh. um það. Ég held, að það mundi ekkert ganga úr skorðum í þessu þjóðfélagi fyrir það, þó að allar kröfur verkalýðsfélaganna, eins og þær eru nú fram bornar, væru samþykktar. Og ég held, að það væri affarasælla fyrir þjóðfélagið að gera það, að samþykkja þær heldur í dag en á morgun, heldur í dag en eftir mánuð, heldur í dag en einhvern tíma með vorinu, þegar búið væri að ljúka öllum skýrslugerðum og reikningum, sem hefði átt að vera búið að gera nú, ef menn hefðu haft hug á því að vilja koma í veg fyrir stöðvanir atvinnulífsins. Ég sýndi fram á það um daginn, að ef orðið yrði við toppkröfum verkalýðsfélaganna, þá mundi mánaðarkaup verkamanns hækka úr tæpum 3000 kr. í 3900 kr., og ég er sannfærður um, að þjóðfélagið þyldi þetta. Þjóðfélagið þyldi það, að verkamaður, sem vinnur hvern dag sinn reglubundna vinnutíma, 8 stundir á dag, fengi 3900 kr. til framfæris sér og sínum.

Það má vel vera, að það sé hyggileg barátta á móti kommúnisma að segja á Alþ. og túlka í blöðum og á mannamótum: Að þessari kauphækkunarherferð standa kommúnistar og ætla að eyðileggja þjóðfélagið með því. — En að tileinka kommúnistum einum þá viðleitni til að bæta kjör íslenzks verkalýðs er ekki barátta til þess að tálga af þeim fylgið. Það að tileinka andstöðuna við þessa kjarabaráttu, sem nú er hafin, öllum andstæðingum kommúnista og segja þjóðinni: Allir, sem ekki eru kommúnistar, berjast á móti því, að þessar kjarabætur verði veittar, — er ekki heldur til þess að valda kommúnistum tjóni og tálga af þeim fylgi. Nei, ef nokkuð er, þá er það til þess að veikja aðstöðu kommúnistaandstæðinga í þjóðfélaginu og að hjálpa kommúnistum, sem þessir menn þykjast óttast allra mest, með því að tileinka þeim góðan málstað, sem öll alþýða landsins fylkir sér nú um. Þetta er einhver sú allra vitlausasta afstaða gegn kommúnisma, sem hugsazt getur. Þessa baráttuaðferð hefur hæstv. ríkisstj. helgað sér og lætur sérfræðingakerfi sitt styðja að þessari afstöðu, málgögn hæstv. ríkisstj. túlka þetta fyrir þjóðinni, og Alþ. á að slá trumbur fyrir þessari vanhugsuðu afstöðu.

Ég brosi að einu, og það er það, þegar hæstv. fjmrh. og Morgunblaðið kyrja í kór, að því miður gæti minna áhrifa allt of lítið í sambandi við þessa deilu, ég sé ekki hafður með í samninganefndunum, það sé greinilegt, að kommúnistar ráði þarna lögum og lofum og ég sé bara hafður svona til hliðar. (Forsrh.: Bezti maður þjóðarinnar settur út undan.) Já, einhver bezti maður þjóðarinnar hafður út undan. Þetta fellur ágætlega inn í kenninguna. Ég hafði nú aldrei gert mér vonir um, að ég yrði kosinn í samninganefnd fyrir Dagsbrún eða að ég yrði kosinn í samninganefnd fyrir Múrarafélagið í staðinn fyrir formann þess, Eggert Þorsteinsson, eða að ég yrði kosinn í samninganefnd fyrir félagsmennina, sem félagsfólkið eitt hefur rétt til þess að kjósa til þessara starfa. Og þess vegna er alveg ómögulegt að fá mig til að móðgast út af þessu, að mér hafi verið ýtt til hliðar frá aðstöðu, sem ég hefði átt að hafa. Ég var í samningunum 1952 vegna þess, að fjarlæg félög, sem gátu ekki átt menn hér á staðnum úr sinum röðum til þess að standa í samningunum, voru þá þátttakendur í deilunni. Þá var ég kosinn fulltrúi fyrir Vestfjarðafélögin, sem voru þátttakendur í deilunni. Ef einhver félög núna utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, sem hafa ekki aðstöðu til að geta mætt daglega á samningafundunum, væru í deilunni, þá gæti ég bezt trúað því, að þessi einn af ágætustu mönnum þjóðarinnar, skulum við segja, væri þá valinn fyrir þau í nafni Alþýðusambandsins til þess að taka þátt í samningunum. Ég er nokkurn veginn viss um það. Og þetta bendir þá bara til þess, að vinnustöðvanirnar núna eða deilurnar núna eru ekki nógu víðtækar til þess, að ég gæti verið þarna með og látið mín góðu áhrif koma í ljós. Verið getur, að þær verði smátt og smátt, ef þær dragast mjög á langinn, nógu víðtækar til þess, að Alþýðusambandið fari með umboð fyrir félög, sem geta ekki teflt eigin félagsmönnum fram hér á samningafundum, en þangað til kemur það varla til greina. Ég veit svo sem ósköp vel, að tilgangurinn hefur verið sá að reyna að koma því inn hjá almenningi, að þarna væri eitthvert ágreiningsefni, sem gæti valdið vandkvæðum. En það er ekki. Það er ekki til fótur fyrir því. Það er hvorki hægt að gera mig afbrýðisaman út af þessu, að mér sé stíað frá, né heldur að koma neinni tortryggni inn hjá mér um það, að það sé verið að halda þarna á kröfum af meiri óbilgirni en Alþýðusambandið fyrir sitt leyti vilji samþykkja og staðfesta.

Kröfurnar hafa verið ákveðnar með réttum hætti af hverju verkalýðsfélagi um sig. Alþýðusambandið getur ekki ákveðið kröfur verkalýðsfélaganna. Alþýðusambandið getur ekki sagt fyrir: Þú skalt hækka kaup þitt um 10% — þegar félag vildi t. d. ákveða 15% kröfur, og hefur engan rétt til þess og hefur aldrei ætlað sér það. Alþýðusambandið getur aðeins sagt til um það, hvort það vilji styðja fram komnar kröfur verkalýðsfélaganna. Kröfurnar hafa verið bornar undir Alþýðusambandið, og Alþýðusambandið stendur einhuga að baki þeim kröfum, sem nú hafa verið fram bornar, og ég blygðast mín ekkert fyrir að telja, að verkamaðurinn hefði ekki fengið ofborgað fyrir vinnu sína, þó að kaup hans hækkaði um 30%, þ. e. 3000 kr. kaupið yrði um 3900 kr.

Það, sem nú hefur gerzt nýtt í þessum málum, er einkanlega það, að hæstv. ríkisstj. hefur í viðbót við þá útreikninga, sem hún hefur látið framkvæma og birta, gert tilboð til samninganefndar verkalýðsfélaganna um það, að skipuð yrði sérstök nefnd til þess að rannsaka greiðsluþol atvinnuveganna og mörg atriði, sem upp eru talin í bréfi til samninganefndar verkalýðsfélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands.

Ég játa, að það hefði verið mjög ánægjulegt, ef það hefði legið fyrir vitneskja í þann mund, sem þessar deilur hófust, um þau atriði mörg, sem þarna eru nefnd. En ég geri mér líka ljóst, að ef það ætti að fara í rannsókn þessara atriða allra saman, þá tæki það langan tíma, ef verkið ætti að vera vel og samvizkusamlega unnið. Og það er ekki hyggilegt að koma fram með tillögur, sem greinilega skjóti úrlausn deilunnar, eftir að hún er hafin, á langinn, dragi hana á langinn um margar víkur eða jafnvel mánuði. Hæstv. ríkisstj. var búin að þreifa fyrir sér um það, hvort vera mundi vilji fyrir því að fresta aðgerðum í þessum kaupgjaldsmálum fram til vors. Miðstjórn Alþýðusambandsins var búin að láta það í ljós við hæstv. ríkisstj., að við teldum alveg óhugsandi, að slíkt fengist fram. Þann sama dag sem hæstv. ríkisstj. bar þessa ósk fram við Alþýðusambandsstjórnina var hér í Reykjavík fundur flestra formanna stéttarfélaganna við Faxaflóa, all fjölmennur fundur, það var vel mætt á honum, nálega formaður hvers stéttarfélags á þessu svæði. Þar var alveg svikalaust og samvizkusamlega skýrt frá þessum tilmælum hæstv. ríkisstj., og einn fundarmanna bar fram till. um að verða við ósk ríkisstj. um að fresta aðgerðum fram til vors. Hvað fékk sú till. mörg atkvæði? Hún fékk eitt atkvæði, tillögumannsins sjálfs og einskis annars. Þetta mátti vera hæstv. ríkisstj. til leiðbeiningar um, að það væri ekki vilji fyrir því að fresta aðgerðum. (Forsrh.: Hvað margir sátu hjá, og hvað margir sögðu já?) Ég taldi nú ekki þá, sem sátu hjá, en það var með öllum þorra atkvæða fundarmanna samþykkt að hafna þessum tilmælum hæstv. ríkisstjórnar. Þetta var enginn æsingafundur. Þetta var fundur, þar sem róleg athugun og umræða fór fram um það, hvort ráðlegt mundi vera að segja samningum upp. Þá var ekki búið að segja þeim upp. Þá voru menn ekki komnir í deiluskap. En það var aðeins einn maður á þeim fundi meðal forustumanna verkalýðsfélaganna við Faxaflóa, sem vildi fresta aðgerðum til vors.

Ég hélt því, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki koma fram með viðleitni í þá átt að draga þessi mál á langinn; því að það er alveg óumdeilanlegt, að ef þessir útreikningar og athuganir ættu að fara fram, sem hugsunin var að tveir fulltrúar frá vinnuveitendum, tveir frá verkalýðssamtökunum og þrír frá hæstarétti framkvæmdu, þá er það umfangsmikið verk, sem áreiðanlega tæki margar vikur.

Viðbrögð verkalýðsfélaganna gagnvart þessum tilmælum eru þau, að þetta sé því miður tilraun af hendi ríkisstj. til að draga málið enn þá fremur á langinn, og nú eru menn gjarnir á tortryggni, það skal ég játa, og það mátti hæstv. ríkisstj. líka vita. Ég held því, að tortryggnin í garð ríkisstj. um það, að hún muni heldur draga taum annars aðilans, þ. e. a. s. atvinnurekenda fremur en verkamanna, hafi aukizt við þessa tilraun ríkisstj. — við skulum segja frá hennar sjónarmiði til þess að leggja sæmilegan grundvöll að lausn málsins.

Er það þá nokkuð annað en órökstudd tortryggni af verkalýðssamtökunum að vilja ekki fallast á þessa rannsókn nú? Ég vil svara þessu með því að minna á nokkur atriði frá seinustu dögum og víkum. Nú eru liðnir 9 dagar síðan verkföllin áttu að hefjast. Það eru liðnar 3 vikur síðan kröfurnar frá verkalýðsfélögunum voru sendar atvinnurekendum. Kröfurnar hafa verið þaulkannaðar af báðum aðilum, og menn eru búnir að sitja við samningaborð um aukakröfur og aðalkröfur og þokast örlítið í áttina, en tiltölulega hefur þetta gengið allt of hægt, miðað of seint í áttina, þegar athugað er, að verkalýðsfélögin gáfu frestinn til þess, að samningar gætu farið fram við eðlileg skilyrði, án þess að verkfallsvopnin væru á lofti, og menn gerðu sér vonir um, að á tiltölulega stuttum tíma tækist kannske að jafna ágreininginn og komast að niðurstöðu. Það er komið á sjöttu viku síðan verkalýðsfélögin sögðu upp samningum sínum, og eftir að verkalýðsfélögin höfðu sagt um samningum, máttu atvinnurekendur þegar vita, að hverju drægi. Það hefði mátt með góðum vilja vera búið að þoka þessum málum mikið í áttina til lausnar, ef vel hefði verið unnið að lausn. Það eru komnar 7 vikur síðan hæstv. ríkisstj. kvaddi stjórn Alþýðusambands Íslands á fund til að tilkynna henni, að hún væri þá í þann veginn að hefja samninga um ráðstafanir til lækkaðs verðlags. Alþýðusambandinu var tilkynnt þá skömmu síðar, nokkrum dögum síðar, að Alþýðusambandið yrði látið fylgjast með því, sem kynni að gerast í þeim málum í verðlækkunaráttina. Við höfum ekki fengið orð að heyra frá hæstv. ríkisstj. síðan, og ég veit ekki í dag, hvort nokkuð hefur verið gert í þessu og því síður hvort nokkuð hefur unnizt í áttina í þessum málum. Þegar maður sér, að 7 víkur hafa liðið, frá því að hæstv. ríkisstj. fór að athuga sinn gang um að gera ráðstafanir til lækkaðs verðlags, og það var í sambandi við þessar yfirvofandi deilur, sem hæstv. ríkisstj. gerði það, og veit, að mjög lítið hefur miðað áfram í samningaáttina, þá er ekkert að undra, þó að verkafólkið, sem sagði upp samningum fyrir rúmum 6 vikum, sé farið að ókyrrast og segi: Það fer eins og venjulega, að það kemst enginn skriður á þessi mál, fyrr en a. m. k. búið er að tilkynna verkfall og verkfallið vofir yfir. — Og þess vegna er það, að nú er áreiðanlegt, að það er búið að halda þannig á málum, að því verður ekki frestað, að verkfalli verður lýst yfir nú alveg þessa dagana. Það verður auðvitað gert með löglegum fyrirvara, 7 dögum, og það eru líkur til, að við höfum enn þá yfir að ráða 7 dögum og nóttum til þess að gera úrslitatilraun til að leysa deiluna, ef hún á að leysast án þess að stöðva atvinnulífið. Og það er sannfæring mín, byggð á langri reynslu, að ef ekki er notaður tíminn til þess að ná endanlegum samningum, áður en verkfall er skollið á, þá getur enginn við það ráðið, þó að verkfall verði kannske langvinnt og víðtækt og heltaki þjóðfélagið, því að það er allt annað andrúmsloft, sem skapast, eftir að verkfall hefur skollið á.

Ég tel því, að það megi nú þegar reikna með, að verkfall skelli á frá og með kannske 18. eða 19. þ. m., og ég vil brýna það fyrir öllum aðilum, að þessa 7–8 daga, sem eftir eru, þarf að nota til hins ýtrasta, betur en tíminn hefur verið notaður síðan menn vissu, að verkfalls væri von.

Það hefur enn þá því miður ekkert tilboð komið frá atvinnurekendum, sem máli skipti um aðalkröfurnar. Það hefur aðeins dálítið þokazt í áttina með sérkröfur ýmissa félaga.

Alþýðusamband Íslands hefur fallið fyrir þeirri sömu freistni og hæstv. ríkisstj. að taka fræðimenn í sína þjónustu og láta þá reikna. Nú er ég raunar sannfærður um það, að vinnudeilurnar verða ekki reiknaðar til lausnar; þær verða ekki leystar með útreikningum. Ég er alveg sannfærður um það. En það er samt bezt að athuga þessi mál öll eins og tíminn annars vinnst til, og það hefur Alþýðusambandið líka látið gera, og þeim útreikningum, sem Alþýðusambandið hefur látið gera, er nú lokið, og þeir þurfa þannig ekki að tefja gang deilunnar á nokkurn hátt.

Við höfum beðið fræðimenn að reikna út, hvað kaupmáttur tímakaupsins hafi breytzt síðan á árinu 1947. Þeir fræðimenn komust að þeirri niðurstöðu, að tímakaupið hafi verið í hámarki kaupmáttar á tímabilinu júlí–september 1947, en á kaupbindingartímabilinu, sem ég vil svo kalla, hafi kaupmátturinn minnkað um 8%, þegar kaupbindingunni sleppti, hafi kaupmáttur tímakaupsins aukizt nokkuð á árinu 1949, en á miðju ári 1949 hafi kaupið aftur verið nálega í sama hámarki kaupmáttar og 1947. Síðan er talið að kaupmáttur tímakaupsins hafi lækkað út árið 1949 og síðan lækkað með auknum hraða eftir gengislækkunina 1950 og að kaupmáttur tímakaupsins hafi náð lágmarki í árslok 1950, en þá var kaupmáttur tímakaupsins orðinn 21% lægri en á tímabilinu júlí–sept. 1947. Nokkur kjarabót varð af uppbótum, sem greiddar voru 1951, en á tímabilinu 1951–52 er kaupmáttur tímakaupsins um 15% eða 16% lægri en 1947, og síðan hrakar kaupmætti tímakaupsins sífellt, þangað til í október-nóvember 1952 er kaupmáttur tímakaupsins 23% lægri en 1947.

Svo koma kjarabætur verkfallsins 1952, sem að miklu leyti féllu allri þjóðinni í skaut, en að nokkru leyti, í smáatriðum þó, verkalýðsstéttinni einnig til handa að því er snertir smávægilega kauphækkun. Eftir það, fyrri hluta ársins 1953, er talið, að kaupmáttur tímakaupsins sé um það bil 15% lægri en á miðju ári 1947, og síðan hefur kaupmáttur tímakaupsins smátt og smátt heldur minnkað, þannig að í febrúarmánuði 1953 telst fræðimönnum svo til, að hann sé aftur orðinn 23% lægri en á tímabilinu júlí-sept. 1947. Þá get ég látið hagfræðinga hæstv. ríkisstj. taka við, og vissulega eru þeir a. m. k. ekki með of háar tölur, því að þeir telja, að kjaraskerðingin síðan 1952 hafi numið a. m. k. 2.9%, þegar ekki er reiknað með þeim kjarabótum, sem hafa fengizt í lækkuðum opinberum sköttum. Þó að maður bæti ekki nema þeim 2.9%, eða 3%, við 23%, sem voru í febrúar 1953 sem skerðing á kaupmætti launanna miðað við 1947, þá eru þarna um 26%, og verður að viðurkenna, að þá er reiknað með stórum lið í útgjöldum verkamannafjölskyldunnar, húsaleigunni, langt fyrir neðan það, sem svarti markaðurinn í Reykjavík gefur tilefni til, en hann verður ekki reiknaður, hvorki á stórar né litlar reikningsvélar, því að um hann vita menn ekkert annað en að hann er staðreynd. Nú má kannske deila um þessar tölur fræðimanna, en þeir vilja þó fullyrða, að það eitt sé víst um þessar tölur, sem eru tilraun til að rekja kaupmátt tímakaupsins allt frá árinu 1947 og fram á þennan dag, að þær séu a. m. k. ekki of háar, þeir hafi reynt, að viðlögðum sínum vísindamannsheiðri, að reikna þannig, að þær væru a. m. k. ekki neinar skröktölur, væru ekki of háar.

Á þessum grundvelli er það, sem við stöndum í dag, og það er gagnvart þessu, sem atvinnurekendur landsins og hæstv. ríkisstj. og aðrir þeir aðilar, sem koma til með að hafa með þessa deilu að gera, verða að horfast í augu við staðreyndir, að verkalýðssamtökin í heild, alveg án tillits til stjórnmálaflokka, jafnt sjálfstæðismenn sem kommúnistar, Alþýðuflokksmenn sem framsóknarmenn og þjóðvarnarmenn, standa einhuga að því, að þeir vilja fá aukinn kaupmátt launa sinna, fá aukna hlutdeild í þeim auknu þjóðartekjum, sem hafa skapazt á undanförnum árum við þá vinnu, sem vinnandi fólk landsins hefur innt af hendi. Og þetta mál verður ekki leyst nema með því, að komið sé af fullkominni sanngirni og velvild fram við þessa aðila, því að þeir telja og eru sannfærðir um það, að þeir standi á rétti.