09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessar umr. hafa farið allmjög á víð og dreif, en þó í síðari hluta þeirra mjög snúizt um þær vinnudeilur, sem yfirvofandi eru og samkvæmt því, sem hv. síðasti ræðumaður, Hannibal Valdimarsson, tilkynnti þingheimi nú síðast, eiga að snúast upp í verkfall frá 18. eða 19. þ. m.

Það sem gerði að verkum, að ég tók til máls nú, þó að málið hafi þegar verið skýrt svo af hálfu ríkisstj., að ég mun ekki bæta þar verulega við, var það, sem hv. þm. (HV) sagði um þá till. ríkisstj., að nú væri skipuð n. til að rannsaka vissar staðreyndir í sambandi við deilurnar. Hv. þm. játaði, að mjög gott væri, ef rannsókn lægi fyrir um þessi atriði, en taldi, að ríkisstj. hefði of seint komið fram með till. sína, og hefði hún mátt búast við því fyrir fram, að lítt yrði undir hana tekið, og færði fyrir því ákveðin rök. Hv. þm. færði hins vegar þau rök fyrir kauphækkunum nú, að kaupmáttur launanna væri orðinn mun minni en hann hefði verið, þegar verkamenn höfðu bezt kjör, 1947, og hið sama kom glögglega fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að hann miðaði mjög við kjörin 1947, og útskýrði hv. 2. þm. Reykv. einmitt, af hverju miðað væri við kjörin 1947: að þá hefðu verið að komast í gagnið framkvæmdir ný sköpunarstjórnarinnar, en síðan hefðu ýmsar aðrar umbætur orðið hér í landi, sem einmitt andstæðingar hans legðu mikið upp úr, og hv. 2. þm. Reykv. spurði: Ef við stóðum undir þessu kaupgjaldi 1947, stöndum við þá ekki undir enn hærra kaupgjaldi nú, eftir allar þær umbætur, sem stjórnarstuðningsmenn og ríkisstj. gera svo mikið úr?

Hv. 2. þm. Reykv. spyr ekki um þetta af því, að hann viti ekki. Þessari spurningu hans var í raun og veru svarað af mér strax í þeirri fyrstu ræðu, sem ég hélt um þetta mál. Þjóðin veit vel, af hverju ekki er hægt að bæta kjörin meira en orðið er þrátt fyrir látlausar nýsköpunarframkvæmdir allt frá árinu 1945 fram á þennan dag. Ástæðan til þess er sem sagt sú, að þrátt fyrir allar þessar framfarir höfum við átt við mjög erfitt atvinnuárferði að búa að sumu leyti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að miðað við þá feiknafjármuni, sem lagðir hafa verið fram til að hagnýta sér síldarafla, hefur síldarleysið skapað fáheyrð vandræði í íslenzkum þjóðarbúskap. Til viðbótar síldarleysinu hafa komið fjárpestir og aðrar plágur, sem gengið hafa yfir landbúnaðinn. Þegar á þetta er litið, þá er sannast sagt undravert, að svo skuli hafa tekizt að halda í horfinu sem raun ber vitni um. Það er undravert, en hitt ekki, þó að við höfum mætt mörgum örðugleikum og ýmsir hafi ekki átt þess kost að bæta svo sinn hag sem ætla hefði mátt að tækist, ef öll atvinnutækin, sem komið hafa fyrir nýsköpunarframkvæmdirnar á þessum árum, hefðu orðið að því gagni, sem menn vonuðust til að þau yrðu.

Án þess að ég ætli nú að fara að rökræða frekar við hv. 2. þm. Reykv., þá kemst ég ekki hjá því að benda á þá veilu í málflutningi hans til viðbótar þessari höfuðveilu, að hann heldur því fram enn í dag, að það sé höfuðsynd af stjórnarvöldunum að hafa ekki lagt ríkari áherzlu á eflingu sjávarútvegsins en gert hefur verið síðustu ár. Við hinir höfum einmitt sannfærzt um, að ef við ætlum að halda sæmilegu jafnvægi í þjóðarbúskap okkar og sæmilegu atvinnuöryggi fyrir allan almenning, þá dugi ekki að eiga svo mikið undir sjávarútveginum einum sem við enn gerum og einkanlega gerðum, áður en hin mikla síðasta viðbótarvirkjun við Sogið var framkvæmd og þær iðnaðarframkvæmdir hafa getað átt sér stað, sem á henni hvíla. Ég játa það, að við verðum að halda sjávarútvegi okkar við, og eðlileg aukning er þar sjálfsögð, en höfuðverkefni næstu ára hlýtur að vera að byggja fleiri undirstöður undir atvinnulíf okkar en það enn stendur á.

En hvað sem deilunni um það líður, hefur þó það áunnizt í þessum umr., að allir hafa viðurkennt, að raunverulegar kjarabætur fáist ekki með pappírssamningum eða pappírssamþykktum, heldur eingöngu með aukningu framleiðslunnar. Það eru þess vegna þær aðgerðir, sem mestu máli skipta. Og það er vegna þess, að ríkisstj. efast um, að kjarabreytingar, gerðar með samningum nú, verði að raunverulegum kjarabótum, sem hún hefur talið, að rannsaka þyrfti það mál betur en enn hefur verið gert.

En þá kem ég aftur að því, sem ég gat um, að bæði hv. 2. þm. Reykv. og hv. síðasti ræðumaður, forseti Alþýðusambands Íslands, vitnuðu í kjörin 1947 sem þau beztu kjör, er verkamenn hafi átt við að búa og vilji nú ná aftur. En voru þá þessi kjör 1947 með þeim hætti, að þau gætu staðið til frambúðar? Því miður var svo ekki. Einmitt í desember 1947 voru sett lög, sem leiddu til kjaraskerðingar verkamanna, og það var alveg með opnum augum, að þau lög voru sett. Menn vissu, að kaupgjaldið mundi eitthvað lækka vegna lagasetningarinnar, og einn þm., sem studdi lögin þrátt fyrir þetta og tók fram, að hann styddi lögin þrátt fyrir þetta, var hv. síðasti ræðumaður, Hannibal Valdimarsson, núverandi forseti Alþýðusambands Íslands. Hann segir í þingtíðindum 1947, B-deild, bls. 304, m. a. á þessa leið:

„Með því að ég lít svo á, að í þessu frv. felist ákvæði, sem skapi aukið atvinnuöryggi, sem ég tel að veiti verkalýð landsins betri hagsbætur heldur en sem nemur þeirri kjaraskerðingu, sem binding vísitölunnar leiðir af sér“ o. s. frv.

Þarna viðurkennir hv. núverandi forseti Alþýðusambands Íslands, að kaupuppfæring ein dugi ekki; það sé atvinnuöryggið, sem meira máli skipti, og hann greiðir atkvæði með beinni kjaraskerðingu, gerðri með löggjöf, vegna þess að hann er sannfærður um, að það sé verkalýðnum til bóta að fara þannig að. Því miður kom það strax á daginn 1947, að boginn var of hátt spenntur.

Það hefur verið sagt réttilega í þessum umræðum, að það sé svo oft búið að segja, að allt fari um koll, ef kaupið verður hækkað, að menn séu hættir að taka mark á slíkum spádómum. Þetta er að vissu leyti svo, og þetta truflar eðlilegar, sanngjarnar umræður um þessi mál. En er það svo, að þessir spádómar hafi reynzt algerlega rangir? Þeir hafa reynzt rangir að því leyti, að atvinnuvegirnir hafa haldið áfram. En þeir hafa ekki reynzt rangir að því leyti, að það, sem menn voru að berjast fyrir, oft með löngum verkföllum og miklum fórnum, varð að engu í höndunum á þeim, vegna þess að þegar til kom stóðu atvinnuvegirnir ekki undir því, sem af þeim var krafizt og þeir höfðu skuldbundið sig til að greiða, og þess vegna varð að grípa til annarra ráða til að halda þeim við. Það varð að jafna niður einhvers konar álögum, sköttum eða gera gengisfall eða aðrar hliðstæðar ráðstafanir, til þess að allsherjarstöðvun yrði ekki. Það hefur sem sagt komið á daginn, að það er rétt, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson, núverandi forseti Alþýðusambands Íslands, sagði 1947, að kaupgjaldið eitt dugir ekki, það er atvinnuöryggið, sem verkamaðurinn þarf meira á að halda. Og ef kaupgjald er sprengt hærra upp en atvinnuvegirnir standa undir, þá fellur atvinnulífið með meiri og minni erfiðleikum, með meiri og minni hörmungum, að lokum í sinn gamla farveg, því að þaðan er ekki hægt að taka meira en þar er skapað.

Þetta eru sannindi, sem menn hver og einn játa og viðurkenna. — Hv. þm. Hannibal Valdimarsson gerði mikið úr því, að þær kröfur, sem nú væru bornar fram, væru kröfur allra verkamanna án tillits til þess, í hvaða flokki þeir eru. Auðvitað vitum við, að verkamenn í öllum flokkum efast mjög um réttmæti þeirra krafna, sem nú eru bornar fram. Hins vegar er það eðlilegt, að verkamenn í öllum flokkum vilji fá sem bezt kjör. Þeir fylgja forustumönnum félaganna í því að reyna að knýja fram frá atvinnurekendum það, er þeir mest geta greitt. Það er eðlilegt. Við vitum líka, að þegar mönnum er hóað saman á fundi og ekki sízt ef þar er ákveðinn meiri hluti einnar skoðunar, eins og er t. d. á fundum Dagsbrúnar, þá telja aðrir þýðingarlaust að vera að hafa sig þar í frammi til andmæla. En látum þetta allt vera. Aðalatriðið er það, að auðvitað vilja allir verkamenn eins og hverjir aðrir einstaklingar knýja fram sem mest þeir geta upp kaup sér til handa, að því áskildu, að atvinnuöryggið hverfi ekki. En vitanlega eru það fyrst og fremst forustumenn þeirra, sem bera ábyrgð á kröfunum, sem fram eru settar, og verkamenn hafa sannast sagt engin tök á því að gera sér grein fyrir eðli allra þessara krafna.

Það er t. d. eftirtektarvert, að hv. síðasti ræðumaður talar um það, að kauphækkunarkröfurnar nú séu þó ekki nema eitthvað um 30%. Það er að vísu býsna röskleg hækkun í einu og meiri hækkun hygg ég heldur en nokkurt þjóðfélag nokkru sinni hafi getað staðið undir í einu stökki. En það er fullyrt í mín eyru, og það er eitt af því, sem væri gott að hafa örugga skýrslu hlutlausra manna um, að kröfurnar séu ekki þetta, heldur þegar tekið er tillit til ýmiss konar hlunninda og nýrra ákvæða að öðru leyti, þá séu þær kringum 57%. Ég skal ekki dæma um það, hvort af þessu er réttara. (HV: Eru það stóru vélarnar á hagstofunni?) Ég hef ekki kunnugleik á hinum stóru vélum á hagstofunni. Hitt efast ég ekki um, að hagstofustjóri, þó að hann standi sjálfsagt hv. fyrirspyrjanda, Hannibal Valdimarssyni, nær í stjórnmálum en mér, reikni eins rétt á hinar stóru vélar og hann bezt getur, og dettur ekki í hug að bregða honum um rangindi eða vísvitandi fölsun í embættisfærslu sinni. Og ég staðfesti það, að hv. þm. gerir slíkar höfuðhreyfingar, að mér skilst, að hann sé mér sammála í því, sem ég nú sagði.

Það er áreiðanlega umdeilanlegt, hversu háar kröfurnar eru að þessu sinni, eins og svo oft áður, og það er líka meira en umdeilanleg sú frásögn, sem hv. ræðumaður hafði um þann tíma, sem hefði verið til stefnu í þessu máli. Hv. þm. sagði, að kröfurnar hefðu komið fram nú fyrir þremur vikum. Mér er sagt og fékk það staðfest af áreiðanlegum manni nú áðan, að hinar almennu Dagsbrúnarkröfur hefðu ekki borizt Vinnuveitendasambandinu fyrr en 17. febr. Það eru þó ekki alveg þrjár vikur síðan. Og mér er einnig sagt, að kröfur annarra hafi ekki komið fyrr en síðar og hafi jafnvel sumar verið að berast allt fram til mánaðamóta. Og ég hygg, að það sé alveg óvefengjanleg staðreynd, að verulegur hluti af kröfunum hafi enn ekki legið fyrir, þegar fyrst þurfti að taka ákvörðun um það af hál.fu verkalýðsfélaganna, hvort þau ættu að tilkynna verkfall eða ekki, eða a. m. k. hafi sumar þeirra ekki komið fram fyrr en alveg sama daginn eða daginn áður.

Nú eru þessar kröfur ákaflega margþættar og flóknar, og þó að ég kunni mjög vel að meta þann hug, sem komi fram í því, að verkfallsákvörðun hefur verið frestað, þá verður að segja það eins og er, að það er ekki ákaflega mikil linkind, þó að frestað sé að tilkynna verkfall, meðan kröfurnar eru enn ekki fram komnar og meðan alveg er ljóst, að ekki er enn nokkur möguleiki til þess að vera búinn að rannsaka til hlítar þær kröfur, sem höfðu komið aðeins örfáum dögum áður.

Það er líka rétt að segja það alveg eins og er, að ýmsir hafa sagt, að sú frestun á verkfallinu, sem átt hefur sér stað, hafi ekki verið gerð til þess að greiða fyrir samkomulagi, heldur vegna þess, að verið væri að bíða eftir því, að kaupskipaflotinn kæmi aftur í höfn. Það var vitað, að vegna þess verkfalls, sem lauk fyrir fáum vikum, mundi hann koma hér allur um nokkuð svipað leyti, upp úr miðjum mánuði, og því hefur verið haldið fram af sumum, að með verkfallið yrði beðið, þangað til kaupskipin yrðu komin í höfn á ný, en síðan yrði því miskunnarlaust skellt á. Þær upplýsingar, sem hv. þm. (HV) gaf hér áðan, kynnu að gefa þessum orðróm byr undir báða vængi. Ég vona, að þetta reynist ekki rétt ásökun, að það verði gefinn raunverulegur tími til þess að vinna að þessum málum, og að menn flani ekki að því að stefna þjóðfélaginu öllu og velmegun þúsund heimila í stórhættu fyrr en betri færi hefur gefizt á að kanna þær mjög róttæku kröfur, sem hér eru fram bornar, og kanna, hvort einhver millivegur er finnanlegur, er viðunandi sé fyrir alla.

Ég skal ekki tala hér mikið almennt um þann hátt, sem hafður er á vinnudeilum hér á landi, en ég verð að segja, að bæði virðist vinnulöggjöfin gera ráð fyrir því og eins, ef svo mætti segja, væri það a. m. k. ekki andstætt heilbrigðri skynsemi, að áður en sagt er upp samningum, þá liggi fyrir þær kröfur, sem eigi að reyna að knýja fram. Það sýnist engan veginn óeðlilegt, að það sé kannað, áður en til átaka kemur og uppsagna, hvort mögulegt sé að fá breytingar með góðu, og það verður að segja, að það er mjög komið aftan að hlutunum, þegar stórkostlegar kröfur eru ekki bornar fram fyrr en liðinn er meira en hálfur uppsagnartíminn og jafnvel sumar ekki fyrr en komið er að þeim tíma, sem heimilt var að skella á vinnustöðvun. Slík vinnubrögð hafa eflaust of lengi tíðkazt, og ég vil ekki segja, að þau komi af neinum illvilja. En það er alveg greinilegt, að ef mönnum er umhugað um að forða vandræðum, þá er þetta ekki rétta aðferðin, þá er rétta aðferðin hin, að reyna að kanna fyrir fram, hvort hægt sé að koma á samkomulagi, og segja ekki upp samningum fyrr en verulega hefur reynt á og a. m. k. að fara ekki í allsherjarverkfall, eins og nú er yfirvofandi, fyrr en öll úrræði hafa verið reynd til friðsamlegrar lausnar, sérstaklega þegar á það er litið, sem hér hefur komið fram í umræðunum, bæði hjá hv. 2. þm. Reykv. og forseta Alþýðusambands Íslands, að nú er verið að reyna að bæta upp það, sem tapazt hefur á öllu árabilinu frá 1947. Ef í alvöru er við þetta miðað og sú röksemd á að halda, að eftir þessu sé verið að sækjast, hver trúir þá því, að ekki sé hægt að gefa sér nokkrar vikur, jafnvel mánuði til rannsókna og úrslitaglöggvunar á því, hverjar staðreyndir málsins eru, hver sannast hefur að mæla um þau atriði, sem hér er ágreiningur um?

Aðrar þjóðir gefa sér betri tíma í þessum efnum. Hjá þeirri þjóð, þar sem verkamenn njóta beztu lífskjara og viðurkennt er af öllum að þeir njóta langbeztu lífskjara, sem sagt í Bandaríkjunum, er heimilt fyrir forseta landsins, ef hann telur þjóðarvoða stafa af verkfalli, að fresta því um 80 daga, til þess að aðilar geti jafnað sig og hægt sé að kanna til hlítar á þeim fresti, hvort samkomulagsmöguleikar séu fyrir hendi. Og þess eru mörg dæmi, jafnvel í hinum alvarlegustu og ískyggilegustu deilum, að á þessum 80 dögum hefur tekizt að leysa þann vanda, sem í fyrstu virtist óleysanlegur. Einmitt í sambandi við slíkan frest eru fyrirmæli um það, að skipa verður raunsóknarnefndir til að kanna allar staðreyndir málsins, og skilst mér, að forsetinn megi ekki gefa út slíka frestunarfyrirskipun, nema hún hvíli á þeim grundvelli, sem lagður er með starfi rannsóknarnefndar. Auðvitað eiga slík fyrirmæli ekki að öllu leyti við hér, og hér hefur enginn farið fram á það, að ríkisstj. væri veitt heimild til þess að fresta verkföllum með þessum hætti. En mannlegt eðli er alls staðar hið sama, og mannlegt eðli er áreiðanlega þannig, að meiri líkur eru til þess, að hægt sé að komast að skynsamlegri niðurstöðu, sem öllum verði til gagns, þannig að verkalýðurinn fái raunverulegar kjarabætur, en ekki pappírsgagn, sem honum sé einskis virði, — það eru meiri líkur til þess, að slíkt náist, ef hóflega er að öllu farið, ef menn ætla sér tíma til þess að kanna þær kröfur, sem fram hafa komið, hvaða afleiðingar þær hafa og hvaða möguleikar eru fyrir höndum til þess að verða við þeim.

Í Bretlandi, þar sem verkamannaflokksstjórn hefur lengi verið alls ráðandi, þó að ekki sé svo nú um sinn, hefur það áratugum saman verið í lögum, að heimilt er fyrir ríkisstj. ýmist að skipa rannsóknarnefnd eða rannsóknardómara til þess að kanna allar staðreyndir vinnudeilu og gefa um þær staðreyndir hlutlausa skýrslu, og það er lærdómsríkt fyrir okkur, að slíkar rannsóknir hafa oft orðið að grundvelli frambúðarlausnar. Síðast nú í vetur, í þeirri mjög alvarlegu vinnudeilu, sem þá var uppi, var þessu ráði beitt, og lausnin fannst einmitt eftir að slík rannsókn hafði fram farið. En þar er sá háttur hafður á, að rannsóknardómarann má ekki skipa fyrr en búið er að reyna öll önnur úrræði til sátta á milli aðila. Það er ekki fyrr en komið er á daginn, að deilan er ekki leysanleg eftir venjulegum leiðum, sem talið er, að slík rannsókn sé líkleg til árangurs og hana eigi að láta fram fara.

Það er þess vegna einmitt eftir þeim fordæmum, þar sem slíkar rannsóknir eru ráðgerðar í lögum, sem ríkisstj. hefur farið, að koma ekki með till. um rannsókn á fyrstu stigum málsins, enda sjá allir, að það er þýðingarlaust að fyrirskipa rannsókn á kröfum, sem ekki eru fram komnar. Hv. þm. (HV) heldur því fram, að ríkisstj. hefði átt, jafnvel áður en samningum var sagt upp, mörgum vikum áður en fyrir lá, hvaða kröfur voru gerðar, að fyrirskipa rannsókn í málinu, á þeim staðreyndum, er skiptu höfuðmáli varðandi lausn deilunnar. Ég spyr: Hvernig er hægt að rannsaka kröfur, sem ekki liggja fyrir, sem enginn veit, hverjar verða? Hvernig er hægt að kanna staðreyndir þeirrar deilu, sem ekki er enn hafin? Það er ekki nóg að segja, að menn hafi vitað, að deila var í uppsiglingu, að menn hafi vitað, að það var verið að undirbúa átök í þessum efnum. Það liggur enginn grundvöllur, hvorki til samninga á milli aðila né rannsóknar af hálfu ríkisvaldsins eða neinnar aðgerðar, fyrr en tilteknar kröfur eru bornar fram, og kröfurnar voru ekki bornar fram fyrr en 17. febrúar.

Það má vel vera, að það sé að tala fyrir daufum eyrum að tala við þá menn, sem hér tala nú sem aðalmálsvarar verkalýðssamtakanna í landinu, sem er auðvitað allt annað en verkalýðurinn sjálfur, vegna þess að hann er í öllum stjórnmálaflokkum og ekki sízt í Sjálfstfl., — það má vel vera, að það sé að tala fyrir daufum eyrum að tala við þessa málsvara og vitna til skynsemdar þeirra og góðvildar um að reyna að koma í veg fyrir þessa deilu, ef nokkur kostur er. En ríkisstj. hefur gert það, sem í hennar valdi hefur staðið til þess að reyna að miðla málum. Hún er enn þá fús til þess að gera það, sem í hennar valdi stendur. En undirstaðan er sú, að aðilar fáist til þess að skoða staðreyndir málsins og gera sér grein fyrir, hverjar afleiðingar verða af verkum þeirra. Það má vel vera, að öðrum hvorum deiluaðila takist að knýja fram mál sitt með valdi nú, en einmitt reynslan af hinum síítrekuðu verkföllum hér á landi, sem hafa ekki leitt til kjarabóta fyrir verkalýðinn þrátt fyrir stöðugar pappírsumbætur, ætti að gefa mönnum fullkomið tilefni til að átta sig á, að nú sé ástæða til að taka upp ný vinnubrögð. Vera kann, að svo verði ekki að þessu sinni, en sá tími mun koma, að alþjóð sannfærist um, að varnaðarorð okkar nú eru réttmæt.