09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hélt mjög hófsama ræðu í þessum umr. á mánudaginn var og raunar í allt öðrum tón en þá ræðu, sem hæstv. dómsmrh. var að flytja nú. Ég er honum sammála um, að okkur ríður á að ræða þessi mál af stillingu og málefnalega, ekki sízt eins og sakir standa nú, enda þótt ég líti á þessi mál frá ólíku sjónarmiði og hæstv. ráðh. Það er nauðsynlegt vegna þess, að þrátt fyrir allt, sem á milli ber, er mjög áríðandi fyrir þjóðfélagið sem heild, að það takist að leysa vinnudeilurnar, sem nú eru í uppsiglingu, friðsamlega og án þess að til stórfelldra vinnustöðvana komi til óbætanlegs tjóns fyrir alla íslenzku þjóðina.

Hæstv. ráðh. hóf ræðu sína á því, að hann vildi íslenzkum verkalýð allt hið bezta og hann væri þess hvetjandi, að verkafólkið fengi eins mikinn hlut í þjóðartekjunum og framast væri unnt, ef hlutdeild verkalýðsins væri hins vegar þannig, að ekki væri meiru að skipta, án þess að tekið væri frá öðru vinnandi fólki eða af því fé, sem fer til nauðsynlegs viðhalds framleiðslutækjanna og til nauðsynlegra framkvæmda til almenningsþarfa, þá væri ekki til neins að hækka kaupið að krónutali. Sömuleiðis yrði að vera gróðamyndun í þjóðfélaginu, til þess að það gæti staðizt.

Við þetta hef ég ekkert að athuga. Ég er þessu sammála, svo langt sem það nær. Það er gagnslaust að hækka kaupið að krónutali, nema fyrir þessar krónur fáist verðmæti, nema þjóðarbúið hafi yfir verðmætum að ráða, sem hægt er að nota til að bæta kjör verkafólksins. Sömuleiðis er ég sammála því, að auðvaldsþjóðfélag getur ekki staðizt án gróðamyndunar. Til þess að kaupkröfur eigi rétt á sér, þurfa þess vegna eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi:

Þjóðartekjurnar þurfa að nægja til þess að greiða það kaup, sem krafizt er, auk nauðsynlegs viðhalds og aukningar framleiðslutækjanna. Sömuleiðis ber að taka tillit til þess, að nokkur gróðamyndun er kapítalísku þjóðfélagi nauðsynleg. Það, sem þarf að rannsaka, er þá, hvort þessi skilyrði séu raunverulega fyrir hendi. Reynist svo, ættum við að geta orðið sammála um, að það ber að verða við kaupkröfum verkalýðsfélaganna. Blað hæstv. ráðh. hefur oft haldið því fram, að allar kauphækkanir — allar kauphækkanir undantekningarlaust — væru gagnslausar, því að þær gætu ekki leitt til annars en að kaupmáttur krónunnar lækkaði að sama skapi. Þessu hefur blaðið raunar alltaf haldið fram í hverri einustu kaupdeilu, svo að það er ekkert nýtt. Þetta er því aðeins rétt, að engin gróðamyndun sé í þjóðfélaginu. Það er því aðeins rétt, að afköst framleiðslunnar nægi rétt til þess að greiða laun og viðhald framleiðslutækjanna. Sé aftur á móti önnur skipting á þjóðartekjunum möguleg, þá liggur líka í augum uppi, að þetta er rangt. Undir slíkum kringumstæðum er ekki hægt að líta öðruvísi á það en hreina hótun, þegar stjórnarvöldin lýsa því yfir, að kauphækkun leiði til gengislækkunar, hljóti að leiða til gengislækkunar. Það er hótun um að taka aftur og afhenda auðmannastéttinni með opinberum ráðstöfunum það, sem náðst hefur í samningum milli aðila.

En eitt atriði vil ég líka leggja áherzlu á í þessu sambandi. Þegar verkalýðurinn gerir kaupkröfur sínar, ber ekki aðeins að líta á það, hver framleiðsluafköstin eru, heldur hvernig þau gætu verið með skynsamlegri stjórn og skynsamlegri efnahagspólitík. Ef framleiðslutækin og framleiðsluafköst landsmanna eru ekki fullnýtt, framleiðsluorka landsmanna ekki fullnýtt, þá er það ekki á ábyrgð verkalýðsins, heldur stjórnarvaldanna. Verkafólkið getur ekki sætt sig við það, að kaup þess fyrir 8 stunda vinnudag sé lækkað langt niður fyrir það, sem nauðsynlegt er til lífsframfæris, einungis vegna þess að framleiðslugeta þjóðarinnar er ekki nýtt vegna óstjórnar eða annarlegra gróðasjónarmiða lítils hóps manna, sem eru í andstöðu við heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Hæstv. ráðh. talaði fagurlega um það, að hlutlaus rannsókn þyrfti að fara fram á getu þjóðfélagsins til þess að verða við kaupkröfum verkalýðsfélaganna, og þetta var einmitt uppistaðan líka í þeirri ræðu, sem hér var haldin áðan af hæstv. dómsmrh. Ég er honum alveg sammála um það. Slík hlutdrægnislaus rannsókn hefði þurft að fara fram fyrir löngu. En þá er spurningin: Hvernig á að tryggja hlutleysið? Slík rannsókn þarf vissulega að vera með öðrum hætti en sú rannsókn, sem ríkisstj. lét tvo hagfræðinga gera nú fyrir skemmstu. Sú rannsókn er þvert á móti ágætt dæmi um hlutdræga rannsókn. Í fyrsta lagi var valið einmitt það tímabil, sem ríkisstj. taldi að kaupmáttur launanna gagnvart almennum neyzluvörum hefði minnkað minnst á undanförnum árum, og síðan eru forsendurnar algerlega út í bláinn.

Hæstv. viðskmrh. viðurkenndi, að vísitölugrundvöllurinn, sem nú gildir, væri fráleitur. Það var góð játning. Og hann reyndi að afsaka hagfræðingana með því, að þeir hefðu ekki notað hann, heldur annan grundvöll. Við skulum þá athuga þennan grundvöll, sem þeir notuðu, en um hann segja þeir svo sjálfir í álitsgerð sinni, sem birt er í Morgunblaðinu 26. febr., með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Mælikvarðinn, sem hér er notaður, er vísitala framfærslukostnaðar. En vegna hinna stórfelldu breytinga, sem orðið hafa síðan núverandi framfærsluvísitala tók gildi, í byrjun síðari heimsstyrjaldar, hefur hún takmarkað notagildi í þessu efni. Í þess stað er stuðzt við rannsókn á neyzlu launþega hér í bænum, sem nú er verið að gera á vegum kauplagsnefndar til undirbúnings nýjum vísitölugrundvelli, ef til kæmi. Rannsókn þessi er ekki langt á veg komin, og ekkert er enn vitað um endanlegar niðurstöður hennar. En þar sem ekki er fyrir hendi annar og betri grundvöllur til þess að byggja á, hefur verið stuðzt við þessa rannsókn.“ — Og síðan segir: „Breyting framfærslukostnaðar frá jan. 1953 til jan. 1955 er síðan fundin á þann hátt, að útgjaldaupphæðir á fyrri tímanum samkv. grundvelli kauplagsnefndar eru margfaldaðar með vísitölu fyrir breytingu sömu liða í framfærsluvísitölunni. Útgjaldaskiptingin samkvæmt áætlun kauplagsnefndar er þannig látin ráða, en einstakir liðir hennar eru færðir fram til jan. 1955 í hlutfalli við breytingu sömu liða framfærsluvísitölunnar á sama tímabili. Þessi aðferð er að vísu ekki nákvæm, en þó leyfileg, og verður að nota hana, vegna þess að grundvöllur kauplagsnefndar liggur ekki fyrir nægilega sundurliðaður.“

M. ö. o.: Það er hreinskilnislega viðurkennt, að grundvöllurinn sé í raun og veru algert handahóf, og það sem er mest athyglisvert: Útkoman er næsta lík því, sem orðið hefði, ef núverandi vísitölugrundvöllur hefði verið notaður. Þar skakkar svo litlu, að það skiptir engu verulegu máli. Þess vegna eru öll rök hv. 2. þm. Reykv. að því er þetta snertir í fullu gildi. En magnaðasta skekkjan felst í því, að byggt er á þeirri fjarstæðu forsendu, að húsaleiga hafi svo að segja haldizt óbreytt. Hæstv. ráðh. reyndi að afsaka þetta með því, að meiri hluti fólks byggi nú í sama húsnæði og við sömu kjör og 1953. Hitt vita þó allir, að húsaleiga almennt hefur stórhækkað. Og svo mikið er víst, að húsnæði alls fjöldans, einnig þeirra, sem búa í eldra húsnæði, hefur hækkað um meira en 8 kr. á mánuði, eins og hagfræðingarnir vilja vera láta. Og þó að þessi upphæð sé hækkuð upp í 24 kr. á mánuði, eins og hagfræðingarnir gera til samanburðar, þá er það jafnmikil fjarstæða. En hvað sem því liður, þá hafa þeir, sem verða að búa við húsaleigu, sem kannske hefur tvöfaldazt eða meira síðan 1953, ekki gott af því, þótt einhverjir aðrir kunni að búa við skaplegri kjör.

Hagfræðingarnir hefðu alveg eins getað sett einhverjar aðrar tölur inn í útreikninga sína og fengið einhverja aðra útkomu, sem þeir hefðu sjálfir kosið, t. d. að það hefði orðið 10% kauphækkun frá 1953! Útkoman hefði verið nákvæmlega jafnhárrétt fyrir það, út frá þeim forsendum, sem valdar hefðu verið. Hagfræðingarnir hefðu getað sagt með nákvæmlega sama rétti, hvaða tölur sem þeir hefðu valið, eins og þeir gera í álitsgerð sinni, að niðurstaðan sé rétt að því tilskildu, að forsendurnar séu réttar. M. ö. o.: Hagfræðingarnir hafa ekki gert annað en að setja í reikningsvélar sínar tölur í samræmi við þær forsendur, sem ríkisstj. hefur falið þeim. Auðvitað eru niðurstöðurnar undir öllum kringumstæðum jafnréttar, ef reikningsvélin reiknar rétt. Þess vegna eru hagfræðingarnir með alla þessa fyrirvara til þess að vernda embættisheiður sinn. En til þess að fá þessa niðurstöðu var alveg þarflaust að nota nöfn þekktra hagfræðinga og þarflaust að gefa út álitsgerð með spekingslegu orðalagi og vísindalegum tilburðum og slá um sig með fræðihugtökum eins og „vegið meðaltal“ o. s. frv. Það var alveg nægilegt að tilgreina firmanafn reikningsvélarinnar. Góð og viðurkennd firmu taka ábyrgð á því, að vélar þeirra reikni rétt. Nöfn fræðimannanna voru aðeins notuð til þess að gefa þessari samsetningu ríkisstj. vísindalegan svip í því skyni að slá ryki í augu fólks. Svona á sannarlega ekki að framkvæma hlutdrægnislausa rannsókn. Og eftir svona reynslu er ekki undarlegt, þótt verkalýðsfélögin líti með tortryggni á allt rannsóknartal hæstv. ríkisstj.

Ég vil leggja sérstaka áherzlu á þá viðurkenningu hæstv. viðskmrh., að núverandi vísitölugrundvöllur sé alveg fráleitur.

En fyrst hæstv. ráðh. viðurkennir það, þá hlýtur hann líka að viðurkenna, að allar verðhækkanir undanfarandi ára hafa orðið til þess að lækka kaupið stórlega, þar sem kaupið hefur, eins og kunnugt er, verið reiknað út samkv. þessari alröngu og viðurkennt alröngu vísitölu. Það, sem þó skiptir mestu máli, er hin fráleita fölsun á húsaleiguvísitölunni, eins og bezt sést af því, að ef ekki væri reiknað með húsaleigunni, þá ætti vísitalan nú að vera 176 stig í staðinn fyrir 161, en væri reiknað með réttri húsaleigu, þá ætti hún að hækka miklu meira. Ef reiknað væri með nokkurn veginn réttri húsaleigu og hún látin vega hið sama í vísitölunni og nú, þá ætti vísitalan að hækka um a. m. k. 40%. Enn betur sést þetta, ef húsaleigan er tekin út úr vísitölunni og borinn saman kaupmáttur launanna samkv. þeim forsendum árið 1947 og nú. Þá kemur í ljós, að kaupmáttur launanna hefur lækkað um allt að 17% frá 1947 aðeins gagnvart þeim neyzluvörum, sem ganga inn í vísitöluna, svo að aðeins til þess að vega þetta upp þyrfti kaupið að hækka nú um 20%. Nú er hvort tveggja, að húsaleigan hefur hækkað miklu meira en flestir aðrir liðir og vísitölugrundvöllur neyzluvarnings er fráleitur, einkum þegar tekið er tillit til hinna hóflausu hækkana, sem orðið hafa á ýmsum neyzluvörum, sem ekki eða að litlu leyti ganga inn í vísitöluna, og má þar til nefna bátagjaldeyrisvörurnar fyrst og fremst. Ef kaupmátturinn vær í reiknaður samkv. réttri vísitölu, þá held ég, að lítill vafi sé á, að það þyrfti að hækka kaupið um svipaða upphæð og verkalýðsfélögin fara fram á til þess að halda í horfinu frá 1947, svo að annað er nú ekki farið fram á en aðeins að haldið sé í horfinu. Það yrði áreiðanlega til þess að auðvelda lausn deilunnar, ef ríkisstj. vildi fallast á að leiðrétta vísitölugrundvöllinn. En það má ekki vera nein málamyndaleiðrétting, eins og niðurstöður hagfræðinganna, sem ég gat um áðan, benda til að nú sé í undirbúningi.

Við höfum þá komizt að þeirri niðurstöðu, að síðan 1947 hafi kaupmáttur launanna minnkað um 20–30% a. m. k. Þá er spurningin: Hefur þjóðfélagið ráð á að gjalda sömu laun og 1947? Það var einmitt þessi spurning, sem hæstv. dómsmrh. var að varpa fram áðan og hann svaraði neitandi. Hvernig var það 1947? Þá voru árslaun Dagsbrúnar fyrir 8 stunda vinnudag innan við 20 þús. kr. Samkvæmt upplýsingum Ólafs Björnssonar og Benjamíns Eiríkssonar voru þjóðartekjurnar þá um 54 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, svo að ekki er að efa, að framleiðsla þjóðarinnar stóð vel undir þessu kaupgjaldi. Við höfum engar áreiðanlegar heimildir um þjóðartekjurnar nú, þrátt fyrir skyldu Framkvæmdabankans að reikna þær út og birta þær tölur. En við ættum að geta verið alveg viss um, að þær eru ekki tiltölulega lægri nú, og það hefur heldur enginn haldið því fram. 1947 voru aðeins fá af þeim stórvirku framleiðslutækjum, sem keypt voru á nýsköpunarárunum og síðar, komin til skjalanna í framleiðslunni, svo að það er ekki fyrst og fremst um að ræða framleiðslutæki, sem hafa verið flutt inn eða verið komið upp af núverandi ríkisstjórn, heldur þau framleiðslutæki, sem aflað var á nýsköpunarárunum. Þau voru sem sagt ekki komin til skjalanna nema að sáralitlu leyti í framleiðslunni 1947. Flest komu þau ekki fyrr en á árinu 1948. Framleiðslugeta þjóðarinnar er þess vegna margfalt meiri nú, og úrvinnslan úr sjávarafurðum er líka miklu meiri. Þó að hlutfallið milli verðs útflutnings og innflutnings kunni að vera eitthvað óhagstæðara nú en þá, kemur ekki til mála, að það vegi upp á móti hinni stórkostlegu aukningu framleiðslunnar. Samkvæmt spá Framkvæmdabankans ættu þjóðartekjurnar eða það, sem kallað er þjóðarframleiðsla, að vera árið 1954 2700 millj. kr. Framkvæmdabankinn mun þó viðurkenna, að þjóðarframleiðslan er miklum mun meiri en þessi spá hans, sem er orðin úrelt, bendir til. Ef við gerum ráð fyrir, að peningatekjur þjóðarinnar væru 2700 millj., þá koma um 87 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Gerum við nú ráð fyrir, að launin séu að meðaltali 43–44 þús. kr. á ári, þá er enn eftir hvorki meira né minna en 50% þjóðarteknanna til viðhalds atvinnutækjanna, til opinberra framkvæmda, sem koma ekki fram sem launatekjur, og til gróðamyndunar. Langsamlega mestur hluti þessarar upphæðar er, eins og allir sjá þegar í stað, gróðamyndun. Þó virðist mér allt benda til þess, að samanlagðar peningatekjur þjóðarinnar séu miklum mun hærri, ef við tökum samanburðinn við þær tölur, sem fyrir hendi eru frá árunum eftir stríð, enda höfum við fyrir okkur fullyrðingu stjórnarblaðsins Tímans um það, að þjóðartekjurnar hafi hækkað til muna á undanförnum árum.

Kvörtun hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar, um síldarleysið í þessu sambandi, er algerlega út í bláinn. Það var líka aflabrestur á síld á nýsköpunarárunum. Við samanburð á efnahagsafkomunni 1947 og nú eru það þjóðarframleiðslan og þjóðartekjurnar, sem skera úr. Þær hafa áreiðanlega hækkað síðan 1947, og það er hið eina, sem skiptir máli í þessu sambandi. Þar af leiðandi falla öll þessi rök hæstv. ráðh. um sjálf sig.

Hæstv. ráðh. Bjarni Benediktsson sagði, að kjörin 1947 hefðu verið svo góð, að þau hefðu ekki getað staðið til frambúðar. Ég hef með þeim staðreyndum, sem ég hef nú nefnt og raunar margsinnis áður, sýnt fram á, að þetta eru staðlausir stafir.

Þá má geta þess, að tekjuafgangurinn á rekstrarreikningi fjárlaga s. l. árs gerir miklu meira en nægja til þess að uppfylla allar kröfur þeirra verkamanna, sem nú standa í deilu. Og þegar búið er að greiða allar umframgreiðslur, allar afborganir af lánum, allar skuldbindingar vegna ríkisábyrgða og inna af hendi allar þær greiðslur, sem heimild er fyrir samkvæmt lögum, þá er samt eftir hærri upphæð en nauðsynleg er til þess að uppfylla allar kröfur Dagsbrúnarmanna, svo að þetta eitt út af fyrir sig sannar, hvílík reginfjarstæða það er, að nokkra rannsókn þurfi til þess að ganga úr skugga um það, að þjóðfélagið hafi ráð á þeirri kauphækkun, sem gert er ráð fyrir í kröfum verkalýðsfélaganna.

Niðurstaðan verður því þessi: Kaupmáttur launanna hefur stórlega rýrnað á undanförnum árum. Hlutdeild verkalýðsins í þjóðartekjunum hefur stórum minnkað síðan 1947. Þó að launin yrðu hækkuð eins og verkalýðsfélögin fara fram á, þá er samt sem áður geysimikil gróðamyndun í þjóðfélaginu. Þar með eru öll þau skilyrði uppfyllt, sem bæði ég og hæstv. viðskmrh. töldum að yrðu að vera fyrir hendi til þess að uppfylla kröfur verkalýðsfélaganna. Samkvæmt því ættum við að geta orðið sammála um, að það ber að semja á grundvelli þessara krafna, án þess að til víðtækra vinnustöðvana komi til óbætanlegs tjóns fyrir þjóðfélagið.

Svo sannarlega eru verkalýðsfélögin ekki að gera kröfu til þess, að allur gróði í þjóðfélaginu sé afnuminn. Þvert á móti er gert ráð fyrir mjög mikilli gróðamyndun eftir sem áður. Við sósíalistar viðurkennum ekki, að gróðasöfnun einstakra manna sé nauðsynleg á því stigi, sem framleiðsla mannanna er nú komin á. Gróðamyndun einstakra manna er hins vegar lögmál kapítalismans. Við sósíalistar viðurkennum ekki það skipulag. Við teljum það siðlaust og mannskemmandi og vera orðið framförum mannkynsins fjötur um fót. En með kröfum okkar og verkalýðsfélaganna nú er vissulega ekki verið að krefjast afnáms auðvaldsskipulagsins. Þess vegna eru kröfurnar líka miðaðar við það, að mjög mikil gróðamyndun einstakra manna geti eftir sem áður átt sér stað.

Og nú kemur ríkisstjórnin og leggur til, að skipuð sé nefnd til þess að rannsaka það, hvort atvinnuvegirnir þoli kauphækkun og hvort kauphækkun geti komið verkamönnum að notum. Öll undanfarin ár hefur verið svikizt um að láta gera skýrslur um hluti, sem þykir nauðsynlegt að almenningur fái vitneskju um í öllum siðuðum löndum, svo sem tekjuskiptingu stéttanna, breytingu á kaupmætti launa, hlutdeild hinna ýmsu greina í þjóðartekjunum og gróða hinna ýmsu atvinnugreina og fyrirtækja. Það er nú bráðum liðið heilt ár síðan verkalýðsfélögin sögðu upp samningum til þess að fá samningstímann styttan í því skyni að geta hvenær sem er lagt til baráttu fyrir hækkuðu kaupi, ef ekkert yrði gert til þess að auka kaupmátt launanna, en sama þróun, sem hefur í för með sér síminnkandi kaupmátt launanna, yrði látin halda áfram. Á þessu tímabili hefur ýmsum atvinnustéttum, sem taka ekki þátt í þessari deilu, tekizt að hækka kaup sitt verulega.

Það er nú komið allmikið á annað ár síðan verkalýðsfélögin sögðu upp samningum og meira en hálfur mánuður, nærri þrjár vikur, síðan verkfallinu var frestað til þess að freista þess að ná samningum án verkfalls. En ekkert hefur heyrzt frá ríkisstj. nema sífelldur rakalaus áróður gegn verkamönnum og kröfum þeirra. Nógur tími hefur verið til stefnu til þess að láta fara fram hlutlausa rannsókn um allt, sem máli skiptir í þessu sambandi. Það er alveg gersamlega gagnslaust fyrir hæstv. dómsmrh. að bera því við, að kaupkröfurnar hafi ekki legið fyrir. Það, sem lá fyrir, var það, að talið var nauðsynlegt að hækka kaupið. Og ef það á annað borð var viðurkennt, þá var ekkert til fyrirstöðu að láta rannsókn fara fram um það, hvað væri hægt að hækka kaupið mikið. Það er ekkert annað en undansláttur að bera því við, að ákveðnar kaupkröfur hefðu ekki verið gerðar. Og ef óskað hefði verið eftir kaupkröfum verkalýðsfélaganna, þá mundi aldrei hafa staðið á þeim. Nú eru allt að því 3 vikur síðan þessar kaupkröfur voru settar fram, og það hefur ekki komið fram nein till. um slíka rannsókn fyrr en nú. Og hvers vegna einmitt nú? Um leið og samningarnir um sjálf kaupgjaldsatriðin eru að hefjast fyrir alvöru, þá fyrst kemur ríkisstj. og leggur til, að nú sé byrjað á svokallaðri rannsókn, sem varla mundi taka skemmri tíma en mánuð. Það er varla von, að verkalýðsfélögin geti dregið nema eina ályktun af þessari framkomu, og það hafa þau gert með svari sinu. Ríkisstj. grípur inn í til þess að reyna að koma í veg fyrir samninga einmitt á þeirri stundu, sem nokkrar líkur voru fyrir því, að saman mundi draga með deiluaðilum. Með þessu er ríkisstj. beinlínis að segja við atvinnurekendur: Semjið ekki á þessu stigi málsins. Gefið ekki eftir um hársbreidd.

Hitt er þó sérstaklega athugavert, hvernig till. ríkisstj. eru orðaðar. Það, sem farið er fram á að rannsakað verði, kemur að því er aðalatriði snertir ekki deilunni við. Við vitum, að togararnir t. d. hafa margir gengið með halla, og það hefur verið rannsakað af stjórnskipaðri n. En það er ekki það, sem máli skiptir fyrir verkalýðssamtökin í þessu sambandi. Verkalýðurinn getur ekki miðað kaupkröfur sínar við það, að eitthvert fyrirtæki sé rekið með halla. Þá yrðu kaupkröfurnar að vera miðaðar við það, sem mesti hallarekstur í þjóðfélaginu gæti borið, alveg án tillits til þess, þó að ofsagróði væri á öðrum sviðum. Með því móti yrði kaup verkalýðsins harla lítill hluti af þjóðartekjunum, verkamenn yrðu að búa við kaupkjör, sem væru hungurkjör, þrátt fyrir miklar þjóðartekjur, óvenjulega mikil vinnuafköst og ofsagróða auðmannastéttarinnar í heild sinni. Það væri að vísu mjög fróðlegt og gagnlegt að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvað milliliðirnir hirða mikið af því verðmæti, sem sjávarútvegurinn aflar. En það kemur ekki kaupkröfum verkamannanna við. Það eina, sem þeim kemur við, er, hver er hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum. Hitt er svo mál stjórnarvaldanna, hvernig skiptingin er milli auðmannastéttarinnar, milli kaupsýslumanna og atvinnurekenda í ýmsum greinum. Það er ákveðin efnahagspólitík núverandi ríkisstj., sem veldur því, að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er látinn vera á heljarþröminni og aðrir aðilar látnir hirða bróðurpartinn af þeim verðmætum, sem hann aflar. Og það er verkefni og skylda þessarar sömu ríkisstjórnar að leiðrétta það.

Hvað hitt atriðið snertir, hvort kauphækkun muni koma verkalýðnum að notum, þarf enga rannsókn og kemur engin hagfræðileg rannsókn að gagni. Það eina, sem getur komið að haldi í því sambandi, er breytt stjórnarstefna. Kauphækkun verður verkalýðnum til varanlegra nota, nema það, sem vannst í kaupdeilunni, verði beinlínis tekið aftur með stjórnarráðstöfunum.

Og það er einmitt þetta, sem stjórnarvöldin hafa verið að gera sífelldar tilraunir til á undanförnum árum. Þess vegna hefur verkalýðurinn verið neyddur til þess að heyja hin mörgu og fórnfreku verkföll. Þess vegna hafa atvinnutækin stöðvazt mánuðum saman til tjóns fyrir alla þjóðina. Af þessari reynslu undanfarinna ára fer þeim verkamönnum nú sifeilt fjölgandi, sem skilja það, að það er ekki nóg að heyja kaupgjaldsbaráttu. Til þess að sú barátta geti komið að fullum notum, þarf verkalýðurinn að hafa úrslitavald um það, hvernig þjóðarbúskapurinn er rekinn og hvernig honum er stjórnað. Til þess þarf hann pólitísk völd. Og til þess þurfa áhrif hans á Alþingi að verða margfalt öflugri en nú.

Þær upplýsingar, sem verkalýðssamtökin þurfa á að halda í sambandi við þessar kaupdeilur, eru, hvaða breytingar hafa orðið á kaupmætti launanna og hvaða breytingar hafa orðið á hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum undanfarin ár, ekki frá 1953, heldur á öllu því tímabili, sem hin raunverulegu laun hafa sífellt verið að lækka, þ. e. allar götur frá því 1947. Þessum gögnum hefur nú verið safnað af hagfræðingum, sem hafa unnið verk sitt vel og samvizkusamlega, og munu bráðlega verða birt. Til þess að ganga úr skugga um þetta þarf ekki langan tíma. Það er hægt að gera á 2–3 dögum, og ef ríkisstj. vill eiga sinn þátt í slíkri hlutdrægnislausri rannsókn, sem getur farið fram án þess að tefja samningaumleitanir á nokkurn hátt, þá er ekki nema allt gott um það að segja. Ef ríkisstj. vill undirhyggjulaust komast að hinu sanna í þessum efnum, þá stendur vissulega ekki á verkalýðssamtökunum og hefur aldrei gert.

Hæstv. fjmrh. var að reyna að vefengja það, að kjarabæturnar 1942 og þar á eftir hafi komið verkalýðnum að notum, og var því til sönnunar með tilvitnun úr grein eftir Hermann Guðmundsson. Þetta er vonlaust verk fyrir hæstv. ráðh. 1947 hafði kaupmáttur launanna hækkað um 56% frá 1939, og 1945 var kaupmátturinn að heita má hinn sami. Undir þessari álitsgerð, sem þessar tölur eru teknar úr, stendur m. a. nafn Ólafs Björnssonar hagfræðings. Þetta hafa verkalýðssamtökin aldrei vefengt. Það eru allir sammála um það, að á nýsköpunarárunum var kaupmáttur launanna hærri en nokkru sinni fyrr og síðar. Ummæli Hermanns Guðmundssonar eru að visu þannig orðuð, að þau virðast alveg upplögð til þess að misskilja þau og til þess að snúa út úr þeim, enda hefur það ekki verið sparað. En það, sem Hermann átti við, var það, að frá því 1944 höfðu farið fram verðhækkanir, sem stuðluðu að því að rýra kaupmátt launanna, enda þótt þær væru mjög smávægilegar, borið saman við það, sem siðar varð. Þetta var leiðrétt án verkfalls 1946. Og það var þetta, sem gerði gæfumuninn á stjórnarstefnunni þá og nú.