09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Í framsöguræðu um rekstrarafkomu ríkissjóðs fyrir árið 1954, sem hæstv. fjmrh. hélt hér í Sþ. 28. febr. s. l., gaf ráðh. alveg sérstakt tilefni til þess að ræða hér um kjaradeilu þá, sem nú stendur yfir, og kröfur þær, sem verkalýðsfélögin hafa sett fram til hækkunar á kaupi meðlima sinna.

Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram, sem er reyndar ekki ný skoðun, sem þar kemur fram hjá þessum hæstv. ráðh., að ef gengið yrði að kröfunni um kauphækkanir, þ. e. a. s. grunnkaupshækkanir, væri beinn voði fram undan fyrir atvinnuvegina, atvinnuvegirnir væru þannig á vegi staddir, að þeir þyldu engar kauphækkanir, enda væru kröfur þær, sem verkalýðsfélögin hefðu nú sett fram, ekkert annað en ósvífið áróðursbragð kommúnista og ættu ekkert skylt við verkalýðssamtökin. Þessar fullyrðingar hæstv. fjmrh. hafa nú þegar verið marghraktar af þeim hv. alþm., sem hér hafa talað fyrir málstað verkalýðshreyfingarinnar, og má segja, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða það öllu meira. Hins vegar get ég samt ekki látið hjá líða að fara örlítið inn á fullyrðingar hæstv. ráðh.

Menn eru orðnir ýmsu vanir í málflutningi þessa hæstv. fjmrh., og það verður víst aldrei sagt um hann, að úr þeim herbúðum: hafi verkalýðshreyfingunni borizt mikil liðveizla eða aðstoð í kaupdeilum, heldur hið gagnstæða. Ég minnist þess a. m. k. ekki að hafa heyrt frá þessum hæstv. fjmrh. nokkurn tíma eitt einasta vinsamlegt orð til stuðnings kröfum verkalýðssamtakanna. Hæstv. fjmrh. viðhafði í ræðu sinni nákvæmlega sömu slagorðin og hann hefur alltaf haft og hans sálufélagar í andófi sínu á móti verkalýðssamtökunum. Þessir ágætu menn telja, að barátta verkalýðsins fyrir bættum kjörum, t. d. fyrir nokkurri hækkun á grunnkaupi, sé ósvífinn áróður vondra afla, eins og þeir vilja orða það, sem engan rétt eigi á sér, og að allar slíkar kröfur séu til að skaða þjóðfélagið, grafa undan fjárhagslegu og pólitísku öryggi þess. Þessum áróðri hefur auðvald allra landa nú á dögum og langt aftur í tímann beint á móti hagsmunabaráttu alþýðunnar. Það er ekkert einstakt dæmi um það hér á Íslandi. Þannig hefur það verið og þannig verður það, svo lengi sem sú yfirráðastétt ræður ríkjum í fleiri eða færri þjóðlöndum veraldar. Það verður ekki sagt um ráðamennina í íslenzku þjóðfélagi, forustumenn hinna borgaralegu flokka hér og forustumenn ríkisstj., að þeir séu sérstaklega tornæmir eða seinir til að tileinka sér slíkar áróðursaðferðir.

Ég gat þess áðan, að ég minntist þess ekki, að nú í seinni tíð a. m. k. og jafnvel aldrei hefði verið háð sú kaupdeila á Íslandi, að ekki hafi verið hrópað í blöðum og á mannfundum um, að hér væri um kommúnistískt samsæri að ræða. Ég vil spyrja: Allt frá því að verkamennirnir á Íslandi fyrst hófu baráttu fyrir bættum kjörum, hvernig tóku andstæðingarnir þeim óskum og kröfum? Er ekki dæmi úr verkalýðshreyfingunni hér, að menn hafi verið teknir með valdi og fluttir burt af sínum heimilum, þegar þeir voru að bera fram og berjast fyrir kröfum félaga sinna í verkalýðshreyfingunni? Jú, þau dæmi eru til. Öllum óskum og kröfum um bætt kjör af hendi launastéttarinnar hefur atvinnurekendastéttin og ríkisvaldið mætt með hinni mestu óvild og freklegri andúð. Alltaf hefur viðbáran verið sú sama: Atvinnuvegirnir og ríkisbúskapurinn þola ekki hærra kaupgjald. — Það er tap á atvinnurekstrinum, segja þeir, ef kaupgjaldið hækkar, þá stöðvast atvinnuvegirnir. Þið verkamenn og launafólk, þið megið ekki vera að krefjast hærra kaups, það er kommúnismi, en kommúnismi og stéttabarátta eru landráð. — Þetta er þeirra málflutningur. Þetta eru þeirra rök. Við höfum heyrt þau oft áður. Það er ekkert nýtt í þeim.

Það er ekki úr vegi að athuga þetta örlítið nánar: Eru kröfur verkalýðsfélaganna um hækkað kaup óþarfar? Eru þau laun, sem verkafólkið í dag fær greidd fyrir 8 stunda vinnudag, það sómasamleg, að hægt sé að lifa menningarlífi fyrir þessi laun? Ég vil koma hér með örlítið dæmi: Dagsbrúnarverkamaður, sem vinnur alla virka daga mánaðarins, við skulum segja árið út, hefur í kaup tæpar 3000 kr. á mánuði fyrir 8 klst. vinnu á dag. Ef um fjölskyldumann er að ræða, t. d. með konu og 3 börn, þarf hann að leigja tveggja herbergja íbúð með eldhúsi. Við skulum segja, að fyrir slíka íbúð sé honum gert að greiða 1000 kr. á mánuði, í sumum tilfellum kannske lægra, í flestum tilfellum hærra. Til viðbótar húsaleigunni þarf hann svo að greiða ljós og hita. Það er óvarlegt að áætla þennan kostnað minna en sem nemur 500 kr. á mánuði. Fyrir húsnæðið eitt ásamt ljósi og hita verður því verkamaðurinn að greiða rúman helming launa sinna. Þá á hann eftir tæpar 1500 kr. Þá upphæð verður hann að láta sér nægja fyrir fæði, fatnaði og öðrum lífsnauðsynjum handa sér og fjölskyldu sinni. Af þessari upphæð þarf hann svo að greiða allt, sem fjölskylda hans þarfnast. Við skulum segja, að hann eigi heima fyrir innan eða vestan miðbæ, — verkafólkið býr ekki í miðbænum í Reykjavík, nema þá í kjöllurunum og á hanabjálkaloftunum. Það er tiltölulega örlítill hluti af vinnandi stétt Reykjavíkur, sem býr í miðbænum. Verkamaðurinn býr í úthverfunum og þarf því að nota strætisvagna, og fyrir það fer hann með a. m. k. á annað hundrað krónur bara í beinar ferðir að og frá vinnustaðnum um mánuðinn, fyrir utan allar aukaferðir. Hann þarf vitanlega að greiða tryggingagjöld, almannatryggingagjöld og sjúkrasamlagsgjöld, og margt fleira. Við skulum segja, að tekjurnar séu ekki meiri en það, að útsvar og skattar verði tiltölulega lág. En það skiptir a. m. k. nokkrum hundruðum og jafnvel þúsundum á ári. Til viðbótar þessu kemur svo fæðiskostnaður fjölskyldunnar og fatnaður. Það verður lítið eftir til skemmtana og annars þess, sem menningarlíf krefst. Ég vil nú álíta, að fáir menn muni a. m. k. í alvöru vilja halda því fram, að verkamaður með ekki hærri laun muni lifa neinu sérstöku óhófslífi, og því síður, að af slíkum launum sé hægt að leggja mikið fyrir til elliáranna. Hvað margir hv. alþm. mundu t. d. treysta sér til þess að lifa af slíkum launum? Ekki treysti ég mér til þess, ef ég hefði t. d. 3 börn á framfæri. Treysta hæstv. ráðh. sér til þess, t. d. hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh., sem hér hafa einna mest rætt þessi mál og barizt einna ötullegast fyrir þeim málstað, að það væri ekki hægt að hækka laun vinnustéttanna hér í Reykjavík og annars staðar? Þeir eru nú því miður ekki hér viðstaddir, og þeir geta ekki svarað því núna. En ég vonast til þess, að einhver verði til þess að flytja þeim þessa fyrirspurn. Mér þætti ákaflega fróðlegt að fá að heyra svör þeirra, sem hér hafa staðið dag eftir dag til þess að verja það og halda því fram, að það væri ekki hægt og ekki rétt að hækka laun þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu, við því, hvort þeir hinir sömu ágætu menn treystu sér til þess að lifa af lágmarkslaunum Dagsbrúnarverkamanna og annarra þeirra, sem vinna fyrir líkum launum og þeir.

Það er sannarlega ekkert undrunarefni, þó að verkalýðssamtökin hafi nú — ég vil segja á síðustu stundu — farið fram á allverulegar grunnkaupshækkanir. Með gengislækkuninni, sem skellt var yfir þjóðina 1950, var verkalýðshreyfingunni og launastéttunum greiddur kinnhestur, sem hefur ekki gleymzt og mun ekki gleymast, fyrr en sá reikningur hefur verið greiddur að fullu. Með þeim ráðstöfunum voru verkalýðurinn og launastéttirnar rænd allverulegum hluta af kaupi sínu og öllu verðlagi kippt úr þeim skorðum, sem það hafði þó verið í að undanförnu. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt alveg undraverða þolinmæði með því að bíða allan þennan tíma án þess að hafa lagt út í baráttu fyrir verulegum grunnkaupshækkunum. Þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar, sem stóðu að gengislækkunarlögunum og börðu þau í gegn í fullri óþökk og andstöðu alls þorra verkalýðsins í landinu, ættu sízt af öllu að vera nú að blása sig út af vonzku yfir því, þó að verkalýðshreyfingin krefjist nú nokkurs hluta þess, sem af henni var rænt með gengisfellingarlögunum 1950. Slíkur andróður er vitatilgangslaus og vonlaust verk. Það ætti andstæðingum verkalýðsfélaganna að vera orðið ljóst eftir áratuga baráttu verkalýðssamtakanna. Þeir ágætu menn ættu að hafa lært það mikið í skóla reynslunnar, að sókn alþýðunnar fram á við til meiri hagsældar og betra lífs verður ekki stöðvuð með gífuryrðum og skömmum. Þegar verkalýðurinn er að krefjast betri kjara, kjara, sem hann telur vera lágmarkskröfur, þá þýðir ekki að vera að slá því fram, að hér sé um kommúnistíska skemmdarstarfsemi að ræða og þjóðhættulegt athæfi. Meðlimir verkalýðsfélaganna gætu með miklu meiri rétti ásakað andstæðinga sína um skemmdarstarfsemi og kallað þá menn þjóðhættulega, sem ætíð og ævinlega hafa barizt á móti réttmætum kröfum undirstéttanna. Það eru þjóðhættulegir menn, sem sí og æ beita öllu sínu áhrifavaldi til þess, að kjör lágstéttanna séu sem verst, á sama tíma sem óhófsgróði og óhófseyðsla yfirstéttarinnar, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, er þannig, að hverjum manni, sem hugsar um slíkt, hlýtur að blöskra.

Það er þjóðhættulegt að búa þannig að þeim, sem mest leggja á sig, fólkið, sem vinnur erfiðustu og hættulegustu störfin, að það geti ekki séð sér og sínum sæmilega vel farborða. Auk þess er það staðreynd, sem verður ekki á móti mælt, að því betri sem hagur launastéttanna er, því betri og öruggari er afkoma þjóðfélagsins í heild. Bændastéttinni gengur betur að selja sínar afurðir, þegar afkoma verkalýðsins í bæjunum og sjávarþorpunum er betri. Því meiri kaupgeta hjá launastéttunum, því meiri verður verzlun hjá þeim, sem vöruna selja, o. s. frv.

Ég get látið að mestu ritrætt um þetta mál.

Hæstv. ríkisstj. fór fram á það nú á síðustu stundu, að verkalýðsfélögin tilnefndu menn í svokallaða hlutlausa nefnd, sem átti að rannsaka það, hvort framleiðslan og þjóðarbúið þyldu þessar kauphækkanir eða aðrar slíkar. Mér er spurn: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. verið að gera í allan vetur? Var henni það ekki ljóst áður, að það stóðu fyrir dyrum kaupdeilur? Var henni það ekki ljóst áður, að verkalýðsfélögin mundu fara fram á allmiklar breytingar á kjörum sínum? Hélt hæstv. ríkisstj., að verkalýðsfélögin hefðu verið að segja upp kauptöxtum sínum og samningum bara út í loftið? Nei, svona vinnubrögð er ekki hægt að bjóða verkalýðshreyfingunni á Íslandi. Hún krefst allt annarra vinnubragða. Ef það hefði verið snemma á þessu þingi í vetur farið fram á, að slík nefnd hefði verið skipuð, þá fullyrði ég, að verkalýðshreyfingin hefði tilnefnt menn í þessa nefnd. En þegar farið er fram á það nú á síðustu stundu að skipa menn í slíka nefnd, sem allt bendir til að hefði ekki orðið til annars en að draga málið óþarflega mikið á langinn, þá segir verkalýðshreyfingin: Hingað og ekki lengra. — Forustumenn verkalýðssamtakanna og verkalýðshreyfingin í heild hefur gefið nægilega langan umhugsunarfrest og samningsfrest til þess að ræða þessi mál. Það verður ekki verkalýðshreyfingin, sem ber ábyrgð á því, ef til vinnudeilu kemur. Þá ábyrgð verður ekki hægt að skrifa á reikning verkalýðssamtakanna. Ábyrgðina bera þeir aðilar fyrst og fremst, sem ófáanlegir hafa verið og eru enn til að mæta með skilningi og velvild hinum sanngjörnu og um leið sjálfsögðu kröfum verkalýðssamtakanna.