02.11.1954
Sameinað þing: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú nokkuð komið í ljós, hver árangur liggur fyrir af meðferð Framsóknar á hernámsmálunum og stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem átti að taka svo miklum breytingum í sambandi við meðferð þeirra mála eftir síðustu kosningar.

Ég býst við, að ef hreinskilnislega væri gengið hér til verks af hálfu hæstv. ríkisstj., mundi hún segja okkur, að hún hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum í þeim samningaumleitunum, sem fram hafa farið undanfarið, að hún hefði haldið, að það væri hægt að tala við Bandaríkjastjórn um vinsamlega framkvæmd á hernáminu hérna á Íslandi, hún hefði haldið, að það væri hægt að fá Bandaríkjastjórn til þess að hliðra til á ýmsan hátt fyrir íslenzkum hagsmunum, en hún hefði rekið sig á, að slíkt væri ekki mögulegt. Bandaríkjastjórn hefði þvert á móti sýnt sig mjög harða í horn að taka, eins og sá aðili, sem með ýmsum ófögrum aðferðum hefur náð mikilvægum ítökum í einn landi og kærir sig ekki um að sleppa þeim, vegna þess að hann hefur ekki náð þessum ítökum í landinu til þess að vernda þjóðina, sem býr fyrir í því, heldur vegna sjálfs sín, til sóknar, sem hann hugsar sjálfur til. Ég er hræddur um, að við verðum að hafa þetta í huga, að þetta búi raunverulega undir, vonbrigði yfir því, hvernig hefur gengið með þessa samninga hjá hæstv. utanrrh. og hjá hæstv. ríkisstj., þegar hún leggur fram fyrir Alþingi að lokum ávöxtinn af meira en ársviðleitni sinni í þessum efnum. Og við skulum þá athuga nokkrar staðreyndir, sem nú hafa komið fram.

Eitt af því, sem Framsfl. gerði einna mest úr viðvíkjandi hættunni, sem af Keflavíkurflugvelli stafaði, var um vinnuaflið, og sú yfirlýsing, sem einna skýrust er af þeim, sem hér koma fram, er, að við framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli skuli fullt tillit tekið til íslenzkra atvinnuvega. Og við skulum sjá, hvernig þetta atriði er framkvæmt. Um þetta getum við þm. talað af fullri reynd. Hér er ekki hægt að veifa neinu framan í okkur um, að það sé ekki hægt að telja óeinkennisbúna ameríska hermenn í Reykjavík og það sé ekki hægt að hafa eftirlit með þeim. Hér getum við sjálfir athugað, hvernig hæstv. ríkisstj. fer að því að sjá um, að fullt tillit sé tekið til íslenzkra atvinnuvega. Nú sem stendur mun vinna 2391 maður hjá hernámsliðinu. Og hvernig er ástandið í okkar eigin atvinnuvegum, einmitt hér í Reykjavík og hérna í kringum okkur? Ástandið er og hefur verið þannig, t. d. hvað mikilvægasta útflutningsatvinnuveginn snertir, sjávarútveginn, að fjöldi frystihúsa hér við Faxaflóann getur ekki unnið úr fiskafla vegna skorts á vinnuafli, að fiskiskip og flutningaskip verða að liggja hér dögum saman og bíða vegna skorts á vinnuafli, að útlendir menn hafa verið teknir inn í landið til þess að vinna á okkar eigin fiskiskipum. Hér í Reykjavík er hvað húsbyggingarnar snertir ástandið þannig, að það gengur svo að segja ekkert með að vinna að mörgum húsbyggingum, vegna þess að það vantar vinnuafl. Á sama tíma er 2391 maður suður á Keflavíkurflugvelli. Þar er verið að vinna að því að byggja yfir ameríska liðsforingja og aðra slíka dáta, sem þar eru, á sama tíma sem vantar vinnuafl til þess að bæta úr húsnæðisskorti íslenzkrar alþýðu. Á meðan Íslendingar verða að hírast í bröggum, sem sífellt eldast og sífellt flytja fleiri og fleiri börn inn í, þá er hindrað með þessum aðgerðum ríkisstj., að vinnuafl fáist til þess að vinna bráðnauðsynleg verk hér, bæði sem snerta það að byggja yfir þjóðina og snerta það að sjá um, að framleiðsla hennar sé í þeim fulla gangi, sem hún gæti verið. Er þetta að taka tillit til íslenzkra atvinnuvega? Ef framkvæmd hæstv. ríkisstj. er svona á fleiri málum eins og hún er á þessu, þá er auðséð, hvað þarna er um að ræða. Hæstv. ríkisstj. er að traðka undir fótum alla íslenzka hagsmuni í þessu sambandi, traðka undir fótum hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Það er ósköp vel vitanlegt, að meira að segja þótt við værum aðeins að vega það og meta út frá hreinu peningagildi þess, sem vinnan gefur, þá gefur sú vinna, sem unnin er við að afla fisksins og vinna úr honum, margfalt meira verðmæti á hverja vinnustund fyrir þjóðina í heild heldur en það, sem unnið er að suður á Keflavíkurflugvelli, fyrir utan svo hitt, að öll vinnan, sem unnin er á Keflavíkurflugvelli, er Íslandi til bölvunar, og það húsnæði og annað slíkt, sem þar er byggt, er til einskis fyrir Íslendinga fyrir framtíðina, í staðinn fyrir að á meðan er látið vera að byggja húsnæði, sem Íslendingar hafa brýna þörf á, svo brýna, að fjöldi manns liður heilsuskort og heilsutjón vofir yfir fjölda barna, vegna þess að það er ekki unnið af fullum krafti við byggingar.

Þess vegna er ekkert spursmál um það, að einmitt á því sviðinu, þar sem við Íslendingar höfum sjálfir bezta aðstöðu til þess að dæma í þessum efnum, er verið að traðka alla íslenzka hagsmuni og þörf íslenzkra atvinnuvega undir fótum og drepa niður íslenzkt atvinnulíf og eyða landsbyggðinni á Íslandi, með þeim aðgerðum, sem nú eru framdar á Keflavíkurflugvelli. Menn geta litið á allan hringinn: Vesturlandið, Norðurlandið, Austurlandið — og séð, hvernig fólkið streymir þaðan fyrir aðgerðir ríkisstj., fyrir tillitsleysi ríkisstj. til íslenzkra hagsmuna. Og þetta gerist á sama tíma sem nokkrir menn eru hér úr stjórnarliðinu að koma með alls konar till. um að halda jafnvægi í byggð á Íslandi, jafnvel nefndarskipanir af hálfu ríkisstj. um slíkt, og svo lýsir hæstv. utanrrh. yfir: Við höfum þetta í hendi okkar. — Svona fer ríkisstj. með það, sem hún hefur í sinni hendi, og ef hún fer svona með spurninguna viðvíkjandi vinnuaflinu og viðvíkjandi þörfum íslenzkra atvinnuvega, hvernig fer hún þá með hitt, sem við eigum erfiðara með að dæma um?

Þetta er eitt stærsta og alvarlegasta spursmálið, þó að mörg séu alvarleg í sambandi við þá svokölluðu samninga, sem fram fara um þessi mál.

Við skulum líta á annað atriði, sem hér hefur verið talað um. Það er viðvíkjandi ferðum Íslendinga inn á Keflavíkurflugvöll eða hin svokölluðu varnarsvæði. Það var dálítið rætt hér í fyrra í sambandi við umræðurnar, sem fram fóru í deildunum um frv. um lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, um, hvað væri að gerast með þeirri lagasetningu, og ég benti á það þá, að með þeirri lagasetningu væri verið að stíga fyrsta sporið á hættulegri braut, það væri verið að taka hluta af Íslandi út úr venjulegu lögsagnarumdæmi, láta það hlýða öðrum reglum en önnur lögsagnarumdæmi á Íslandi; það væri verið að skapa meira að segja svo óákveðinn svip í lögsagnarumdæmum, að Íslendingar almennt gætu varla vitað, hvenær þeir væru staddir undir yfirráðum og dómgæzlu lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli eða hvenær þeir væru staddir undir löggæzlu annarra og hvenær þau afbrot, sem þeir kynnu að fremja, kynnu þess vegna að heyra undir utanrrh. eða hvenær þau kynnu að heyra undir dómsmrh. Og ég benti þá á, að með þessu móti væri verið að stíga spor í þá áttina að liða hluta af Íslandi undan yfirráðum venjulegra íslenzkra yfirvalda, enda væri það greinilegt, þegar þar að auki ætti að setja þessi svæði sérstaklega undir utanrrh., hann ætti að vera dómsmrh., hann ætti að vera heilbrmrh., hann ætti að vera ráðh. fyrir allt, sem snerti þessi sérstöku lögsagnarumdæmi, en aðrir íslenzkir ráðh. hefðu ekki með það að gera.

Það hefur sýnt sig nú, að það er stigið áfram á þessari sömu braut. Það voru teknir hlutar af Íslandi og settir undir yfirráð utanrrh. í hans eigind sem dómsmrh., heilbrmrh., póst- og símamálaráðh. og annað slíkt á þessum svæðum. Slíkt spor var stigið í fyrra. Nú er stigið annað í viðbót. Það er stigið það spor að ákveða, að Íslendingar skuli þurfa að hafa vegabréf til þess að komast inn á ákveðna hluta af eigin landi. Það hefur verið sagt hér af sumum, að út af fyrir sig væri alveg nauðsynlegt að hindra samskipti Íslendinga við setuliðið, en hindrun á samskiptum Íslendinga við setuliðið á ekki að fara fram á þann hátt, að Íslendingar séu sviptir frelsi í eigin landi, heldur með því, að innrásarherinn sé rekinn burt af okkar landi.

Það að teygja út fleiri og fleiri svokölluð varnarsvæði á Íslandi, gera Hornafjörðinn að varnarsvæði, gera Aðalvík að varnarsvæði, gera Njarðvík að varnarsvæði, gera Hvalfjörð að varnarsvæði, halda áfram þannig, eftir því sem Ameríkönum þóknast, og fyrirskipa Íslendingum jafnóðum: Ja, þið þurfið nú passa til þess að komast þarna inn — það þýðir að lima fleiri og fleiri hluta af Íslandi undan raunverulegum yfirráðum Íslendinga. Það þýðir að stefna að því að skapa erlent ríki á Íslandi. Það er það, sem verið er að miða að með þessu.

Ég get ósköp vel viðurkennt, að það geti e. t. v. verið allt gott, sem vakir fyrir þeim mönnum, sem leggja þetta til, að það sé eðlilegt, að ýmsum finnist þetta endurbót. En af hverju verður þessi endurbót óþolandi? Hún verður óþolandi vegna þess, að henni er ætlað að bæta ástand, sem er sjálft óþolandi og getur aldrei orðið viðunandi; vegna þess að þessi svæði eru hernumin, eru í klóm erlends hers, þá verður aldrei fundið neitt ráð, hvorki vegabréfin né annað, sem verður viðunandi fyrir Íslendinga til þess að bæta úr þessu óþolandi ástandi, jafnvel þó að þau í sjálfu sér kynnu að bera vott um góða viðleitni.

Við, sem þekkjum, hvað Bandaríkjunum gekk til, þegar þau knúðu fram þau ítök, sem þau nú hafa á Íslandi, við, sem höfðum með að gera þeirra kröfur til Íslendinga 1945, vitum alveg, hvað fyrir þeim vakir. Það var ekki verið að tala um neitt Atlantshafsbandalag, neina verndun lýðræðis, það var ekki haft neitt yfirskin, það var ekki beitt neinum blekkingum, þegar Bandaríkin 1. okt. 1945 kröfðust þess af Íslendingum, að þrír hlutar af Íslandi væru teknir undan íslenzkum yfirráðum og settir undir yfirráð Bandaríkjanna: Keflavíkurflugvöllur, Skerjafjörður og Hvalfjörður. Þá átti beinlínis að girða af hluta af íslenzku landi og hann átti að vera í 99 ár undir yfirráðum Bandaríkjanna, þannig að við áttum ekkert að vita, hvað þar gerðist, og okkur átti ekkert að varða um það og við áttum ekki að hafa neitt leyfi til þess að komast inn á þau svæði. Þetta var það, sem Bandaríkin ætluðu sér að taka í einu áhlaupi, strax í stríðslok.

Íslendingar neituðu þessu. Það, sem síðan hefur gerzt, er, að Bandaríkjastjórn er að reyna að ná því í áföngum, sem henni mistókst að ná í einu áhlaupi þá. Þess vegna miðar hvert fet, sem hún færir sig áfram nú, að því að ná þessu takmarki í áföngum, sem henni tókst ekki að ná í einu stökki þá. Þess vegna eru girðingarnar, vegabréfin, sérstök lögreglustjórn og allt annað slíkt aðeins smááfangar á þessari leið. Og það verðum við að hafa í huga, et við ætlum að skilja, hvað sé hið raunverulega innihald í þessu, jafnvel þó að sumir menn kunni að fallast á sumt af þessum áföngum, jafnvel stundum í góðri meiningu.

Hvað er svo viðvíkjandi hernaðaraðgerðunum á Íslandi? Um það leyti sem kosningar fóru fram í fyrra, var það fyrst og fremst Keflavíkurflugvöllurinn, sem um var rætt, og hann var eina raunverulega herstöðin, auk þeirrar, sem var í Hvalfirðinum, en það var a. m. k. hægt að keyra hann. En hvað hefur gerzt síðan um þessar kosningar? Það hafa bætzt fjórar nýjar herstöðvar við. Eftir að átti að stöðva útþenslu hernámssvæðanna á Íslandi og yfirlýsingar voru gefnar um slíkt, hafa Bandaríkin fært sig upp á skaftið og bætt við fjórum nýjum herstöðvum, sem allar er verið að reisa í kringum radarstöðvarnar. Og þetta er gert á sama tímabili sem meira að segja í stjórnarflokkunum kveður við, að alltaf sé útlitið í heiminum að verða friðvænlegra — og því miklu minni þörf á nokkrum af þeim hernaðaraðgerðum á Íslandi, jafnvel í Tímanum sagt, að það sé helzt hægt að nota þetta sem eins konar varaskeifu í sambandi við atvinnubótavinnu. Það hafa margfaldazt hernámssvæðin á Íslandi, einmitt þegar þetta átti að hætta. Og því er lýst greinilega yfir nú um þessi nýju svæði, að það komi ekki til neinna mála einu sinni, að það séu Íslendingar, sem reki stöðvarnar, það séu hernaðaraðgerðir, það séu hermenn, sem þar verði að vera, m. ö. o. herstöðvar, sem innan skamms munu auðvitað heyra undir sömu lög og ákvæði t. d. um vegabréf og annað slíkt og herstöðin á Keflavíkurflugvelli.

Svo er bætt við hafnargerðinni í Njarðvík. Hæstv. utanrrh. segir: Það er ekki enn þá búið að semja um höfnina þar, af því að það er ekki samkomulag um, hvar hún eigi að vera. — M. ö. o.: Við eigum það í vændum, að í staðinn fyrir landshöfn fyrir okkar útveg í Njarðvíkum, eins og íslenzk lög ákveða, eigi að koma upp höfn, sem er eitt af tvennu, — það veit ég ekki fyrir mitt leyti, — annaðhvort uppskipunarhöfn fyrir hergögn og annað slíkt eða herskipahöfn, nema hvort tveggja sé. Þó að þar væri ekki nema uppskipunarhöfn fyrir hergögn og annað slíkt, þá mundi það líklega ekki þykja svo þýðingarlítið frá hernaðarlegu sjónarmiði, að innan skamms mundi það heyra undir það sama, jafnvel vera afgirt fyrir Íslendingum, nema verkamennirnir, sem Bandaríkin láta svo lítið að nota til að vinna þar, hafi öll merki utan á sér. „Voldugir húsbændur, hundar á vörð og hópur af mörkuðum þrælum“ — það virðist vera hugsjónin, sem vakir fyrir mönnum, þegar þeir ætla að skipuleggja, hvernig búið sé að Íslendingum á þessum svæðum, — allt undir því yfirskini, að þetta sé gert til þess að vernda okkur.

Mér sýnist þess vegna, að í stað þess að draga úr hernaðarvinnunni og taka tillit til íslenzkra atvinnuvega, hafi herstöðvarnar á Íslandi verið margfaldaðar og minna tillit tekið til íslenzkra atvinnuvega en áður. Ég gæti jafnvel trúað, að sums staðar úti um landið væri það svo, að meira að segja vegarspottar, sem þingmenn kjördæmanna hafa barizt fyrir hér í þinginu, hafi varla verið lagðir í sumar, af því að menn hafi verið svo önnum kafnir við að leggja veg fyrir hernámsliðið.

Og má ég svo spyrja: Hvaða heimild kom hæstv. ríkisstj. til að fara svo ofan á allt þetta, að þenja á þennan hátt út hernámsvinnuna, hernaðarsvæðin, að blanda íslenzka ríkinu, íslenzka lýðveldinu inn í það að taka þátt í hernaðarframkvæmdunum sem hluthafi í ákveðnu fyrirtæki? Það lá ekki nein till. fyrir frá Framsfl. hér á síðasta Alþ. um neitt slíkt og engin heimild gefin þá. Hennar mun kannske vera að leita nú í fjárlögunum. Var það kannske vegna þess, að það var ekki búið að finna upp, hvaða aðferð ætti að nota við helmingaskiptin, hin venjulegu helmingaskipti á milli stjórnarflokkanna, þegar samningarnir voru hafnir, þannig að það að láta íslenzka ríkið fara þarna inn í kom ekki til, fyrr en menn sáu, að annars mundi kannske hallast á Framsókn í gróðanum af því að taka Íslendinga frá íslenzkum atvinnuvegum og nota þá fyrir ameríska hernaðarvinnu? En smekklegt var það ekki, jafnvel þó að það kunni að hafa verið mjög nauðsynlegt fyrir Framsfl., til þess að ekki hallaðist á. En sýnt er, að ekki dregur það úr þeirri spillingu, sem farin er að grafa um sig í sambandi við hernaðarvinnuna og allt, sem hana snertir, þegar farið er þar að auki að blanda ríkinu inn í þetta á slíkan hátt.

Þá eru nú leynireglurnar og allt talið um þessar ferðir viðvíkjandi Keflavíkurflugvelli og slíku. Það kom upprunalega fyrst og fremst til af því, að amerísku hermennirnir voru að flækjast hér í Reykjavík. Það var undirrótin að því, að farið var að tala um þetta og að mönnum fannst það óþolandi. Það var snemma fundið upp á því ráði að klæða þá um, þvert ofan í fyrirmælin um, að þeir skuli að jafnaði vera einkennisklæddir, og nú er það orðið hernaðarleyndarmál — líklega vegna þess, að það sé búizt við árás á hvaða stund sem er á Keflavíkurflugvöll og það megi ekki láta vita af því, að það séu jafnvel stundum sjö og stundum fimmtíu og tveir menn burtu. Það er nú slæmt, að hæstv. utanrrh. skuli samt hafa ljóstrað upp slíkum leyndarmálum, því að náttúrlega hlýtur það að vera eitt það alvarlegasta í því, að Keflavíkurflugvöllur skuli nokkurn tíma vera svo varnarlaus, að það skuli vanta á hann frá sjö til fimmtíu og tvo menn.

Það var spurt að því hér áðan af hv. 4. þm. Reykv., hvernig ætti að framkvæma þetta eftirlit með, að amerísku hermennirnir færu eftir leynireglunum. Ég þykist sjá af svörum hæstv. ráðh., að íslenzkir lögreglumenn fái ekkert um þetta að vita, það séu ekki þeir, sem eigi að hafa eftirlit með amerísku hermönnunum; það eigi að öllum líkindum bara ameríska lögreglan að gera — líka hér í Reykjavík. Hann talaði um, að það væru amerískir lögreglumenn í Reykjavík, og mér liggur nú við að spyrja: Hefur þá ekki einu sinni verið reynt að semja um það að hindra, að við þyrftum að vera að sjá ameríska lögreglumenn á vakki hér í Reykjavík? Það er í 2. gr., 10. lið, viðaukans gert ráð fyrir því, að um slíkt sé hægt að semja við íslenzk stjórnarvöld, hvort Bandaríkjamenn annast nokkur lögreglustörf og þá hve mikil utan samningssvæðanna, og eðlilega er það að öllu leyti heppilegast fyrir okkur, að amerískir lögreglumenn komi þar hvergi nærri. Ég vil í því sambandi leyfa mér að spyrja: Er það máske svo, að íslenzkir lögreglumenn megi yfirleitt alls ekki handtaka ameríska hermenn, eða hvernig er það þá annars skýrt, að það sé nauðsyn á því, að amerískir lögreglumenn séu að flækjast utan samningssvæðanna?

Viðvíkjandi þessu spursmáli um leyniskjalið og leynireglurnar og hernaðarleyndarmálin vil ég segja, að hæstv. utanrrh. hefur aðstöðu og skyldu til að láta Alþ. dæma um það sjálft, hvort nauðsynlegt sé að fallast á þá kröfu Bandaríkjanna, að þetta sé hernaðarleyndarmál. Svo framarlega sem utanrrh. skýrir annaðhvort utanrmn. eða Alþ. á lokuðum fundum sem leyndarmáli frá slíku, þá getur hann heyrt skoðanir alþm. á því, það hefur verið gert um stærri mál en þetta, og það er sá háttur, sem venjulega er hafður á af ríkisstjórnum, svo framarlega sem þær álíta sjálfar, að það, sem heimtað er, í þessu tilfelli af Bandaríkjastjórn, sé þess eðlis, að að einhverju leyti þurfi að láta undan því. Ég held nefnilega, að við megum ekki í öllum þessum samningaumleitunum koma Bandaríkjastjórn upp á að gera kröfur, sem annaðhvort gera íslenzku ríkisstj. að athlægi eða eru að öðru leyti fjarri öllum sanni. Við verðum að muna það, að það er Alþingi Íslendinga, sem ræður þessu. Það er það, sem er æðsti dómarinn í þessum málum. Bandaríkjastjórn getur sem sé ekki fengið fram neina hluti hér, ef Alþingi Íslendinga álítur annað.

Þá minntist hæstv. utanrrh. á, að það væri nokkuð af Bandaríkjamönnum, sem byggju utan vallarins, og við erum orðnir því nokkuð vanir að sjá t. d. í Morgunblaðinu auglýsingar frá Bandaríkjamönnum um íbúðir hér í Reykjavík. Því virðist fara sífellt fjölgandi, á sama tíma sem húsnæðisskorturinn er meiri en fyrr hér í Reykjavík og íbúðirnar dýrari, að Bandaríkjamenn, sem eftir að þeir létu lækka íslenzku krónuna í verði, hafa mun meiri fjárráð en Íslendingar, kaupi upp með hárri leigu íbúðirnar, sem Íslendingar annars hefðu getað búið í. Það er engum efa bundið, að þarna þarf alvarlega að skerast í leikinn. Það, hvernig Bandaríkjamenn, ekki aðeins þeir, sem eru giftir íslenzkum konum, heldur líka þeir, sem eru að öllu leyti amerískir menn og hafa ekki í sinni fjölskyldu neina íslenzka þegna, taka húsnæði frá Íslendingum, getur alls ekki gengið. Það verður að breytast.

Þá kom hæstv. utanrrh. inn á spurninguna um, hvernig dæma ætti um hæfni íslenzkra manna til þess að taka að sér verk, og sagði, að það væri eitt það erfiðasta í samkomulaginu. Hvað eftir annað kemur fram, að það sé svo erfitt að semja um þessa hluti, — þetta atriði, sem hann tekur þarna út úr, sé eitt það allra erfiðasta í samkomulaginu. Ég er hræddur um, að hæstv. utanrrh. og ríkisstj. sem heild hafi gengið að þessum samningum án þess að búa sig undir þá á þann eina hátt, sem hugsanlegt var að gera, ef átti að verða árangur af þeim, og það var á þann hátt að tilkynna Bandaríkjastjórn fyrir fram: Ef þið ekki fallizt á þetta, sem við leggjum áherzlu á, þá segjum við samningnum upp, — eða það, sem hefði verið enn áhrifameira, að byrja með því að segja samningnum upp og leyfa Bandaríkjamönnum að sækja á og setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Það er engum efa bundið, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að ná samkomulagi, sem henni fyndist viðhlítandi, þá átti hún að byrja með því að hafa þá aðferð. Og ég þykist vita, að jafnvel Framsfl. muni upphaflega hafa ætlað sér að hafa þann hátt á, hann muni hafa ætlað sér fyrst að segja samningnum upp og semja síðan við Bandaríkjastjórn og hann muni jafnvel hafa þreifað fyrir sér til þess að vita, hvort Bandaríkjastjórn féllist ekki á það, að hafður væri slíkur skollaleikur, en að Bandaríkjastjórn muni bara alls ekki hafa kært sig um að hætta á slíkan skollaleik sem nýjan samning, vegna þess að hún hafi ekki verið viss um, að það fengist yfirleitt gerður nýr samningur af hálfu Íslendinga. Hitt er alveg gefið, að svo framarlega sem við áttum ekki að þurfa að heyra það hér, að hæstv. utanrrh. kvartaði og kvartaði: Ja, það væri nú svo erfitt að eiga við þetta samkomulag, þetta verður að vera hernaðarleyndarmál, og í þessu er ekki enn þá hægt að gera neitt, — ef við áttum ekki að heyra einhverjar svona afsakanir, þá var hitt það eina, sem gat bjargað honum og ríkisstj., að tilkynna Bandaríkjamönnum: Ef þið ekki fallizt á þessa hluti, sem við álítum nauðsynlega, þá segjum við samningunum upp. — Það var það eina, sem gat skapað þeim almennilega aðstöðu í samningunum.

Svo talaði hæstv. ráðh. um í sínum svörum, hvaða verkum væri ólokið, og ef ég heyrði rétt, — hann talaði nokkuð lágt, — þá heyrðist mér hann tala um lengingu flugbrautarinnar sem eitt af þeim verkum. Ja, ég verð nú að segja, að ef það er hernaðarleyndarmál um, hvort það séu 7 eða 52 amerískir hermenn á sumum kvöldum í Reykjavík, er það þá ekki dálítið hernaðarleyndarmál, hvort það eigi að fara að lengja flugbrautirnar hérna mikið frá því, sem búið er að lengja þær, því að við vitum, að það er búið að lengja þær upp í það, að þessi flugvöllur, eins og hann er, er ekki ætlaður til neins annars en árása sprengjuflugvéla, sem geta borið kjarnorkusprengjur til árása á borgir í Evrópu? Það verk, sem er ólokið, er sem sé að halda áfram að lengja þessar flugbrautir, ekki aðeins það, að þær beri flugvélar B-29, heldur stærri, og ef til vill verður því verki nokkuð lengi ólokið, eftir því sem flugvélarnar halda áfram að stækka og farmarnir að þyngjast. En hæstv. utanrrh. lýsir yfir um leið: Íslenzka ríkisstj. hefur síðasta orðið. — M. ö. o.: Þegar Bandaríkjastjórn útbýr hér einn stærsta flugvöll í Evrópu, einn af stærstu flugvöllum í heimi, flugvöll, sem samkvæmt allri gerð er eingöngu hugsaður fyrir árásarflugvélar, fyrir langdrægar sprengjuflugvélar, þá segir íslenzka ríkisstj.: Íslenzka ríkisstj. hefur síðasta orðið. — Það er hún, sem ætlar að taka á sig ábyrgðina af því, að Bandaríkjastjórn, sem fullkomlega veit, hvað hún er að gera, sé búin að útbúa sér hér á Íslandi flugvelli til árása á þjóðirnar í Evrópu. Sjálf veit íslenzka ríkisstj. ekki, vegna þess að ég veit ósköp vel, að hún er ekki frekar en við þm. almennt neinn hernaðarsérfræðingur, um það, hvernig og til hvers svona flugvellir eru hugsaðir, — ekki meira en það, sem hver okkar getur lesið út úr bókum. En hún trúir í blindni á blekkingar, sem Bandaríkjastjórn hefur haft í frammi við hana. Hún trúir á það, að þessi flugvöllur hér sé skapaður til varna fyrir Ísland, þótt ekki nokkrum lifandi manni af þeim, sem eru sérfræðingar í þessari grein í veröldinni og skrifa um það lærðustu bækur, detti í hug að halda öðru fram en þetta sé liður í keðju þeirra árásarflugvalla, sem Bandaríkin hafa útbúið víða um heim og Bandaríkjamenn sjálfir í sínum blöðum tala hispurslaust um. Og ef einhverjir Íslendingar og þar á meðal hæstv. ríkisstj. hafa hugsað keðjuna af radarstöðvunum sem einhverjar ákaflega skikkanlegar og þarfar stöðvar, sem við kannske gætum líka vel notað í okkar almennu flugsamgöngum, ef þeir hafa hugsað þær þannig og óttast þær máske ekki sérstaklega þess vegna, þá taka orð hæstv. utanrrh. öll tvímæli af. Það á ekki að þjálfa íslenzka menn til þess að stjórna þessum radarstöðvum. Nei, þær eru slíkt hernaðarmannvirki, að þar eiga um alla framtíð, á meðan amerískur her væri á Íslandi, eingöngu að vera amerískir hermenn. Það verður ekki samið, sagði hæstv. utanrrh., um þjálfun Íslendinga til að taka við radarstöðvunum. Þá er það orðið nokkuð ljóst, hvers konar hernaðarkerfi hér er búið að útbúa og hvernig Bandaríkin eru á tíu árum frá 1945 að ná því takmarki, sem þau ætluðu sér að ná þá í einn áhlaupi og öllum Íslendingum þá fannst sjálfsagt að vísa frá sér, þó að þá stæði rauður her bæði í Noregi og Danmörku, — og þótti engin hætta þá. Menn láta samt nú blekkja sig með því, að þarna sé um einhvers konar varnir gegn árás að ræða.

Ég held, að lærdómurinn af þessum samningaumleitunum, sem ég fyrir mitt leyti efast ekki um að af hálfu hæstv. utanrrh. hafi verið gengið að af heilum hug, og árangurinn af þeim færi okkur heim sanninn um, að það sé ekki hægt við Bandaríkjastjórn að semja í þeirri aðstöðu, sem Ísland er nú; það sé ekki hægt að semja við hana, meðan einhverjir íslenzkir menn eru haldnir af því, að það séu að einhverju leyti hagsmunir Íslendinga, að þessi her sé hér í landinu og að þessi hernaðarmannvirki séu gerð. Ég held, að fyrst þurfi menn og það meira að segja þeir, sem vilja hafa hér bandarískar herstöðvar, að gera sér ljóst, að það er eingöngu í þágu Bandaríkjanna, engra annarra, og flytur Íslendingum ekkert annað en hættu á tortímingu í friði og stríði, að þessar herstöðvar séu hér; og án þess að ganga að þeim samningum fyrir þá, sem herstöðvarnar vilja hafa, alveg raunsætt í þessu efni og beygja Bandaríkjastjórn með hótunum um að segja upp, sé ekki hægt að fá út úr slíkum samningaumleitunum neina viðunandi lausn fyrir þá, sem meira að segja vilja hafa þessar herstöðvar.

Við erum um þetta leyti að horfa upp á þjóðir, sem fyrir 70 árum leigðu voldugu ríki herstöðvar í sínu landi, — við erum að horfa upp á Egypta núna vera að reyna að losa sig við slíkar herstöðvar, sjáum, hve löng sú barátta hefur verið, og eru þeir raunverulega ekki lausir enn með þeim samningi, sem þeir hafa gert. Við skulum reyna að horfa raunsætt á þessi mál, taka ekki trúanlegt það, sem borið er að okkur í blekkingum þeirra blaða og þeirra stjórnmálamanna, sem halda því fram, að Bandaríkin séu að hugsa um að vernda Ísland og Íslendinga með því að koma hér upp herstöðvum. Það eru til menn hér á þingi, sem hafa haldið því fram, að það hafi öll þessi undanfarin ár verið gífurleg hætta á því, að sérstaklega Sovétríkin gætu á hvaða augnabliki sem er farið að ráðast á Ísland. Það hafa jafnvel fremstu menn Atlantshafsbandalagsins lýst því yfir, að Sovétríkin hefðu, ef þau hefðu viljað, getað tekið Vestur-Evrópu á undanförnum árum, ef þeim hefði verið það í hug. Allar yfirlýsingar og allar staðreyndir hnekkja gersamlega þessari bábilju, sem reynt hefur verið að bera á borð fyrir okkur. Sovétríkin eru sem stendur eitt allra stærsta viðskiptaland Íslands, eru ríki, sem Íslendingar hafa aldrei haft neitt annað en gott af að segja, aldrei hefur gert okkur neitt, — ríki, sem eftir síðustu styrjöld stóð með sinn her, þar sem það hafði barizt við Þjóðverja, bæði í Danmörku og Noregi og fór burt bæði úr Danmörku og Noregi, á sama tíma sem Bandaríkjamenn sátu fastir hér heima og fóru ekki. Það er þess vegna fyllilega tími til kominn í sambandi við öll þessi mál, að farið sé að ræða þau raunhæfar og grípa til raunhæfari aðgerða en gerðar hafa verið undanfarið.

Eina raunhæfa aðgerðin, sem hægt er að gera í þessum málum, er að segja hernámssamningnum upp, — eina aðgerðin, sem samsvaraði okkar hagsmunum, Íslendinga, okkar frelsi og okkar heiðri. Hitt væri svo hægt að deila um á eftir á milli þeirra, sem vilja semja aftur við Bandaríkin, hvort eigi að endurskoða samninginn og gera nýjan eða hvort það eigi engan samning að gera, eins og Sósfl. fyrir sitt leyti alltaf hefur staðið á, því að hann áleit frá upphafi glópsku að gera þennan samning. Ég þykist vita og sjá það af reynslu síðasta árs í þessum efnum, að ef samningnum er ekki sagt upp, halda Bandaríkin áfram að færa sig upp á skaftið. Það var talað mikið um, að framkvæmd hernámssamningsins í höndum Sjálfstfl. hefði verið hneyksli. Framsfl. hefur haft með þessa framkvæmd að gera nú. Og ég ætla ekki að draga úr því, að þeir menn, sem með það hafa haft að gera, hafi gengið að því með góðum hug að reyna að bæta þarna úr. En hver er árangurinn? Fimm nýjar herstöðvar og yfirlýsingar um höfn í Njarðvík, um lengingu flugbrauta og annað slíkt. Það er þess vegna gefið, að við verðum að beita öðrum aðferðum í þessum efnum. Og aðferðin, sem dugir, er uppsögn samningsins. Þegar hún er framkvæmd í því formi að heimta endurskoðun samningsins og nota næstu sex mánuði til samninga eða uppsagnar, þá getum við deilt um það innbyrðis, hvort hann skuli endurskoðaður og gerður að nýju eða hvort það skuli enginn samningur gerður. En það vil ég segja þeim — og ekki sízt þeim, sem kannske af góðum hug hafa haft með þessa samninga að gera, að með þessu móti, eins og unnið hefur verið að undanförnu, komast þeir aldrei áfram, vegna þess að þeir kunna ekki að skapa sér þá aðstöðu, sem gerir þeim mögulegt að slá í borðið við Bandaríkjastjórn.