03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Svör hæstv. ráðh. og svaraleysi, ef svo mætti segja, við þeim spurningum, sem ég bar hér fram á síðasta fundi í sambandi við skýrslu hans um niðurstöðurnar af endurskoðun varnarsamningsins, gefa mér tilefni til nokkurra athugasemda.

Skal ég þá fyrst víkja að því atriðinu, sem hæstv. ráðh. var einna margorðastur um, en það eru reglurnar um ferðir varnarliðsmanna út af varnarsvæðunum og ferðir Íslendinga inn á varnarsvæðin. Að því er snertir setningu þessara reglna, þá þykir mér rétt að víkja að því nú þegar, að svo virðist sem ekki sé fullkomlega ljóst, með hverjum hætti reglur þessar hafa verið settar. Mér skildist á skýrslu hæstv. ráðh., að reglurnar bæði um ferðir varnarliðsmanna út af svæðunum og Íslendinga inn á svæðin hefðu verið ákveðnar einhliða af íslenzkum stjórnarvöldum. En í síðari ræðu hans virtist mér koma fram, að þetta ætti ekki alveg við að því er snerti ferðir varnarliðsmanna út af varnarliðssvæðunum. Og kom það fram í ræðu hans, að hæpið væri a. m. k., hvort Íslendingar einir eða íslenzk stjórnarvöld ein gætu um þetta sett reglur samkv. ákvæðum varnarsamningsins. Ég hef staðið í þeirri meiningu, að það væri tvímælalaust, að íslenzk stjórnarvöld gætu einhliða sett reglur um ferðir varnarliðsmanna út af varnarsvæðunum, og byggi það m. a. á því, að í upphafi samningsins er það beinlínis tekið fram, að úrslitayfirráð þessara mála skuli vera í höndum íslenzkra stjórnarvalda og þau aldrei túlkuð þann veg, að það raski þessum úrslitayfirráðum. Sé nú hins vegar svo, að hæstv. ráðh. sé þeirrar skoðunar, að einhver ákvæði samningsins séu því til fyrirstöðu, að íslenzk stjórnarvöld setji einhliða reglur um þetta efni, þá leit ég svo á, að það væri alveg sjálfsagt og eitt fyrsta atriðið, sem hann mundi krefjast við endurskoðun samninganna, að því ákvæði samninganna yrði breytt þannig, að á því gæti enginn vafi leikið, að Íslendingar hefðu þarna í sínum höndum úrslitavaldið.

Að því er snertir aftur á móti reglurnar um ferðir Íslendinga inn á varnarsvæðið, þá sagði ráðh. í seinni ræðu sinni alveg skýrt og tvímælalaust, að þær reglur hefðu verið settar af íslenzkum stjórnarvöldum einhliða. Hins vegar er frá því skýrt í Tímanum þann 27. maí 1954, að þessu sé ekki þannig háttað. Þar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Samtímis hefur verið gert samkomulag milli íslenzku ríkisstjórnarinnar og yfirmanns varnarliðsins um, á hvern hátt ferðir varnarliðsmanna út af samningssvæðum og ferðir Íslendinga inn á samningssvæði skuli takmarkaðar.“

Hér segir alveg skýrt og skorinort, að um þetta hafi verið gert samkomulag milli íslenzku ríkisstjórnarinnar og yfirmanns varnarliðsins, en alls ekki, eins og hæstv. ráðh. segir nú, að þetta hafi verið ákveðið einhliða af íslenzkum stjórnarvöldum. Hvort tveggja getur ekki verið rétt. Annaðhvort er það rétt, sem hæstv. ráðh. segir nú, og þá rangt það, sem í Tímanum stendur, eða það er rangt, sem ráðh. segir nú, og rétt það, sem í Tímanum stendur. Ég vildi mjög óska, að þetta kæmi fram, og ég vildi enn á ný ítreka ósk mína um, að það samkomulag, sem um þetta hefur verið gert, sé birt.

Þá segir hæstv. ráðh., að reglurnar um ferðir varnarliðsmanna út af umráðasvæðum sveitanna séu hernaðarleyndarmál, a. m. k. sá hluti reglnanna, sem fjallar um tölu þeirra varnarliðsmanna, sem á hverjum tíma fái útgönguleyfi eða ferðaleyfi. Hins vegar upplýsti hann, að það væri mjög mismunandi tala varnarliðsmanna, sem fengi burtfararleyfi á hverjum tíma; það væri allt niður í 5 á dag og allt upp í 52 og hvarvetna þar á milli.

Mér er nú óskiljanlegt, — ég verð að segja það, — hvers vegna slík ákvæði sem þessi, um tölu þeirra manna, sem gætu fengið ferðaleyfi, þurfa að vera hernaðarleyndarmál. Og ég vil mjög vænta þess, að hæstv. ráðh. fái því nú framgengt með samningum, et ekki fengist breytt ákvæðum samninganna um þetta atriði, að slíkt yrði ekki lengur neitt feimnismál, neinn leyndardómur.

Hins vegar upplýsti hæstv. ráðh., að settar hefðu verið reglur um það, hvenær þeir menn, sem fengju burtfararleyfi af vellinum, skyldu hverfa heim aftur til búðanna, og virtist mér á honum, að hann teldi þar allmikið hafa áunnizt. Þessar reglur kvað ráðh. vera þannig, að varnarliðsmenn skyldu hverfa heim flest kvöld vikunnar kl. 10, en eitt kvöld í viku kl. 12 að kvöldi. Það er nú eins og mig minni, að þetta sé ekki fullkomið nýmæli. Ef ég man rétt, voru eftir allmikið þóf árið 1952 gefnar út reglur um dvöl varnarliðsmanna utan samningssvæða, og ég man ekki betur en tíminn væri hinn sami, kl. 10 og kl. 12. Ég man ekki, hvort það voru fimm kvöld í viku kl. 10 og tvö kvöld kl. 12, en þær reglur voru a. m. k. mjög svipaðar í höfuðatriðum og þessar reglur, sem nú hafa verið settar.

En til viðbótar þessu upplýsti svo hæstv. ráðh., að talsvert af erlendum varnarliðsmönnum hefði búsetu utan samningssvæðanna. Ég hef haldið, að þetta væri óheimilt samkv. samningnum, og vildi mega biðja hæstv. ráðh. að upplýsa, ef svo er ekki, og hverjar reglur þá gilda um þetta. Hæstv. ráðh. sagði, að þeir menn, sem hér væri um að ræða, væru einkum þeir, sem giftir væru íslenzkum konum, og enn fremur þeir, sem giftir væru bandarískum konum, þeir hefðu fengið leyfi til að leigja sér íbúðir utan varnarsvæðanna hér í Reykjavík og Keflavík. Og víst er um það, að oftlega sjást í blöðunum auglýsingar, þar sem óskað er eftir húsnæði fyrir bandaríska menn. Mig furðar mjög á því, að hæstv. ráðh. skyldi ekki gefa upplýsingar um, hversu mikinn fjölda hér er um að ræða. Það er að minni hyggju alveg nauðsynlegt. Ég veit ekki betur en þetta sé óheimilt eftir varnarsamningnum. En það er augljóst, að ef hér er um tölu fólks að ræða, sem nokkru nemur, þá er tvímælalaust skylt að setja skorður fyrir þetta, ef unnt er, og fá samningnum svo breytt, að það sé unnt, ef það er ekki hægt samkv. honum eins og hann er nú.

Húsnæðisleysið er þannig nú hér í borg og ekki í Keflavík síður, að það er óverjandi að láta útlenda menn taka húsnæðið frá íbúum bæjanna, sem eru í mesta hraki með að fá þak yfir höfuðið. Ég veit ekki, hvort það hefur átt að vera sagt sem fyndni hjá hæstv. ráðh., en hann leyfði sér, að mér skildist til að sýna, að ekki væri nein hætta eða leiðindi samfara dvöl þessara manna í bæjunum, að segja, að þessir giftu menn, t. d. sem eru búsettir hér í Reykjavík, ættu að vera komnir heim kl. 10 á kvöldin, eins og þeir ættu að vera komnir inn á varnarsvæðin, ef þeir byggju þar. Þetta eru náttúrlega góðar upplýsingar. (Gripið fram í.) Ég er ekki neitt að tala um, að það sé mjög illa með þá farið, en ég hef mínar efasemdir um, að þetta sé framkvæmt bókstaflega, og ég tók þetta eiginlega nánast sem spaug hjá hæstv. ráðh., að þessir menn séu undir því eftirliti af lögreglunni, að þeir séu alltaf komnir heim til konunnar kl. 10 á hverju einasta kvöldi, ef þeir eru búsettir hér. Það minnir mig á, að í stríðinu voru, ætla ég, settar af stjórnarvöldunum, sem voru mjög röggsöm í þann tíð ekki síður en nú, reglur um það, að námsfólk, þ. á m. sjómannaskólapiltar, mætti ekki vera úti eftir kl. 10 á kvöldin, eða 8 á kvöldin var það nú víst, nema í fylgd með foreldrum sínum. Þessir sjómannaskólapiltar voru margir rígfullorðnir skipstjórar, sem höfðu verið skipstjórar á bátum svo að árum skipti, og svo máttu þeir ekki fara út eftir kl. 8 eða 10 á kvöldin nema í fylgd með mömmu sinni, ef þeir voru á sjómannaskólanum hér í Rvík. Þessi frásögn hæstv. ráðh., sem ég skoða nánast sem spaug, minnti mig á þessi ákvæði.

Um þetta atriði er í stytztu máli það að segja, að augljóst er af þessu, að þá einu takmörkun á ferðum varnarliðsmanna, sem um er að ræða, fyrir utan tímatakmarkið, hvað lengi þeir megi dvelja, er að finna í ákvæðunum um fjölda þeirra manna, sem hverju sinni mega fá útgönguleyfi af vellinum. Um það hafa Íslendingar ekkert að fjalla, og um það fær Alþingi og engir aðrir neitt að vita. Ég verð því að telja, að það séu mjög ófullnægjandi upplýsingar um þetta atriði, og enn endurnýja það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að um þetta tel ég alveg nauðsynlegt að íslenzk stjórnarvöld hafi alveg einhliða ákvörðunarrétt. Sé það ekki tvímælalaust samkv. samningnum, að ákvörðunarrétturinn sé einhliða í þessu efni fyrir Íslendinga, þá er nauðsynlegt að fá fram þær breytingar á samningnum, að þetta sé gert alveg tvímælalaust.

Þá spurði ég hæstv. ráðh. um það, hvaða íslenzk yfirvöld þekktu þær reglur eða hverjum íslenzkum yfirvöldum hefðu verið tilkynntar þær reglur, sem gilda ættu um ferðir varnarliðsmanna út og inn af svæðunum, — hvenær það hefði verið tilkynnt þessum yfirvöldum og hvort ekki hefði verið sérstaklega tilkynnt lögreglunni í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli, lögreglunni í Reykjavík, Hafnarfirði og öðrum nærliggjandi stöðum innihald þessara reglna og þeim þá að sjálfsögðu boðið að líta eftir því, að þessum reglum yrði fylgt. Við þessu fékk ég engin svör.

Það liggur í augum uppi, að þýðingarlaust er að setja reglur, sem ætlazt er til að farið sé eftir, ef hlutaðeigandi yfirvöldum eru ekki tilkynntar reglurnar og fyrirmæli gefin um, að þeim skuli fylgt. Þessi tilkynning var getin út af hæstv. ráðh. þann 26. maí og sagt, að þá samtímis gengi hún í gildi, þannig að ég verð að vænta þess, ef ekki er annað upplýst, að lögreglunni a. m. k. í Keflavík, Reykjavík og nærliggjandi svæðum hafi verið tilkynnt efni og innihald þessara reglna. — Og þá kem ég enn að því með töluna: Hvernig eiga þeir að líta eftir því, að ekki fari fleiri út á hverjum degi en til er ætlazt, ef ekki er a. m. k. lögreglunni gert kunnugt um, hve margir flest mega fara samdægurs út af vellinum eða vallarsvæðinu?

Þá var annað atriði, sem hæstv. ráðh. vék nokkuð að og ég hafði spurzt fyrir um, en fsp. mín var á þá leið: Eru nokkur ákvæði í hinu nýja samkomulagi, sem gera ráð fyrir, að stjórn Bandaríkjanna geti falið erlendum aðilum framkvæmd verks, sem Íslendingar hafa gert boð í eða ekki verið gefinn kostur á að bjóða í? Hæstv. ráðh. sagði í sambandi við þetta, að í samningsviðræðunum hefði einmitt þetta atriði verið hið erfiðasta, og ég skildi ræðu hans svo, að ef verkið yrði boðið út og kæmi lægra tilboð annars staðar frá en íslenzkir verktakar hefðu gert, þá gæti svo farið, að erlendir verktakar yrðu látnir taka þetta verk að sér, og alveg sérstaklega tók hann þetta fram að því er varðaði framkvæmdir við höfn í Njarðvík, ef til slíkra framkvæmda kæmi, sem hæstv. ráðh. sagði að að þessu sinni væri ekkert ákveðið um.

Enn fremur upplýsti hæstv. ráðh. það, að ef af einhverjum ástæðum teldust íslenzkir verktakar ekki færir um að vinna verkið, þá væri einnig sá möguleiki fyrir hendi að fela það erlendum verktökum. Milligöngu í þessu efni, ef til ágreinings kæmi, ættu íslenzk stjórnarvöld að hafa, exx ef sú milliganga leiddi ekki til samkomulags, þá væri sú leið til — og sú ein, sagði hæstv. ráðherra, að neita að veita leyfi til framkvæmdar verksins. Ef það væri ekki gert, skildist mér, mætti gera ráð fyrir því, að verkið gæti orðið falið erlendum verktökum.

Ég verð að segja, að eftir þessar upplýsingar hæstv. ráðh. virðist mér það fjarri, að svo tryggilega sé um hnútana búið í þessu efni sem upphaflega hefur verið látið í veðri vaka. Mér virðist fullkomin óvissa um það, hvort það verður úr því í framkvæmdinni, þrátt fyrir það sem segir í skýrslu hæstv. ráðherra, að íslenzkum verktökum séu tryggðar þessar framkvæmdir, það megi á ýmsan hátt fara fram hjá þeim ákvæðum, skapa ágreining, þar sem enginn fullgildur úrskurðaraðili er til, sem getur fellt lokaúrskurð í málinu, a. m. k. ekki íslenzkur aðili.

Að því er snertir fyrirspurn um þjálfun íslenzkra manna til að taka við störfum, gæzlu og umsjón mannvirkja, störfum á radarstöðvum og annað slíkt, þá upplýsti hæstv. ráðh. beinlínis, að það, sem ákveðið hefði verið um þjálfun í þessu efni, tæki alls ekki til starfsmanna á radarstöðvunum, þær væru undanteknar í þessu efni og það væri ætlunin, skildist mér, að þjónustan þar yrði innt af hendi af erlendum mönnum, og sama skildist mér einnig gilda um fjarskiptastöðvarnar í Grindavík, á Miðnesi og loftskeytastöðina á Stapanum. Þetta veldur mér nokkurri undrun. Ég hafði talið og fæ ekki séð annað en að svo til öll störf — ef ekki öll — á þessum stöðvum ættu að geta verið unnin af íslenzkum mönnum, sem þyrftu ekki neina sérstaka hernaðarþjálfun. En skoðun okkar Alþýðuflokksmanna og það, sem ég hefði viljað vona að hæstv. ráðh. hefði viljað stefna að í sinni samningaviðleitni, er sú, að þannig beri að greina á milli, meðan varnarsveitir eru í landinu, að öll þau störf, sem eru ekki hernaðarlegs eðlis, ættu að vera í höndum Íslendinga, en eingöngu sú hernaðarfræðilega hlið varnaraðgerðanna væri í höndum erlendra manna, og það er tvímælalaust sú skipting í þessu efni, sem allur þorri Íslendinga telur sjálfsagða og það eina, sem hægt er við að una, — allt það, sem getur fallið undir borgaralegt starf, verði falið Íslendingum, en hitt eitt verði í höndum varnarsveitanna erlendu, sem útheimtir hreina hernaðarlega þjálfun og kunnáttu. Mér eru það því vonbrigði, að ekki hefur áunnizt meira í þessu efni en hæstv. ráðh. gerir grein fyrir.

Ég spurðist einnig fyrir um það, hvort rætt hefði verið um tolla á áfengi og tóbaki og slíku, sem inn er flutt til verkamanna og varnarsveitanna á Keflavíkurflugvelli, hvort rætt hefði verið um vegaviðhald og kostnað af því og hver ábyrgðist vinnulaunagreiðslur, sem hefðu ekki verið inntar af hendi, ef Hamilton færi, og við því fékk ég engin svör.

Loks spurðist ég fyrir um það og mæltist til þess við hæstv. ráðh., að hann léti birta þær reglur og það samkomulag eða samninga, sem gert hefði verið í þessu efni, bæði heildarsamning og reglur um einstök atriði. Hæstv. ráðh. veitti engin svör við þessu. Það gefur mér tilefni til fyrirspurnar, sem ég vænti að mundi ekki þurfa að bera fram, en sé mig, eins og málinu nú er komið, nauðbeygðan til að spyrjast fyrir um, og sú fsp. er þá á þessa leið: Hefur hæstv. ráðherra gert nokkurn formlegan, skriflegan samning um þessi efni við stjórn Bandaríkjanna, eða hefur hann ekki gert það? Mér virðist sú leynd og hula, sem yfir þessu er, benda sterklega til þess, að hér sé í raun og eru ekki um samninga að ræða, ekki endurskoðun á varnarsamningnum frá 1951, ekki nýjan samning, og enn hef ég ekki fengið upplýsingar um, að sérsamningar hafi verið gerðir um ákveðin atriði. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðh., — liggur við, að ég megi biðja afsökunar á að þurfa að spyrja svona: Hefur verið gerður samningur, heildarsamningur eða samningur um breytingar á eldri samningi, eða samningar varðandi einstök atriði hans, eða hafa slíkir samningar ekki verið gerðir? Er það, sem hæstv. ráðh. er hér að segja okkur um fyrirætlanir sínar í þessu efni eða hvað koma skuli, einhliða yfirlýsingar frá honum, sem hann hefur fengið samþykki hins samningsaðilans til að mega birta, eða er hér um samning að ræða, eins og allir höfðu búizt við, þegar þessar viðræður voru teknar upp, og eins og hæstv. ráðherra hefur alltaf talað um, þegar hann hefur talað um samkomulags- og samningsviðleitni? Um þetta vildi ég óska að fá alveg skýr og ákveðin svör.

Í sambandi við þetta vil ég svo minna á það, sem ég margsinnis hef spurt um og hæstv. ráðh. hefur aldrei svarað, og það er: Hvað fór ríkisstj. fram á í þessum samningaviðræðum við Bandaríkjastjórn, sem hún fékk ekki fram? Hvað fóru íslenzk stjórnarvöld fram á umfram það, sem hæstv. ráðh. nú hefur greint frá að samkomulag hafi náðst um? Fór hæstv. ríkisstj. fram á það, að þegar búið væri að þjálfa Íslendinga til að taka við þeim störfum, sem greint hefur verið, þá yrði uppsagnarfresturinn styttur, ef ekki spilltist útlitið í alþjóðamálum? Fór hæstv. ráðh. fram á það, að íslenzkir menn yrðu þjálfaðir til þess að taka við þjónustu á radarstöðvunum? Hefur ráðh. nokkuð minnzt á það, að tollfrelsi væri afnumið á algerum óþarfavörum, sem fluttar eru inn til varnarliðssveitanna og verkamanna á Keflavíkurflugvelli? Þetta er ákaflega þýðingarmikið fyrir Alþingi að vita, hvað reynt hefur verið í þessu efni og hverjar undirtektirnar hafa verið. — Ég sé á hæstv. fjmrh., að það léttist á honum brúnin, þegar ég spyr um tollana á áfenginu og tóbakinu. (Fjmrh.: Ég var að segja við sessunaut minn, að það væri gaman að vita, hvort hv. þm., sem hefur verið að tala, teldi sígarettur óþarfa.) Það er dýr munaður, mundi ég segja, mjög dýr munaður.

Niðurstaða mín verður því sú: Það er enn í fullkominni óvissu, að hve miklu leyti Íslendingar taka í sínar hendur framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og í sambandi við hann. Það er enn óvissa um það, til hverra starfa Íslendingar verða þjálfaðir, að öðru leyti en því, að það er vitað, að það er ekki ætlazt til, að þeir verði þjálfaðir til að taka við rekstri radarstöðvanna. Það er leyndarmál enn, með hverjum hætti reglurnar um ferðir varnarliðsmanna utan svæðanna eru, að því er snertir fjölda þeirra manna, sem útgönguleyfi fá hverju sinni. Uppsagnarfresturinn er óbreyttur eins og í núgildandi samningi og ekki upplýst, hvort farið hefur verið fram á, að hann yrði styttur.

Ég verð því að segja það, að ég tel niðurstöðurnar af þessum samningaviðræðum, samkomulagstilraunum hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnar Bandaríkjanna, gersamlega ófullnægjandi. Ég get ekkert um það dæmt, hvort þetta er vegna þess, að slælega hafi verið fylgt eftir málinu af Íslands hálfu og ekki bornar fram þær kröfur, sem ég hefði talið sjálfsagt fyrir mitt leyti að fram hefðu verið bornar, eða hvort hér hafi strandað á andstöðu hins samningsaðilans. En niðurstaðan er sem sé að mínum dómi gersamlega ófullnægjandi.

Alþýðuflokkurinn lítur einnig svo á, — og það er ástæðan til þess, að við þingmenn hans höfum borið hér fram till. um endurskoðun varnarsamningsins með þeim hætti, — að nú skuli leitað til ráðs Atlantshafsbandalagsins og það látið gefa grg. um ástandið í heiminum nú og rökin fyrir því, að nauðsyn sé að hafa hér sveitirnar áfram. Þessi tími sé jafnframt notaður til þess að reyna að knýja fram þær breytingar, sem drepið er á í þáltill. okkar, en fáist það ekki, áður en þeir sex mánuðir eru liðnir, sem gert er ráð fyrir í samningnum, þá sé málinu fylgt eftir á þann hátt að segja samningnum upp samkv. ákvæðum 7. gr. og taka á sig þá áhættu, sem því kann að fylgja. Ef á þeim 12 mánuðum fengjust þeir agnúar sniðnir af samningnum, að hann gæti talizt nokkurn veginn viðunandi af Íslands hálfu og ástandið í alþjóðamálum talið svo ískyggilegt, að ekki væri vert að láta sveitirnar hverfa burt, þá mætti að sjálfsögðu athuga með nýjan samning á þeim grundvelli.

Loks vil ég leyfa mér að endurtaka þessa nýju fyrirspurn mína til hæstv. ráðh. um það, hvort verður hafi verið um þau efni, sem hér hefur verið rætt, formlegur, skriflegur samningur við stjórn Bandaríkjanna, annaðhvort heildarsamningur, sérsamningar um einstök atriði eða ákveðnar reglur, sem báðir aðilar hafi fallizt á og skrifað undir.