03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég var einn af þeim, sem tóku þátt í samningagerð eða endurskoðun á þeim samningum, sem fyrir lágu milli Bandaríkjanna og Íslendinga, og vegna þess að það hefur verið nokkuð um þessa samningagerð rætt, taldi ég rétt að segja nokkur orð um þá breytingu, sem gerð var frá því, sem áður var.

Það var spurt um það hér af hv. 4. þm. Reykv., hvort samningurinn, sem gerður hefði verið, væri venjulegur samningur, sem báðir aðilar skrifuðu undir, eins og stundum er gert í milliríkjasamningum, eða hvort þetta væri ekki raunverulegur samningur. Nú veit þessi hv. þm., að milliríkjasamningar eru gerðir með ýmsu móti og eru jafngildir, með hverjum hætti sem gert er. Samningurinn, sem var gerður hér 1951, var gerður með þeim hætti, að hingað komu fulltrúar frá Bandaríkjunum, sem sömdu við íslenzka aðila, og síðan munu hafa skrifað undir samninginn utanríkisráðherra og sendiherra Bandaríkjanna. Aftur á móti var samningurinn, sem gerður var hér 1941, gerður með nótuskiptum, þar sem skýrt er frá því, hvað farið er fram á, og síðan svarað, hvað fallizt er á, og svo um leið staðfest frá hinum aðilanum, að hann sé því samþykkur. Þannig koma samhljóða nótur frá báðum aðilum, sem verða þá jafngildar og samningur. Þannig var samningurinn 1941, þegar Bandaríkjaher kom hingað, og var það jafngildur samningur og samningurinn 1951, þó að það væri gengið frá honum með öðrum hætti. Þó að deilt sé um það, hvort herinn hefði átt að koma hingað, efnislega, var samningurinn 1941 mjög hagkvæmur fyrir Íslendinga, eins og hann líka reyndist í styrjöldinni. Það, sem gerðist núna, var, eftir því sem ég bezt veit, nótuskipti, sem fóru fram milli sendiherra Bandaríkjanna og utanríkisráðherra.

Það er minnzt hér á tolla og tollaeftirgjafir, sem Bandaríkjamenn fái á sígarettum og öðrum vörum, sem þeir flytja hingað inn til neyzlu handa hernum. Að sjálfsögðu skýrir hæstv. utanrrh. frá því. En ef ég man rétt, þá var skýrt frá því hér á Alþingi, hvað það yrði, sem farið yrði fram á við Bandaríkjamenn í þeim samningum, sem fyrir dyrum stóðu; og ég man ekki til þess, að nokkur maður minntist þá á það eða óskaði eftir því, að farið yrði fram á, að þeir greiddu toll af þeirri vöru, sem þeir flyttu hingað inn til neyzlu handa hernum. Ég man ekki eftir því, það kann að vera misminni. En það var einmitt skýrt frá því hér á Alþingi af hæstv. utanrrh., hvað mundi verða farið fram á, og ég hygg líka, að því sé nú svo háttað, að her greiði hvergi toll af þeim vörum, sem hann flytur inn, þegar hann er í öðru landi og telur sig vera þar með þess lands samþykki, og náttúrlega því síður, ef hann er það ekki. Ég hygg, að það sé ekki hægt að henda á neitt fordæmi þess, að þannig sé; og þó að kannske dragi ekki mikið um þessa tolla, sem hér eru, þá er það eðlilegt, að það sé á því nokkur tregða, að sú regla sé tekin upp hér, ef hún gildir hvergi annars staðar, vegna þess að það mundi draga sjálfsagt nokkuð mikinn dilk á ettir sér.

Það eru annars þau atriði, sem mest hefur verið rætt um, sem ég ætla að gera hér aðallega að umtalsefni.

Það er mikið um það talað nú, að framkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli og aðrar hernaðarframkvæmdir í landinu raski jafnvæginu á vinnumarkaðinum í landinu. Ég hef ferðazt talsvert um landið núna s. l. sumar, og það er ekki hægt að neita því, að þessi umkvörtun á sér stað og það nokkuð víða. Þess gætir nokkuð, að fólk vill fremur fara til Keflavíkur og vinna þar létta vinnu heldur en vinna við okkar framleiðslustörf, sem eru tiltölulega erfið, ýmis af þeim a. m. k. En því er nú þannig háttað, að þetta breytist furðulega fljótt hjá okkur í þessu landi. Það er um hálft þriðja ár síðan hér var atvinnuleysi, og a. m. k. fyrir tveimur árum bar þá kröfu hæst í þessu landi, að hingað kæmu ekki erlendir verkamenn, vegna þess að þeir tækju vinnuna frá íslenzkum verkamönnum, sem hefðu hennar fulla þörf, og þessi krafa kom ekki aðeins fram hér í Reykjavík, hún kom fram á fundum víðs vegar um land. Svo skyndilega breytast nú viðhorfin. En hvað sem því liður, þá er nú þannig háttað, að í samningnum, sem núna liggur fyrir, á að taka fullt tillit til íslenzkrar framleiðslu, og ríkisstj. hefur samkv. þeim samningi, sem fyrir liggur, fullt vald til þess að takmarka það vinnuafl, sem til Keflavíkur fer.

Ég veit, að ríkisstj. er í verulegum vanda með þetta atriði, því að enn þá eru kvartanir sums staðar úti á landi yfir því, að ekki sé nægileg vinna. Og það munu þeir hv. þm., sem hér eru, þekkja, a. m. k. þekki ég til þess, sem eins og ég sagði áðan hef ferðazt út um land í sumar talsvert og það nýlega og orðið fyrir sams konar kvörtunum. Það er þess vegna vandi að stilla þessu í hóf. En eins og upplýst hefur verið hér í þessum umr., er 600 manns færra í vinnu á Keflavíkurflugvelli en áður var. Og það leynir sér ekki fyrir neinum, að sú vöntun, sem núna er á verkafólki til ýmissar vinnu, — ég ætla ekki að segja, að hún stafi ekki að einhverju leyti af því, að margir vinna á Keflavíkurflugvelli, en hún stafar ekki sízt af því, að það er meira byggt í Reykjavík en hefur átt sér stað í mörg ár. Og sennilega vita hv. þm., að það er þegar búið að kaupa fólk úr öðrum atvinnugreinum í byggingarnar í Reykjavík; m. a. eru húsasmiðir keyptir út af verkstæðunum með hærra kaupi.

En hvað sem því líður, þá er þetta atriði samningsins með þessum hætti, sem ég hef skýrt frá og hæstv. utanrrh. raunar skýrði frá í gær. Og ég er satt að segja þeirrar skoðunar, að eins og gengið er frá þessum samningum núna, ef þeir eru framkvæmdir, sem ég efast ekkert um, þá verði erfitt fyrir okkur að hafa her hér í landinu, þannig að ekki verði okkur að verulegu tjóni, ef ekki er hægt að ráða við það samkvæmt þeim samningum, sem núna liggja fyrir. Um þetta atriði hef ég gefið þær upplýsingar, sem ég tel að séu nægilegar, og skal ekki fara fleiri orðum um það.

Hver ræður því, hvað Íslendingar framkvæma og hvað þeir teljast hæfir til að gera? Það er sennilega flestum kunnugt, sem hér eru inni, að áður réð verkfræðingadeild hersins því, hvað Íslendingar framkvæmdu og til hvers þeir teldust hæfir. Og þetta er það, sem þeir hafa haldið fram að gert sé í öllum löndum, verkfræðingadeild hersins bæri ábyrgð á framkvæmdunum, að þær væru rétt gerðar og öruggar, og þeir gætu ekki falið öðrum en verkfræðingadeild hersins neins staðar að skera úr um það atriði. Það er rétt að skýra frá því hér, því að vitanlega er nauðsynlegt að ræða öll þessi mál eins opinskátt og frekast er unnt, að um þetta var verulegur ágreiningur. T. d. býst ég við, að fáir muni verða nokkuð undrandi yfir því, þó að sé nokkur ágreiningur um það, hvort við Íslendingar séum eins og sakir standa hæfir til þess að taka að okkur malbikun, sem þarf að þola nokkur hundruð gráðu hita og er að því leyti nokkuð sérstakt verk. Ég sé, að einn þm. skrifar það upp, þegar ég nefni nokkur hundruð gráðu hita. Á völlum, sem þrýstiloftsflugvélar fljúga um, er hitinn nefnilega það mikill, um leið og þær taka sig á loft, að það skiptir nokkrum hundruðum gráða, sem völlurinn þarf að þola. Við sjáum það hér í Reykjavík og því var haldið fram einu sinni af forseta bæjarstjórnarinnar, að malbikun væri hér á tilraunastigi, og óneitanlega er það þannig, að þegar við förum hér um göturnar, hvort sem það er í Reykjavík eða í nálægum kaupstöðum, þá hugsum við oft um þessi orð og komumst að þeirri niðurstöðu, að þau muni vera allt of sönn. Eitt af því, sem gert var með þeirri tækniþjálfun, sem skýrt hefur verið frá að átt hafi sér stað, er að koma því til vegar, að Íslendingar gætu tekið að sér þessa malbikun.

En hvað sem því líður, hvaða verk Íslendingar geta tekið að sér eða ekki, þá var það skilið eftir í samningunum óákveðið, eins og hv. 4. þm. Reykv. minntist hér á, hvor aðilinn réði, ef ágreiningur verður. Það er það rétta, það er skilið eftir í samningunum. En það var ákveðið, að í nóvember og desember ár hvert fari fram athugun á því, hvað talið er að íslenzkir verkfræðingar geti leyst af hendi. Fundur um það verður núna á næstunni, og ef ágreiningur verður, þá hafa Íslendingar, vegna þess að þetta er ákveðið fyrir árið fyrir fram, tvær leiðir, ef þeim sýnist, að óbilgirni sé sýnd. Þeir geta neitað að láta framkvæma verkið. Þeir geta neitað að samþykkja verkið, því að það þarf að samþykkja hvert verk af íslenzku ríkisstj. Og þeir geta neitað að láta vinnuafl til þess að framkvæma það. Þannig er um þetta atriði. Það er raunverulega að forminu til óákveðið, hvor ákveði það, en valdið — og það gera samningamenn Bandaríkjanna sér fyllilega ljóst — er að þessu leyti í höndum Íslendinga og með tvennum hætti fullkomlega.

Það breytist nokkuð skyndilega allt saman hjá okkur. Það var talið í fyrra, að herinn væri ágætur, það væri Hamilton, sem væri aðalmeinið í þessu öllu saman. Og ég vil ekki neita því, að eftir því sem ég kynntist þessu betur, komst ég að þeirri niðurstöðu, að þessar raddir höfðu vissulega mikið til síns máls. Þau atriði, sem var fundið að og menn eru eiginlega búnir að gleyma núna, voru þau, að verkamennirnir, sem Hamilton hefði í vinnu, tækju vinnu frá Íslendingum og útlendingar stjórnuðu Íslendingunum með ókurteisi. Ég býst við, að það hafi nokkuð átt sér stað, að þar hafi verið misskilningur á milli stjórnenda og verkamanna. Einnig var sagt, að þeir greiddu ekki rétt kaup, — það voru um þúsund kærur frá Íslendingum út af því, að þeir hefðu ekki fengið rétt kaup, — útlendingarnir hefðu meira frelsi en herinn og kæmu hingað til bæjarins. Þetta var alveg rétt. Þeir höfðu það, og þeir voru mjög áberandi hér á götunum, og ýmislegt, sem hernum var kennt, var áreiðanlega þessara manna sök. Þeir höfðu hærra kaup en Íslendingar, og þetta olli geysilegum leiðindum, eins og alltaf, þegar misrétti á sér stað, þannig að einn verkamaður er með helmingi hærra kaup en hinn. Þeir höfðu fríðindi til þess að kaupa tollfrjálsar vörur, sem íslenzku verkamennirnir höfðu ekki, og þeir biðu oft í hópum til þess að fá útlendu verkamennina til að kaupa fyrir sig tollfrjálsar vörur, og þetta voru eins og hálfgerðar sníkjur. Allt þetta var fært fram gegn því, að Hamilton væri hér áfram, og ég býst við, að allar þessar kvartanir hafi haft við mikil rök að styðjast.

Nú er það ekkert launungarmál, að það var ekkert auðvelt verk að fá því komið til vegar, að Hamilton færi héðan. Og ég man eftir því, að þegar því var lýst yfir hér í einu blaði, að Hamilton yrði að fara, þá var það tekið sem stóryrði, sem ekki mundi verða staðið við. Nú hefur það fengizt fram, og það er þá talið kannske ekki svo mikils virði. En ég er ekki í neinum vafa um það, að með því, að Hamilton fer héðan með þá útlendu verkamenn, er komið í veg fyrir mikið af þeim ágreiningi á Keflavíkurflugvelli, sem hefur verið alvarlegastur. Og ég er ekki í neinum vafa um, að það er mikil framför frá því, sem áður hefur verið, þegar sá dagur rennur upp, að þeir hætta að vera verktakar hér og stjórna íslenzkum verkamönnum.

Það er spurt um það, hvort Njarðvíkurhöfnin sé nauðsynleg. Ja, það hefur nú verið fundið að því á undanförnum árum alveg sérstaklega, að hergögn skuli hafa verið flutt í gegnum Reykjavíkurhöfn, og því talin fylgja veruleg hætta. Þetta hefur verið ein af aðalumkvörtununum í sambandi við veru hersins, ekki einu sinni, heldur tugum sinnum. Og vitanlega er ekki hægt að neita því, að það er eðlilegast, að þær vörur, sem fluttar eru til hersins, séu fluttar þangað á þennan hátt.

Það hefur verið minnzt á útboðið á framkvæmdinni við að byggja þessa höfn.

Það kann að vera, að það þyki óeðlilegt, þegar um svona stórt verk er að ræða, að sá, sem á að kosta verkið, hafi leyfi til þess að bjóða það út. Ég verð nú að segja það, að ég tel það ekki alls kostar ósanngjarnt. Og ég get lýst því hér yfir, að þegar um var rætt, hvort þetta ætti að leyfa eða ekki, — sem liggur nú náttúrlega í augum uppi að varla er hægt að komast hjá, og það hafa orðið geysilegar þrætur út af þessu t. d. við Spánverja, út af því, hvernig útboðin ættu að fara fram þar vegna framkvæmdanna á Spáni, og þeir, sem eiga að kosta verkið, vilja ekki víkja frá því að geta undir sumum kringumstæðum haft útboð, — þá vil ég lýsa því yfir hér, að þegar var rætt um þetta mál, þá lýstu íslenzkir verktakar því yfir, að þeir væru alveg óhræddir við þessi útboð, því að reynslan hefði sýnt, að þeir gætu boðið lægra en hinir vegna þess, hvað stjórnarkostnaðurinn væri geysilegur við þessi verk hjá Bandaríkjamönnum. Má það gjarnan koma hér fram, vegna þess að þeir tóku það mjög greinilega fram í sambandi við nokkra þrætu, sem varð um það, hvort útboð ætti að fara fram á þessu verki. Þeir skáru alveg úr um það.

Viðkomandi radarstöðvunum er það rétt, að það var sett fram sem krafa, að við tækjum radarstöðvarnar að öllu leyti í okkar hendur, og það var eitt af því, sem var sett fram hér í þinginu. Þegar sú krafa kom fram, var það upplýst, sem ég álit að hafi verið réttar upplýsingar, þó að ég sé vitanlega ekki fróður um þau mál, að enn þá eru radarstöðvarnar algerlega tæknilegt leyndarmál, sem herinn lætur ekki aðra fá í hendur að gæta. Við erum ófróðir um flest af þessum atriðum, en við erum a. m. k. fróðir um ýmislegt, sem hefur verið skrifað um þau njósnamál, sem eiga sér stað hér í nálægum löndum, og ég býst við, að flestir séu þess kannske minnugir, að eitt stærsta njósnamál í Bandaríkjunum er út af radarstöð norðarlega í Bandaríkjunum. Það er talið, að þaðan hafi síazt út leyndardómur um það, hvernig viss hluti af radarstöðvunum sé gerður. Hefur það orðið mikið átakamál þar í landi, og stór nefnd hefur haft sérstaklega með rannsóknina að gera, þannig að það er auðséð og þarf ekki að færa þessa sönnun fram, til þess að öllum alþm. sé ljóst, að þessi tækni er hernaðarleyndarmál. En 1/3 af þeim, sem gæta stöðvanna, er ekki tæknilega menntaður, og það var auðvelt að fá það fram, að 1/3 af þeim, sem gættu stöðvanna, væri Íslendingar, og er sjálfsagt auðvelt að fá það nú þegar. En ég segi fyrir mig, að ég var alveg hiklaus í því að mæla með því, að það væri ekki einn einasti Íslendingur látinn fara inn í radarstöðvarnar, fyrst ekki var hægt að hafa þar eintóma Íslendinga. Ég álít það engan ávinning fyrir okkur að blanda þar saman Íslendingum og útlendum mönnum, og þess vegna var valin sú leið, að þangað fer enginn inn, en stöðvarnar verða lokaðar. Þær verða lokaðar, af því að þær eru úti í fámenninu. Það er vitanlega hægt að taka upp síðar samninga um það, hvort við tökum radarstöðvarnar að öllu leyti í okkar hendur.

Það hefur verið spurt um það hérna, hvaða yfirvöld þekki reglurnar um útiveru hermanna af vellinum og hverjum sé falin framkvæmd. Mér er það persónulega kunnugt og þyrfti vitanlega ekki að vera að svara því, að lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli, sem ber ábyrgð á öllum framkvæmdunum, hafa verið tilkynntar reglurnar. Og vitanlega er það hans að sjá um, að þeir aðilar, sem þurfa að annast löggæzluna, fái að vita um reglurnar. Dómsmrh. — í þessu tilfelli er utanrrh. dómsmrh. — tilkynnir lögreglustjóranum í Reykjavík: Þetta er það, sem á að framkvæma. Síðan tilkynnir lögreglustjórinn þeim undirmönnum sínum, sem eiga að framkvæma verkið, hvaða reglur gildi. Það er ekki farið til lögregluþjónanna, heldur til þess manns, sem ber ábyrgð á framkvæmdinni, og það hefur vitanlega verið gert.

Annars finnst mér þessar umræður, sem hér hafa farið fram, vera mjög hóflegar, og þannig ættum við að geta rætt um utanríkismál, þó að við séum ekki sammála um þau, — nema eitt atriði, þ. e. reglurnar um ferðir út af vellinum. Þeim tókst hér, sem töluðu um þetta, að fá einhverja til þess að hlæja uppi á pöllunum í gær út af þessu, að þetta sé leyndarmál hersins. Þá ætla ég að segja ykkur annað. Það er leyndarmál hersins, alveg strangt leyndarmál hersins, hvað það eru margir hermenn hér á Keflavíkurflugvelli. Það hefur verið lofað að segja alls ekki frá því. — Já, það er ágætt, að einhverjir geta hlegið. En samt sem áður hefur verið skýrt opinberlega í útvarpsumræðum frá þessu leyndarmáli. En menn þurfa ekki að láta sér detta það í hug, áð utanrrh. skýri frá þeim skjölum, sem eru leyndarmál, hvað mikið sem síast út um það frá öðrum. Náttúrlega getur þingmaður talað um það hér í útvarpsumræðum, en utanrrh. getur ekki gert það. Og ég vil nú spyrja hv. þingmenn, sem hér eru og brosa mikið að því, að það skuli vera leyndarmál hersins, hvað margir fari hér út af Keflavíkurflugvelli: Vilja þeir þá ekki gera svo vel og upplýsa mig um það, hvar í herstöðvum — og þær eru nokkur hundruð hér ekkert langt í burtu, á meginlandi Evrópu eru margar og í Englandi og Frakklandi og víðar — eru birtar opinberlega reglur um ferðir hersins, litlar eða stórar, leyfi eða annað, nokkurn tíma? Þið getið brosað að því, ef þið viljið, það er bara stefnumál að birta aldrei neitt um ferðir hers, hvort sem það eru smáar eða stórar hreyfingar. Ég vil gjarnan, að þeir, sem eru að gera þetta að svona miklu umtalsatriði, segðu mér frá því, hvaða reglur gilda um þetta annars staðar, því að þær eru sjálfsagt birtar. Annars hefur verið sagt frá því, hvað mikið fer út af Keflavíkurflugvelli daglega af mönnum núna undanfarinn hálfan mánuð, þetta frá 50 niður í 7. Og samkv. þeim reglum, sem áður giltu, er það núna 1/5 af því, sem var áður, það hefur minnkað niður í einn fimmta. Og það er hægt að skýra frá því, að maður, sem er hér venjulegan tíma, getur farið til Reykjavíkur einu sinni eða tvisvar. Þannig eru nú ferðirnar teknar. En annars er það einkennilegt, að það sé aðalatriðið að fá að vita um reglurnar, fyrst þeir, sem eiga að framkvæma þær, vita um þær. Er ekki aðalatriðið að fá þær framkvæmdar, en ekki að fá tölurnar? Og er það þá raunverulega meint, þetta mikla umtal og umhyggja, sem er út af því að fá að vita um reglurnar? Er ekki hitt aðalatriðið, að ferðunum fækki og að þeir, sem eiga að framkvæma reglurnar, viti um, að þær á að framkvæma, og menn sjái það í framkvæmd?

Það hefur verið fundið að því, að herlögreglan sé hér. Það hefur alltaf verið talið og reynslan er sú, að það er stór ávinningur að hafa herlögregluna hér íslenzku lögreglunni til aðstoðar. Og ég býst við, að sá lögreglustjóri og bæjarfógeti, sem hér er úr hv. Ed., viðurkenni, að það séu að því stór þægindi að geta kallað á hana til aðstoðar íslenzku lögreglunni.

Því er haldið hér fram, að hér séu fimm nýjar herstöðvar. Einn þm. lét sér þau orð um munn fara. Í þeim upphaflega samningi, sem gerður var milli Bandaríkjanna og Íslendinga, voru allar radarstöðvarnar ákveðnar, svo að þetta er algerlega ósatt. Það eina af þessu, sem hefur ekki verið ákveðið, er Njarðvík, sem raunverulega er ekki nein stöð, heldur höfn þess staðar, Keflavíkurflugvallar, sem þar er fyrir.

Það er mikið talað um, að bandarísk hjón, sem hér dveljist, fái hér húsnæði. Ég álít, að það mál eigi að taka til athugunar. Ef það er mjög útbreitt, þá er það atriði, sem þarf að leiðrétta.

Talað er um, að Keflavíkurflugvöllur sé fyrir sprengjuflugvélar og stærð hans miðuð við það. Ég er ekki hernaðarsérfræðingur, eins og ég hef tekið fram og þarf reyndar ekki að taka fram, en sérfróðir menn segja það a. m. k., að til þess að hafa fullkominn árásarflugvöll þurfi meira en einn flugvöll, og um það ber held ég flestum saman. Hins vegar er það vitað mál, að þessi flugvöllur er bæði fyrir þrýstiloftsflugvélar og einnig fyrir sprengjuflugvélar, og þeir, sem muna þær skýrslur, sem gefnar voru, þegar Reykjavíkurvöllur var afhentur eftir seinustu styrjöld, ættu að gera sér ljóst, að hér þurfti a. m. k. í seinustu styrjöld á sprengjuflugvélum að halda, því að það var gefin upp sú tala kafbáta og óvinaskipa, sem hefðu verið eyðilögð af sprengjuflugvélum, sem haldið var út af Reykjavíkurflugvelli, og það voru ekki neitt smáar tölur. Það er því alveg eðlilegt, að það sé miðað við svipaða starfsemi frá þessum velli og áður, en radarstöðvarnar benda óneitanlega í þá átt, að hér sé meira um vörn að ræða, eins og tekið er fram í okkar samningum.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég álít, að það sé vel farið, að hér hafa tekizt umr. um þessi mál, og það er háttur flestra þjóða að verja verulegum tíma til þess að ræða sín utanríkismál, og þannig þarf það að vera, án þess að það komi um of til flokkslegra sjónarmiða.

Það, sem við þurfum að mínu áliti að gera og beita okkur fyrir, er það, að framkvæmd þessara mála fari þannig úr hendi, að dvöl hersins verði okkur sem minnst tilfinnanleg og ekki til tjóns. Og ég hika ekki við að segja það, eins og ég sagði í upphafi, að með þeim nýju viðbótarsamningum, sem gerðir hafa verið, er stefnt mjög mikið í þá átt. Og þegar talin eru upp þau atriði, sem samið hefur verið um, og allur samningurinn athugaður, þá geri ég ráð fyrir, að flestir muni komast að þeirri niðurstöðu, að málin eru í meginatriðum í höndum Íslendinga. Það er ekkert smáræði t. d. að fá Hamilton héðan burt og hefði ekki verið talið fyrir hálfu ári eða tveim árum.

Það hefði ekki verið talið neitt smáatriði, að öll verk, sem urðu unnin á vellinum, eða flestöll verk verði færð yfir í íslenzkar hendur og eingöngu íslenzkur vinnukraftur vinni við það. Það hefði ekki verið talið neitt smáatriði, að Íslendingar gætu ráðið því með tilliti til sinnar eigin framleiðslu, hvað margir menn mættu vinna á vellinum. Það hefði ekki þótt neitt smáatriði, eins mikið og hefur verið talað um það, að kvenfólk og ungar stúlkur færu mikið inn á völlinn og það væri til mikillar vansæmdar fyrir Íslendinga o. s. frv., að þær færu þangað, sem ég skal sízt af öllu draga úr, að rétt er, — það hefði ekki verið talið neitt smáatriði, að vellinum er algerlega lokað og Íslendingar setja sjálfir reglur um það, hverjir fá að fara þarna inn, og íslenzkir verðir eru þarna við, völlurinn girtur og komið í veg fyrir þetta. Það er verulegt atriði, að ferðir varnarliðsmanna eru minnkaðar á þann hátt, sem ég hef skýrt frá, og ég geri ekki ráð fyrir því, að þeir, sem fara hér um, hvort sem það er að degi eða kvöldi, verði nú seinustu mánuðina yfirleitt mikið varir við ferðir varnarliðsmanna hér um bæinn. Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég a. m. k. sé ekki svo vel, að ég verði stórlega var við það. Radarstöðvunum í fámenninu verður lokað.

En þó að þetta sé þannig, þá vitanlega þurfum við að halda áfram að athuga það gaumgæfilega, á hvern hátt framkvæmdin getur farið enn þá betur úr hendi og að hvaða leyti reynslan sýnir, að breyta þarf einu og öðru.

Og ég vil endurtaka þau orð, sem ég sagði hér fyrir nokkru, að við þurfum að sjálfsögðu jafnhliða í þessum varnarmálum að gá til veðurs. Við verðum að játa það með gleði, að nú horfir friðvænlegar en horfði, þegar herinn kom hingað, stórum friðvænlegar. Hiti Berlínardeilunnar var þá enn þá í loftinu, og Kóreustyrjöldin stóð sem hæst. Það var litið svo á, að það væri jafnvel á mörkunum, hvort gerð yrði árás á Kína, sem átti sjálfboðaliðana í Kóreu, og sá herforingi, sem stjórnaði Kóreustyrjöldinni, gerði það að till. sinni. Menn voru yfirleitt sammála um það, að ef af þeirri árás yrði, væri líklegt, að það mundi leiða til heimsstyrjaldar fyrirvaralaust. A. m. k. skýrðu mörg blöð frá því, að Pekingútvarpið væri ekki spart á að skýra frá því, að ef Bandaríkjamenn réðust með sprengjuárásum á kínverskar borgir, þá væri það loforð Rússa að skerast í leikinn, kínversku þjóðinni væri óhætt að treysta því, að það yrðu ekki gerðar neinar árásir, því að því yrði svarað þannig. Hvað sem öllum slíkum áróðri líður í útvarpi, þá a. m. k. stóð þannig á, að þenslan var það mikil, að menn töldu ýmsir, hvort sem þeim hefur yfirsézt eða ekki, að styrjöld gæti skollið á fyrirvaralaust, og ég ætla ekki að rekja þetta nánar. En við munum öll þá spennu, sem orsakaðist einnig út af styrjöldinni í Indókina. Það hefur margt óneitanlega breytzt, það verðum við að athuga, og með því verðum við að fylgjast.

Ég lít svo á, að sú stórvægilegasta breyting, sem nú er sennilega að gerast, sé sú sameining Vestur-Evrópu, sem virðist vera í aðsigi. Ef sú sameining tekst, sem nú lítur út fyrir, þá myndast á milli Rússlands og Bandaríkjanna veldi, sem óneitanlega, um leið og það skapar jafnvægi í veröldinni, — a. m. k. að margra áliti, það eru auðvitað deildar skoðanir um það, — skapar varnargarð austan við okkur og að ýmissa áliti hernaðarlegt jafnvægi. Það er nú einu sinni svo, að það er ekki alls kostar skökk líking, sem sumir hernaðarsérfræðingar leyfa sér að taka sér í munn, að styrjaldir hlíta stundum svipuðu lögmáli og veðrið. Þegar háþrýstisvæði myndast og lægðir á öðrum stöðum; þá leitar loftið frá háþrýstisvæðunum í lægðirnar, og þegar hernaðarleg háþrýstisvæði myndast, eins og Japan og Þýzkaland fyrir síðustu heimsstyrjöld, þá er hættan jafnframt yfirvofandi. Og það ósamræmi, sem hefur verið milli styrkleika austurs og vesturs, hefur að margra dómi verið ein hin mesta hætta fyrir friðinn í veröldinni. Ef myndast veldi milli þessara tveggja Golíata, Rússlands og Bandaríkjanna, þá er það a. m. k. að margra áliti líklegt, að það skapi jafnvægi, sem getur skapað útlit fyrir nýtt friðartímabil.

Við þurfum þess vegna að vera stöðugt á verði í þeim efnum, hvað er að gerast. Og það getur vel farið svo um þær deilur, sem núna eru um dvöl herliðsins á Íslandi, og það eru meiri vonir til þess nú en verið hefur, að það deiluatriði sé tímabundið spursmál. Það getur farið svo.

Vitanlega verðum við að taka í öllum þessum athugunum á málunum með mestu gát, og það er alveg augljóst, að samtökin, sem nú eru að hefjast í Vestur-Evrópu, verða að taka á sig stórum fastara form en nú er, áður en til breytinga kemur. En ég tel, að þær breytingar, sem nú eru að gerast í Vestur-Evrópu, séu svo stórvægilegt atriði, að það sé ekki rétt, um leið og við erum að ræða um þessi mál, að láta þess ógetið, hvaða afleiðingar þær geta haft í þessu máli.