03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Str. (HermJ) hefur nú flutt hér alllanga ræðu og komið víða við, minnzt á mörg atriði, sem ástæða væri til að ræða við hann um nokkru nánar. Ég mun nú ekki fara langt út í það, en vil þó víkja lítils háttar að ræðu hans eða fáeinum atriðum úr henni.

Hv. þm. viðurkenndi, að íslenzkum atvinnuvegum stafaði nokkur hætta af herstöðvavinnunni. Hann sagði a. m. k., að það væru margir úti um landsbyggðina, sem kvörtuðu undan því, að herstöðvavinnan hefði ill áhrif á atvinnuvegina, drægi vinnukraftinn frá undirstöðuatvinnuvegunum. Og ég hygg, að það þurfi ekki að hafa mjög náið samband við aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, til þess að vita, að þetta er sízt ofmælt hjá hv. þm. Þetta er vissulega mikið vandræðaástand. En hv. þm. Str. sagði, að í samkomulaginu, sem gert hefði verið í vor við Bandaríkjastjórn, hefði verið ákvæði um að taka fullt tillit til íslenzkra atvinnuvega. Það er að vísu rétt, að í því samkomulagi, sem frá var skýrt í maímánuði s. l., er tekið til orða eitthvað á þessa leið, en hins vegar er þess ekki getið, hvernig þetta er tryggt eða hvernig ætlunin er að tryggja þetta. Það er ekki nóg að flagga með svona heldur óákveðnu orðalagi, heldur þarf í þessu etni miklu meiri aðgerða við.

Hv. þm. viðurkenndi í ræðu sinni, að enginn formlegur samningur hefði verið gerður að loknu fjögurra mánaða samningaþófi, sem fram fór s. h vetur og vor, heldur hefðu ríkisstjórnirnar eingöngu skipzt á nótum um þetta mál, eins og hann orðaði það. Þá er það atriði upplýst, að um þetta liggur ekki fyrir neinn raunverulegur undirritaður samningur.

Þær tilraunir, eða þeir tilburðir, sem hv. framsóknarmenn hafa verið með, síðan þeir tóku nú við yfirstjórn hinna svokölluðu varnarmála, hafa verið gylltir mjög bæði í blaði þeirra, Tímanum, og í ræðum þeirra hér í gær og í dag. Hv. þm. Str. var að tína það til, sem þeir telja að sér hafi helzt orðið eitthvað ágengt í, og það eru þessar reglugerðir, leynireglur og opinberar reglur, leynireglur um ferðir útlendinga, opinberar reglur um ferðir Íslendinga.

Ég efast raunar ekki um það, að þegar hæstv. núverandi utanrrh. tók við því vandasama starfi, sem hann gegnir nú, hafi hann haft hug á því að kippa ýmsu í lag. Framsfl. hafði gagnrýnt mjög harðlega og réttilega framkvæmd þessara mála áður, og ég efa það ekki, að hæstv. ráðh., þegar hann tók við þessu embætti, hefur haft hug á því að fá einhverju komið áleiðis til bóta. En hvernig það hefur tekizt, er annað mál, og ég hygg, að þegar það verður athugað, þá sé það gleggsta sönnun þess, að í raun og veru þýðir hér ekki neitt kák. Það eina, sem hefur verulega þýðingu, er það, að herliðið hverfi héðan af landi brott svo fljótt sem verða má, þ. e. a. s. þegar uppsagnarákvæði samningsins leyfa, að það geti sem fyrst orðið. Þess vegna fagnaði ég því, sem hv. þm. Str., form. Framsfl., sagði í niðurlagi ræðu sinnar. Hann gerði það að vísu með nokkuð óákveðnum orðum, en þó var helzt á honum að skilja, að að því gæti nú dregið, áður en langt um liði, að ástandið í alþjóðamálum yrði þannig, að hægt væri a. m. k. að fara að hugsa til þess að losna við herinn, að vísu með mestu gát, eins og hv. þm. orðaði það nú, en þó fannst honum þetta vera möguleiki, sem ætti að athugast.

Svo voru það nokkur atriði, sem ég þurfti að svara hæstv. utanrrh. Hæstv. ráðh. staðhæfði hér í gær, að ekki hefði verið samið um það við bandarísku herstjórnina að setja Íslendingum reglur um ferðir innan samningssvæða hersins. Það er vel, fyrst svo er. En í því sambandi vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það er alger óþarfi fyrir hann að kippa sér upp við það, þótt bæði ég og aðrir stæðum í þessari meiningu, því að það er hæstv. ráðh. sjálfur, sem hefur gefið þeim orðrómi byr undir vængi. Og ég verð að segja það líka eftir þessa yfirlýsingu hans í gær, að honum ber ekki alls kostar saman við sjálfan sig, hæstv. ráðh. Í blaði ráðh., Tímanum, birtir ráðh. sjálfur 27. maí s. l. samkomulag það, sem gert var í vor við Bandaríkin, og nokkrar skýringar frá eigin brjósti um þetta samkomulag. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) las þetta samkomulag upp í dag, eða það atriði, sem hér skiptir máli, og ég hygg, að það hafi tvívegis verið lesið hér á hv. Alþ. í gær. Í þessu samkomulagi segir skýrum orðum, að um þetta hafi verið gert samkomulag við Bandaríkin eða yfirmann eða menn varnarliðsins hér. Það virðist því upplýst nú, að þessi ummæli hafi ekki haft við rök að styðjast. Og ég verð að segja það eitt, að þó að það sé að vísu leiðinlegt, þegar hæstv. ráðh. ber ekki betur en þetta saman við sjálfan sig, þá vil ég mega vænta þess, að það, sem hann segir nú, sé rétt um þetta efni, að ákvörðun um þessa reglugerð hafi verið tekin einhliða af íslenzkum yfirvöldum, en ekki um það samið.

Hæstv. ráðh. var í gær dálítið úrillur, þegar hann var að svara sumum þeim orðum, sem ég lét falla hér í gær. Ég skil það vel, að það er ekki gaman fyrir hæstv. ráðh. að standa í þeim sporum, sem hann stendur, að vera falið það hlutverk að telja alþjóð trú um, að einhver sérstök og frábær siðabót hafi orðið, eftir að Framsfl. tók við framkvæmd þessara mála. Flokkurinn hafði áður, eins og ég sagði, réttilega gagnrýnt framkvæmd málanna hjá fyrrverandi utanrrh. og Sjálfstfl., og ég tel, eins og ég sagði, sennilegt, að hæstv. utanrrh. hafi gert sér vonir um árangur. En hver hefur árangurinn orðið? Reynslan er þessi: Enn er haldið áfram á sömu brautinni og áður. (menningaráhrifin frá bandaríska hernámsliðinu flæða yfir lítið minna og í sumum tilfellum engu minna en áður. Löglaus útvarpsstöð Keflavíkurflugvallar þeysir spýju sinni yfir æskulýð þjóðarinnar eins og áður. Atvinnuvegirnir gjalda afhroð og tapa næstum því hverjum leik í keppni um vinnuafl við hernámsliðið, nokkurn veginn eins og áður. Og það er ekki einu sinni látið standa við það, sem orðið var. Herstöðvar hafa risið upp í öllum landshornum. Þó að hv. þm. Str. vildi draga úr því, að radarstöðvarnar væru herstöðvar, þá skil ég ekki, hvernig hægt er að kalla þær annað, þar sem þar á að vera nokkurt herlið að staðaldri. Flugbrautir Keflavíkurflugvallar verða enn lengdar, sagði hæstv. ráðherra hér í gær, og hið eina, sem hefur tafið bandaríska höfn í Njarðvík, þ. e. a. s. uppskipunar- eða herskipahöfn, er að sögn hæstv. ráðh. ágreiningur um staðsetningu hennar. En einnig hún á að koma. Þetta tel ég ekki glæsilegan árangur af rúmlega eins árs stjórn Framsfl. á varnarmálunum.

Hæstv. ráðh. sagði hér í gær, að ekki hefði verið um það samið, að Íslendingar byggju sig undir að taka að sér rekstur radarstöðva þeirra, sem eru að risa hér upp. Þær verða því reknar af bandarísku herliði, eins og margsagt hefur verið. Mér þótti gott að fá það upplýst, — ég hygg, að það hafi verið í ræðu hv. þm. Str., — að einnig þessar stöðvar verða afgirtar, og vænti ég, að ekki verði látið dragast að framkvæma það. En ég vil spyrja í þessu sambandi hæstv. utanrrh.: Hefur ekki verið alveg eindregið farið fram á það af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, að Íslendingar tækju við rekstri þessara stöðva, þegar þeir hefðu aðstöðu til, hefðu tækniþjálfaða menn til að gera það? Hv. þm. Str. gat þess í sinni ræðu, að þessu hefði verið hreyft, en um það hefði ekki fengizt samkomulag, og taldi hann, að hér væri um slík hernaðarleyndarmál að ræða — rétt ein, að það mundi verða torvelt að fá þessu framgengt. En ég vil þó, þrátt fyrir þessar upplýsingar, beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hvort þetta er talið alveg vonlaust. Og í því sambandi, ef svo reynist, þá spyr maður gjarnan að því, hvort Íslendingum sé með engu móti trúandi til svo þýðingarmikilla verka. Kannske er það þá rétt spegilmynd af áliti bandarískra hernaðaryfirvalda á því, hvaða hlutverki Íslendingar eiga að gegna í þeirra þágu, að ekki sé hægt að fela þeim gæzlu t. d. radarstöðva, en hins vegar megi svona sæmilega treysta þeim til að annast alla sorphreinsun fyrir herliðið á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg, að það sé eitt nýjasta trúnaðarstarfið þar á vellinum, sem Íslendingum hefur verið falið.

Hæstv. ráðh. vék í gær nokkrum orðum að Frjálsri þjóð, blaði okkar þjóðvarnarmanna, og var ekki sérlega ánægður með blaðið. Ég kippti mér nú ekki mikið upp við það. Blaðið hefur stundum gagnrýnt gerðir hæstv. ráðh. Því miður hefur hann gefið fleiri tilefni til gagnrýni en viðurkenningarorða. Hann kvartaði undan, að blaðið færi ekki alltaf með rétt mál. Það hefur átt sér stað um Frjálsa þjóð, eins og öll önnur landsmálablöð, að flytja missagnir, en öðrum blöðum fremur hefur einmitt þetta blað talið skyldu sína að leiðrétta slíkt, og mætti Tíminn a. m. k. eitthvað af því læra. Og í sambandi við sannsögli og ósannsögli vil ég aðeins skjóta því að hæstv. ráðherra, hvort ekki væri gott fyrir hann og skynsamlegt að taka upp þann sið að áminna dag hvern um sannsögli suma þá pilta, sem hann hefur í þjónustu sinni í utanríkisráðuneytinu, svo að þeir gerðu ekki ráðuneytið að hálfgerðu athlægi hvað eftir annað með því að senda frá sér í tilkynningaformi ýmsa staðlausa stafi, eins og henti þá tvívegis um daginn í sambandi við svokallaðan barnadag Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Það kynni að hafa einhver áhrif.