03.11.1954
Sameinað þing: 9. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þótt tíminn sé næstum liðinn, ætla ég að nota nokkrar mínútur til að svara einstaka fyrirspurnum.

Þeir hafa verið sammála um það, hv. 4. og 8. þm. Reykv., að enginn samningur hafi verið gerður við Bandaríkin. Hv. þm. Str. svaraði þessu og sýndi fram á, að þetta væri misskilningur, því að það færi ekki eftir því, í hvaða formi samningur væri gerður, það væri samningur fyrir því. Það væru engin eyðublöð fyrir slíka samninga, eins og skotið var hér inn í áðan. Auðvitað er þeim heimilt að trúa því, að enginn samningur hafi verið gerður. Ég get ekki að því gert.

Báðir þessir hv. þm. hafa gert mikið veður út af öðru atriði, en það var út af fsp., sem var lögð fyrir mig í gær, hvort reglur um ferðir Íslendinga inn á völlinn hefðu verið gerðar í samráði við herstjórn Bandaríkja, og neitaði ég því. Hv. 4. þm. Reykv. las upp úr Tímanum frá 26. eða 27. maí, að það væri ósamræmi hér á milli. Það getur vel verið, að þeir álíti, að það sé, en það er ekki. Þegar var minnzt á þetta atriði við Bandaríkjamennina, þá sögðu þeir: Þetta er ykkar mál, og við semjum ekki um það — enda voru þeir ekki ánægðir með þær till., sem komu fram frá okkur, svo að reglurnar um ferðir Íslendinga inn á völlinn eru settar einhliða af Íslendingum, án nokkurs tilverknaðar Bandaríkjaherstjórnar.

Því hefur verið haldið hér fram og gert töluvert veður út af því, að það hafi verið fjölgað herstöðvum hér á síðasta ári eða síðan við framsóknarmenn tókum við utanríkismálunum. Það hefur verið skýrt frá því hér áður, að þetta sé ekki rétt. Radarstöðvarnar voru samþykktar áður og tilkynnt um þær. Ég hef ekki gögn hér við höndina til þess að upplýsa nánar um þetta, en mér er sagt frá mjög öruggum heimildum, að þetta sé rétt. Það hefur því ekki verið bætt neinu við það, sem áður var lofað. Það má að vísu telja radarstöðvarnar hernaðarstöðvar, en þær eru a. m. k. ekki árásarstöðvar, því að þær eru settar upp í varnarskyni.

Það hefur líka verið minnzt á það hér og spurt um það, hvort við höfum óskað eftir því að taka að okkur rekstur stöðvanna. Því hefur verið svarað að nokkru leyti. Hv. þm. er ekki alveg ljóst, um hvað hann er að tala, þegar hann vill, að Íslendingar taki að sér rekstur stöðvanna. Ég get upplýst það, að í eina slíka radarstöð þarf 30–50 þaulæfða sérfræðinga, til þess að stjórna þeim tækjum, sem þar eru notuð. Vitanlega höfum við ekki slíkan mannafla fyrir hendi. En eins og ég sagði í gær, hefur ekki verið um þetta samið. Þetta mál liggur alveg niðri enn þá. En hitt er rétt, að við kusum ekki, eins og hv. þm. Str. upplýsti hér, að semja um það, að Íslendingar tækju að sér einhver undirtyllustörf á þessum stöðum, heldur kusum við til þess að forðast sambýli á stöðvunum að krefjast þess, að þær væru algerlega lokaðar. Þar með segi ég ekki, að það sé vonlaust, að Íslendingar geti tekið að sér þessar stöðvar. Ég skal ekkert um það segja, að hægt verði að þjálfa svo marga menn hér, en heldur lízt mér þunglega á það, því að það tekur mikinn tíma að þjálfa menn til slíkra starfa. Mér er sagt af kunnugum, að það sé tveggja ára nám, til þess að geta farið með tækin.

Þá vildi ég svara hv. 4. þm. Reykv. því, að ég hafi ekki upplýst um, hvað við hefðum farið fram á við Bandaríkjamenn. Það er alveg rétt, ég gerði það ekki í ræðu minni í gær. En ég vil geta þess, að ég hef tvisvar sinnum gert það hér á hv. Alþingi. Í ræðu 19. nóv. s. l. skýrði ég nákvæmlega frá því, hvaða kröfur við gerðum til Bandaríkjamanna. Voru þær sundurliðaðar í sex liði. Ég vil ekki vera að eyða tíma í að lesa þetta upp. Enn fremur tók ég þetta fram „summariskt“ í ræðu minni 12. apríl í vor. Þar er líka frá því sagt, hvað við höfum farið fram á, og ef maður ber svo saman, hvað við höfum fengið, og þær kröfur, sem við höfum lagt fram, þá svarar það sér sjálft, hverju við höfum ekki fengið framgengt.

Hv. 4. þm. Reykv. spurði um það, sem er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að um sé spurt, hvort við hefðum samið um, að við tækjum að okkur fleiri störf. Ég skal svara þessu óbeint. Það er stöðugt unnið að því, að Íslendingar taki að sér fleiri og fleiri störf fyrir Bandaríkjamenn. T. d. vil ég benda honum á það, að við erum að yfirtaka alltaf meira og meira af störfum í sambandi við flugið. Enn fremur höfum við tekið að okkur að mestu leyti veðurþjónustuna á flugvellinum. Það eru margir veðurfræðingar, sem vinna þar, og ég hygg, að þeim mönnum fari alltaf fjölgandi, sem fara í tæknileg störf fyrir varnarliðið.

Hv. 4. þm. Reykv. spurði enn fremur að því, hvort við hefðum farið fram á að afnema tollfrelsi á áfengi og fleiri ónauðsynlegum vörum, eða munaðarvörum, eins og hann skaut inn í. Það hefur ekki verið gert, því að um það var samið í upphafi, að herinn fengi vörur sínar tollfrjálsar, en það er alls staðar gert, þar sem her dvelur erlendis, eftir því sem ég veit bezt. Á hinn bóginn hefur verið hert, ettir því sem hægt er, á eftirliti og mun verða gert betur, til þess að tollfrelsið verði ekki misnotað.

Hv. 8. þm. Reykv. gerði lítið úr því, að við hefðum samið um það, að við hefðum einhvern hemil á því, hversu margir Íslendingar ynnu við varnarstörfin. Ég lýsti því þó yfir í gær, að til jafnaðar hefði unnið 600 manns færra á árinu 1954 en 1953, og er það vitanlega vegna áhrifa frá utanrrn., að þannig hefur verið fækkað. Skortur á vinnuafli stafar þá ekki af því, að það hafi fjölgað í varnarliðsvinnu í Keflavík, heldur stafar það einfaldlega af því, að fjárfesting hefur stórkostlega aukizt, t. d. í Rvík og hér suður frá, og þar með vinna við húsabyggingar. Auk þess er útgerð miklu meiri nú en hefur verið, t. d. á smábátum, en það er mannfrek útgerð.

Ég vil hér svara fyrir óverðskulduð ummæli, sem hv. 8. þm. Reykv. hafði um starfsfólk mitt í utanrrn., þar sem hann taldi, að það væri áberandi ósannsögult fólk. Ég vil lýsa þetta ómerkileg ummæli og ódrengileg á allan hátt, þar sem hann er að níða hér menn, sem eru fjarverandi, og ég skora á hann að endurtaka þetta í blaði sínu. Mér er ekki kunnugt, að um þetta svokallaða barnadagsmál í Keflavík hafi verið sagt eitt einasta orð ósatt af ráðuneytinu, enda hefur ameríska blaðið gefið yfirlýsingu um, að það hafi farið skakkt með. Og ef hann fylgist jafnvel með blöðum þarna suður frá og virðist vera, þá hefði hann getað lesið þetta líka og fylgzt með málinu, en það virðast álög á blaði hans að geta sjaldan sagt satt.