08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

1. mál, fjárlög 1955

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, hv. 8. þm. Reykv. (GilsG), um það, að till. nr. V og VII á þskj. 253 eru mjög athyglisverðar, og að mínum dómi ekki síður till. á sama þskj., sem er tölusett IX og flutt af hv. 2. þm. Reykv. og hv. 9. landsk. Í raun og veru finnst mér hún einna merkilegust. Og ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir þeim rökstuðningi, sem hv. 2. þm. Reykv. hafði um það, er snertir varðveizlu á þjóðlegum fræðum. Um það skal ég svo ekki hafa hér lengra mál.

Ég stóð aðallega upp til þess að biðja griða þeim till., sem ég stend að fyrir mitt kjördæmi, en skal þó ekki eyða í það löngu máli. Smærri till., eins og t.d. um sjómannalesstofu, leikfélag, lúðrasveit og tónlistarskóla, skal ég ekki ræða hér. Ég hef aðeins sett þetta fram til minnis fyrir hv. fjvn., sem ég veit að muni stuðla að því að fá þetta inn í fjárlögin á sínum tíma, þegar hún kemur að skilgreiningu þeirra framlaga, sem á ári hverju eru látin til hinna ýmsu kjördæma af þessu tilefni eða með þessi menningaráhrif fyrir augum.

Hv. 9. landsk. hefur flutt till. um hækkun á styrkinum til hafnarinnar í Vestmannaeyjum, og ég hef flutt till., sem að vísu gengur ekki eins langt, um það sama. Mér voru það ákaflega mikil vonbrigði, eftir að ég hafði kynnt mér till. hv. vitamálastjóra til hv. fjvn. um framlög til Vestmannaeyjahafnar og fleiri hafna, að hv. n. skyldi ekki sjá sér fært að leggja þá upphæð til grundvallar, sem þar var, hvað snertir þá höfn, sem ég geri hér að umtalsefni. Þessi upphæð var þó ekki há samanborið við þá þörf, sem fyrir liggur, og samanborið við það, sem Vestmannaeyjakaupstaður eða Vestmannaeyjahöfn má heita að eigi til góða hjá ríkinu vegna hinna stórmiklu framkvæmda, sem nauðsynlegt hefur verið að ráðast í og er undirstaðan undir þeirri framleiðsluaukningu, sem fer fram núna þessi árin í Vestmannaeyjum og öllum landsmönnum er kunnugt um. Ég verð að segja það, að þegar maður aðgætir þessar tölur, sem núna eru lagðar til grundvallar af hv. fjvn., samanborið við þær tölur til hafnarbóta og annarra slíkra mannvirkja á kreppuárunum, sem við höfum allir nokkur kynni af, þá er það undarlegt tímanna tákn með þeim háu tölum, sem fjárl. eru byggð á, að einmitt þessi mannvirki haldast ekki í neinu réttu hlutfalli af hálfu ríkisvaldsins við önnur fjárframlög eftir fjárlögunum að dæma. Ég hef engan veginn tekið djúpt í árinni með mínum brtt. Hv. 9. þm. hefur gengið feti framar. Ég vil þó ekki fullyrða, að hann hafi farið fram á hærri upphæð en sanngjarnt væri. Hitt er það, að ég stillti mínum till. frekar til hófs þess vegna, að ég veit, hversu ákaflega örðugt allar slíkar brtt. eiga hér uppdráttar, þegar hv. n. hefur tekið þessa afstöðu, sem ég harma mjög og vona að verði tekin til endurnýjaðrar athugunar, sem þá sennilega yrði að ná ekki einasta til Vestmannaeyjahafnar, heldur til fleiri hafna.

Ég skal svo láta útrætt um það að sinni.

Þá vil ég að lokum víkja að einu máli, sem í rauninni liggur ekki hér fyrir í till. hv. fjvn. Það er í sambandi við mjólkurþörf Vestmannaeyja og það átak til að koma mjólkursölunni og mjólkurneyzlunni þar í sæmilegt horf, sem fór fram á s.l. ári. Það hefur um langan aldur verið svo, að fólk í Vestmannaeyjum hefur beinlínis liðið af mjólkurskorti, einkum síðan fór að fjölga þar fólki og framleiðslan að færast í aukana og þar af leiðandi um langan tíma ársins, að um 2 þús. aðkomumanna bætast við hóp neytendanna þar í plássinu. Um mörg s.l. ár varð að flytja mjólkina frá Reykjavík með ýmsum skipum, sem ganga þá leið, en þetta gekk skrykkjótt, og það, sem verst var, var það, að mjólkin kom oft sem skemmd vara til Vestmannaeyja. Við áttum margar viðræður við forráðamenn Mjólkursamsölunnar og aðra þá ráðamenn þjóðfélagsins, sem stýra því að koma mjólk og mjólkurafurðum á markað, og niðurstaðan af þessum samtölum varð sú á s.l. ári, að Mjólkursamsalan setti upp sölu á mjólk í Eyjum. Þá vildu Vestmanneyingar leggja sig í framkróka að sjá til þess, að mjólkursalan gæti gengið greiðlega, og voru þá hafnar beinar ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og að því stefnt, að þær gætu verið hvern dag vikunnar. Þessari áætlun var að mestu leyti haldið fram að þeim tíma, sem ég hef skýrslur um, og það er reynt að halda því í horfi, og árangurinn hefur orðið sá, að mjólkursalan hefur margfaldazt í Eyjunum og sala á mjólkurafurðum hefur líka aukizt stórlega. Þetta er til stórmikillar blessunar, bæði fyrir þá, sem fá vöruna og geta fengið þennan holla mat á sín heimili að vild, og það er líka til hagræðis fyrir framleiðendur mjólkurinnar og landbúnaðinn í nærsýslunum í heild. Nú verður þessum ferðum ekki haldið uppi nema með miklum kostnaði. Það er ekki hægt að hafa öðruvísi farkost en reglulega góðan bát, ef honum er ætlað að halda uppi ferðum í öllu færu veðri svo langa sjóleið sem hér er um að ræða, sem eru þó einir 5 tímar, milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Og mér var falið af bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem hefur nú tekið að sér forustu í þessum málum heima í Eyjum, að fara fram á breytta fjárveitingu í sambandi við þessa breyttu tilhögun, svo sem ég gerði í bréfi til samvn. samgm., dags. 10. nóv.

Í mörg ár undanfarin hefur svokallaður Stokkseyrarbátur annazt samgöngurnar við Árnessýslu og Vestmannaeyjar og fengið til þess nokkurn styrk, sem hefur nægt að mestu leyti fyrir þær ferðir. Þeim ferðum hefur verið haldið uppi aðeins 2 daga í viku, en vegna mjólkurinnar og til þess aðallega að fá hana óskemmda á heimilin eða til neytenda, þá hefur verið, eins og ég sagði áðan, að því stefnt að hafa ferðirnar dag hvern, þegar veður leyfir, og veðursældin var á s.l. sumri og fram eftír öllu hausti mjög sæmileg, svo að úrfellisdagar urðu ekki mjög margir. Nú er höfuðnauðsyn fyrir það mikla framleiðslupláss að hafa hollan og góðan mat og gnægð af honum handa því fólki, sem þar vinnur baki brotnu um fimm mánuði ársins við höfuðframleiðsluna, sem er vertíðin, og raunar er unnið svo að segja nú orðið baki brotnu alla daga við að framleiða verðmæti fyrir þjóðina einmitt í Vestmannaeyjum. Fólki líður þar vel, sem betur fer, og fólkið kemst vel af, sem er líka mjög gott, og þá finnst mér, að Alþingi og fjárveitingavaldið eigi að stuðla að því eftir megni, að þetta sama fólk fái hollar og góðar fæðutegundir, og hollari eða betri fæðutegundir en mjólk og mjólkurafurðir er ekki hægt að bjóða fram.

Það eru líka fleiri landbúnaðarafurðir, sem bæði Stokkseyrarferðirnar og Þorlákshafnarferðirnar hafa greitt gang til Vestmannaeyja, heldur en mjólk og mjólkurafurðir. Sala á öðrum landbúnaðarafurðum, einmitt í sambandi við þessar ferðir, fer ört vaxandi í Eyjum. Það er þar eins og annars staðar, að samgöngurnar efla alla dáð í þessu efni og auka viðskiptin og örva á allan hátt.

Ég vil nú vona, að þetta verði tekið til nýrrar athugunar. Ég heyri sagt, að hv. samvinnunefnd hafi ekki tekið nema að hálfu leyti til greina þær óskir, sem ég bar fram, en ég fullyrði, að ef ekki fæst styrkur, sem svarar nálægt því, sem ferðirnar kosta, þá er ekki hægt að halda þeim uppi, og að því yrðu mikil vonbrigði, bæði fyrir fólkið í Eyjunum og líka fyrir Mjólkursamsöluna og þá, sem að henni standa. Eins og er borga Vestmanneyingar fyrir mjólkina 15 aurum hærra á lítra en gerist hér í Reykjavík og taka á þann hátt þátt í þessum kostnaði, en eins og allir vita, þá er það og var það, þegar síðast var samið út af verkfalli, mikið átakamál, hvort mjólk í Vestmannaeyjum ætti að vera nokkuð dýrari en annars staðar, og var því þá af sumum heitið, að hún skyldi verða seld við sama verði og hér er í Reykjavík. En hingað til hafa menn unað því að borga hana í Vestmannaeyjum 15 aurum dýrari lítrann heldur en aðrir. Það er ekki komið fram neitt, sem sýnir, að þeir uni því ekki, en það má á engan veg versna úr því. Ég hef þess vegna flutt til vonar og vara brtt., sem er prentuð á þskj. 253, um að heimila ráðh. að greiða rekstrarhalla, er verða kunni af flutningi mjólkur, mjólkurafurða og annarra búsafurða milli hafna í Árnessýslu og Vestmannaeyja, allt að 160 þús. kr., og er með því stefnt að því að bæta eða brúa það bil, sem er á milli minna óska og, eftir því sem ég fregna, þess, sem hv. samvinnunefnd samgöngumála vill leggja fram.

Ég hef ástæðu til að ætla, eftir að hafa talað við hæstv. fjmrh., að hann sé þessu máli hlynntur í eðli sínu, en sætti sig ekki við þá framsetningu, sem ég hef brúkað í greindri brtt., og að vissu leyti í samráði við hann hef ég ákveðið að láta hana því ekki koma hér undir atkv. nú, í þeirri föstu von, að úr þessu máli verði greitt á viðunandi hátt við 3. umr. fjárlaganna.