22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ætlað að beina örfáum orðum til hæstv. ríkisstj., en ég sé, að allir ráðherrastólarnir eru auðir enn sem komið er, — en þarna er nú fyrsti hæstv. ráðherrann kominn, svo að ég ætla þá að vekja máls á því, sem ég hafði hugsað mér að minnast hér á utan dagskrár.

Í einu dagblaðinu í morgun er frá því skýrt, að hæstv. utanrrh. Íslands sé nú kominn til Parísar til þess að sitja þar fund utanríkisráðherra aðildarríkja að Atlantshafsbandalagi. Það er vitað, að á fundi þessum á að fjalla um og taka ákvarðanir um mjög örlagaríkt mál, þar sem er innganga Vestur-Þýzkalands í Atlantshafsbandalagið. Þetta kemur í kjölfar þess, að Þýzkalandi hefur nú verið veitt leyfi til þess að hervæðast á ný og það á að fá að hafa allt að ½ millj. manna undir vopnum. Því er ekki að neita, að fjölmargir menn víðs vegar í Evrópu og raunar víðar, líta til þess með miklum ugg og ótta, að Þýzkaland fái að hervæðast á ný og verða tekið sem aðili í Atlantshafsbandalag.

Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. hefur þetta mál, afstaða Íslands til upptöku Þýzkalands í Atlantshafsbandalag, ekki verið rætt á nokkurn hátt eða lagt hér fyrir Alþingi. Það virðist því svo sem hér sé á ferðinni hjá hæstv. ríkisstj. sá háttur, sem raunar hefur tíðkazt áður í sambandi við örlagaríkar ákvarðanir um utanríkismál, að fara á bak við Alþingi, láta það ekkert hafa um slík mál að fjalla, fyrr en þá í mesta lagi eftir á.

Ég vil því leyfa mér að beina til hæstv. ríkisstj. af þessu tilefni þrem spurningum. Í fyrsta lagi: Hefur utanrmn. Alþingis ekki verið kvödd saman til þess að fjalla um það, hvaða afstöðu Ísland á að taka til upptöku Vestur-Þýzkalands í Atlantshafsbandalag? Í öðru lagi: Hvaða fyrirmæli hefur hæstv. utanrrh. fengið um afstöðu í sambandi við þetta mál? Og í þriðja lagi: Er það ríkisstj. ein og stuðningsflokkar hennar eða einhverjir fleiri aðilar, sem þegar hafa fallizt á þá afstöðu, sem hæstv. utanrrh. tekur á fundinum í París?