22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, sem komu mér til þess að standa upp. Ég er nú orðinn því svo vanur, að hæstv. ríkisstj. hafi þann hátt á um að taka ákvarðanir í utanríkismálum, að hún kveðji Alþingi ekki þar til ráða áður, heldur ráði sínum ráðum á bak við tjöldin, að mér bregður ekki neitt við slíkt. Það er aðeins eitt merki þess, að hæstv. ríkisstj. treystir sér yfirleitt ekki til þess að leggja nein slík mál eins og utanríkismálin undir rökræður á Alþingi, nema því aðeins að hún hafi sjálf framið hlutinn áður og það sé helzt engu þar hægt um að breyta.

Það er vitanlegt, að það hefur aldrei staðið á þeirri íslenzku ríkisstj., sem núverandi flokkar standa að, að gera hvað sem Bandaríkin hafa heimtað í utanríkismálum. Það var búið einna fyrst af öllum ríkjum að leggja sáttmálann um Evrópuherinn fyrir þetta þing og átti að kúska hann hér í gegn, áður en aðalþjóðirnar á meginlandi Evrópu, sem í Atlantshafsbandalaginu voru, höfðu tekið sínar ákvarðanir þar um. Það stóð ekki á hæstv. ríkisstj. að hlýða með þessa hluti, hvenær sem „vinkað“ var þar vestur frá. Ég kippi mér þess vegna ekkert upp við það, þótt hæstv. ríkisstj. hafi þennan hátt á að ganga fram hjá Alþingi og fram hjá utanrmn. En hitt fannst mér ósvinna af hæstv. fjmrh. að segja hér áðan, að það gæti tæpast komið til mála að ræða það í alvöru, hvort Ísland notaði sinn neitunarrétt í Atlantshafsbandalaginu til þess að neita um upptöku Vestur-Þýzkalands. Hæstv. ráðh. er furðu minnissljór. Það eru ekki liðin nema 10 ár síðan það Vestur-Þýzkaland, það Þýzkaland, sem nú er risið upp með ríkisstj. í Bonn, ríkisstjórn nazistanna, vopnahringanna og hershöfðingjanna gömlu, var að granda íslenzkum sjómönnum og íslenzkum skipum. Það eru sömu mennirnir og stjórnuðu kafbátaárásunum á íslenzku skipin, sem nú eiga að ganga í bandalag til þess að varðveita lýðræðið. Það eru þeir sömu sem frömdu morðárásirnar á Fróða og Pétursey og aðra íslenzka togara og báta á stríðsárunum. Það er þessi lýður, sem nú á að fara að biðja um að vernda lýðræðið í Evrópu. Ég vil þess vegna segja hæstv. ráðh. það, að það verður rætt um það í alvöru á Alþingi Íslendinga, hvort það á að fara að taka fasistana með inn í Atlantshafsbandalagið. Það er ekki nóg, að Bandaríkin gangi hröðum skrefum til fasisma, að búið sé að innlima Spán í gegnum bakdyrnar svo að segja, allt undir merki lýðræðisins. Ég vil aðeins láta hæstv. ráðherra vita það, að það verður rætt í alvöru hér, fyrst hann leyfði sér að viðhafa þessi orð.