22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv., einkum þó hv. 8. þm. Reykv., fóru að tala um, að það mundi ekki vera í lögum, að þrír menn úr hópi utanrmn. væru sérstaklega til ráðuneytis ríkisstj. um utanríkismál. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það eru ákvæði um það í þingsköpum, að einmitt þrír menn úr utanrmn. skuli vera til ráðuneytis ríkisstj. Utanrmn. starfar sem venjuleg þingnefnd að öðru leyti en því, að þessir þrír menn skulu vera stjórninni til ráðuneytis á þingtíma og utan þings. Það, sem hæstv. utanrmn. gerði, var að ráðgast við þessa menn. Þar sem ekki var búið að kjósa nú nýja menn, hlýtur ráðherrann að ráðgast við þá, sem hafa haft þetta með höndum, þangað til nýir menn eru kosnir. Það gerði ráðherrann. Í hópi þessara manna var enginn ágreiningur um þetta mál.

Ég vil benda hv. þm. á, þeim sem hafa talað um, að átt hefði að leggja málið fyrir Alþingi, áður en hæstv. ráðh. fór utan, að ef þeim hefði verið sérstakt áhugamál, að þetta væri rætt hér á hv. Alþingi, áður en utanrrh. segði nokkuð í stjórnarinnar nafni um málið, þá hefði þeim verið í lófa lagið að stinga upp á því, að umr. færu fram, áður en NATO-fundurinn væri haldinn. Þeir hafa vitað það nú um sinn, að þennan NATO-fund átti að halda, og þeir hafa vitað vel, hvað það var, sem átti að taka fyrir á fundinum. Ef þeir höfðu raunverulega áhuga fyrir þessu máli og fyrir þeim vekti eitthvað annað en að finna eftir á að því, sem gert var, þá hefðu þeir átt að minna á það í tíma, að málið yrði tekið fyrir á þingfundi. Það hafa þeir ekki gert, og það sýnir, að áhugi þeirra í þessu efni hefur ekki verið brennandi. Þess vegna finnst mér, að þeim farist ekki að koma fram með stórfelldar aðfinnslur eða sýna ofstopa, þótt hæstv. utanrrh. hafi haft þann hátt á, sem ég hef lýst. Hann er fullkomlega eðlilegur. Enginn ágreiningur kom fram og samráð voru höfð við þrjá stærstu flokka þingsins á þann hátt, sem ég hef frá skýrt, þ. e. a. s. fulltrúa frá þessum flokkum. (EOl: Þetta er ekki rétt hjá ráðherranum.) Hvað er skakkt í þessu? (EOl: Það hafa engin samráð verið höfð við þrjá stærstu flokka þingsins.) Ég bið afsökunar, ég átti við þrjá flokka þingsins. Það er rétt, að þriðji stærsti flokkur þingsins var þar ekki með í ráðum. Ég á við þá flokka, sem eiga fulltrúa í undirnefndinni um utanríkismál.

Ég veit ekki, hvort það á nokkuð að vera að tala tæpitungu um þetta. Ég held, að það sé enginn skaði skeður, þótt ekki sé ráðgazt við kommúnista um utanríkismál. Ég segi það í hreinskilni og meina það. Það er ekkert til þeirra að sækja í því efni. Við vitum vel, hvað þeir vilja, og við heyrðum tóninn hér áðan hjá hv. 2. þm. Reykv. Það er ekkert nema tímatöf að tala um þetta við þá. (EOl: Ekki einu sinni Alþingi?) Það er allt annað með hv. Alþingi, og ef menn hefðu haft áhuga fyrir því, að mál þetta væri rætt á Alþingi fyrr, þá var í lófa lagið að óska eftir því.

Það kom greinilega fram af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að honum hefur ekkert batnað. Hann hefur Bandaríkjamenn á heilanum enn, og ég bjóst reyndar ekki við neinum bata hjá honum. Hann fór að tala um, að það væri eftir kröfu Bandaríkjanna, að nú ætti að fara að samþ., að Þýzkaland endurhervæddist. Ég hygg, að það sé ekki aðeins áhugi hjá Bandaríkjamönnum einum fyrir því að tala Þjóðverja inn í varnarsamtök Vestur-Evrópu. Ég hygg, að það sé alveg eins mikill áhugi fyrir því, ef ekki meiri, hjá Vestur-Evrópuþjóðunum, sem ætla sér að taka upp samvinnu við Þjóðverja í varnarmálum. Hv. 2. þm. Reykv. veit ákaflega vel, af hverju þessi áhugi stafar, af hverju nú er ætlunin, að Þjóðverjar endurvígbúist. Það hefði engum dottið slíkt í hug, ef Rússar hefðu ekki endurvígbúizt svo sem þeir hafa gert eftir stríðið og ef þeir hefðu ekki lagt undir sig með ofbeldi alla Austur-Evrópu. Ef Rússar hefðu ekki gert þetta, þá hefði það aldrei komið til mála, að menn hefðu nú samþ., að Þjóðverjar færu að endurvígbúast til þess að taka saman höndum við aðrar vestrænar þjóðir í varnarskyni.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það gæti svo sem meira en komið til, að í alvöru væri um það rætt, að Íslendingar tækju á sig að koma í veg fyrir, að Þjóðverjar yrðu þátttakendur í vörnum Vestur-Evrópu. Hann sagði, að illa myndu menn þá þau óhæfuverk, sem Þjóðverjar hefðu unnið á stríðsárunum, ef slíkt gæti ekki komið til mála. — Ég hygg, að Þjóðverjar hafi á stríðsárunum komið við fleiri en Íslendinga. Ég hygg, að Frakkar, Bretar, Hollendingar, Belgir, Danir, Norðmenn og Lúxemburgarmenn gætu sagt ýmsar ófagrar sögur um það, sem gerðist á stríðsárunum. Ég hygg, ef þessar þjóðir sjá sér nauðsynlegt að samþ. endurvígbúnað Þjóðverja þrátt fyrir það, sem gerðist á stríðsárunum, og taka saman höndum við þá í varnarskyni, að það sæti þá ekki á okkur að koma í veg fyrir það. Ég segi hiklaust: Ef þessar þjóðir álíta þetta nauðsynlegt, þá mundi það illa sitja á Íslendingum að koma í veg fyrir slíkt samstarf þeirra við Þjóðverja um varnir Vestur-Evrópu.