06.12.1954
Neðri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það ber alloft við, að við fáum fréttir frá útlöndum af íslenzkum stjórnmálum, og það má eiginlega frekar heita, að það falli undir undantekningar, að menn fái fyrstu vitneskju um þýðingarmikil mál, sem eru á framkvæmdarstigi, hjá hæstv. ríkisstj., nema því aðeins að svo beri til, að missætti komi upp á milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu slíkra mála og að þeir fari að rífast opinberlega um þau.

Nú hefur svo borið til, að hingað til lands er komið síðasta hefti af tímaritinu Newsweek, og það hefti er dagsett í dag, þ. e. heftið 6. des. 1954, og er þannig alveg nýtt af nálinni, en í því hefti er að finna upplýsingar viðvíkjandi íslenzku þjóðmáli, sem ég hygg að margan fýsi að vita nánar um, en upplýsingarnar, sem Newsweek hefur að flytja og ég tel að eigi erindi inn á Alþingi, til þess að við fengjum um það framhaldsvitneskju frá hæstv. ríkisstj., eru á þessa leið, það virðist vera fréttaskeyti frá Reykjavík: „Reykjavík, Ísland.

Moskva hefur nýlega boðizt til bak við tjöldin að byggja sementsverksmiðju, sem mikil þörf er fyrir hér (þ. e. á Íslandi), með mjög hagkvæmum greiðsluskilmálum. Ísland hafði leitað fyrir sér um lán til þessara framkvæmda í Bandaríkjunum og Evrópu, en verið synjað.“

Nú vil ég leyfa mér vegna þessara upplýsinga að spyrja hæstv. ríkisstj., og það gleður mig, að hæstv. iðnmrh. er hér einmitt viðstaddur, þessara spurninga: 1) Hefur þessi fregn við rök að styðjast? 2) Ef svo er, með hvaða kjörum er þetta lán fáanlegt? 3) Hvaða tilraunir hafði hæstv. ríkisstj. gert til útvegunar lánsfjár vegna sementsverksmiðjunnar í Bandaríkjunum og í Evrópu? — En frá því er skýrt í greininni. 4) Hyggst hæstv. ríkisstj. að taka þessu tilboði, ef það er rétt, sem blaðið segir, að þetta tilboð frá Moskva hafi þegar borizt að heimulegum leiðum?