04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, svo og í tilefni af því ástandi, sem skapazt hefur í landinu vegna þeirra vinnudeilna, sem nú eru á döfinni, vil ég leyfa mér að taka fram, hvert mitt álit er á því.

Ég vil að sjálfsögðu ekki gera lítið úr því, að ríkisstj. beri að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess, að flutningaskipafloti landsmanna geti starfað óhindrað og að hann leggist ekki fyrir tiltölulega smávægilegar deilur. En hitt tel ég þó langtum meira um vert, að ríkisstj. geri sér grein fyrir þeirri deilu, sem nú á sér stað í Vestmannaeyjum, og geri sér einnig grein fyrir því, hver er undirrót hennar. Það er deila, sem er með nokkuð sérstökum hætti. Það er í rauninni alls ekki kaupdeila, heldur deila um það, hvort sjómennirnir á bátaflotanum

Í Vestmannaeyjum eiga að fá kaup sitt borgað refjalaust eða ekki. Það er deila um það, hvort sjómennirnir eiga að fá að fullu greiddan sinn hluta af bátagjaldeyrisfríðindunum eða ekki. Ríkisstj. setti í upphafi reglugerð um bátagjaldeyrisfríðindi útvegsmanna í landinu, og þar fór hún í öllu á bak við sjómannasamtökin, hafði ekkert samráð við þau og reyndi frekast að leyna þau, um hvað hún hefði samið, og bátagjaldeyrisreglugerðirnar hafa verið hálfleynileg plögg allt fram undir þetta. Sjómenn höfðu hins vegar þá samninga við útgerðarmenn, að þeirra hlutur, sjómannanna, skyldi ævinlega greiddur með sama verði og útgerðarmenn endanlega fengju fyrir hlutinn, en í skjóli ríkisstj. refjuðust útvegsmenn við að greiða þetta fyrir árið 1951, fyrir árið 1952 og fyrir árið 1953. Sjómenn neyddust þess vegna til þess að sækja sinn rétt með málaferlum. En þegar liðin voru þrjú ár, án þess að þeir fengju hlut sinn greiddan, eins og samningar þeirra stóðu til, þá neyddust þeir til þess að gera þær ráðstafanir, sem tryggðu þeim það, að þeir fengju a. m. k. það, sem þeir gætu náð fram með frjálsum samningum, greitt í föstu fiskverði. Það var gert í ársbyrjun 1954, og sjómenn telja sig ekki eiga rétt til þess að sækja bátagjaldeyrisfríðindin fyrir dómstólum fyrir það ár, enda þótt nú hafi komið í ljós, að einnig þá var refjazt við sjómenn.

Fyrir um það bil einu ári féll dómur í Vestmannaeyjum um þetta mál. Þar var skýrt ákveðið, að sjómennirnir ættu réttinn til bátagjaldeyrisfríðindanna. Til að freista þess að firra frekari deilum um málið flutti ég hér á síðasta Alþingi þáltill., þar sem lagt var til, að Alþingi fæli ríkisstj. að annast um skil á bátagjaldeyrishlut Vestmannaeyjasjómanna og sjómanna yfirleitt, en ríkisstj. tæki síðan í sínar hendur endurkröfurétt á viðkomandi útgerðarmenn og greiddi þannig fyrir því, að þetta mál þyrfti ekki að hlaupa í meiri flækju en þá var orðið.

Ríkisstj. og hennar fylgjendur, þ. e. fylgjendur ríkisstj. í þeirri n., sem um málið fjallaði, skiluðu nál., þar sem þeir lögðu til, að enn yrði beðið og séð til, hvert yrði álit hæstaréttar á málinu. Síðan er liðið um það bil eitt ár, og hæstiréttur hefur fjallað um málið, og hann hefur dæmt, að sjómönnum beri ótvírætt sinn hluti af bátagjaldeyrinum.

Það er þess vegna enginn mér vitanlega, sem mótmælir því, að fiskur sjómanna eigi að greiðast með sama verði og fiskur útgerðarmanna er greiddur með. En við samningsgerðina 1954 höfðu sjómenn ekki fyllri plögg um það, hvernig verzlunin með bátagjaldeyrinn gengi fyrir sig, en svo, að fyrir milligöngu sáttasemjara ríkisins féllust þeir á að fella niður úr samningum sínum þá grein, að þeir skyldu ævinlega fá sama fyrir fiskinn og útgerðarmenn fá, en sömdu um fast verð fyrir fiskinn, kr. 1.22, sem þá var álitið að væri allt verð fisksins að meðtöldum bátagjaldeyrisfríðindunum. Nú hefur hins vegar sannanlega komið í ljós, að verðmæti það, sem útvegsmenn fá fyrir hvert kíló af þorski, er ekki einasta kr. 1.22, eins og sjómenn fá, heldur liggur eitthvað á milli kr. 1.38 og kr. 1.40 — ef til vill er það meira. En sjómenn hafa ekki þau gögn á sínu borði, að þeir geti sannað, að útvegsmenn fái meira fyrir fiskinn en þetta. Að sjálfsögðu hafa nú sjómenn gert þá kröfu, að fiskurinn verði greiddur fullu verði til sjómanna, sett fram kröfu um kr. 1.38 fiskverð, sem er ekkert annað en krafa um það, að þeirra kaup verði refjalaust borgað. Þetta er þess vegna ekki kaupdeila í eðli sínu, heldur, eins og ég sagði áðan, deila um það, hvort sjómenn fái hlut sinn greiddan refjalaust eða ekki. Og hver er það svo, sem hefur innleitt þann asna í herbúðirnar, að sjómenn hafa verið prettaðir ár eftir ár? Það er ríkisstjórnin.

Þetta þyrfti ríkisstj. að skiljast, og ef henni skildist þetta, þá er ég sannfærður um, að hæstv. forsrh. leyfði sér ekki að koma hér upp í ræðustól á Alþingi og segja, að það væri eðlilegast, að ríkisstj. hefði sem allra minnst afskipti af málinu, en telja það þó vera forsvaranlegar aðgerðir af ríkisstj. hálfu, að málinu hefði verið vísað til sáttasemjara. Ég vil biðja ríkisstj. um að gera sér grein fyrir því, að í Vestmannaeyjum eru framleidd útflutningsverðmæti, sem nema um það bil 12% af fiskútflutningsverðmætum þjóðarinnar. Ég hygg, að það muni láta nærri, að það sé 1/10 hluti af öllum útflutningsverðmætum íslenzku þjóðarinnar. Framleiðsla þess fisks, sem hér um ræðir, fer að langmestu leyti fram á fjórum mánuðum, mánuðunum jan-apríl. Þegar er liðinn einn af þessum fjórum mánuðum, án þess að nokkuð hafi verið gert af opinberri hálfu til þess að leiðrétta þau mistök, sem orðið hafa af ríkisstj. hálfu og nú hafa leitt til þeirrar stórfelldu framleiðslutruflunar, sem alkunn er. Ef ríkisstj. skyldi nú eiga erfitt með að trúa orðum mínum, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp örlítinn kafla úr Morgunblaðinu, sem birtur er 28. jan. s. l. Þar segir:

„Mikil útflutningshöfn: Vestmannaeyjar eru stærsta útflutningshöfn landsins næst á eftir Reykjavík. Árið 1954 var flutt út frá Vestmannaeyjum rúmlega 21 þús. lestir af fullverkuðum fiskafurðum. Skiptist það þannig: hraðfrystur fiskur 7277 lestir, saltfiskur 6012 lestir, fiskimjöl 4178 lestir, lýsi 1809 lestir, skreið, hrogn, þunnildi, humar o. fl. 1906 lestir. Útflutningsverðmæti þessara vara nemur rúmlega 100 millj. kr., en það er rösklega 12% af heildarútflutningi sjávarafurða landsmanna 1954.“

Ég get ekki litið svo á, að sú ríkisstj., sem segir, eftir að einn mánuður af fjórum aðalframleiðslumánuðum ársins er liðinu svo, að ekkert er framleitt í þessari verstöð, — ég get ekki litið svo á, að sú ríkisstj., sem segir: Það hefur verið skipaður sáttasemjari í deiluna — og lætur þar við sitja, gerir ekkert annað, en ber alla ábyrgðina á því, hvernig komið er; hefur sjálf framkvæmt þær aðgerðir, sem leitt hafa til þess, að svona er komið, hefur einnig daufheyrzt við því hér á Alþingi fyrir einu ári að leysa deiluna, eins og hún þá var komin, — ég get ekki skilið, að sú ríkisstj. geti ætlazt til þess, að hún sé talin ábyrg eða yfirleitt að landsmenn muni þola það, að ríkisstj. komi fram af slíku ábyrgðarleysi í alvörumáli sem þessu. Ég vil þess vegna alvarlega skora á ríkisstj. að bregða við, þó að seint sé, og gera ráðstafanir til þess, að sjómenn geti framvegis notið allra þeirra réttinda, sem þeir eiga sem fiskeigendur í landinu í sambandi við bátagjaldeyrisfríðindin. Ég vil einnig benda henni á það, að hér er ekki fyrst og fremst um kaupdeilu að ræða. Hér er um það að ræða, að réttir eigendur fái það, sem fyrir fiskinn fæst, og það er í rauninni fyrst og fremst stjórnmálalegs eðlis, að úr þessari deilu sé leyst. En ef ríkisstj. ætlar enn að daufheyrast við að framkvæma skyldu sína í þessu máli, þá hlýtur það óhjákvæmilega að baka alþjóð feikilega mikinn skaða, þannig að vart verður við unað. Og hygg, að hér sé frekar um það að ræða, að ríkisstj. hafi alls ekki skilið eðli þessarar deilu, heldur en hitt, að hún sé jafnáhugalaus um málið og framkoma hennar að öðru leyti gefur tilefni til að æt1a. Ég hygg, að slíkt sé nærri óhugsandi af ríkisstj., sem vill láta telja sig ábyrga um það, hvernig þessari þjóð reiðir af í hennar lífsbaráttu.