04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skildi hæstv. forsrh. svo, að hann hefði ekki hugsað sér að ræða neitt við Alþ. um það, hvort upp skyldu teknar viðræður eða með hverjum hætti við þá aðila, sem geta haft áhrif á verðlag í landinu. Og mér skildist á hv. 3. landsk. (HV), að hann teldi það, úr því sem komið væri, ekki skipta ákaflega miklu máli, hvort það yrði gert eða ekki; aðalatriðið væri það, hversu röggsamlega ríkisstj. héldi á málinu, eins og nú væri komið.

Ég tel, að þetta skipti mjög verulegu máli. Ég tel, að ef hæstv. ríkisstj. í alvöru hyggst að taka upp viðræður við þá aðila, sem hæstv. ráðh. nefndi, um ráðstafanir til lækkunar vöruverðs í landinu, þá sé ríkisstjórninni að því hinn mesti styrkur að hafa að baki sér viljayfirlýsingu Alþ. í þessu efni, viljayfirlýsingu um það, að sú leiðin, sem stefni í rétta átt og farsællegust sé, sé einmitt að knýja niður verðlagið, skerða milliliðagróðann og reyna á þann hátt að koma í veg fyrir, að sá ótti rætist, sem hæstv. forsrh. er svo fjölorður um, að áfram haldi gengislækkun íslenzkrar krónu.

Ég verð því að álíta, að ef hæstv. forsrh. vill í alvöru beita sér fyrir því með viðræðum við aðila, að þessi leið sé farin, þá eigi hann að fá viljayfirlýsingu Alþ. sér til stuðnings í þessum viðræðum, því að hann veit það án efa, að með ljúfu geði lætur enginn af þessum aðilum af hendi gróða eða gróðamöguleika. Og þá kemur að sjálfsögðu til athugunar, hvort þær viðræður leiða í ljós, að valdboð í þessu efni sé nauðsynlegt eða ekki. Auðvitað verður hæstv. ríkisstj. að meta það eða þeir menn, sem hún felur að rannsaka þessi mál, hvort gerlegt sé að lækka hlut þeirra aðila, sem hér er um að ræða. Komist hún að þeirri niðurstöðu, að það sé hægt, en aðilarnir neiti að gera það af frjálsum vilja, þá kemur til ríkisstjórnarinnar kasta að gera sínar ráðstafanir. Og eigi hún að geta talað af fullum skörungsskap og röggsemi við þessa aðila, þá verður hún að vita um vilja Alþ. í þessu efni. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að fyrrnefnd till. verði sem fyrst tekin hér fyrir til afgreiðslu í þinginu.

Til viðbótar vil ég geta þess, að ég harma það mjög, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. öll skuli hafa glatað dýrmætum tíma í sambandi við þá atburði, sem fram undan eru í kaupgjaldsmálum hér á landi. Till. sú, sem ég nefndi, var borin fram þann 16. nóv. s. l. Síðan eru tveir og hálfur mánuður. Fyrsti viðræðufundur um þetta efni, að sögn hæstv. ráðh., verður nú eftir helgina. Og þá eru þrjár vikur til stefnu, þangað til vinna stöðvast hjá mörgum félögum til viðbótar því, sem nú þegar er stöðvað. Ég vil fullyrða það, að hver einasta önnur ríkisstj. en hæstv. núverandi ríkisstj., sem á annað borð hefði hugsað sér að fara inn á þessar leiðir, hefði notað þennan tíma til aðgerða, til viðræðna við rétta aðila, til þess að rannsaka ástandið og koma síðan með ákveðnar tillögur. Það hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert. Hún rumskar fyrst nú, þegar þrjár vikur eru til stefnu, og hefur glatað tveimur og hálfum mánuði og nauðsynlegum undirbúningstíma í þessu efni.

Ég skal ekki tefja tímann með því að ræða um deiluna í Vestmannaeyjum, en ég vil bara bæta því við, að öll meðferð hæstv. ríkisstj. á bátagjaldeyrinum og það fyrirkomulag, sem hún setti í því efni, hefur í upphafi verið það reginhneyksli, að það hlaut að leiða til stórfelldra átaka á milli sjómanna og útvegsmanna, þar sem öll viðleitni ríkisstj. og þeirra, sem með þessi mál fara, beinist í þá átt að leyna því, draga hulu yfir, hvað er það raunverulega rétta verð, sem fyrir fiskinn fæst og sjómennirnir þess vegna eiga rétt til að fá.