07.02.1955
Sameinað þing: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Jóhann Jósefsson:

Hv. 9. landsk. hefur nú játað það, að hann hafi undan fellt að lýsa yfir því, þegar hann var að ræða hér málið áður, að deilan er líka um hlutaskiptingu, eins og ég benti á. Og til að undirstrika það, með hvaða afli það er rekið, bæði sú deila og hin deilan, þá er hægt að segja frá því hér, sem er raunar ekkert leyndarmál, að hvorir tveggja deiluaðilar, Sjómannafélagið Jötunn og félag vélstjóra á bátum, virðast hafa fengið Vélstjórafélag Vestmannaeyja, þ. e. a. s. landvélstjórafélag, til þess að lýsa yfir samúðarverkfalli. Ef þessi vinnudeila, eins og þeir orða það í sínu skeyti, — ég hef hér skeyti frá þeim í frumriti, — leysist ekki fyrir 12 þ. m., þá hóta þeir hvorki meira né minna en stöðva íshúsin og frystihúsin og láta öll verðmæti þar fara forgörðum. Það er nú ekki rekið með minna afli en þetta verkfallið, sem sjómannafélagið Jötunn og vélstjórar hóta.

En hv. þm. hefur gott af því, að honum sé bent á, hvað rétt er, þegar hann hleypur fram fyrir skjöldu til þess að lýsa einhverju máli, þó að hann hafi sterka tilhneigingu til, eins og kom fram í ræðu hans, að segja hlutdrægt frá og koma sökinni yfir á útvegsmenn. Vildi ég ekki láta það standa ómótmælt í þingtíðindunum, hvaða málfærslu hann hefði í þessu, með því að það er vitanlegt, að hann er einn af aðalkyndurum undir þessari deilu, sem hér er um að ræða.