08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

1. mál, fjárlög 1955

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það var á sinum tíma, þegar ráða skyldi, hvaða leið ætti að fara í Dali vestur og til Vesturlands, mjög mikið um það deilt innan Dalasýslu, hvort heldur skyldi taka Heydalsleiðina svokölluðu eða Bröttubrekku. Þetta var á árunum fyrir 1930, og á þeim tímum var ekki komin sú bílaöld, sem nú ríkir, og ekki eins mikil ferðalög almennt hjá fólki. En það, sem mun hafa ráðið úrslitum í því máli, að Brattabrekka var sú leiðin, sem var valin, var það, að vegarlengdin var mun minni og því ódýrara að leggja veginn yfir Bröttubrekku. Það mun hafa ráðið aðalúrslitum. En ég hygg, að flestir hafi verið þeirrar skoðunar, að sú leiðin, sem væri betri og snjóléttari og allajafna færari á vetrum, mundi vera Heydalur, enda hefur þetta sýnt sig oft og tíðum síðar. Mér er minnisstætt vorið 1939, að þegar snjórinn í byrjun maí var það mikill í Bröttubrekku skammt frá veginum, að það var hægt að setjast á símastaurana og hvíla sig, en um sama leyti var Heydalur mikið til auður. Og þetta gefur nokkuð auga leið um það, hversu mikill sparnaður það mundi vera fyrir það opinbera að eiga slíka þjóðleið til byggilegra héraða eins og sveitirnar eru á Snæfellsnesi, í Dölum, Vestfjörðum og jafnvel hægt að nota þessa leið til Norðurlands í staðinn fyrir að standa í snjómokstri langa tíma á hverjum vetri á þrem eða jafnvel fleiri fjallvegum, en það hygg ég að mundi verða a.m.k. miklu minna á Heydal en á nokkurri annarri leið, sem völ er á milli þessara byggða.

Það hefur ekkí komið fyrir, sem betur fer, nú síðustu árin, að það hafi lagt mikið firði hér á landi, en þó hefur það komið fyrir og ekki mörg ár síðan lagt hefur bæði Hvammsfjörð og Gilsfjörð, og á sama tíma hefur leiðin yfir Kerlingarskarð og Bröttubrekku verið alófær. Gefur að skilja, að ef slíkir vetur væru, þá gæti fyrir þessi byggðarlög í kringum Breiðafjörð horft til stórvandræða, ef ekki væri hægt að koma björg í bú á neinn annan hátt en eftir þeim leiðum, sem nú þegar eru. En ég hygg, að mikið öryggi fyrir þessar byggðir væri að fá gott vegasamband yfir Heydal.

Það er mjög um það rætt á Alþ., að það skuli spyrnt við því, að sveitir leggist i eyði, sem sagt, að það skuli nokkurn veginn halda jafnvægi í byggð landsins. En það er nú síður en svo, að svo sé eftir þeim hagskýrslum, sem nýjastar eru. Þar hefur það sýnt sig, eins og þróunin hefur verið á síðastliðnum árum, að fólki hefur ætið fækkað meir og meir í sveitunum, en aftur á móti fjölgað við sjávarsíðuna.

Ef hv. alþm. hafa trú á því, að það skuli halda jafnvægi í byggð landsins og styðja að því, að blómleg héruð geti blómgazt enn þá meira en nú ór, þá finnst mér, að þeir ættu að sýna þessari till. okkar hv. þm. Snæf. (SÁ) tillitssemi og samþ. hana hér á hv. Alþ., svo að áður en mörg ár liða verði hægt að benda á, að gert sé það sem hægt er að gera fyrir þessar byggðir.

Það er ekki um ýkjalanga vegalengd að ræða, þar sem Heydalur er, því að sjálfur mun hann nú ekki vera nema um 11 km, en nokkuð af vegi i byggð beggja vegna við er enn þá ólagt. Ég hygg þó, að allur kostnaður við þennan veg muni ekki verða mikið yfir 1.5 millj. kr., því að vegstæði er þarna mjög gott og ekki mikið um brýr, þannig að þetta virðist vera ódýrt, eftir því sem vegir eru almennt hér á landi.

Nú á þessum vetri skrifuðum við hv. þm. Snæf. (SÁ) fjvn. og báðum um nokkra fjárhæð til þess, að hægt yrði að hefjast handa um þennan veg nú á næsta sumri, en fjvn. taldi sig ekki geta sinnt þessu máli í þetta sinn. En þótt n. hafi ekki viljað ljá þessu máli gott lið, þá vænti ég, að hv. alþm. geri það þeim mun betur. Og ég vonast því eftir, að hv. þm. samþykki þessa tillögu.

Þá vil ég að nokkru minnast á tillögu, sem hv. þm. N-Ísf. (SB) og hv. þm. Snæf. (SÁ) ásamt mér flytja á þskj. 253. Það er XXXII. Þar er verið að fara fram á, að þeir menn, sem búa í eyjum og hafa við mikla örðugleika að búa á ýmsum sviðum, njóti að nokkru jafnréttis við aðra, sem betur eru í sveit settir og njóta meiri lífsþæginda á meðal þjóðarinnar, þ.e.a.s., að þeir menn þurfi ekki að gjalda af þeim taltækjum, sem þeir hafa, meira en aðrir, sem hafa venjulega notendasíma. En svo mun vera, að þessir menn þurfa að greiða allmiklu meiri fjárhæð en hinir að öllu jöfnu. Ég vænti þess, að þm. samþ. einnig þessa tillögu.