07.02.1955
Sameinað þing: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég sé mig enn tilknúinn að leiðrétta misskilning hv. þm. Vestm. Það er sem sé á misskilningi byggt, að ég hafi nokkru sinni haldið því fram, að þeir, sem eiga frumsök á því, hvernig komið er málum Vestmannaeyinga nú, séu útvegsmenn í Vestmannaeyjum. Ég hef haldið því fram, að það sé ríkisstjórn Íslands, sem með bátagjaldeyrisreglugerðinni, þar sem útvegsmönnum einum er falin meðferð gjaldeyris þess, sem sjómenn eiga að sínum hluta að sjálfsögðu ekki síður en aðrir fiskeigendur, hefur fært málið á það stig, sem það nú er á.

Með því að hlaða þannig undir annan aðilann, sem sagt útgerðarmenn, en halda hlut sjómanna, gefa útvegsmönnum aðstöðu til þess að hirða arð af fiski sjómannanna, er stofnað til deilunnar, og það er sök ríkisstjórnarinnar, sem þar ber langhæst.

Þetta vildi ég leyfa mér að taka fram til leiðréttingar því, sem hv. þm. Vestm. hefur um málið sagt.