23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins mega leggja fyrir ríkisstj. eina fsp. í sambandi við verkföllin, sem nú standa yfir. Ég sé í dagblöðunum í dag, að frá því er sagt, að það standi jafnvel til, að þeir olíufarmar, sem hér liggja nú óafgreiddir, verði ef til vill seldir til annarra landa. Það er alveg augljóst, að ef svo yrði farið að, mundi t. d. togaraflotinn stöðvast nokkrum dögum eftir að verkfallinu lyki. Mér er einnig sagt, að á leiðinni til landsins sé olíufarmur, sem væntanlegur er hingað eftir 5–6 daga, og að það séu uppi ráðagerðir um að selja þennan olíufarm líka til annarra landa. Það er alveg fullvíst, að ef svo verður gert, þá stöðvast allur bátafloti landsmanna líka nokkrum dögum eftir að verkfallinu væntanlega lýkur, sem maður skal nú vona að verði eftir tiltölulega fáa daga. Ég tel því, að ef hér er rétt frá skýrt, eins og blöðin hafa skýrt frá þessum málum og eins og sögur ganga um, þá sé hér um alvarlega hluti að ræða. Það er ekki aðeins nóg með það, að þessi vinnustöðvun veldur auðvitað miklu tjóni á marga vegu, heldur kann svo að fara, að þegar vinnudeilan hefur verið leyst, ætti til þess að draga, að togarafloti landsmanna og síðan allur bátaflotinn yrði óstarfhæfur, vegna þess að þá væri búið að ráðstafa til annarra landa þessum olíuförmum, sem hér liggja nú eða eru á leiðinni til landsins. Tel ég, að þetta sé svo alvarlegt mál, að ekki geti farið hjá, að ríkisstj. reyni að hafa þarna áhrif á og komi í veg fyrir þessi miklu vandræði. Ég vildi því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort henni sé kunnugt um þessi vandamál og hvort hún telji ekki sjálfsagt að reyna að skerast þarna í leikinn og fá ráðið fram úr þessu á einn eða annan hátt, annaðhvort þannig, að hún beiti sér fyrir því, að þessi skip verði látin bíða um sinn, ef tök eru á því, til þess að þessum olíuförmum verði ekki ráðstafað annað, eða þá að hún gangi í það af enn meiri krafti að fá lausn á vinnudeilunni og koma þannig í veg fyrir það gífurlega tjón, sem af þessu mundi verða fyrir alla landsmenn.