23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér út af því, sem hæstv. forsrh. upplýsti hér áðan, að benda honum á, að hann þarf ekki einu sinni neinn þjófalykil til þess að leysa þetta vandamál með olíuna. Það vill svo vel til, að þessi olíufélög, sem hafa sem stendur eignarhald á þessari olíu, eru þannig að því eignarhaldi komin, að hæstv. ríkisstj. keypti alla þessa olíu sjálf og kaupir alla olíuna til landsins, og enginn annar aðili fær að kaupa olíuna til landsins, þannig að ríkisstj. þarf ekki annað en ráðstafa sinni eigin eign, þessari olíu, á þann hátt, að tryggt sé, að þetta geti komið landsmönnum til góða. Ríkisstj. getur bara sagt við olíufélögin: Ja, ég tek að mér að sjá sjálf um þessa olíu — og ríkisstj. getur samið við verkalýðsfélögin nú þegar. Þar með er málið leyst. Þetta er ákaflega einfalt. Þessi þrjú olíufélög, sem samkvæmt hinni heilögu helmingaskiptareglu hafa fengið olíuna í sínar hendur, þurfa svo sannarlega ekki að hafa hana. Ríkisstj. hefur raunverulega einkasölu á olíunni til Íslands. Hún kaupir alla olíuna, og það fær enginn annar að kaupa olíuna. Hún hefur kosið að hafa þennan hátt á, að ráðstafa þessu til þriggja olíufélaga. Það er engin þörf á því. Ríkisstj. hefur meira að segja eldgamla lagaheimild. Fyrir utan það, að hún getur tekið sér þetta vald í krafti milliríkjasamninganna, sem eðlilegt er, hefur hún meira að segja vald til þess að kaupa það, sem þarf, af þessum olíum til landsins. Ég vildi þess vegna benda hæstv. ríkisstj. á að nota sér þetta vald. Ef þessi olíufélög, sem ríkisstj. hefur selt alla olíuna, eru í einhverjum vandræðum með þessa olíu í dag út af sinni eigin þvermóðsku, þá er það hægastur vandinn fyrir ríkisstj. að eiga áfram alla þessa olíu, sem þeim var seld, semja við verkamenn og byrja á að láta fólk fá olíu hér á Íslandi. Það er engin þörf á að skapa þarna milliliði milli ríkisstj. og landsfólksins, sem gera okkur ómögulegt að fá olíu. Það er þess vegna um svo veigamikið mál að ræða hér, eins og hv. 11. landsk. þm. með sinni fyrirspurn sýndi fram á, að þarna hvílir ábyrgðin algerlega á ríkisstj. sjálfri. Það er hún, sem hefur gert þær ráðstafanir, að það er enginn annar aðili á Íslandi en ríkisstj., sem kaupir alla olíu til landsins. Það er hún, sem hefur tekið á sig þá siðferðislegu ábyrgð að sjá öllum þeim mönnum á Íslandi, sem þurfa olíu, fyrir henni. Og það er þar með hún, sem líka tekur á sig þá siðferðislegu ábyrgð að semja við verkafólkið í landinu, þegar þeir milliliðir, sem hún hefur skapað þarna, eru svo þvermóðskufullir, að það reynist ekki mögulegt að fá þá til þess að vinna nauðsynleg þjóðþrifastörf.

Ég vil þess vegna mjög taka undir þau tilmæli, sem komu fram í fsp. hv. 11. landsk. þm., að ríkisstj. vindi nú bráðan bug að því að leysa þessi máli Hún hefur valdið til þess áreiðanlega í sínum höndum, og ef hringarnir t. d. skyldu vera það þvermóðskufullir, að þeir vildu ekki lána sín tæki til þess að úthluta þessari olíu ríkisstj., þá vil ég benda henni á, að 1943, ef ég man rétt, í desember, voru samþykkt lög hér, sem heimiluðu að taka leigunámi alla tanka olíufélaganna. Mig minnir, að það væri þáverandi atvmrh. og utanrrh., Vilhjálmur Þór, sem legði það frv. fyrir þingið og fengi þá heimild samþykkta. Að vísu var því bætt við í þeirri heimild, að hún gilti þá aðeins eitt ár, en við værum nú ekki lengi að því að afgreiða hérna frv., sem gæfi ríkisstj. heimild til þess að nota þessa gömlu lagaheimild Vilhjálms Þórs gagnvart olíuhringunum, ef hæstv. ríkisstj. færi fram á það. Ég held þess vegna, að ríkisstj. hafi alla möguleika til þess að leysa þennan mikla og erfiða þátt í vinnudeilunum nú þegar.