23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér virtist hæstv. forsrh. ekki hafa skilið rétt vel það, sem ég sagði áðan, svo að ég verð kannske að árétta það og reyna að tala skilmerkilegar.

Mér virtist eiginlega af ræðu hans, að hann gerði ráð fyrir því, að ríkisstj. stjórnaði ekki landinn lengur, heldur væri sú vinstri stjórn, sem Alþýðusambandið væri að beita sér fyrir, raunverulega annaðhvort að komast á eða hann gerði ráð fyrir því, að þessi gamla ríkisstj. væri nú alveg að fara. Það væri náttúrlega betur, að svo væri. En meðan hann enn þá situr hérna í stólunum, þá vil ég minna hann á það, sem hæstv. forsrh. virtist hafa gleymt, að það er núverandi hæstv. ríkisstj., sem kaupir alla olíu til landsins eins og hún leggur sig, tekur þar með á sig líka þá siðferðislegu ábyrgð að sjá um, að landsmenn fái þessa olíu, þar sem hún, með því að kaupa sjálf alla olíuna, raunverulega hindrar alla aðra einstaklinga eða samtök í að kaupa nema þau, sem ríkisstj. kýs að selja. Nú hefur ríkisstj. haft það svo, að alla olíuna, sem hún kaupir til landsins, og það er öll olía, sem landið þarf, selur hún þrem olíufélögum. Þessi þrjú olíufélög virðast allt í einu ætla að hætta því að láta landsmenn fé olíu. Ríkisstj. hins vegar er kaupandi að allri þessari olíu, sem til Íslands á að fara. Hvað liggur nú nær fyrir hæstv. ríkisstj., þegar hún uppgötvar þetta allt í einu, að þessi olíufélög gera verkfall á landsmenn og neita að láta landsmenn fá olíuna, heldur en að segja við þessi olíufélög: Þið ótrúu þjónar, burt með ykkur. Þið hafið ekkert að gera hér á milli þessarar ástsælu ríkisstj. og okkar kæra landsfólks. Þið góðu olíuhringar, nú farið þið? — Nú segir ríkisstj. við sitt kæra landsfólk: Ég sé um, að þið fáið olíu. — Og ríkisstj., sem er nú í þann veginn, skulum við segja, að víkja fyrir vinstri ríkisstj., hugsar sér: Ja, það skal þó a. m. k. verða mitt síðasta verk að sýna, að ég hef alltaf viljað vera góð við verkalýðssamtökin og eins og einn hæstv. ráðh. ríkisstj. sagði hér nýlega: borga verkalýðnum allt það kaup, sem mögulegt er. Ég sem þess vegna við verkalýðssamtökin um að borga þeim kaupið, sem ég er alveg viss í að olíuafhendingin á Íslandi stendur undir, það kaup, sem verkalýðsfélögin fara fram á. Ég get fullvissað hæstv. ríkisstj. um það, að þó að hún haldi áfram að eiga alla sína olíu og láti olíufélögin ekkert af henni fá og semji við verkalýðsfélögin um það kaup, sem þau hafa nú farið fram á, þá stendur áreiðanlega olíuafhendingin og kostnaðurinn, sem lagður er á hana, undir því verði. Hins vegar minntist ég á það, að það væri hugsanlegt, að olíufélögin, sem eiga tankana hér á Íslandi, vildu máske ekki leyfa ríkisstj. að ncta þessa tanka, og var þá að rifja upp gamla lagaheimild, að nokkru leyti að vísu fallna úr gildi, sem Vilhjálmur Þór sem þáverandi utanríkis- og atvinnumálaráðherra hafði fengið hér í gegn á tímum utanþingsstjórnarinnar, þar sem heimilað var ríkisstj. að taka leigunámi alla tanka olíufélaganna, ef ríkisstj. tækist ekki að komast að samningum við þau. Að vísu var sú heimild þá tímatakmörkuð hvað gildi snertir, en ég var að minna hæstv. forsrh. á, að það mundi nú ganga fljótlega hérna í þinginu, ef ríkisstj. óskaði þess að fá hana setta aftur í fullt gildi. Ríkisstj. hefur til þess fulla möguleika. Hún er í fyrsta lagi eigandi allrar þeirrar olíu, sem til Íslands er keypt. Hún getur látið olíuhringana hætta þeirri þjónustu, sem þeir nú ekki rækja. Hún getur samið við verkalýðsfélögin, og olíuafhendingin stendur áreiðanlega undir því að ganga að samningunum við verkalýðsfélögin. En svo minntist hæstv. forsrh. á, að þetta hefði einhverjar ægilegar afleiðingar. Hvaða ægilegar afleiðingar? Jú, þær ægilegu afleiðingar, að landsfólkið fengi olíu. Mér finnst það satt að segja ekki ægilegar afleiðingar. Mér finnst þvert á móti hitt ægilegar afleiðingar, ef landsfólkið fær ekki þessa olíu. Það eru kannske þessar ægilegu afleiðingar, að það væri fallizt á kaupkröfu verkamanna. Eru það einhverjar ægilegar afleiðingar! Ég sé ekki betur en a. m. k. ef þessi hæstv. ríkisstj. héldi nú áfram að vera við völd, að hún mundi nokkurn veginn sjá um að reyna að ná þessu aftur af fólkinu, a. m. k. hefur hún alltaf gert það. Ef verkafólkið ætlaði að halda þeim aurum, sem það næði með þessu, þá yrði það áreiðanlega að láta ríkisstj. fara frá, eftir að hún væri búin að setja olíuhringana frá.

Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. ætti nú að skilja, hvaða möguleikar þarna eru, og þó að það hafi nú blandazt nokkurt glens inn í þessar umr. hjá okkur, þá vil ég minna hann á, að þarna er um mjög alvarlegan hlut að ræða, hlut, sem ríkisstj. ber siðferðislega ábyrgð á, vegna þess, að hún hefur gert olíuhringana að millilið milli sín og þjóðarinnar um öll olíukaup og olíuflutninga til landsins. Það er enginn annar, sem hefur gert það en hún. Þess vegna mun siðferðislega ábyrgðin á þessu hvíla á henni.