23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta er örstutt athugasemd. Þetta var nú önnur útgáfa af ræðu hv. þm., dálítið betri en fyrsta útgáfa. Það getur vel verið, ef hv. þm. vill halda hana tíu sinnum, að þá verði hún skýr. En ef mér skilst rétt, að meiningin sé sú, að hér þurfi að gefa út lagaákvæði, rifta gerðum samningum ríkisstj. við innflytjendur á olíu, og þá muni ríkisstj. öðlast þann heiður og þau fríðindi að mega semja við verkalýðsfélögin um þær hækkanir, sem þau nú hafa farið fram á, þá tel ég þetta vera mikil kostakjör! En ef hv. þm. spyr, hvers vegna ég sé ekki svo mjög ginnkeyptur fyrir að fá þessi fríðindi, þá er það alveg rétt til getið hjá honum, hvers vegna það er. Það er vegna þess, að þá mundi þessi ríkisstj. neyðast til að taka það af fólkinu aftur, sem það fengi með þessum kjarabótum, og þar með mundu kjarabæturnar verða gerðar að engu, en krónan felld.

Varðandi stjórnarskiptin hef ég engan áhuga fyrir þeim, í fyrsta lagi af því, að þetta er prýðileg stjórn, sem nú er, og í öðru lagi vegna þess, að ég veit, að þegar búið er að gaufa við vinstri stjórn í fjóra mánuði og ekkert gengur saman, þá verður reynt að fá mig til að vera forsrh. í henni, og það verður miklu verri stjórn.