25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Á Alþingi og í blöðum landsins hefur oftlega verið vikið að því síðustu dagana, að ríkisstj. Íslands bæri að leysa kaupdeilu þá, sem nú stendur yfir. Umræður þessar bera vitni um, að menn hafa ekki haft handbær gögn um áhrif kauphækkunar á ríkisbúskapinn. Hygg ég því ekki hjá því verða komizt, að ríkisstj. gefi upplýsingar, er mættu auðvelda mönnum réttan skilning á þessum efnum. Hefur því verið gerð áætlun um áhrif kaupgjalds á ríkisbúskapinn. Er þá miðað við 7% hækkun grunnkaups annars vegar, en á hinn bóginn 26% hækkun grunnkaups. Báðar þessar tölur hafa verið talsvert nefndar í sambandi við málið, og það gefur gleggri mynd að taka þannig tvö dæmi.

Áætlun um hækkun ríkisútgjalda á næsta fjárlagaári, 1956, ef grunnkaup hækkar um 7% eða 26 % :

1) Hækkun launa um 7% mundi kosta um 12 millj. á ári. 26% eru þá 42.2 millj.

2) Hækkun tryggingarútgjalda, vegaviðhalds, sjúkrakostnaðar utan ríkissjúkrahúsa, fæðiskostnaðar á skipum, sjúkrahúsum og framfærsluframlags, ef miðað er við 7%, er 5.2 millj. 26% = 18.5 millj.

Samtals, ef miðað er við 7%, 17.2 millj., ef miðað er við 26%, 60.7 millj.

Auk þessara liða hækka margir aðrir liðir, sem draga sig saman, og mjög stórir framkvæmdaliðir, sem hljóta að hækka, þegar frá liður. Þá hækka ríkisútgjöldin til viðbótar þessu með hækkandi vísitölu, en vísitalan hlýtur að hækka, ef kauphækkanir verða. Hækka ríkisútgjöldin um a. m. k. 1.2 millj. kr. við hvert vísitölustig. Gert er ráð fyrir, að verðhækkun á landbúnaðarvörum mundi valda 2.9 stigum í vísitölunni næsta haust, ef 7% grunnkaupshækkun yrði, og er þá miðað við núgildandi verðgrundvöll landbúnaðarafurða. En 26% kauphækkun mundi valda á sama reikningi 10.6 stiga hækkun næsta haust, vegna landbúnaðarafurðanna einna saman. Auk þess hlytu kauphækkanirnar að valda hækkun á vísitölunni gegnum fleiri liði en landbúnaðarafurðir, þótt staðið yrði gegn slíkum hækkunum sem auðið væri, og yrði þá hækkun vísitölunnar meiri en þetta.

Það er því áætlað, að áhrif 7% hækkunar til hækkunar á ríkisútgjöldum næsta fjárlagaárs yrðu ekki undir 22 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir 4 stiga hækkun vísitölunnar á þessu ári, og áhrif 26% kauphækkunar yrðu ekki undir 78.7 millj., enda er þá ekki reiknað með meira en 15 stiga hækkun á vísitölunni á þessu ári.

Hér er gert ráð fyrir þeirri hækkun ríkisútgjalda einni, sem yrði bein afleiðing kauphækkananna, en ekki neinum aukaútgjöldum í sambandi við lausn verkfallsins, svo sem sérstökum stuðningi við framleiðsluna eða auknum niðurgreiðslum á vöruverði. Ef út í slíkt ætti að fara, mundi útgjaldaaukning ríkisins fljótlega vaxa, enn um milljónatugi.

Þá er þess að geta, að kostnaður við raforkuframkvæmdir ríkisstj. mundi hækka að sjálfsögðu og þar koma til nýtt fjáröflunarmál. Tekjuskatturinn mundi sennilega hækka eitthvað vegna hærri tekna á pappírnum hjá sumum, þótt minni yrði hjá öðrum, — og söluskattur örlítið vegna hærri talna. Gæti hér verið um að ræða 3–4 millj. eða svo, ef um 7% kauphækkun væri að ræða, en 12–14 millj. eða svo, ef um 26% kauphækkun væri að ræða.

Til þess að sýna, hvers konar viðfangsefni niðurborgun verðlags er orðin, ber nauðsyn til að upplýsa eftirfarandi um kostnað við að greiða niður vöruverðið. Stigið í smjöri mundi kosta ríkissjóðinn 6.2 millj., í smjörlíki 4.7 millj., í kjöti 4 millj. — þ. e. a. s. nú, en mun meira, þegar sú aukning kemur af dilkakjöti, sem verður í haust, í saltfiski 2.3 millj., í mjólk 5.2 millj.

Tekjur á rekstrarreikningi ríkisins eru áætlaðar í gildandi fjárlögum 513.8 millj. kr., en urðu 1954 sem næst 540 millj. Fyrir umframgreiðslum eru þannig sem næst 5%. Umframgreiðslur hafa aðeins einu sinni orðið undir 7% síðustu 30 ár eða lengur.

Af þessu er augljóst, að fyrir næsta ár yrði að gera stórfelldar ráðstafanir til skatta- og tollahækkana, ef kauphækkanir verða verulegar, enda þótt ríkið yrði ekki fyrir öðrum útlátum en þeim, sem leiða mundi af hækkun kaupgjalds og verðlags. Ættu hins vegar að koma til bein framlög af hendi ríkisins í sambandi við lausn vinnudeilunnar, yrði að taka þau með því að auka álögur enn meira en ella.

Ég hef talið mér skylt fyrir hönd ríkisstj. að gefa þessa skýrslu hér á Alþ., svo að menn gætu betur glöggvað sig á ástandinu. Mér þykir ekki eðlilegt, að menn geti gert sér fulla grein fyrir þeim tölum, sem hér eru nefndar, og mun þess vegna senda bæði blöðum og útvarpi þessa skýrslu, svo að hún geti komið fyrir almenningssjónir og menn geti þá gagnrýnt hana, ef þeir telja, að hún sé ekki á réttum rökum reist eða einhverjar þær tölur, sem þar eru greindar, séu á misskilningi byggðar að einhverju meira eða minna leyti. Ég geri mér hins vegar sjálfu von um, að upplýsingarnar standist alla gagnrýni, enda hefur ríkisstj. unnið að þessu máli í samráði við og með aðstoð þeirra helztu sérfræðinga, sem hún á aðgang að í þessum efnum.