25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma með þessar upplýsingar hér á þingfund, og hefði þó máske verið enn þá betra að fá þessar upplýsingar fyrr, því að sannleikurinn er, að hver dagur, sem vinnustöðvunin heldur áfram, kostar þjóðarbúskapinn upphæðir, sem slaga upp í þær, sem hann telur að það mundi kosta ríkisbúskapinn í heilt ár að leysa verkfallið. Þess vegna hefði verið æskilegt, af því að þetta er ekkert ákaflega mikið reikningsdæmi, að þessar tölur hefðu verið lagðar fyrir þingið fyrr og áður en verkfallið byrjaði. En engu að síður er ágætt, að hæstv. forsrh. hefur nú lagt þetta fyrir, og ég vildi biðja hann, af því að ég er nú ekki sérstaklega vel að mér, því miður, í þessum tölum, um nokkrar upplýsingar út frá þessu.

Það er í fyrsta lagi : Það er reiknað út, að 7% grunnkaupshækkun mundi kosta ríkisbúskapinn 12 millj. kr. á árinu 1956. Má ég þá spyrja: Eru þessar 12 millj. kr. einvörðungu 7% hækkun á launum þeirra verkamanna, sem nú eru í verkfalli, og svipaðra, svo sem vegavinnumanna, sem starfa í þjónustu ríkisins? Er það einvörðungu hækkun á kaupi verkamanna, sem nú standa í deilu, sem nemur á árinu 1956 12 millj. í ríkisbúskapnum? Það þætti mér vænt um að fá upplýst. Eða er reiknað inn í þessa upphæð eitthvað fleira?

Þá er í öðru lagi: Viðvíkjandi hækkun trygginga, vegaviðgerða, sjúkrakostnaðar, fæðiskostnaðar á skipum, framfærslumála og annars slíks skilst mér að sé reiknað með því hjá hæstv. ríkisstj., að allar tryggingar og allt slíkt verði hækkað að sama skapi. Er það ekki rétt? Þessar 5.5 millj., sem reiknað er með að 7% hækkun á grunnkaupi verkamanna mundi skapa, séu ekki afleiðing af hækkun á kaupi verkamannanna. heldur afleiðing af samsvarandi hækkun á tryggingum og öðru slíku. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi mjög greinilega fram. Ég get ekki skilið þennan lið raunverulega öðruvísi, nema að vísu vegaviðgerðirnar. En hitt aftur á móti, tryggingarnar og annað slíkt, hlýt ég að skilja svona. En um þetta get ég náttúrlega ekki rætt, fyrr en ég fæ skýringuna á því.

Þá er komið inn á þá hækkun, sem verði á vísitölunni í sambandi við þetta. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að koma með eina fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. Getur hæstv. ríkisstj. ekki hugsað sér, að í sambandi við grunnkaupshækkanir nú væri sett á verðlagseftirlit og jafnvel verkalýðssamtökunum að einhverju leyti gefinn möguleiki til þess að hafa hönd í bagga með því verðlagseftirliti? Af hálfu núverandi stjórnarflokka var afnumið það verðlagseftirlit, sem áður var, og eftir að það verðlagseftirlit var afnumið, varð mjög greinilegt, að vörur hækkuðu ákaflega mikið. Ef haldið er fast við, að það eigi að leyfa ótakmarkaða álagningu eða að það sé eingöngu sú svokallaða frjálsa samkeppni, sem eigi að takmarka álagninguna, þá er það náttúrlega vel hugsanlegt, að þessir útreikningar séu réttir. En svo framarlega sem Alþ. ákvæði harðvítugt verðlagseftirlit og framkvæmd á því, gætu þessir útreikningar reynzt skakkir. Ég er hræddur um, að þessir útreikningar um hækkunina á stigunum byggist ekki á þeim möguleika, að það sé haft með höndum mjög skarpt verðlagseftirlit og reynt af hálfu þess opinbera að hindra verðhækkanir.

Þá kom hæstv. forsrh. að því í skýrslu ríkisstj., að m. a. hlytu raforkuframkvæmdir að hækka. Nú vitum við það, að raforkuframkvæmdirnar eru eitt höfuðáhugamál ríkisstj. eða eitt höfuðstefnumál hennar. Þar var ekki komið með neinar tölur. En ég hef áður komið með nokkrar tölur hér í sambandi við raforkuframkvæmdir, og ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., að hún hefur alveg í sínum höndum að láta ekki kostnað við raforkuframkvæmdir hækka, þó að grunnkaup yrði hækkað. Reynslan undanfarin ár er sú, að það dýrasta við raforkuframkvæmdir eru afskipti og álög ríkisstjórnarinnar. Ég skal taka Sogsvirkjunina nýjustu, sem kostaði 195 milljónir. Öll vinnulaun við þá Sogsvirkjun, þessi gífurlega miklu neðanjarðargöng, sem þar. varð að grafa, og allt annað slíkt, voru rúmar 40 millj. kr., en söluskattur og tollar til ríkisstj. voru 25 millj. kr. Svona var Eysteinn þungur. Og vextirnir, meðan á byggingunni stóð, voru 9 millj. kr. Það voru 33 millj. kr., sem ríkisstj. tók til sín af þessu fyrirtæki, sem kostaði 195 millj. En öll vinnulaunin við að framkvæma allt þetta voru 40 millj. Það var tvívegis stöðvað af verkföllum, meðan Sogsvirkjunin stóð yfir, og sagt, að það væri allt of mikið að láta verkamenn fá nokkur prósent grunnkaupshækkun. En það var aldrei talað um, að það væri of mikið að borga Eysteini 25 millj. í söluskatt.

Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að hún hefur fyllilega þann möguleika, sem væri líka eðlilegur að öllu leyti, að hætta að innheimta svona gífurlega skatta af þeirri fjárfestingu, sem á sér stað í raforkuframkvæmdunum. Og annan hlut til hefur hún líka á sínu valdi, og það er að lækka vextina við raforkuframkvæmdirnar. Það er hún sjálf, sem er lánveitandinn, eða mótvirðissjóðurinn, og það eru reiknaðir 5½% vextir af fé til raforkuframkvæmdanna, — því fé, sem ríkisstj. sjálf upphaflega fær með því að borga 3½% vexti af því, ef ég man rétt. Það er engin þörf á þessum háu vöxtum. Og það er ekki heilbrigt að stofna til þeirrar miklu fjárfestingar, sem við þurfum að leggja í og eigum að leggja í á Íslandi, og hafa þá reglu um leið að hafa svona háa vexti í sambandi við féð, sem lánað er til þess.

Ég vil aðeins benda á það núna, að Sogsvirkjunin, sem á ári kostar í rekstri um 27 millj. kr. og þar af 6–7 millj. kr. í afborganir, borgar tæpar 10 millj. kr. í vexti, en öll vinnulaun við Sogsvirkjunina eru 1.8 millj. Menn sjá þess vegna greinilega af þessu, að það, sem íþyngir þessum fyrirtækjum, eru vextirnir. Það er svo að segja vaxtaokrið. En það eru ekki vinnulaunin.

Þetta er nú aðeins það, sem ég vildi minnast á út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um, hvað raforkuframkvæmdirnar mundu hækka.

Þá birti hann útreikning yfir, hvað stigið í hverri af þeim vörum, sem kæmi til greina að kaupa niður, mundi kosta, og það er ég náttúrlega ekki fær um að neinu leyti að gagnrýna að svo stöddu. Mér sýnist, að stigið í mjólkinni sé reiknað allmiklu hærra, ef það er reiknað 5.2 millj., heldur en var fyrir nokkrum árum, 1952. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Ætli það sé ekki vegna þess, að neyzlan hefur vaxið? Það hefur reynzt praktískt, ekki sízt fyrir bændur, að ríkið kaupi mjólkina svona niður, og það hefur sýnt sig að vera ákaflega mikið hagsmunamál, sameiginlegt hagsmunamál fyrir bæði verkamenn og bændur, að þeirri aðferð væri beitt.

Þessar tölur, sem eru hérna, frá 17 og upp í 60 millj., þegar reiknað er með öllu og öllu þarna í, annaðhvort 7% eða 26%, eru ekki tölur, sem ógna okkur reitt hér á Alþingi. Við erum vanir að fá ríkisreikning, þegar hæstv. fjmrh. leggur reikningana fyrir okkur á eftir og státar af, og þá hefur hann alltaf upp undir 100 millj. í afgang. Ég sé ekki betur en að það sé verið að sanna okkur, að það sé auðvelt að ráða við það smáræði, sem þarna er um að ræða.

Ég held þess vegna, að eftir þessa skýrslu ætti að vera allt í lagi. Í fyrsta lagi er það ríkisbúskapurinn á árinu 1956, sem þarna er verið að hugsa um, ekki 1955. Í öðru lagi, þó að það væri fallizt á 26% kauphækkun, sem mundi með öllum þessum útreikningi kosta um 60 millj., þá sýnist það ekki einu sinni taka allt það, sem ég býst við að hæstv. fjmrh. búi sig undir að hafa afgangs eftir þetta ár, þannig að ég sé ekki þörf á neinum álögum til þess að fallast á þessi 26%. En það er annað, sem mér sýnist vera hættulegt, og það er, að svo framarlega sem ekki verður samið fljótt, hvort sem það er um þessi 26% eða annað, sem hægt yrði að komast að samkomulagi um, þá er það, sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. sérstaklega hafa lýst yfir, að þeir vildu forðast, sem sé að gengið félli, dunið yfir okkur. Við skulum gera okkur ljóst, að ef þessi vertíð hér við Faxaflóa á að eyðileggjast í baráttu á milli verkamanna og auðvaldsins, þá þýðir það, að grundvöllurinn undir íslenzku krónunni fer um leið. Það er miklu hættulegri hver dagur eða hver vika, sem ekki er unnið af fullum krafti að framleiðslu fisks við Faxaflóa í marz og apríl, heldur en 10% eða 20% eða 30% kauphækkun til verkamanna. Sá fiskur, sem er ekki veiddur, kemur ekki aftur, og hann hjálpar ekki til þess. Hver dagur, sem sleppt er við að vinna, kemur ekki aftur, og sá dagur, sem þannig fellur úr, stuðlar að því, að gengi íslenzku krónunnar falli. Þess vegna álít ég ekki vera eftir neinu að bíða. Ef við ætlum að reyna að tryggja gengi okkar íslenzku krónu, þá þurfum við að sjá um, að það sé samið strax, hvort sem það er 7% eða 26%, hvort sem það eru 17 millj. eða 60 millj., sem það kostar, eða einhvers staðar þarna á milli. Það er alltaf fyrir ríkisbúskapinn og fyrir þjóðarbúskapinn miklu ódýrar sloppið heldur en stöðvunin. Hitt efast enginn um, að verkamennirnir, sem eiga að lifa af 3000 kr. á mánuði, geta ekki lifað á því. Og það er enginn og sízt af öllu hér á Alþ., sem dirfist að halda því fram, að verkamaður eigi að geta framfleytt sinni fjölskyldu með 3000 kr. á mánuði.

Þess vegna liggur það fyrir, álít ég, að verða við þessum kröfum, og þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. nú hefur lagt hér fyrir, eru frá mínu sjónarmiði til þess að styðja að því, að tafarlaust sé samið. Það er áreiðanlega það, sem ódýrast er fyrir þjóðarbúskapinn og meira að segja ríkisbúskapinn líka.