25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er viðurkenningarvert, þegar hæstv. ríkisstj. sér sér fært að koma með upplýsingar um mál, sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu, og þess vegna vil ég fyrir mína hönd þakka fyrir þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan. Það er viðurkenningarvert að fá þessar upplýsingar, jafnvel þó að mætti gagnrýna þær. En á þessu stigi málsins skal ég ekkert um það segja. Til þess er engin aðstaða hér, eins og hæstv. forsrh. gat um í ræðu sinni. Hitt ber að gagnrýna og má gagnrýna, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki sjá sér fært að hafa þessar upplýsingar tilbúnar, áður en til verkfalla kom, svo langur aðdragandi sem að þeim varð að þessu sinni, þar sem þau voru fyrst undirbúin með alllöngum fyrirvara og svo gerðist sá einstæði atburður í baráttu íslenzkra verkalýðsfélaga, að verkföllum var frestað fram yfir tilsettan tíma, til þess að stjórnarvöldum landsins gæfist kostur á að afla sér þeirra upplýsinga og leita þeirra ráða, sem tiltæk væru til þess að leysa kjaradeiluna án þess, að til vinnustöðvunar þyrfti að koma. En ég skal ekki fjölyrða neitt um þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan. En þær gefa mér tilefni til þess að víkja nokkuð að öðru máli.

Áður en til núverandi kjaradeilna kom, voru að sjálfsögðu mikil skrif um þær í blöðum og jafnvel rætt um þær hér á Alþingi. Af hálfu stjórnarflokkanna var því þegar lýst í upphafi, að það kæmi ekki til mála frá þeirra sjónarmiði að hækka kaup, heldur bæri að fara hina leiðina, sem líka hefur verið rædd í þessu sambandi, þ. e. a. s. niðurfærsluleiðina. Í blöðum stjórnarflokkanna var þetta rætt dag eftir dag í langan tíma. En nú ber svo við, að síðan kjaradeilan fór að harðna, frá því að verkföll áttu að hefjast og síðan þau hafa hafizt, hefur lítið eða ekkert verið minnzt á þessa leið í hlöðum stjórnarflokkanna. Og enn síður hefur verið á þessa leið minnzt í blöðum Alþfl. og Sósfl. Þeir menn. sem fyrir Alþfl. hafa talað í þessum málum og látið skoðun sína á þeim í ljós, hafa þó eindregið lýst því yfir, að það væri stefna og skoðun þess flokks, að það væri hagkvæmara fyrir verkalýðinn að afla sér raunhæfra kjarabóta með því að færa niður verðlag og ýmsa aðra hluti í þjóðfélaginu. Í ræðu, sem hv. 7. landsk. þm. flutti fyrir skömmu hér á Alþ., staðfesti hann þessa skoðun mjög rækilega, og var sú ræða birt í Alþýðublaðinu. Hins vegar hafa kommúnistar frá því fyrsta lýst sig mjög andvíga þessari leið, þangað til mér virtist að mætti skilja á hv. 2. þm. Reykv. núna, að þeir væru farnir að hugsa dálítið öðruvísi í þeim málum.

Það hlaut öllum að vera ljóst, að ætti að fara þessa leið, að lækka verðlag og skatta og ýmsa hluti í þessu þjóðfélagi, þá yrði það ekki gert nema með ráðstöfunum af hálfu Alþingis. Það hlaut öllum að vera ljóst, að það var þýðingarlaust að koma til manna, sem hafði verið gefið frelsi til þess að skammta sér sjálfum hlut úr þjóðarbúinu, og segja við þá: Herrar góðir. Eruð þið ekki sammála um að bjóðast til að lækka ykkar hlut, sem þið hafið sjálfir skammtað að undanförnu mjög ríflega? — Þetta hlaut öllum að vera ljóst að var tilgangslaust. Það eina, sem til mála kom, var að samþykkja lög hér á Alþ.

Nú liggur málið þannig fyrir, að 23. febr. bárum við þm. Þjóðvfl. fram á Alþ. frv. um lækkun verðlags í landinu. Meginatriði þessa frv. voru þau, að verðlagseftirlit skyldi tekið upp og það afhent Alþýðusambandinu, yfirstjórn verkalýðssamtakanna, og að söluskattur skyldi lækkaður. Þessu frv. var vísað til hv. fjhn. Nd. 25. febrúar s. l. Í dag er 25. marz. Það er mánuður liðinn síðan þessu máli var vísað til n., því máli, sem að dómi ráðamanna í verkalýðshreyfingunni hefði getað orðið veigamesti þátturinn í að leysa núverandi kjaradeilu og firra þjóðina þeim vandræðum og því tjóni og því böli, sem verkfal] raunverulega er. En svo hefur við brugðið, að hv. fjhn. Nd. hefur lagzt á þetta mál og ekki hreyft því í heilan mánuð. Á öllum þessum tíma hefur verið haldinn einn einasti laumufundur í þessari n. til þess að þurfa ekki að ræða þetta mál. Fyrir viku fór ég þess vinsamlega á leit við hæstv. forseta þessarar d., að þetta mál yrði tekið af n., sem því var vísað til, og það tekið hér á dagskrá í þinginu til 2. umr. Við þessum tilmælum hefur hæstv. forseti ekki enn séð sér fært að verða.

Nú vil ég endurtaka þessi tilmæli og ég vil jafnframt krefjast þess, að þetta mál verði tekið af hv. fjhn. og á dagskrá á næsta fundi þessarar hv. d. Og ég vil benda á, að það eru fordæmi fyrir, að slíkt hafi verið gert og sé gert.

Á síðasta þingi var m. a. eitt mál, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér, tekið á dagskrá samkv. hans kröfu, án þess að n. fjallaði um það. Og mér er tjáð, að hæstv. forseti Ed. hafi nú að undanförnu tekið eitt eða fleiri mál þannig á dagskrá. Ég vil ekki una því að búa ekki við sama rétt og aðrir þm. í þessu efni, og þess vegna vil ég endurtaka þá kröfu mína, að þetta mál verði tekið af hv. fjhn. og á dagskrá þessarar d. á næsta fundi hennar.