25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ef það hefði verið hugmynd ríkisstj., að sú skýrsla, sem hæstv. forsrh. gaf hér í upphafi þessa þingfundar, yrði rædd ýtarlega, þá hefði henni að sjálfsögðu verið útbýtt skriflegri, áður en ræða forsrh. hófst, þannig að þm. gæfist a. m. k. kostur á að yfirfara, hvað í henni fælist.

Ég vil taka undir það með öðrum hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað á undan, að þess er að sjálfsögðu enginn kostur að ræða slík fræði, um leið og þau eru lesin upp, og mun ég þess vegna geta farið fljótt yfir sögu hvað viðvíkur skýrslu forsrh., a. m. k. að þessu sinni. Hitt er öllum augljóst, að það er ekkert gamanmál fyrir verkalýðssamtökin að leggja út í slíka deilu sem þau hafa nú þegar lagt út í, og sú hagfræði, sem verkalýðssamtökin og einstakir meðlimir þeirra byggja fyrst og fremst á, er afkoma alþýðuheimilanna sjálfra, og það er sú hagfræði, sem verkalýðssamtökin hafa orðið að byggja launabaráttu sína á á undanförnum árum, og þar eru undirstöðurnar undir núverandi kjaradeilu.

Hv. 8. landsk. kom að því í ræðu sinni áðan, að áhugi okkar í hinum svonefndu verkalýðsflokkum, Alþfl. og Sósfl., væri eitthvað minnkandi fyrir þeirri stefnu, sem við hefðum upphaflega talað um, þó sér í lagi Alþýðuflokkurinn, þ. e. a. s. niðurfærslu verðlags og að kauphækkun yrði fengin á þann hátt.

Ég þóttist hafa skýrt þetta mál greinilega í þeirri ræðu, sem hann reyndar vitnaði til hér áðan, hvernig er í pottinn búið af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er öllum augljóst, sem um þessi mál vilja hugsa, að niðurfærslu verðlags getur verkalýðshreyfingin ekki krafizt af hálfu atvinnurekenda. Hins vegar hefur samninganefnd verkalýðsfélaganna lýst því yfir fyrir sitt leyti, að hún muni meta þau tilboð, sem koma um verðlagslækkanir, til kauphækkunar, þegar þau tilboð liggja fyrir. Það er að sjálfsögðu í hendi ríkisvaldsins, og það þóttist ég einnig hafa bent á í minni ræðu, að bjóða þessa leið, og fyrir hennar tilstilli einnar er mögulegt að fara slíka leið. Verkalýðssamtökin munu meta þau tilboð, þegar þau liggja fyrir, hvað þau verka mikið til móts við þær kröfur, sem verkalýðshreyfingin hefur þegar lagt fram, og draga þá af kröfum sinum í samræmi við það og í samræmi við gildi þeirra tilboða, sem fyrir lægju þá.

Ég held, að höfuðatriðið í þeim umr., sem hér hafa verið hafnar um verkfallsmálin og launadeiluna, hafi reyndar komið fram í þeim fáu orðum, sem hv. 1. landsk. (GÞG) minntist hér á áðan. Þjóðartekjurnar hafa aukizt á tveimur s. l. árum um 25–30%, og það er í þessa aukningu, sem verkalýðssamtökin ætla að sækja sínar kauphækkanir.

Ég tek einnig undir það með hv. 2. þm. Reykv., að það væri vissulega spor áleiðis í áttina til móts við verkalýðssamtökin, að komið yrði á verðlagseftirliti og fyrir það girt, að vöruverð hækkaði frá því, sem nú er. En fyrir því er engin trygging í dag, og einmitt sú ringulreið, sem ríkir í verðlagsmálum á Íslandi, mun ekki hvað sízt vera undirrótin að þeim átökum, sem nú eiga sér stað á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda.

Ég ítreka svo fyrri ummæli mín um það, að það er vissulega ekkert gamanmál fyrir verkalýðshreyfinguna að leggja út í slíka hluti, og hún gerir þetta í algerri nauðvörn vegna þess fjárhagslega ástands, sem ríkir á íslenzkum alþýðuheimilum í dag, og hún er staðráðin í að bæta það ástand og byggir því kröfur sínar um íhlutun í hinum auknu þjóðartekjum fyrst og fremst á því, að hagur þessara heimila og íslenzkrar alþýðu verði bættur. Það er sú hagfræði, sem verkalýðssamtökin hafa byggt baráttu sína á og munu byggja á í framtíðinni. Það er þess vegna engin stoð fyrir fátæk alþýðuheimili, sem nú berjast í bökkum þrátt fyrir aukna eftirvinnu og mikla atvinnu yfirleitt fyrir hvern þann mann, sem heilsu hefur til að vinna, að hrúgað sé yfir þau tölulegum skýrslum, reiknuðum út af hagfræðingum, sem að sjálfsögðu má á ýmsa vegu víxla til, svo að vægt sé að orði komizt. Sú hagfræði bjargar ekki þeim heimilum, sem í dag berjast í bökkum. Og það er tilgangslaust að ætla sér að sannfæra verkalýðshreyfinguna um það, að hagur hennar sé góður. Hún mundi ekki leggja til slíkra átaka sem hún hefur þegar lagt til, ef svo væri.