28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Á síðasta þingfundi flutti hæstv. forsrh. nokkra skýrslu af hálfu ríkisstj., og það urðu nokkrar, en þó litlar umræður um þá skýrslu, og hæstv. forsrh. varð þá að víkja af fundi og gat ekki gefið þær upplýsingar að öllu leyti, sem farið var fram á.

Nú vil ég leyfa mér, af því að ég sé, að ekkert hefur gerzt um helgina í þeim samningum, sem hæstv. ríkisstj. hefur með að gera, hvað snertir vinnudeiluna, að leggja fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um, hvort hún geti ekki gefið okkur nú sundurgreiningu á því, hvernig skiptast þær 12 millj., sem hún reiknaði með, ef það yrði 7% kauphækkun, og þær hærri upphæðir, sem hún reiknaði með, ef kauphækkunin yrði hærri en það, — hvernig það skiptist hvað útgjöld snertir á milli starfsmanna ríkisins annars vegar og hins vegar þeirra verkamanna, sem nú standa í kaupdeilu, að svo miklu leyti sem þeirra kauphækkunarkröfur mundu koma við ríkisbúskapinn. Eins og hv. þingmenn muna, var útreikningur ríkisstj. þessi hvað kaupgjaldið snerti, að ef það hækkaði um 7%, mundi það kosta ríkisbúskapinn beint 12 millj. og samsvarandi hækkun, ef það hækkaði um 26%.

Mér skilst, eins og ég minntist á á síðasta fundi, að 2/3–3/4 hlutar af þessum útreikningi ríkisstj. væru byggðir á kauphækkun, ekki til verkamanna, heldur til starfsmanna ríkisins, og það kauphækkun, sem ríkisstj. með öðrum orðum reiknar með og á vissan hátt gerir kröfu til að nú sé samþ. af Alþ. sama sem, með því að tengja þessar till. við lausn kaupdeilunnar.

Ég vil taka það fram, að ég álít þennan útreikning ríkisstj. ákaflega óviðfelldinn. Og alveg sérstaklega óviðfelldinn verður hann, þegar hann kemur þannig fram í útvarpinu, að meginþorri fólks hlýtur að skilja þetta sem svo, að þarna sé ríkisstj. að reikna út, hvað kauphækkun hjá þeim verkamönnum, sem nú standa í deilu, kosti ríkissjóð. En það, sem raunverulega felst í þessu, er, hvað kauphækkun til allra starfsmanna ríkisins, líka til hálaunamannanna, komi til með að kosta ríkissjóð. M. ö. o.: Það, sem raunverulega gerðist hér á síðasta fundi, var, að ríkisstj. eða ráðherrarnir lögðu fram kauphækkunarkröfur ráðherranna og annarra hálaunamanna, sem sé gerðu kröfu til þess af Alþ., að svo framarlega sem ætti að leysa þessa deilu með kauphækkun t. d. fyrir verkamenn, þá skyldi og hækka hjá öllum starfsmönnum ríkisins og hjá hálaunamönnum jafnt sem öðrum, hlutfallslega jafnt. Nú munum við eftir því, að þessir sömu hálaunamenn fengu 10% hækkun fyrir nýár. Núna krefst ríkisstj. þess, að þeir fái sömu hækkun og Dagsbrúnarmenn muni fá og líklega þar að auki að prósenttölunni sé breytt, því að það er líka ein af þeim kröfum, sem verkamenn eru með nú, þannig að full vísitala sé reiknuð þarna ofan á. Það væri gaman að fá út, hvað kaup hálaunamannanna hjá ríkinu yrði, eftir að búið væri að taka tillit til þessa útreiknings ríkisstj., sem lagður var fram á síðasta fundi.

Mér skilst þess vegna, að ástandið sé þannig í dag, að raunverulega hafi ríkisstj. með þessum tilkynningum verið að lýsa yfir eins konar verkfalli ráðherranna og hálaunamanna ríkisins, eins konar samúðarverkfalli máske, en að segja a. m. k.: Ekki skulu verkamenn fá neina kauphækkun, fyrr en Alþ. er búið að gera sér ljóst, að þetta kostar svona og svona mikla kauphækkun til starfsmanna ríkisins og þar með hæst launuðu embættismannanna. — Mér skilst, að það sé búið svo að segja að stöðva allar raunverulegar sáttatilraunir, m. a. eftir að þessi útreikningur kom fram. Meðan vofir yfir meira eða minna stöðvun hér á vertíðinni. Og mér skilst, að við eigum að fá að standa frammi fyrir því, að svo framarlega sem ekki séu leyst kaupspursmál starfsmanna ríkisins nú, um leið og kauphækkunarmál verkamanna eru leyst, þá getum við vel orðið að horfa upp á það, að vertíðin meira eða minna eigi að stöðvast, eftir að olíu færi að skorta.

Ég vil minna á, að í sambandi við síðasta verkfall, í desember 1952, var farið þannig að viðvíkjandi starfsmönnum hins opinbera, að þegar það verkfall var búið, voru tekin fyrir launamál starfsmanna ríkisins og reynt að finna nokkra lausn á þeim, og það var ekki farið eftir sömu reglu við lausnina á vandamálinu um starfsmenn hins opinbera og farið var eftir við kaupgjaldið til verkamanna. Það voru ekki veittar sömu uppbætur þá til hæst launuðu starfsmanna ríkisins og til hinna lægst launuðu. Það vita allir, að lægst launuðu starfsmenn ríkisins og yfirleitt lægra launuðu starfsmenn ríkisins þurfa alveg nauðsynlega að fá sína kaupuppbót og endurskoðun á sínum launakjörum, og í því starfar nefnd frá hálfu ríkisstjórnarinnar. Það eru áreiðanlega hins vegar skiptar skoðanir um, hvaða reglur eigi að viðhafa viðvíkjandi launum hinna hæst launuðu. Og það er engin ástæða til þess að setja Alþingi frammi fyrir því, ef það að sínu leyti vill gera eitthvað til að leysa þá deilu, sem nú stendur yfir, að það eigi að leysa um leið spursmálið um, hvaða kaup starfsmenn ríkisins skuli hafa. Það er spursmál, sem verður að leysa út af fyrir sig og á eftir, og það er ekki rétt að blanda því inn í þetta.

Þess vegna álít ég, að það hafi verið í fyrsta lagi rangt, ef ríkisstj. hafði áhuga á að leysa yfirstandandi kaupdeilu, að blanda spursmálinu um laun starfsmanna ríkisins inn í hana, og í öðru lagi álit ég, að það hafi verið blekking að setja þetta mál fram eins og það var sett fram, án þess að taka nokkurs staðar fram, að þarna væri verið að reikna með þeim kostnaði, sem yrði af samsvarandi launahækkunum hjá öllum starfsmönnum ríkisins eins og gengið yrði að í kaupdeilunni til verkamanna. Þetta var hvergi tekið fram.

Ég álít þess vegna, ef hæstv. ríkisstj. vill hafa einhvern snefil af hlutleysi eða réttara sagt sannleika í sambandi við það, sem hún lætur frá sér fara í þessari deilu, þá eigi hún að gefa út yfirlýsingu um það nú á eftir, að það hafi láðst að taka það fram eða að til frekari skýringar skuli það tekið fram, að í þessum útreikningum hennar hafi hún reiknað með samsvarandi kauphækkunum til allra starfsmanna hins opinbera og hún reikni með að fallizt sé á til verkamanna.

Mér sýnist yfirleitt nú stefna í þá áttina, að þessi kaupdeila ætli að verða mjög löng og hörð og að ríkisstj. að sínu leyti geri sitt til þess að gera hana þannig harðvítuga. Og ég verð að segja, að ég fer lítt að skilja þá ábyrgðartilfinningu, sem hæstv. ríkisstj. oft talar svo mikið um, þegar í húfi er seinni hluti vertíðarinnar hér við Faxaflóa, svo framarlega sem þessir hlutir fara ekki að leysast. Ég vildi þess vegna, um leið og ég fer fram á, að hæstv. ríkisstj. leiðrétti þá yfirlýsingu, sem hún þegar hefur gefið í þessu efni, að hún skýri okkur hér frá því, — og ég býst við, að hæstv. fjmrh. muni manna bezt vita það raunverulega, — hvað mikill hluti af þeim beinu kauphækkunum, sem ríkisstj. reiknaði með, sem voru 12 millj. fyrir ríkisbúskapinn á árinu 1956, ef gengið var út frá 7% kauphækkun, og samsvarandi hærra, ef gengið var út frá allt upp í 26%, — hvað mikill hluti af þessum 12 millj. er reiknaður sem kaupuppbót til starfsmanna ríkisins og hvað mikill hluti af þessu er til verkamanna, sem vinna í þjónustu ríkisins.