28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, vil ég segja þetta: Nær allar þessar 12 millj., sem gert er ráð fyrir í yfirlitinu, eru laun til ríkisstarfsmanna, — ég þori ekki að segja alveg allar, en nær allar þessar 12 millj. Þetta mætti upplýsa nánar, en það leiðir af sjálfu sér, að nær öll fjárhæðin stafar af því að gera ráð fyrir, að ef grunnkaupið hækkar núna, þá komi það fram sem hækkun á launum opinberra starfsmanna á næsta ári. Eins er þá með tilsvarandi fjárhæð, sem gert er ráð fyrir, þegar talað er um 26% kauphækkun. Þetta ætla ég að hæstv. forsrh. hafi tekið greinilega fram áður, einmitt að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Reykv.

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að sér finnist það nokkuð hæpið að gera ráð fyrir því, að öll almenn kauphækkun, sem eigi sér stað nú, komi fram sem hækkun á launum opinberra starfsmanna. En ég held, að verði að horfast í augu við það, að eins og nú er ástatt um laun opinherra starfsmanna, verði það niðurstaðan, að slík hækkun komi inn í þeirra laun að ári. Ég held, að það sé skortur á raunsæi að gera sér ekki grein fyrir þessu og að skylt sé að gera það. Það var sannarlega ekki ætlun stjórnarinnar að blekkja neinn með þessari skýrslu, og ég vona, að það hafi allir skilið, að í henni var gert ráð fyrir tilsvarandi hækkun á launum opinberra starfsmanna árið 1956 og á öðru kaupgjaldi verður nú.