28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, þegar hann var að tala um verðlagið á olíunni og hækkun, sem hefur orðið á henni síðustu dagana.

Það er rétt, að olía til togara hefur hækkað eitthvað lítils háttar síðustu dagana. Ég held, að það séu 12 kr. á tonn, minnir, að það sé, en þessi olía er ekki undir verðlagsákvæðum. Og hvers vegna? Hvers vegna hafa olíufélögin hækkað þessa olíu án þess að spyrja ríkisstj. að? Það er vegna þess, að hv. síðasti ræðumaður og fleiri togaraútgerðarmenn hafa sjálfir talið, að þeir gerðu hagstæðustu samninga við olíufélögin með því, að olían væri ekki undir verðlagsákvæðum, og þeir óskuðu eftir því, togaraútgerðarmenn, að svarta olían væri ekki undir verðlagsákvæðum. Þetta er sannleikurinn í málinu, og þess vegna þurftu olíufélögin ekki að spyrja að því, þótt þau hækkuðu um 12 kr. tonnið á svörtu olíunni nú fyrir nokkrum dögum, sem kemur til af því, að flutningsgjöldin hafa hækkað. Það er vitanlegt, að flutningsgjöldin voru lægst 36 shillingar, en hæst í vetur 57 shillingar. Önnur olía er undir verðlagsákvæðum, og verður ekki hækkuð nema með samþykki verðlagsyfirvaldanna. Ég get upplýst hv. þingdeild um það, að athugað verður rækilega, hvort nauðsynlegt er að hækka olíuna. Það liggja fyrir reikningar hjá verðgæzlustjóra um þetta atriði, og hann fylgist vel með því. Hitt vita svo allir, að þegar flutningsgjöldin hækka úr 36 shillingum upp í 57 shillinga, þá er hér um mikla hækkun að ræða, og sé ekki þörf á hækkun, eftir að flutningsgjöldin hafa hækkað þetta mikið, þá vil ég segja, að það hefur verið óþarflega hátt verð áður. En ég verð að segja eins og er, að þetta mál verður tekið rækilega til athugunar, og menn geta reitt sig á það, því að öll olían er í höndum verðgæzlustjóra að undantekinni svartolíunni, sem togaraútgerðarmenn sjálfir vildu ekki hafa undir ákvæðum og geta þess vegna kennt sér um að hækkar nú í verði.

Um olíuskipin og flutningana út á land vil ég segja það, að þeir, sem standa fyrir verkfallinu og stjórna því, hefðu fengið meiri samúð, ef þeir hefðu leyft að losa þessi skip, Leningrad og Smeralda. Leningrad sigldi út með 1100 tonn. Þegar verið var að losa Leningrad hér við Reykjavík, lá slanga úr skipinu til lands, og það þurfti engan Dagsbrúnarmann til þess að koma nálægt því að losa skipið. Ef Dagsbrúnarmenn og þeir, sem fyrir verkfallinn standa, hefðu leyft losun á skipinu með þeim skilyrðum t. d., að það, sem eftir var í skipinu, yrði ekki selt, fyrr en verkfallinu væri lokið, þá hefðu þeir fengið meiri samúð og meiri skilning, því að það er öllum ljóst, að þótt olíunni hefði verið skipað upp með slíkum skilyrðum, þá hafði það engin áhrif á gang verkfallsins og verkfallsmenn stóðu jafnvel að vígi, þótt þetta hefði verið leyft. En þá sýndi það sig, að þeir höfðu nokkurn skilning á því, hvað er þjóðhollusta, að það er ekki eðlilegt að láta skip, sem hefur siglt alla leið frá útlöndum, fara aftur út með slatta af olíunni, en um annað var ekki að ræða, eftir að rússneski skipstjórinn hafði fengið það bréf í hendur, sem hann fékk frá Alþýðusambandsstjórninni. Um skipið, sem er uppi í Hvalfirði, er svipað að segja, en það eru 8000 tonn í því skipi, og munar meira um það. Þess vegna hefur það ekki verið látið sigla, en borgaðir dagpeningar með því, biðpeningar, og kostar æði mikið. Ég verð að segja það: Hvaða áhrif hefði það á gang verkfallsins, þótt olíunni úr Smeralda væri skipað upp í Hvalfirði og Alþýðusambandsstjórnin fengi skriflegt loforð um, að þessi olía yrði ekki notuð fyrr en að verkfallinu loknu? Hvaða áhrif hefði það á gang verkfallsins? Hvers vegna er ekki leyft að skipa þessari olíu upp með þessum skilyrðum? Hvers konar skilningur er á þessum málum hjá þeim, sem stjórna þessu? Eru þeir nær því að tapa verkfallinu eða spilla aðstöðu sinni í baráttunni í verkfallinu, þótt olíunni væri skipað upp með því skilyrði, að hún verði ekki notuð fyrr en eftir verkfallið? Hér er um misskilning og stífni að ræða. Hér er ekki um neina þjóðhollustu að ræða, og ég segi það: Þegar verið er að ræða um þessi mál, þá ættu menn að gera sér grein fyrir því, hvað hefur raunverulega þýðingu í þessum efnum. Það hefur enga þýðingu á gang verkfallsins, hvort olíunni er skipað upp úr olíuskipinu í Hvalfirði eða hvort það er látið bíða með olíuna í sér.

Um dreifingu olíunnar út um land er ekkert annað að segja en það, að ríkisstj. hefur verið og mun verða í sambandi víð Alþýðusambandsstjórnina um að reyna að koma olíu út á land, eftir því sem unnt er, því að ríkisstj. hefur ekkert síður áhuga á því en þeir, sem standa fyrir verkfallinu, að staðir úti á landi fái olíu og geti hitað upp húsin. Þess vegna getur hv. síðasti ræðumaður reitt sig á það, að ríkisstj. gerir það, sem henni er unnt, í þessu efni. En ég vil enn endurtaka það og óska eftir því, að afstaða Alþýðusambandsstjórnarinnar og þeirra, sem stjórna verkfallinu, verði endurskoðuð og hvort þeir sjá sér ekki fært að skipa olíunni upp úr skipinu, sem bíður uppi í Hvalfirði, með þeim skilyrðum, að þessi olía verði ekki notuð fyrr en verkfallinu er lokið, — endurskoða afstöðu sína og reikna dæmið út, hvort aðstaðan er nokkru verri í verkfallinu á eftir, þótt þetta væri gert.