28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 11. landsk. þm. (LJós) sagði, að það væri mjög vafasamt, að þessi skýrsla, sem stjórnin hefði gefið um áhrif kauphækkana á ríkisbúskapinn, stuðlaði að samkomulagi í vinnudeilunni, og líklegt væri, að hún gæti orðið heldur þröskuldur í lausn verkfallsdeilunnar. Auðvitað getur það ekki annað en greitt fyrir því, að málefni leysist, að upplýsingar séu gefnar um það. Óhugsandi er annað en að slíkt stuðli að því, að málefni leysist. Það getur aldrei stutt að lausn nokkurs máls að grafa höfuðið í sandinn. Það er óhjákvæmilegt að horfast í augu við málavexti, eins og þeir eru, ef fást á lausn á jafnvandasömu máli og því, sem hér er við að glíma. Þess vegna hlýtur það alltaf að vera til góðs, að gefnar séu upplýsingar, svo að umræður geti stuðzt við meiri þekkingu en áður hefur verið fyrir hendi. Það er nógu erfitt að finna lausn á þessum málum, þó að menn séu ekki neyddir til að starfa að því í þoku, fái ekki vitneskju um þá höfuðliði, sem til athugunar þurfa að koma.

Hv. þm. vék aðeins að því, að enn væri á huldu, hvernig skýrslan væri gerð, og spurði í því sambandi, hvort reiknað væri með afnámi vísitöluskerðingar hjá opinberum starfsmönnum, eða hvernig þessar tölur væru fengnar um hækkun kaupgjalds, sem í skýrslunni væru áætlaðar. Þær eru fengnar þannig einfaldlega, að ofan á þau laun, sem nú eru greidd, er lögð sú prósenta, sem gert er ráð fyrir í skýrslunni. Í dæminu um 7% almenna kauphækkun í landinu eru einfaldlega lögð 7% ofan á laun opinberra starfsmanna eins og þau eru greidd nú. Vísitöluskerðing kemur ekki til greina í því dæmi. Hún liggur algerlega utan við þetta og hefur ekkert blandazt inn í málið. Og í dæminu um hærri kauphækkunina er farið nákvæmlega eins að.

Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. hafi sagt, að sér fyndist það vera nokkuð viðurhlutamikið af ríkisstj. að taka upp kröfu fyrir hönd opinberra starfsmanna um að fá sömu kauphækkun og almennt kynni að verða ofan á. Þetta er útúrsnúningur hjá hv. 2. þm. Reykv. Hér er ekki tekin upp krafa fyrir neinn og engu slegið föstu, en stjórnin er að búa til dæmi um þessi efni til þess að gera málið skýrara og gerir þá ráð fyrir í því dæmi, að almenn kauphækkun muni hafa tilsvarandi áhrif á kaup opinberra starfsmanna á næsta ári. Ef einhverjum finnst ekki líklegt, að svona fari, þá er það opið fyrir hann að reikna dæmið öðruvísi. Hér hafa aðeins verið gefnar upplýsingar út frá vissum forsendum, sem eru alveg ljósar. Þá getur hver maður reiknað dæmið fyrir sig út frá þeim, eins og honum þykir líklegast að verði í reyndinni. Ef hv. 2. þm. Reykv. þykir líklegt, að það geti átt sér stað í landinu, eins og ástatt er núna, veruleg almenn kauphækkun, án þess að opinberir starfsmenn fái kauphækkun, þá reiknar hann dæmið á þá lund. Honum er það auðvitað frjálst.

Ef litið er til reynslunnar um áhrif almennra kauphækkana á laun opinberra starfsmanna, þá sést, að kauphækkun hjá opinberum starfsmönnum kemur nokkuð á eftir almennri hækkun, en kemur þó að mestu. Ég vil t. d. benda mönnum á, að síðan launalögin voru sett 1945, hefur almennt kaupgjald hækkað um 23% rúmlega, en kaup opinberra starfsmanna um 20%. Þetta hefur því haldizt nokkurn veginn í hendur. Við vitum öll, að það er ákaflega mikil óánægja hjá opinberum starfsmönnum, einmitt eins og sakir standa, út af kaupgjaldi þeirra, og því sýndist ríkisstj., að ekkert raunsæi væri í öðru en að gera ráð fyrir þessu og þá einkum með tilliti til þess, að verið er að semja frumvarp að nýjum launalögum á þessu ári.

Hitt hefði verið með öllu óraunsætt, eins og ég hygg að allir sjái, ef dæmið hefði verið sett upp þannig, að það hefði aðeins verið tekið inn í það hækkun á launum þeirra tiltölulega fáu Dagsbrúnarmanna og lausavinnumanna, sem eru í þjónustu ríkisins, en algerlega sleppt að reikna með því, hvaða áhrif almennar kaupgjaldsbreytingar hafa væntanlega á launagreiðslur til opinberra starfsmanna. Slíkt dæmi hefði verið með öllu óraunhæft. Það vita allir, að endurskoðun launalaga stendur yfir nú, og hafa verið gefnar yfirlýsingar um, að þeirri endurskoðun eigi að ljúka fyrir næsta haust með það fyrir augum að setja þá einmitt ný launalög.

Út af því, sem hv. 11. landsk. þm. sagði um olíuflutninga út á land, vil ég taka fram, að stjórnin hefur staðið í sambandi við forráðamenn verkfallsmanna um það mál og hvaða úrræði væri hægt að finna til þess, að slíkir flutningar gætu átt sér stað, og mun halda áfram að hafa samband við þá um þetta, eftir því sem tilefni gefst til.