28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa það stutta aths. Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um samúðina og þjóðhollustuna í sambandi við þetta verkfall, sem nú stendur yfir, vil ég segja honum það, að þeir verkamenn, sem í þessu verkfalli standa, hafa óskipta samúð meginhluta þjóðarinnar, og það hefur ekki komið sá maður fram enn þá í öllum þeim umr., sem um þetta verkfall hafa átt sér stað og um þeirra kaupkröfur, sem viðurkennir ekki, að verkamönnum sé brýn þörf á verulegri kauphækkun. En að tala um þjóðhollustu í sambandi við olíuhringana og fara að segja verkamönnum, að þeir ættu að sýna þjóðhollustu gagnvart þeim hringum, það er langt gengið. Er hæstv. viðskmrh. búinn að gleyma öllu, sem gerzt hefur í sambandi við olíuhringana síðustu árin? Er hann búinn að gleyma málaferlunum, sem eru fyrir hæstarétti núna út af framferði eins af þessum hringum? Er hann búinn að gleyma því, sem birt var í kosningunum síðustu um, hvernig þessir olíuhringar fóru að, þegar farmgjöldin voru að lækka? Heldur hann, að þjóðin viti það ekki, að þessir olíuhringar hafa notfært sér hverja aðstöðu, sem þeir hafa getað fengið til þess að okra á þjóðinni? Olíuhringarnir hafa eins almenna andúð hjá þjóðinni og verkamenn hafa ríka samúð hjá þjóðinni. En hverra er sökin, að olían yfirleitt skuli komast inn í þessi brennandi mál? Sökin er ríkisstjórnarinnar, sem vegna sinnar spilltu helmingaskiptareglu hefur skipt olíuinnflutningnum til landsins á milli þriggja olíufélaga, sem stjórnarflokkarnir hafa sína miklu hlutdeild í. Það er hæstv. ríkisstj., sem sjálf kaupir inn alla olíuna til landsins, það er hún, sem afhendir olíuna gæðingunum, og það er hún, sem þannig verður þess valdandi, að olían dregst svona inn í þessi mál.

Viðvíkjandi svo því, sem hæstv. fjmrh. sagði, þá er hann nú heldur farinn að draga úr þessum hlutlausu upplýsingum um, hvað lausn kaupdeilunnar þýddi. Hann sagði raunverulega með þeim upplýsingum, sem hann lét hæstv. forsrh. lesa hér upp, að allir í landinu skyldu reikna svona. Það er litið á þetta sem hlutlausan, vísindalegan útreikning. Þetta eru afleiðingar af því að fallast á 7% eða 26% kauphækkun hjá verkamönnum. Þetta eru afleiðingarnar af því. En það var í röksemdafærslunni ekki minnzt einn orði á, að þessar afleiðingar fælust í því, að allir starfsmenn ríkisins ættu að fá samsvarandi hækkun. Það var ekki minnzt einu orði á það í þessari yfirlýsingu frá ríkisstj. 12 millj. var reikningurinn, sem hæstv. fjmrh. „presenteraði“ hér fyrir þjóðinni, ef það ætti að verða 7% grunnkaupshækkun. Öðrum 12 millj. var hann að úthluta fyrir áramótin, og þá þurfti ekki að stöðva. Það var úthlutað 12 millj. kr. hér á Alþ. til starfsmanna hins opinbera, og ég efast ekki um, að þeim hafi ekkert veitt af því, þó að þeir smáu hjá þeim hafi fengið skrambi lítið, en þeir stóru tífalt hærra. En þá þurfti ekki að stöðva vertíðina, og þá þurfti ekki að stöðva atvinnulífið í landinu og valda verkafólki stórkostlegum erfiðleikum. Þá var hægt að gera þetta með einni samþykkt hér á Alþ., og það er eins hægt að leysa þessi mál næst, þegar að þeim kemur. Við viljum ekki láta leggja fyrir okkur útreikninga og segja sem einhverja vísindalega niðurstöðu: Það er ekki hægt að leysa þessa vinnudeilu, sem nú stendur yfir, án þess að ráðherrar, hæstaréttardómarar eða hverjir sem eru fái 7% eða 26% grunnkaupshækkun og fái vísitölu á allt. Við viljum ekki láta leggja þetta fyrir okkur sem neinn vísindalegan útreikning og sjálfsagða afleiðingu af lausn núverandi kaupdeilu. Við heimtum að fá að ákveða um þetta, þegar þar að kemur, hér á Alþ. Og við álitum enga ástæðu til þess að tengja það við þessa deilu, sem nú stendur yfir. Við höfum lagt fram okkar till., þegar þetta mál var rætt hér í vetur. Við höfðum mismunandi afstöðu um þetta. Það voru mismunandi atkvgr., og menn skiptust í flokka og jafnvel innan flokka um afstöðuna í þessu, og við heimtum að hafa frelsi til þess áfram. Við neitum því, að hæst launuðu starfsmenn ríkisins í ráðherrastól eigi að reikna þetta út fyrir þjóðina og birta henni þetta sem óskeikanlega vissu og niðurstöðu. Ef það hefur kannske verið ½ millj. af þessum 12 millj., sem hefði farið til verkamanna, eða kannske bara alls ekki neitt, en 11½ millj. eða 11.9 millj. eða kannske 12 millj. til starfsmanna hins opinbera, þá átti að tala um þetta í skýrslunni. Annars var skýrslan ekki hlutlaus. Það er að vísu gott, að það rétta hefur nú komið fram í þessu máli, en ríkisstj. á eftir að birta niðurstöðurnar af þessu fyrir alþjóð.