28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 11. landsk. þm. (LJós) sagði, að þá væri það upplýst, að þessar 12 millj. væru 7% af laununum, og sagði, að þetta hefði mátt koma fram fyrr. Ég hygg, að engum hafi blandazt hugur um, að svona hlaut þetta að vera, því að í skýrslunni stóð einfaldlega, að 7% kauphækkun næmi 12.2 millj. kr. Hvað gat þá um annað verið að ræða en að tekin væru 7% af þeim launum, sem greidd eru? Ef það hefði ekki verið gert, þá hefði hér verið um beina fölsun að ræða. Hér hefur því ekkert nýtt komið fram. Það hefur bara verið upplýst, að það, sem hv. þm. ímyndaði sér, var misskilningur.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi einnig þetta sama atriði. Hann sagði, að hér hefði átt að vera um vísindalega útreikninga að ræða, og annað þar fram eftir götunum, og það hefði ekki verið minnzt einu orði á það um daginn, að hér væri átt við opinbera starfsmenn. Þetta er byggt á algerum misskilningi hjá hv. þm. Það gat engum blandazt hugur um, að hér var átt við laun opinberra starfsmanna. Því til sönnunar leyfi ég mér að lesa hér upp tvær eða þrjár setningar úr svari hæstv. forsrh. einmitt út af fsp. um þetta, þegar skýrslan var gefin. Þar segir hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er rétt til getið hjá honum (2. þm. Reykv.), að það er einmitt gert ráð fyrir, að kauphækkanir þyrftu að fara fram til starfsmanna ríkisins, og þær eru innifaldar í þessum 12 millj.“

Forsrh. upplýsir, að skýrslan er byggð á því, að það yrðu að fara fram kauphækkanir hjá opinberum starfsmönnum fyrir árið 1956, og það er allt málið. Hitt skiptir svo auðvitað minna máli, hvort þær voru innifaldar í þessum lið eða öðrum lið. Það skipti aðalmáli, hvort skýrslan var rétt að þessu leyti, og það var hún auðvitað.

Annars er loddaraleikur sá, sem þessir hv. þm. leika hér í sambandi við laun opinberra starfsmanna, dálítið kátbroslegur. Þeir halda hér hrókaræður um, að það muni vera alveg óþarfi að gera ráð fyrir því, að opinberir starfsmenn fái launahækkanir, þó að það verði miklar almennar kauphækkanir, og hafa miklar vangaveltur í því sambandi. Ég spái því og bið menn að taka eftir því, þegar þar að kemur, að þessir hv. þm. munn krefjast meiri launahækkana til opinberra starfsmanna, þegar þar að kemur, en ofan á verða öðrum til handa í þessu verkfalli. Það er mín spá, að þannig muni þessir loddarar leika.