28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Launamál opinberra starfsmanna hefur borið nokkuð á góma í þessum umræðum. Þar eð ég er svolítið kunnugur í herbúðum þeirra, vil ég leyfa mér að skjóta hér fram fáeinum athugasemdum.

Komið hefur fram sú skoðun, að þótt kaupgjald hækkaði hjá þeim stéttarfélögum, sem nú heyja harða kaupdeilu, þá mundi vera ástæðulaust að hækka kaupgjald allra opinberra starfsmanna að sama skapi. Er það í raun og veru kjarni þeirra orðaskipta, sem hér hafa farið fram á milli nokkurra þingmanna, tveggja þm. annars vegar og tveggja ráðh. hins vegar. Í því sambandi hefur verið á það bent, að nú nýlega hafi opinberir starfsmenn fengið 3–10% kaupuppbát, en það var gert í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrr á þessu þingi, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt. Í þessu sambandi vil ég vara við að gera of mikið úr því, að opinberir starfsmenn hafi fengið allt að 10% kauphækkun á liðnu ári. Þessi háa prósenttala tekur til tiltölulega fámenns hóps manna. En svo sem kunnugt er, hafa opinberir starfsmenn nú um alllangt skeið fengið greiddar 10–17% uppbætur á þau grunnlaun, sem ákveðin höfðu verið í launalögunum frá 1945. En athugun, sem framkvæmd var á s. l. hausti, leiddi í ljós, að frá apríl 1945, en þá voru launalögin sett, og til október 1954 höfðu faglærðir iðnaðarmenn fengið 23.6% hækkun á töxtum sínum í frjálsum samningum við atvinnurekendur, og ófaglærðir verkamenn höfðu fengið, að vegnu meðaltali, 23.7% hækkun á töxtum sínum í frjálsum samningum við atvinnurekendur og ófaglærðar verkakonur 36.8% hækkun á töxtum sínum, en hækkun í almennri verkamannavinnu hafði orðið um 25.7%, og taldi hagstofan, sem þessa útreikninga gerði, að sú tala væri fullt eins táknræn fyrir þá hækkun, sem orðið hefði á kauptöxtum í almennri verkamannavinnu á þessu níu ára bili, og vegna meðaltalið, þ. e. a. s., að gera mætti ráð fyrir því, að kaupgjald hefði hækkað á þessum árum um 25–26% hjá verkamönnum. En á sama tíma höfðu opinberir starfsmenn, sem margir hverjir, í hinum lægri flokkum, eru lítið betur settir en verkamenn, aðeins fengið 10–17%, þeir lægst launuðu 17%. Um það var því engum blöðum að fletta, að opinberir starfsmenn höfðu dregizt mjög verulega aftur úr þeim stéttum, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör, nú eins og fyrri daginn. Það var því sannarlega kominn tími til þess fyrir Alþ. að rétta hlut þessarar fjölmennu stéttar, en það var gert að nokkru leyti, en ófullnægjandi þó eins og fyrri daginn, fyrr á þessu þingi. En langsamlega flestir opinberir starfsmenn fengu á s. l. vetri aðeins 3% hækkun.

Ég held, að menn verði því að gera sér það algerlega ljóst, að í sambandi við lausn þeirrar vinnudeilu, sem nú er háð, verður einnig að taka til athugunar kjör a. m. k. hinna lægra launuðu opinberra starfsmanna. Það er alveg óhjákvæmilegt. Sá meginhluti opinberra starfsmanna, sem fékk aðeins 3% grunnkaupshækkun nú fyrr í vetur og var réttilega mjög óánægður með hana, mun ekki sætta sig til frambúðar við þá lausn á málinu. Opinberir starfsmenn hafa ekki þegar gripið til ráðstafana í þessum efnum, einungis vegna þess, að þeim hefur verið heitið, að launalögin mundu verða endurskoðuð. Þau eru nú í endurskoðun, og því hefur verið lofað, að endurskoðun þeirra muni verða lokið í sumar, þannig að nýtt frv. til launalaga mundi verða lagt fram næsta haust. Það er því öldungis víst, að brýna nauðsyn ber til þess að rétta hlut þessara stétta líka, ekki síður en daglaunamannanna og þeirra stétta annarra, sem nú heyja kaupdeilu, svo sem kunnugt er. Hitt er svo annað mál, að ég sé ekki, að þessi staðreynd eigi að þurfa að torvelda það á nokkurn hátt, að daglaunamennirnir og iðnaðarstéttirnar nái sómasamlegum samningum í kaupdeilunni, sem yfir stendur. Mér ofbjóða satt að segja ekkert þær tölur, sem hæstv. ríkisstj. hefur nefnt sem afleiðingu af 7% kauphækkun og þar fram eftir götunum, allt upp í 26% kauphækkun. Mér ofbjóða þær ekkert, með tilliti til þess mikla tekjuafgangs, sem undanfarin ár hefur verið hjá ríkissjóði. Þess ber enn fremur að geta, að það verður sjálfkrafa skattahækkun, ekki óveruleg, vegna þess að nú eru ekki í gildi ákvæði um umreikning á tekjuskatti eins og áður, svo að skattarnir hljóta að hækka, ef kaup hækkar verulega. Auk þess má búast við auknum tekjum af tollum og söluskatti. Þó að viðurkennt sé, að kjarabætur til opinberra starfsmanna verði að eiga sér stað samhliða kjarabótum daglaunamanna og iðnaðarmanna, þá sé ég ekki, að sú staðreynd þurfi í sjálfu sér að verða til þess að tefja réttmæta lausn kjaradeilunnar, sem nú stendur yfir.